09.03.1972
Efri deild: 53. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð að því er varðar samskipti um þessi mál við Samband ísl. sveitarfélaga og varðandi þær brtt., sem I. minni hl. hefur lagt hér fram, sem mér þótti ástæða til að koma hér og benda á skýra afstöðu stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga til fasteignaskatta, svo og samþykkta fulltrúaráðs sveitarfélaga. Í svörum sínum til þeirrar nefndar, sem samdi upprunalega frv. um tekjustofna sveitarfélaga, tekur stjórn sambandsins svo til orða, með leyfi hv. forseta:

„Stjórn sambandsins hefur eftirfarandi umsagnir og aths. fram að færa:

1. Stjórnin leggur til, að 3. gr. orðist svo: Á allar fasteignir, sem metnar eru í fasteignamati samkv. 5. gr., skal árlega leggja skatt til sveitarfélaga, þar sem fasteign er: a. 1/2%, þ.e. íbúðarhúsnæði o.s.frv. b. í % af öllum öðrum fasteignum o.s.frv.

Í grg. segir: Heimilt er sveitarstjórn að innheimta fasteignaskatt með allt að 50% álagi, enda hafi sveitarstjórn gert um það sérstaka samþykkt, sem félmrn. hefur staðfest. Stjórnin telur, að æskilegra sé að miða við fasta fasteignaskattsprósentu með heimild til álags, heldur en ákveða svigrúm með ákveðnu lágmarki og hámarki.“

Enn fremur lagði stjórnin til, að ákvæði 5. gr. frv. verði fellt niður, þ.e. að í lögunum verði engar undanþágur frá greiðslu fasteignaskatts, nema að því er varðar hús erlendra sendimanna. Í samþykktum fulltrúaráðsfundar sveitarfélaga frá því í jan. s.l. leggur fulltrúaráðið til, að í stað í % á aðrar fasteignir, eins og er í frv., komi: 1–2%. Fulltrúaráðið taldi eðlilegra að hafa þetta ákvæði rýmra til fasteignasköttunar heldur en er í frv. sjálfu, að ganga lengra. Ég tel ástæðu til að benda á þetta hér, þar sem þetta virðist vera nokkur þungamiðja í þeim breytingum, sem 1. minni hl. hefur hér lagt fram, og í bréfinu, sem var vitnað hér til áðan, er einmitt að finna sérstaka aths. stjórnar sambandsins nú fyrir stuttu. Vegna prentvillunnar í nál. meiri hl. n., þá benda þeir á til leiðréttingar, að það virðist hafa fallið niður heimildin um að leggja 50% álag á fasteignaskattinn. Og í framhaldi af þessu kom ábending frá Vestmannaeyjum, sérstök ábending um, að það mundi rýra hlut Vestmanneyinga um tæpar 3 millj., ef þetta félli nú út úr frv.

Ég skal ekki tefja umr. um þetta mál meira, en þó get ég ekki stillt mig um að vitna til Morgunblaðsins. Þegar þetta tekjustofnafrv. kom fram í vetur, birtust viðtöl við mæta forustumenn bæjarfélaga og þ. á m. viðtal við borgarstjórann í Reykjavík. Og í þessu viðtali telur hann, að fasteignaskattar séu eðlilegir sem tekjustofnar sveitarfélaganna og enn fremur álagning útsvara á brúttótekjur. Þetta er í þessu viðtali, ég var einmitt að lesa það mér til upprifjunar í gærkvöld. Ég held, að það væri rétt í sambandi við það, sem síðasti ræðumaður sagði hér áðan um aukafasteignaskatt, heimild til álagningar aukafasteignaskatts á hlunnindi, að hann athugi það, hvernig fasteignamatið er byggt upp. Fasteignamatið t.d. á eignum í sveitum er jarðamat, það er húsamat og það er hlunnindamat. Og hlunnindamatið er í fasteignamatsreglunum algerlega sérstætt, því að það á ekki við nema vissar jarðir eða eignir í sama sveitarfélagi. Og þetta getur verið mjög mismunandi. Ég hef kynnt mér það, að í mörgum sveitarfélögum er hlunnindamatið, jafnvel þó að um nokkur hlunnindi sé að ræða, aðeins lítið brot af jarðamatinu sjálfu eða húsamati jarðarinnar. Þetta tel ég, að sé rétt, að komi fram. (Gripið fram í.) En kjarna málsins tel ég vera þann í sambandi við tekjustofnafrv. eins og raunar skattafrv. í heild, að það liggur fyrir yfirlýsing um það, að áframhaldandi endurskoðun þessara tekjustofnamála fari fram og þá verður væntanlega hægt að sjá betur, hvaða agnúar kunna að vera í sambandi við þessi mál í heild. Ég er á þeirri skoðun, að þrátt fyrir þær tölur, sem við fáum um þessi mál, þá sé talsvert mikil óvissa um gildi þeirra, þar til búið er að sjá, hvaða raunverulegar tölur liggja fyrir, þegar búið er að vinna úr skattframtölum, sem nú liggja fyrir í úrvinnslu.