07.03.1972
Efri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1055 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, varðar hag og afkomu sveitarfélaganna í landinu og það kemur til með að hafa stór áhrif og móta nánasta umhverfi einstaklingsins í þessum sveitarfélögum í framtíðinni. Það getur varðað miklu um lífshamingju manna og möguleika.

Sveitarfélagið er að verulegu leyti ákvarðandi aðili um aðstöðu til náms og þroska og aðbúðar barnanna. Og það er þá ekki síður mótandi, þegar líður á elliárin. Nútíminn krefst mikils af einu sveitarfélagi. Bættur hagur almennings í þessu landi á síðustu árum, bætt húsnæði og yfirleitt hækkaður lífsstandard hefur orðið þess valdandi, að kröfur aukast um fjölbreyttara og betra líf áöllum sviðum, um fegurra umhverfi kringum húsin. Börnin í vaxandi iðnaðarþjóðfélagi hafa aukna þörf fyrir aðstoð sveitarfélagsins við uppeldið vegna vaxandi útivinnu mæðranna. Leikvallagerð, dagheimilisbyggingar og ótalmörg önnur viðfangsefni, sem áður voru ekki talin svo nauðsynleg eru það nú. Bætt heilbrigðisþjónusta og hollustuhættir, umhverfisvernd og stóraukinn fræðslukostnaður, allt þetta leggst með auknum þunga á sveitarfélögin.

Frv. um tekjustofna sveitarfélaga er því stórmál, sem varðar alla þjóðina. Og það tekjustofnafrv., sem hér liggur fyrir, er því miður að mínu áliti stórgallað. Varðandi sum stærstu og blómlegustu sveitarfélög þessa lands þá lítur út fyrir, að frv. muni valda stórfelldum fjárhagsörðugleikum og samdrætti í umbótum. Sveitarfélög, sem hafa áætlað nokkrar framkvæmdir fram í tímann til hagsbóta fyrir íbúa sína, verða nú að endurskoða sínar framkvæmdaáætlanir með samdrátt í huga.

Í meðförum þingsins hefur frv. tekið miklum breytingum, a.m.k. mörgum, en án þess að ráða bót á þessari stórfelldu mismunun á afkomunni hjá sveitarfélögunum. Vitað er, að mörg hinna smærri sveitarfélaga fara heldur vel út úr samþykkt frv., sem byggist fyrst og fremst á því, að þau veita annars konar og ódýrari þjónustu sínum einstaklingum en stærri sveitarfélögin gera. En sveitarfélög, þar sem mikill meiri hluti landsmanna býr, bera skarðan hlut frá borði.

Hörmulegust held ég þó, að verði útkoman hjá sumum útgerðarplássunum hér suður með sjó, héruðum, þar sem ör uppbygging fer fram og þar sem fjárfrekar umbætur á aðstöðu og aðbúð eru nauðsynlegar á næstu árum. Þannig munu Sandgerði, Njarðvíkur og Grindavík verða af milljónatekjum hvert um sig árlega við samþykkt þessa frv. og nýjustu upplýsingar, sem ég hef um Vestmannaeyjar, eru þær, að síðustu breytingar, sem orðið hafa á þessu frv., valda ekki lagfæringu heldur 2.8 millj. kr. tapi til viðbótar því, sem áður var. Slíkar refsiaðgerðir eru vægast sagt heldur óheillavænlegar og verður ekki séð, hvaða tilgangi þær þjóna. Ekki verður það þó svo, að skattbyrði einstaklinga og fyrirtækja minnki, þótt tekjurýrnun verði hjá mörgum sveitarfélögum. Síður en svo. En það verður ríkið, sem fleytir rjómann.

Ég ætlaði nú aðeins að minnast á örfáar greinar frv. og þá fyrst og fremst tala um 2. gr., þar sem er fasteignaskatturinn. Við Íslendingar höfum oft haft orð á því, að við höfum nokkra sérstöðu í því efni, að hér eiga fleiri fjölskyldur góðar íbúðir til eigin nota en tíðkast víðast hvar annars staðar. 80–85% af íslenzkum fjölskyldum býr í eigin húsnæði. Og það er svo, að allir virðast vera sammála um, að þetta sé æskileg þróun. En flestir af okkar íbúðaeigendum eru stórskuldugir og eru árafjölda í skuldabasli, eftir að íbúðin hefur verið byggð. Þetta fólk verður því að spara árum saman, eftir því sem unnt er, enda er þetta mikilvægt atriði í okkar þjóðarsparnaði.

Það er mörgum dýrt og erfitt að búa í eigin húsnæði fyrstu árin. En þessu hefur að nokkru verið mætt með því, í fyrsta lagi að hafa fasteignaskatta í lágmarki, og í öðru lagi með því að hafa vexti frádráttarbæra til útsvars og tekjuskatts. Nú skal breyta fasteignaskattinum þannig, að hann verði þre-fjórfaldaður og vextir ekki lengur frádráttarbærir frá útsvari. Líklegt er, að hér sé um hreina stefnubreytingu að ræða í þeim tilgangi að minnka áhuga fólks fyrir myndun arðvænlegrar eignar. Og fyrirsjáanlegt er, að áhugi fólks á að byggja eigið húsnæði mun réna. Sjálfstfl. er þeirrar skoðunar, að hæfilegt íbúðarhúsnæði skuli ekki skattlagt nema sem allra minnst, og fasteignaskatturinn skuli vera þjónustuskattur í lágmarki til sveitarfélaganna.

Þegar sú breyting er á orðin, að till. er um að lögfesta aðstöðugjald, virðist ekki eðlilegt, að fyrirtækjum sé gert að greiða 1% í fasteignaskatt einnig. Þessi hækkun á fasteignaskatti atvinnufyrirtækjanna var fyrst og fremst gerð þar eð fella átti niður aðstöðugjaldið. Nú er það breytt með brtt. frá meiri hl. heilbr.- og félmn. og þess vegna hefði maður haldið, að ekki væri lengur ástæða til þess að þeir greiddu tvöfaldan fasteignaskatt á við íbúðarhúsnæði.

Sú sérstæða till. liggur nú fyrir, að greiða skuli 4% fasteignaskatt af hlunnindum í eigu utansveitarmanna. Hér er um svolítið sérstæða till. að ræða. Venja er, að fasteignamat á hlunnindum sé tífaldar árstekjur af hlunnindunum. Hér virðist því vera um hreina eignaupptöku að ræða, þar sem fasteignaskattur að viðbættum tekjuskatti muni nema milli 90 og 100% af tekjunum af hlunnindunum árlega. Það má vera, að hlunnindi í eigu utansveitarmanna séu vandamál á stöku stað á landinu, en ég get varla trúað því, að það sé ekki hægt að finna einhverja réttlátari lausn á þeim vanda en hér er gert. Og mér finnst, að líklegt sé mjög, að í kjölfarið komi, að hérna verði ekki eingöngu um hlunnindi, sem metin eru til fasteignamats, að ræða, heldur verði þetta orðað í framtíðinni sem arðbærar fasteignir í eigu utansveitarmanna, og þá mun margur fá að finna fyrir þessu og þrengt allmikið að eignarréttinum.

Verði fasteignaskatturinn samþykktur á þann hátt sem hann liggur fyrir í frv., þá verður hann tilfinnanlegur skattur fyrir unga og aldna fasteignaeigendur. Ekki sízt af þeim ástæðum, að vitað er, eins og ég hef áður gert grein fyrir, að fjöldi sveitarfélaga verður að notfæra sér 50% heimildina til hækkunar, og í öðru lagi er það enn fremur vitað, að væntanleg er 16–20% hækkun á fasteignamatinu vegna dýrtíðarauka. Þegar svo er komið, þá sjá allir, að hér er um tilfinnanlegan skatt að ræða, sem varla verður bætandi ofan á hin margvíslegu útgjöld íbúðareigenda.

Í öðrum gr. frv. vildi ég aðeins stikla á stóru. Við 10. gr. liggur fyrir sú brtt. frá meiri hl., að bankar og sparisjóðir greiði landsútsvör. Við því er ekkert að segja. Aftur á móti segir í 13. gr., að landsútsvör samkv. í I. gr. renni óskipt í Jöfnunarsjóð. Það virðist í raun og veru litil sanngirni í því og ekki í samræmi við það, sem er gert á öðrum sviðum, að sparisjóðir, sem eru mjög svæðabundnir og afla sinna tekna frá fólki, sem lifir á ákveðnum svæðum, greiði sín landsútsvör óskipt í sjóð, sem síðan er veitt út um allt landið. Miklu eðlilegra virtist vera, að hér væri farið að eins og sums staðar annars staðar, að hluta af tekjunum yrði ráðstafað til þess svæðis, sem sparisjóðurinn starfar á, en að hluta yrði svo úthlutað á venjulegan hátt.

23. gr., sem er megingrein frv., fjallar um álagningu útsvara. Sjálfstfl. lítur svo á, að útsvar, sem reiknað er út frá brúttótekjum, sé mjög gallaður tekjustofn, sem og aðrir brúttótekjustofnar, og mismuni gjaldendum verulega, eftir því hvernig tekjuöflun þeirra er háttað. Það er t.d. vitað, að fjöldi ungs fólks, sem á í erfiðleikum vegna stofnunar heimilis síns, vegna byggingar húsnæðis, skuldar mikið. Þessu fólki hafa komið þau hlunnindi til góða á undanförnum árum að mega draga vexti frá útsvari. Sama er að segja um konur, er vinna utan heimilis síns, þær eru okkar fámenna þjóðfélagi ómetanlegt vinnuafl, ekki sízt við sjávarsíðuna, þar sem fullkomin nýting sjávaraflans væri nær óhugsandi án aðstoðar þeirra. En nú verður ekki lengur heimilt að draga 50% af tekjum þeirra, áður en til útsvars kemur. Við skulum t.d. taka lasburða fólk, sem stundar sina atvinnu, en er óhugsandi að geti gert það án afnota af eigin bíl. Þetta fólk á ekki kost á að fá neinn hluta af bilkostnaðinum frádráttarbæran frá útsvari. Allt þetta verður til þess, að mér finnst, að brúttó-útsvar sé ósanngjarn tekjustofn.

Og svo er það þetta margrædda mál, að ekki má lengur draga fyrra árs útsvar frá, það er mál, sem hefur verið margrætt, sérstaklega í ljósi þeirra staðreynda, að mörg sveitarfélög auglýstu nú fyrir áramótin, að menn skyldu greiða á réttum gjalddögum og gáfu í skyn, að sami háttur yrði hafður á og verið hefði.

Það er ýmislegt, sem fram hefur komið í brtt. meiri hl. heilbr.- og félmn., sem er bætandi fyrir þetta frv., en þrátt fyrir það er það meingallað, einkum gagnvart þessari skiptingu, sem ég hef talað um. Þar að auki get ég ekki á nokkurn hátt fallizt á það, að þetta frv. út af fyrir sig sé til jöfnunar. Þarna er frv. með eina skattprósentu. Hvernig það getur orðið til jöfnunar, er ekki auðvelt að sjá. Ég get heldur ekki séð, að þetta sé til hagsbóta fyrir þá lægst launuðu. Við vitum, að það eru þrír hópar af fólki í þessu landi, sem eru þeir lægst launuðu. Það er gamla fólkið, það eru öryrkjarnir og það er námsfólk, sem ekki getur unnið nema hluta úr ári. Þetta frv. er ekki til hagsbóta fyrir þessa aðila nema e.t.v. að einhverju mjög óverulegu leyti fyrir þá námsmenn, sem hafa þurft að borga nefskatta áður. En í mörgum tilfellum þurftu þeir ekki að gera það.

Í öðru lagi tel ég, eins og ég hef tekið fram, að stórhækkun fasteignaskatta sé sérstaklega óhagstæð og varhugaverð hér í þessu landi. Og enn fremur þetta, að frv. þrengir kost margra af fjölmennustu og mikilvægustu sveitarfélögum þessa lands, stærstu útgerðarsveitarfélögunum, þar sem nauðsyn er að gagngerar breytingar til betri aðbúnaðar og betri aðstöðu fyrir fólkið sveitarfélögunum haldi áfram. Þess vegna finnst mér sú afstaða okkar rétt að leggja það til, að þessu frv. verði vísað frá og málið sent til frekari skoðunar.