07.03.1972
Efri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Allt frá því að breytingar voru boðaðar á skattkerfinu af hæstv. núv. ríkisstj., hafa umr. orðið miklar manna á meðal um skattamál og hvað gera mætti þar til úrbóta. Þar er sannast sagna um auðugan garð að gresja hvað hugmyndir snertir, og sýnir það máske betur en allt annað, hver þörf var á því orðin að hrista dálítið upp í þessum málum og gera þar á róttækar breytingar. Það hefur svo komið glögglega í ljós, að gegn hverri hugmynd um breytingu hefur verið stillt mótbáru einhvers konar, sem hefur orðið þess valdandi, að ljóst er, að hverri breytingu munu einhverjar deilur fylgja, aldrei verða allir sammála um nauðsyn eða réttmæti hennar.

Þegar ríkisstj. lagði fram skattafrv. sín fyrir jól og ákvað um leið að afgreiða þau ekki fyrr en á þessu ári, tel ég, að hún hafi farið algerlega rett að. Lýðræðislegri aðferð var vart finnanleg. Þessi aðferð hefur til þess orðið, að mikil almenn umr. hefur farið fram um öll þessi mál í þjóðfélaginu. Hugmyndir hafa fæðzt, andmæli risið, rök með og móti einstökum liðum komið fram. Þessi á margan hátt heilbrigða og almenna umræða manna um skattamálin hefur, að ég hygg, verið þörf og marga lærdóma hefur mátt af henni draga. Hvað sem þessum þætti líður er það einnig staðreynd, að ýmsar nýjungar skattafrv. hafa fengið all almennan dóm og það á misjafnan veg eins og gengur. Hitt er ljóst, að meginstefna frv. á miklu almennu fylgi að fagna með þjóðinni, þó að menn greini mjög á um ýmis atriði þeirrar stefnu.

Sú mikla tekjutilfærsla í þjóðfélaginu, sem unnið hefur verið að síðustu mánuði varðandi tryggingamálin, er lofuð að verðleikum. Það virðist svo ganga misjafnlega að nema það atriði, að frá einhverjum öðrum verður tilfærslan að koma og þá óumdeilanlega frá þeim betur settu í þjóðfélaginu, þeim, sem hægara eiga með að heyja sína lífsbaráttu en ellilaunafólk og örorkubótaþegar. Afnám nefskattanna, þ.e. persónuiðgjalda til almannatrygginga og sjúkrasamlaga, telst einnig, að því er ég hygg, mjög til bóta af öllum, enda réttlætismál, þegar þess er gætt, að þessi gjöld voru áður greidd af öllum jafnt án minnsta tillits til gjaldþols. Ég held, að öll sanngirni mæli með því að telja hér rétt að farið.

Tilfærsla útgjalda frá sveitarfélögum til ríkisins virðist einnig talin sjálfsögð réttarbót handa sveitarfélögum og er þeirra öskum mætt. Er verið að losa þau við útgjöld, sem þau gátu ekki nema að mjög litlu leyti haft nokkur áhrif á. Þessu hefur verið fagnað af þeirra hálfu. Ég hef ekki orðið var annars en hér væri stigið stórt skref fram á við.

Ég skal í stuttu máli lýsa afstöðu minni til hinna helztu breytinga, sem eru í frv. þessum, og þeirra breytinga, sem nú liggja fyrir á þeim, og þá einkum til þeirra breytinga, sem frv. um tekjustofna sveitarfélaga, sem hér er til umr., felur í sér, þótt hitt fléttist þar inn í meira og minna. Ég vík fyrst að fasteignaskattinum. Ég tel hann í alla staði mjög eðlilegan tekjustofn og þó alveg sérstaklega gagnvart atvinnurekstri öllum. Með þessum skatti næst í ýmsa þá aðila í þjóðfélaginu, sem hafa sloppið undravel með öll sín gjöld til samfélagslegra þarfa. Það hlýtur að teljast í hvívetna réttlátt, að þeir, sem byggja glæsileg stórhýsi yfir starfsemi sína, greiði sín gjöld af þeim. Hér gildir það sama hvað snertir einstaklinga og stofnanir, svo sem banka. Ég fagna því raunar alveg sérstaklega, að þessi risaveldi fjármálalífsins skila þannig einhverju af tekjum sínum til þess að standa undir nauðsynlegum umbótum í sveitarfélögunum, ef verða mætti til þess einnig, að hin gífurlega útþensla þeirra færi ögn hægar á eftir, útþensla, sem ég dreg enga dul á, að ég hef talið óeðlilega.

Það er líka rétt, að það komi skýrt fram, að sveitarfélögin hafa árum saman gert kröfu til þess, að fasteignaskatturinn yrði gerður að öflugum tekjustofni. Nú er það gert og fer vart á milli mála, að hér er gengið til móts við sveitarfélögin á eðlilegan og æskilegan hátt. Það bezta við fasteignaskattinn er þó það, eins og ég hef áður tekið fram, ef hann mætti verða til þess, að einhverjir greiddu nú sín gjöld, sem hafa að því er virðist með góðri samvizku lagt gjaldabyrðar sínar á annarra bök, en slíkt hefur lengi verið til mikilla lista talið í okkar þjóðfélagi og margir unnið þar frækileg afrek. Ef þeim afrekum mætti eitthvað fækka, væri vissulega til nokkurs unnið.

Varðandi aðstöðugjöldin vildi ég aðeins segja það, að ég fagna því, að nú skuli hafa verið fest ákvæði um þau í stað bráðabirgðaákvæðis áður. Hér hefur oft verið um að ræða nær eina möguleika sveitarfélags til að innheimta eitthvað af fyrirtækjum sínum, sem hafa á pappírnum a.m.k. verið með tap oft velflest. Það er svo rétt, að aðstöðugjöldin hafa verið óvinsæll gjaldstofn og um margt þótt miður réttlát.

Um réttlæti þessa gjaldstofns vil ég segja svipað og um útsvör og tekjuskatt hins venjulega launamanns. Hversu oft skyldi hann ekki greiða af engu, þegar betur er að gáð? En hér virðast ærið oft gilda allt aðrar hugmyndir: Launamaðurinn eyðir um efni fram, fyrirtækin búa við erfiða rekstrarafkomu. Annað er sem sagt talið eigin sök, hitt eitthvað viðlíka náttúruhamförum eða einhverju ámóta óviðráðanlegu. Þótt ýmislegt megi að aðstöðugjaldinu finna, er hitt þó alveg ljóst, að verði það afnumið, hlýtur að verða að finna annan gjaldstofn, sem gefi sveitarfélögunum álíka tekjur og aðstöðugjöldin hafa gert. Það hefur komið glögglega í ljós, að fasteignaskatturinn leysir hér ekki allan vanda. Í mörgum tilfellum má eflaust láta hana koma í stað aðstöðugjalda, en varðandi þau fyrirtæki oft með mikla veltu, sem ekki eigi þó neina skráða fasteign, kemur skatturinn ekki að notum. Þar þarf að finna annað form álagningar, ef sleppa á aðstöðugjöldum. Svo sannarlega er hér um fyrirtæki að ræða, sem mörg hver hafa vel á því tök að greiða sitt til sveitarfélaganna.

Ég skal að vísu fúslega játa það, að ég er ekki fullkomlega ásáttur við það ákvæði að setja aðstöðugjöld í prósentutölu af álagningu síðasta árs, og hefði talið hitt réttara og réttlátara að miða við prósentu af leyfðum gjaldstiga. En það er aðeins mín skoðun almennt. Ég vil tryggja það, að sveitarfélögin verði í engu sköðuð með niðurfellingu aðstöðugjaldsins, og ég get ekki stutt þá niðurfellingu nema þá fulltryggt sé, að þar komi annar gjaldstofn í staðinn, hvað sem hann svo annars héti.

Hvernig eru svo horfur á, að þessi skattalög komi í heild út fyrir almenning í landinu? Hverjar munu staðreyndirnar verða á skattseðlum fólksins í sumar? Þannig er spurt. Það má satt vera, sem margir hafa sagt, að þegar skipt verði svo algerlega um, eins og gert er varðandi mikilvæg atriði skattamálanna, þá sé erfitt fyrir hvern einstakan að gera sér raunsæja mynd af því, sem hann snertir persónulega, einkanlega hvað tekjuskatt til ríkisins snertir. En heildarmyndin af skattkerfinu á þó að liggja nokkuð ljós fyrir. Nú hefur mér aldrei til hugar komið, að á tímum mikilla umbóta og framkvæmda í þjóðfélaginu, eins og nú á sér stað, væri annað mögulegt en skattheimtan þróaðist til samræmis við auknar tekjur manna í þjóðfélaginu, enda sé ég engin rök mæla því í gegn, ekki sízt þegar í ljós kemur stórfelld hækkun á tekjum fólks s.l. ár. Hitt skiptir aftur meginmáli, hvernig skattbyrðinni er dreift, hvort þar er stefnt að jöfnuði eða ekki. Mikilvægasta sönnun þess, að svo er um þessi skattalög, er einmitt niðurfelling nefskattanna, sem hafa lagzt á þá, sem engar tekjur hafa sannanlega haft. Þó að ekki væri annað en þetta atriði, þá væri hér um stórt skref fram á við að ræða.

Það er einnig og ekki síður stórt atriði, hvort stefnt er að einföldun kerfisins, hvort það verður skiljanlegra eftir en áður og fólk geti sjálft áttað sig vel á, hver gjöld þessi muni verða. Með tilkomu þessara laga, laga um tekjustofna sveitarfélaga, er tvímælalaust stefnt í rétta átt hvað þetta áhrærir. Ákveðin prósenta af brúttótekjum og ákveðinn frádráttur af álögðu útsvari hljóta að einfalda alla útreikninga fólks, svo að það getur nú í dag séð nákvæmlega eða nokkurn veginn, hverjar útsvarsbyrðar þess verða. Hið sama má einnig segja um fasteignaskattinn. Þetta er hiklaust framför frá því, sem verið hefur. Þessi skipan hlýtur einnig að auðvelda það, að hér verði tekin upp staðgreiðsla skatta, sem hlýtur að vera framtíðarstefna í þessum málum.

Það er full ástæða til þess að meta einnig það atriði, er snertir einstæða foreldra með börn á framfæri og kemur inn í bæði frv., sjálfsögð réttarbót til þessa fólks, sem ekki hefur verið nægilegt tillit tekið til áður. Annars hefur hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. rakið svo nákvæmlega áhrif þessara laga beggja á skattbyrðina í heild, að þess gerist ekki þörf að gera það betur hér. Það er óhætt að fullyrða það alveg sérstaklega, að skattbyrði alls láglaunafólks verður með skattalögum þessum létt allverulega. Sé tekið tillit til þess, hver skattbyrðin hefði orðið samkv. gamla kerfinu og með nefskattana álagða í sama formi og þá var, þá er hér um greinilegan mismun að ræða hjá öllum þeim, sem hafa lágar tekjur og raunar æðilangt upp eftir tekjustiganum. Þær breytingar, sem nú er lagt til að verði gerðar á upphaflegu frv., stefna allar í þá átt að létta skattbyrði á meðaltekjum og eru því til mikilla og sjálfsagðra bóta.

Það er eitt, sem hefur vakið öðru fremur athygli mína í öllum umr. að undanförnu um skattamálin hjá stjórnarandstöðunni. Og það er þögnin um breytingar þær á skattalögunum, sem samþykktar voru á s.l. vori gegn atkv. núv. stjórnarflokka. Af öllu þeirra tali nú hefði mátt ætla, að þar hefði verið hressilega til þess séð, að létt væri skattbyrðinni af almenningi. En skyldi nú svo vera? Það skyldi þó aldrei vera svo, að aðalbreytingarnar frá s.l. vori hafi stefnt að því að létta skattbyrðinni af þeim, sem með einhvers konar atvinnurekstur eða fyrirtæki eru, og sem rökrétt afleiðing af því þyngja um leið á launafólki öllu, sem ekki á möguleika á því að svíkja undan skatti. Það væri vissulega gaman að heyra fulltrúa stjórnarandstöðunnar skilgreina þá réttlætisbót, sem þessi skattalög hefðu haft í för með sér fyrir það launafólk, sem nú er svo mjög borið fyrir brjósti. Það þarf engan að undra, þó að þögnin sé alger um þessar breytingar, svo afgerandi sem þær voru í þágu fyrirtækja hvers konar og þá jafnframt gengið freklega á hlut launamanna, sem vitanlega þurftu þá að taka á sig það, sem af hinum var létt.

Það er óþarft að rekja lög þessi nákvæmlega. En þegar það liggur ljóst fyrir, að fyrirtæki með margmilljónagróða hefðu getað orðið nær skattlaus, ef allar heimildir laganna hefðu verið notaðar til fulls af þeim, þá sannar það betur en allt annað, hvert raunverulegt inntak þessara laga var, og þögnin um þessi lög skilst einkar vel í því ljósi einnig.

Því er mjög haldið að fólki, að skattbyrðin aukist

gífurlega. Að vísu hafa nú tölur allar hjá stjórnarandstöðunni orðið heldur hógværari í seinni tíð. Það er dálítið broslegt að heyra menn koma eftir 12–15 ára setu í ráðherrastólum með meirihlutavald á Alþ. og tala eins og aldrei hefði það viðgengizt undir þeirra stjórn. að skattbyrði ykist. Það er bezt að láta almenning dæma, en það er rétt að minna á það, að alla stjórnartíð þeirra voru álögur að þyngjast jafnt og þétt, og var þó ekki um að ræða jafnstórfelldar breytingar á einu ári og nú hafa farið fram á tryggingalöggjöfinni, sem enginn mælir gegn, en allir vita, að til þarf stóraukið fé. Það er svo aldrei nema gott, að nú uppgötvuðu menn einhver ný sannindi, þegar þeir geta horft á málið úr nokkurri fjarlægð, uppgötvuðu það t.d., að ýmislegt og það jafnvel undramargt hefði mátt betur fara og það þrátt fyrir alræði í öllum málum um 12 ára skeið. Þessu ber vitaskuld að fagna, og mega núverandi stjórnarflokkar vel una við þá hörðu sjálfsgagnrýni, sem stjórnarandstaðan stundar hér í tillöguflutningi sinum og umr. öllum, ekki sízt um skattamálin.

Þegar verið er að umskapa svo viðkvæm lög sem hér er um að ræða, hlýtur margt að orka tvímælis. Og hver breyting hlýtur að hafa í för með sér einhver vandamál. Hitt tel ég mest um vert, að hér er verið að framkvæma tvö mikil réttlætismál. Annars vegar tilfærslur til aldraðra og öryrkja frá þeim, sem betur mega. Hins vegar niðurfellingu nefskattanna, sem menn hafa borið jafnt án minnsta tillits til gjaldþols. Sérstaklega er hér létt af námsfólki öllu, eða aðstandendum þeirra réttara sagt, svo og af öðru tekjulitlu eða tekjulausu fólki. Þriðja atriðið mætti hér vissulega einnig nefna, en það er sú mikla réttarbót, sem einstæð foreldri hljóta í þessum skattalögum.

Ég er sannfærður um það, að allt eru þetta of stórvægilegir hlutir til þess að ekki megi við einhverja annmarka búa í bili. Það er svo öllu mikilvægara, að heildarendurskoðun skattamálanna heldur áfram. Hið staðnaða kerfi þarf fleiri breytinga við og þá verður í þeirri endurskoðun reynt að sníða af þá annmarka, sem kunna að koma í ljós við framkvæmd laga þessara og vissulega hljóta að koma fram við svo miklar breytingar, svo stórfelld umskipti. Að því vinnur núv. ríkisstj. áfram. Og því skal fyllilega treyst, að þar verði að unnið af fullum krafti, þar til við getum í sem allra flestu búið við réttlátt fyrirkomulag þessara mála. Hverjum dettur yfirleitt í hug að bera sér orðið réttlæti í munn, þegar hugsað er um skattamálastefnu 12 ára viðreisnar, þeirra manna, sem nú berja sér á brjóst og þykjast ætíð hafa haft umhyggjuna fyrir launþeganum að leiðarljósi? Vissulega geta menn notað annarlegar aðferðir til sjálfsgagnrýni, og skal það út af fyrir sig ekki lastað. Á hinu furðar mig, að stjórnarherrar s.l. 12 ára skuli treysta sér til að koma hér fram í gervi saklauss reifastranga, sem sé nú fyrst að upplifa vonzku veraldar.

Núv. ríkisstj. hefur sett sér stór verkefni, torveld verkefni. Þar ríkja, sem betur fer, skiptar skoðanir um ýmislegt. Ég segi, sem betur fer, því að þau skoðanaskipti hljóta að vera heilbrigður aflvaki góðra athafna. Þetta virðist fyrrv. stjórnarsinnum einkennilegt, svo samstiga sem þeir voru í hverjum óþurftarverkum sem þarfri athöfn. Svo er þó að sjá á úrbótatillögum þeirra á þessu þingi um fjölmörg mál, að oft hafi samkomulagið verið á kostnað góðra málefna. Við skulum vona, að slík örlög bíði ekki núv. ríkisstj. og hún góðu heilli haldi áfram sem hingað til framkvæmd stefnumála sinna, m.a. í skattamálum. og þá mun vel fara.