09.03.1972
Efri deild: 53. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 1. minni hl. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls hér í hv. þd. var það boðað af okkur, sem skipum 1. minni hl. heilbr.- og félmn., að við mundum, ef felld yrði frávísunartillaga okkar, flytja við frv. brtt. við 3. umr. Frávísunartillagan hefur nú verið felld og frv. með áorðnum breyt. meiri hl. n. afgreitt til 3. umr. gegn atkv. allra þm. stjórnarandstöðunnar.

Af mörgum göllum þessa frv. er sá verstur og alvarlegastur, að með því er þrengt svo kosti sveitarfélaganna í tekjuöflun til að mæta nauðsynlegum útgjöldum, að til vandræða mun horfa fyrir ýmis sveitarfélög. Hefur líka Samband ísl. sveitarfélaga lagt megináherzlu á það, hvílík hætta stafar af slíku, en um leið er ríkinu ætlað, samkv. stjfrv. um tekju- og eignarskatt, sem nú liggur fyrir hv. Nd., að taka í sinn hlut stórkostlega aukna beina skatta af gjaldþegnunum. Þessari öfugþróun viljum við snúa við, og það er í samræmi við þá stefnu okkar sjálfstæðismanna, að beinir skattar falli að miklu eða öllu leyti í hlut sveitarfélaganna, en ríkið afli sinna tekna með óbeinum sköttum.

Meginbrtt. okkar á þskj. 431 ganga í þá átt, að ríkið skili sveitarfélögunum hluta af þeim feng, sem því er nú ætlaður með tekjuskattsfrv. ríkisstj. Ég segi skila aftur, því að það er ekki ætlunin að þyngja beina skatta á gjaldþegnunum. Sjálfstæðismenn í Nd. flytja jafnframt brtt. við skattafrv. ríkisstj. þess efnis, að tekjuskattar á einstaklinga og félög lækki að sama skapi. Áætla má, að tekjustofnafrv. án álagsheimildar gefi sveitarfélögunum um 260 millj. kr. minna en núgildandi tekjustofnalög gæfu sveitarfélögunum með sömu nýtingu á álagningarreglum og sveitarfélögin höfðu á síðastliðnu ári, en eins og allir vita voru álagningarheimildir þá ekki líkt því notaðar til fulls. Í þeim brtt., sem við flytjum nú við frv., má áætla, að fyrsta brtt., sem er um framlög úr ríkissjóði, sem nemi 5% af skattgjaldstekjum einstaklinga til tekjuskatts, gefi 455 millj., en önnur mgr. í 11. brtt., þ.e. 23% af skattgjaldstekjum félaga, gefi 227 millj„ eða samtals gefi þetta um það bil 680 millj. kr. Hins vegar rýrir niðurfelling álagsheimildarinnar á fasteignaskatt tekjur sveitarfélaga, en við leggjum til, að hún falli burtu. Niðurfelling þeirrar álagsheimildar mundi rýra tekjur sveitarfélaganna um 225 millj. og hækkun á útsvarsfrádrætti samkv. 12. brtt. okkar mundi rýra tekjurnar um um það bil 268 millj. Samtals yrði þetta í kringum 490 millj., og mismunur þessa mundi þá þýða það, að eitthvað innan við 200 millj. meira kæmi í hlut sveitarfélaganna en samkv. frv., eins og það nú er.

Ég skal nú gera grein fyrir einstökum brtt. Fyrsta brtt. okkar er við 1. gr. frv., en í þeirri gr. segir, hverjir séu tekjustofnar sveitarfélaga. Er lagt til, að við bætist framlag úr ríkissjóði, sem nemi 5% af skattgjaldstekjum til tekjuskatts, Sbr. I. tl. 25. gr. tekju- og eignarskattslaga nr. 68 frá 1971, en hér er um að ræða tekjuskatt einstaklinga.

Ég skal þegar í framhaldi af þessari brtt. víkja að 16. brtt. okkar á þskj. 431, en hún er um þetta sama efni. Þar segir, að slík framlög ríkissjóðs skuli renna til þess sveitarfélags, þar sem gjaldþegn var skattlagður samkv. ákvæðum tekju- og eignarskattslaga nr. 68/1971.

Önnur brtt. okkar er við 3. gr. frv., þar sem fjallað er um fasteignaskatta. Í a-lið brtt. er lagt til, að í stað þess, að samkv. frv., eins og það liggur fyrir, er skylt að leggja á fasteignaskatt, komi heimild sveitarstjórnar til slíkrar skattheimtu, sem hver einstök sveitarstjórn metur þá sjálf, hvort hún vill nota. En misjafnlega rík þörf getur verið í hinum einstöku sveitarfélögum til þess að leggja á slíkan skatt. Í r–lið brtt. er lagt til, að 3. mgr. frvgr., þ.e. heimildin til 50% álags á fasteignaskatt, falli niður. Þó að fasteignaskattur sé eftir atvikum eðlilegur tekjustofn sveitarfélaga, þá verður vissulega að gæta hófs í álagningu skattsins. Hann leggst með sama þunga á fasteignir, hvort sem á þeim hvíla miklar skuldir eða e.t.v. engar, og getur orðið tilfinnanlegur fyrir þá, sem eru að brjótast í að eignast fyrir sig og fjölskyldu sína húsnæði, sem er e.t.v. að mestu leyti í skuld, en í þeim hópi er, eins og menn vita, mikill fjöldi af ungu fólki. Auk þess er samkv. þessari gr. frv. um að ræða svo mikla hækkun fasteignaskatts, frá því sem verið hefur, að við teljum, að lengra beri ekki að ganga og heimild til álags á skattinum eigi þess vegna að fella úr frv.

Þriðja brtt. er við 4. mgr. 4. gr. frv. Ég ætla, að þessi brtt. skýri sig sjálf. Það er eðlilegt, að sveitarfélögin ákveði sjálf, hvenær þau innheimta skattinn. Það getur t.d. verið til hagræðis fyrir gjaldendur að hafa gjalddaga fleiri en tvo, eins og gert er hér ráð fyrir í frv. að þeir geti verið mest.

Þá er 4. brtt. okkar við 5. gr. frv. A-liður er við 1. mgr. Þessi mgr. í frv. er óljós, eins og hún er orðuð. Með þeirri breyt., sem hér er lögð til, ætti orðalag hennar ekki að verða misskilið og ég vil taka það fram, að þessi brtt. er í samræmi við ábendingu frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. B-liður brtt. er við 3. mgr. Hér er lagt til, að heimild til lækkunar eða niðurfellingar fasteignaskatts sé við það bundinn, að þeir gjaldendur, sem hér er um að ræða, noti húsnæðið til íbúðar fyrir sig og fjölskyldu sína. Þessi brtt. er einnig í samræmi við ábendingu frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, og einnig liggur nú fyrir hv. Nd. Alþ. þáltill., sem gengur í þessa átt.

Þá er það 5. brtt. okkar og hún er við 10. gr. frv., þar sem upp eru taldir þeir, sem landsútsvör eiga að greiða. Við 2. umr. var gerð sú breyt. á frv., að við 10. gr. bættist nýr liður, e-liður, bankar og sparisjóðir. Brtt. okkar gengur í þá átt, að sparisjóðir verði þarna niður felldir. Það hefur verið vikið að því fyrr í þessum umr., að sparisjóðirnir hafa þá sérstöðu að þjóna yfirleitt afmörkuðum svæðum, þ.e. þeim byggðarlögum, sem þeir eru staðsettir í. Það er þess vegna ekki sanngjarnt, að þeim sé gert að greiða landsútsvör og þau gangi meira að segja óskipt í Jöfnunarsjóð, eins og í frv. segir. Við leggjum þess vegna til, að þeir verði felldir niður úr e-lið 10. gr., og orðist hún þá eins og brtt. okkar hljóðar.

Sjötta brtt. er við 11. gr. frv., og hún er raunar í beinu framhaldi af 5. brtt., eins og hv. þm. verður sjálfsagt ljóst.

Sjöunda brtt., sem við flytjum, er varatillaga við 13. gr. frv. Fari svo, að 5. brtt. okkar verði felld og að sparisjóðirnir verði áfram í e-lið 10. gr., þá teljum við það alla vega lágmarkskröfu, að 1/4 hluti landsútsvars þeirra renni til þess sveitarfélags, sem þeir eru staðsettir í, og sú mundi verða reyndin, ef brtt. okkar yrði samþykkt.

Þá er það 8. brtt. okkar. Hún er í samræmi við b-lið 10. brtt., þar sem ræðir um útsvör á félög, og sama er um að segja um 9. brtt.

Þá kem ég að 10. brtt., sem er við 23. gr. frv. A- liður er við 1. mgr. Hún orðist svo sem þar segir. Hér er í raun aðeins um orðalagsbreytingu að ræða til samræmis við 8. brtt. okkar. B-liður brtt. er á þá leið, að ný mgr. komi inn í frv., sem verði 4. mgr. 23. gr., og í þessari brtt. segir, á hvaða tekjur annarra aðila, þ.e. félaga og stofnana, skuli leggja útsvar. Í c-lið er lagt til, að tekin verði ný mgr. inn í 23. gr., og með þessari brtt. okkar er lagt til, að gjaldanda sé ávallt gefinn kostur á að gæta réttar síns, ef sveitarstjórn hyggst breyta framtali hans honum í óhag, og það gildir, hvort sem um er að ræða breytingu samkv. heimild í 4. mgr. 23. gr. eða aðrar breytingar. Niðurlag þessarar brtt. tel ég, að skýri sig sjálft.

Þá kem ég að 11. brtt., sem er við 25. gr. frv. Hún orðist svo sem þar segir. Fyrri mgr. þessarar brtt. er efnislega samhljóða 1. mgr. 25. gr. í frv., nema hvað vitnað er til 4. mgr. í 10. brtt. okkar, sem er við 26. gr. og ég mun síðar koma að. Síðari mgr. í þessari brtt. fjallar svo um útsvör félaga, sem skuli vera 23% af skattgjaldstekjum þeirra, og í þeirri mgr. er einnig vitnað í 4. mgr. 10. brtt. við 23. gr. frv.

Þá er komið að 12. brtt. okkar og í 1. mgr. þeirrar brtt. er lagt til, að útsvarsfrádráttur hækki úr 7 000 kr. í 10 000 hjá hjónum og einstæðum foreldrum, úr 5 000 í 7 000 hjá einstaklingum. Útsvarsfrádráttur hjóna, sem telja fram sitt í hvoru lagi, sé 5 000 hjá hvoru og frádráttur vegna barns hækki úr í 000 í í 500 kr. Niðurlag þessarar mgr. brtt. er samhljóða því, sem er í frv. 2. og 3. mgr. þessarar brtt. eru samhljóða frv. og í 4. mgr. eru ákvæði um það, að ef útsvör reynast hærri eða lægri en fjárhagsáætlun segir til um, þá megi hækka eða lækka hundraðshluta þá, sem um ræðir í 25. gr., að réttri tiltölu, þangað til áætlunarupphæð er náð að viðbættum 5–10%. Hækkun hundraðshlutanna má þó aldrei fara fram úr 10%.

Þrettánda brtt. er við 29. gr. frv., þar sem 1. mgr. a-liðar ræðir um fyrirframinnheimtu útsvara. Í frv. er gert ráð fyrir 50%. Við leggjum til með þessari brtt., að það verði 60%, sem heimilt verði að innheimta fyrir fram á þennan hátt. Þá er b-liðurinn í 13. brtt. okkar um breytingu á gjalddaga, bæði á fyrirframinnheimtu útsvari og álögðu útsvari, þ.e. eins og tvær brtt., sem ég hef áður um getið. Þetta er gert í samræmi við ábendingu frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og þá haft í huga, að innheimta 1. des. kemur nokkuð harkalega við gjaldendur. Eins og allir vita, er desember gjaldahæsti mánuður ársins, það mun víst vera óhætt að segja að öllum jafnaði hjá hverjum og einum, og þessi breyting á gjalddögum mundi þýða það, að þeir færðust til, þannig að ekki kæmi til innheimtu í desembermánuði.

Þá er ég komin að 14. brtt. okkar, sem er við 30. gr. frv., að aftan við m-lið komi svo hljóðandi viðbót: „enda hafi verið haldið eftir af kaupi hans í samræmi við kröfur sveitarstjórnar.“ Þetta er, hygg ég, mjög eðlileg brtt., og hún satt að segja gæti komið í veg fyrir misnotkun í þessu sambandi. Það mætti hugsa sér jafnvel, að aðili, sem sér fyrir gjaldþrot, notaði sér að halda eftir af kaupi launþega síns meiru en honum raunverulega hefði borið að gera og gæti gert það í fullu trausti þess, að launþeginn yrði ekki fyrir neinum skakkaföllum þar af.

Þá kem ég að 15. brtt., þar sem ræðir um aðstöðugjöld. Við 2. umr. málsins voru ákvæði, sem áður voru til bráðabirgða, færð inn í lagafrumvarpið sjálft, og það var satt að segja erfitt að skllja öðru vísi en svo, að með því væri ætlunin að halda aðstöðugjöldunum áfram, þrátt fyrir þá stefnuyfirlýsingu, sem gefin er í aths. með frv., að að því skuli stefnt, að þau falli niður, þegar þetta ár er liðíð. Í þessari brtt. felst það, að gagnstætt því, sem nú er í frv., að notkun heimildarinnar sé bundin við það, að einstök sveitarfélög hafi nýtt hana á síðastliðnu ári, þá er hér lagt til, að heimild til að leggja á aðstöðugjöld verði slík, að ekki megi það vera hærra en allt að helmingi þess hámarks, sem leyft var á síðastliðnu ári. Hins vegar sé ekki dyrunum lokað fyrir sveitarfélögunum, sem einhverra hluta vegna kynnu ekki að hafa notað sér álagningarheimildina á síðastliðnu ári, og eins og ég sagði, þá er heimildin lægri í okkar till., sem sé að nota helming af álögðu aðstöðugjaldi í stað þess, að samkv. frv., eins og það nú er, er heimilt að innheimta 65%.

Um 16. brtt. hef ég áður rætt.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir þessum brtt. og ég hef gert í upphafi máls míns nokkra grein fyrir, hvað það mundi þýða í auknum tekjumöguleikum fyrir sveitarfélögin, og ég vil bæta því við, að þegar ég þar miðaði við nýtingu núgildandi laga, nýtingu ákvæða þeirra, eins og hún varð hjá sveitarfélögum á síðastliðnu ári, þá auðvitað höfðu þau miklu meiri möguleika, sem þau ekki hafa nýtt sér, því að það hlýtur eðli sínu samkvæmt að vera mjög misjafnt, hver tekjuþörf sveitarfélaganna er. Þessar brtt., sem við flytjum, miða að því að draga úr þeirri skerðingu á sjálfsforræði sveitarfélaganna, sem þetta frv. felur í sér.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa fleiri orð um frv, eða brtt. að svo stöddu.