25.11.1971
Efri deild: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

71. mál, innlent lán

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Mér fannst nú dálitið gaman að því, að hæstv. utanrrh. skyldi taka þátt í þessum umr., og það er, eins og hann sagði, kannske nánast til þess að fylgja gamalli venju. Hann hefur undanfarin ár alltaf sagt nokkur orð um þetta mál, þegar það hefur verið til meðferðar, tekið því prúðmannlega, eins og hans er von og vísa, en hins vegar haft þá ýmislegt við það að athuga. Auk þess sem hann hafði við það að athuga, eins og hann sagði réttilega, hefur nú verið bætt inn í frv., að bréfin væru ekki skráð á nafn, og ef ég man rétt, þá var a.m.k. í sumum tilfellum jafnan talið rétt, að þau væru framtalsskyld, þótt það hafi ekki verið nú síðustu árin, en á sínum tíma hafði verið talið, að þau ættu að vera það, þá hefur jafnan komið fram hjá honum í þessum umr. töluverð gagnrýni á það, að hér væri þrengt að bankakerfinu, það held ég að sé ekki rangmunað hjá mér, — sem hann þekkingar sinnar vegna vissi mætavel, að meginhlutinn af þessu fé fer út úr bankakerfinu. Þess vegna undraðist ég eiginlega, að hann skyldi lesa þá röksemdafærslu, sem er í grg. frv., að þetta væri tilvalinn tími, vegna þess hve mikið fé væri í umferð, að fá fólk til að spara með því að selja þessi bréf.

Það skapast ákaflega litill nýr sparnaður í gegnum þessi bréf. Reynslan hefur sýnt það, og ég veit, að hæstv. utanrrh. veit þetta mætavel sem reyndur bankastjóri, að þó að hafi verið notað e.t.v. í ýmsum tilfellum fé, sem ekki hafi verið skattlagt, — það skal ég ekkert um segja, það getur enginn um það fullyrt, en það má gera ráð fyrir að það hafi verið, — þá vitum við, að slíkt fé hefur einnig verið í bönkunum, en ekki geymt utan þeirra. En að svo miklu leyti sem það hefur veríð, þá er ég algjörlega samþykkur þeirri hugsun að selja þessi bréf, að svo miklu leyti sem það stuðlar að einhverjum sparnaði. Um það greinir okkur alls ekki á. Ég hef sjálfur haldið því fram undanfarin ár, að þessi bréf gætu að einhverju leyti stuðlað að auknum sparnaði, en þó væri það fyrst og fremst, að með þessu væri fólki á vissan hátt gefinn kostur á að verðtryggja sparifé sitt, og þá var ég sannarlega sem fjmrh. ekki með skattsvíkarana í huga, heldur einmitt heiðarlega borgara, sem gætu þarna tryggt fé sitt. Að svo miklu leyti sem þetta frv. getur leitt til þess, að menn hætti við að eyða fé sínu í aðra hluti, — það mun þó ekki verða til þess, að fólk hætti að kaupa tóbak og áfengi, — þá hallar á sama hátt undan fyrir mínum ágæta hæstv. eftirmanni. Ég veit, að hæstv. utanrrh. og hv. 4. þm. Vestf., sem báðir eru reyndir bankamenn, vita, að meginhlutinn af þessu fé fer úr bankakerfinu. Það er ekkert efamál. Auk þess verður að benda á það, að í upphafi var nokkur tregða á sölu þessara bréfa, en eftir því sem árunum hefur fjölgað, er mönnum orðið ljóst, að hér er um einstæð kjör að ræða. Það hefur verið upplýst, m.a. skýrt frá því í blöðum í dag, sem er ekki til að draga úr sölu bréfanna, að verðgildi þeirra bréfa, sem hefðu verið gefin út fyrst, hefði fjórfaldazt, þannig að hér er náttúrlega um að ræða þá hagstæðustu ávöxtun á sparifé, sem hægt er að hugsa sér.

Ég hef ekki heldur nú síðustu tvö árin, að ég hygg, haldið fram þeim rökum, að ég væri andvígur því að nafnskrá bréfin, vegna þess að ég væri hræddur um, að þau seldust ekki. Það hef ég ekki gert. Og sízt af öllu hef ég nokkurn tímann sagt það, eins og hæstv. utanrrh. orðaði það, að bréfin mundu alls ekki seljast. Ég hef hins vegar sagt á undanförnum árum, að það mundi draga úr sölu þeirra. En síðustu tvö árin hef ég, held ég, ekki notað þetta orðfæri um þetta, a.m.k. ekki á síðasta ári, heldur gat ég þess, að ég teldi ekki rétt að breyta þessum reglum, þar sem skattalöggjöfin væri í endurskoðun og m.a. reglurnar um skattfrelsi sparifjár og skuldabréfa almennt, hvaða reglum það skyldi lúta. Þá taldi ég ekki rétt að fara að breyta þessum reglum, ekki sízt í sambandi við endurútgáfu skuldabréfa, það væri rétt, að það biði þess, að þessi lagaákvæði lægju fyrir eða till. um, hver framtalsskylda yrði í sambandi við hinar ýmsu tegundir sparnaðar. Þetta a.m.k. tók ég skýrt fram á síðasta þingi. Og ég veit, að hæstv. utanrrh. veit mætavel. að undanfarin tvö ár hafa þessi bréf selzt upp á svipstundu, og það hefur verið biðlisti í bönkunum að fá bréfin. Ég hygg, að þannig sé einnig ástatt nú, þannig að ég get fyrir fram óskað hæstv. fjmrh., eftirmanni mínum, til hamingju með það, að hann getur selt bréfin. Það er ég ekki í nokkrum vafa um, að það tekst mjög auðveldlega. En það, hvort það verður til mikillar gleði fyrir alla, það er önnur saga, og skal ég ekki aftur fara að endurtaka ummæli mín og röksemdir í því efni.