13.03.1972
Neðri deild: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þetta frv. er annar þáttur þeirrar gagngeru breytingar á íslenzkri skattalöggjöf, sem hæstv. ríkisstjórn beitir sér nú fyrir. Breytinguna verður að skoða sem eina heild, enda frv. nátengd hvort öðru og grundvallast sumpart á nokkuð breyttri verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, án þess þó, að nokkur heildarathugun hafi farið fram á því, hvernig skynsamlegast sé að haga þeirri verkaskiptingu. En þegar jafngagnger breyting er gerð á skattalögum og hér er um að ræða, þá er nauðsynlegt, að það sé íhugað vandlega, hvert eigi að vera markmið slíkrar breytingar, hver stefnan eigi að vera í skattamálunum. Ég er þeirrar skoðunar, að meginstefna hverrar gagngerrar breytingar á skattalögum eigi að felast í þessu tvennu: Annars vegar eigi að vinna að því, að launafólk greiði ekki skatt af þeim tekjum, sem nauðsynlegar eru til venjulegs lífsframfæris. Og í öðru lagi, að skattkerfið verði einfaldara en áður var. Um þessi tvö atriði langar mig nú til að fara nokkrum orðum.

Um fyrra atriðið er það að segja, að þar er meginspurningin sú, hvort skattbyrði sé að þyngjast, ef þessi tvö frv. verða að lögum, eða ekki. Hæstv. félmrh. sagði í framsöguræðu sinni áðan, að frv. hefðu í för með sér flutning á skattbyrði milli aðila í þjóðfélaginu. Skattbyrði mundi léttast á fólki með mjög lágar tekjur, en hins vegar þyngjast hjá þeim, sem breiðust hefðu hökin, eins og hann tók til orða, eða eitthvað því um líkt. Þetta er því miður mjög mikill misskilningur. Ég vildi óska þess, að skoðun hæstv. félmrh. væri rétt, — þá gæti ég stutt hana, — en hún er því miður alröng. Og það skal ég nú sýna fram á í einföldu máli.

Vilji menn bera saman skattbyrði almennings samkv. þeim lögum, sem í gildi hafa verið, og frv. ríkisstj., þá má aðallega gera það á tvennan hatt. Annars vegar má bera saman skattana, eins og þeir hefðu orðið samkv. gömlu lögunum. og miða þá við einhverja skynsamlega ákveðna skattvísitölu og svo skattana, eins og þeir yrðu samkv, frv.

Hin aðferðin er svo sú, að bera má saman raunverulega skattgreiðslu af ákveðnum tekjum í fyrra, en þá voru gömlu lögin í gildi, og væntanlega skattgreiðslu í sumar samkv. frv. Yrði þá að miða við áætlun um tekjur í fyrra, sem nú yrði lagt á í ár, en slíkar áætlanir hafa þegar verið gerðar. Ríkisstj. og málgögn hennar hafa einkum notað fyrri aðferðina, þ.e. að bera saman skattgreiðslu samkv. gömlu lögunum annars vegar og væntanlega skattgreiðslu samkv. frv. hins vegar. En hæstv. ríkisstjórn og málgögn hennar hafa í því sambandi alltaf undantekningarlaust miðað við algjörlega óraunhæfa skattvísitölu, þannig að bein skattbyrði samkv. útreikningum hæstv. ríkisstjórnar og málgagna hennar er sýnd miklu þyngri en hún hefði nokkru sinni orðið, ef gömlu lögunum hefði verið beitt.

Ég hika ekki við að fullyrða, að ef gömlu lögin hefðu áfram verið í gildi, hefði engin ríkisstj., hvorki núv. ríkisstjórn né heldur nokkur önnur, látið sér detta í hug að miða við skattvísitöluna 106.5, sem reikningstölur fjárlaga voru byggðar á. Ekki einu sinni núverandi ríkisstj. hefði látið sér koma slíkt til hugar, og þarf þá ekki annað en að minnast þess, að síðasta ríkisstj., ríkisstj., sem sat í fyrra, þegar skattvísitalan var síðast ákveðin, hækkaði skattvísitöluna um 20%. Og hverjum dettur í hug, að í öðru eins góðæri og nú er mundi nokkur ríkisstjórn hafa látið sér detta í hug að hækka skattvísitöluna í ár aðeins um 6.5%? Að ég nú ekki tali um þá staðreynd, að nokkrir hv. núverandi stjórnarsinnar ásamt hæstv. núv. fjmrh. hafi mörg undanfarin ár flutt frv. um það, hvernig skattvísitala skuli ákveðin. Ef það frv. hefði verið samþ. í fyrra og skattvísitala ákveðin samkv. því núna, þá hefði skattvísitalan átt að hækka í ár um það bil 20%. Og dettur nokkrum lifandi manni í hug, að ef ríkisstj. hefði horfið frá heildarendurskoðun skattalaga og orðið að búa við gömlu lögin, kannske neyðzt til að búa við þau samkv. hennar eigin skoðun, dettur þá nokkrum í hug, að þeir hefðu haft hækkun skattvísitölunnar minni en síðasti fjmrh. og haft hana minni en þeirra eigið frv. sagði til um, en þar er um að ræða rúmlega 20% hækkun? Það er því algjörlega augljóst, að allir útreikningar á skattbyrði, sem miðaðir eru við jafnlága skattvísitölu og 106.5, eru vægast sagt út í bláinn. Þeir eru algjörlega óraunhæfir.

Eðlilegast er að miða skattvísitölu við þá breytingu, sem verður á tekjum milli ára, þannig að hækkun tekna í krónutölu verði ekki til þess að flytja menn, tekjulaunþega, í hærri skattstiga. Þetta er grundvallarhugsunin, sem liggur að baki hugtakinu skattvísitala, að þótt tekjur manna hækki í krónum, þá skuli hlutfall í skattgreiðslu manna ekki aukast. M.ö.o., þótt verðbólga sé, ef tekjur manna hækka af einhverjum ástæðum, þá eigi það ekki að þýða hærri skattstiga fyrir tekjuhafa. Þetta er grundvallarhugsun sú, sem liggur að baki skattvísitölunnar. Ef henni yrði breytt núna, þá ætti skattvísitalan að vera alls ekki lægri en 121.5%, því að þær áætlanir, sem þegar hafa verið gerðar á breytingu tekna milli áranna 1970 og 1971, sýna, að tekjubreytingin, tekjuaukningin hefur a.m.k. orðið 21.5% og hún mun, að því er sérfræðingar segja, eflaust reynast meiri. 21.5% er algjört lágmark tekjubreytingar, sem orðið hefur milli skattáranna 1970 og 1971, og þess vegna hika ég ekki við að fullyrða, að ef gömlu lögin hefðu verið í gildi og þurft hefði að ákveða skattvísitölu, sem ekki þarf núna vegna nýrrar lagasetningar, þá hefði engin ríkisstjórn, hver sem hún hefði verið, látið sér til hugar koma að ákveða skattvísitöluna lægri en 121.5%.

Vegna þessara staðreynda falla allir útreikningar, sem birtir hafa verið í málgögnum ríkisstj. um samanburð á skattbyrði eftir gömlu lögunum og þessum nýju frv., algjörlega um sjálfa sig. Þeir eru ekki byggðir á réttum eða raunhæfum forsendum. Ef lagt hefði verið á nú á þessu ári eftir gildandi lögum og miðað við skattvísitöluna 121.5, sem ég er, að ég tel, búinn að færa skynsamleg rök fyrir, að mundi hafa orðið 121.5 a.m.k., þá hefðu heildarskattgreiðslur skattgreiðenda orðið 7 040 millj. kr. Ef skattafrv. ríkisstj. hefðu verið samþykkt, eins og þau voru lögð fram upphaflega, hefðu fjárhæðir þeirra heildarskatta, sem breytingarnar taka til, orðið 7 750 millj. kr., eða 710 millj. kr. hærri en álagningar eftir gömlu lögunum, miðað við þá skattvísitölu, sem ég hef verið að gera að umtalsefni.

Sem betur fer hafa frv. tekið nokkrum breytingum í meðferð Alþ., sem mun draga úr aukningu skattbyrðarinnar, og því ber sannarlega að fagna. Á þeim stutta tíma, sem liðinn er siðan breytingarnar voru samþykktar, hefur ekki reynzt unnt að athuga nákvæmlega, hversu miklu sú lækkun nemur, sem breyting Alþ. á frv. hefur í för með sér. En það er óhætt að fullyrða, að hún nemur hvergi nærri 710 millj. kr., svo að enn á það við, að almenningur mun þurfa að greiða hærri heildarskatta á þessu ári en í fyrra, og það er meginstaðreynd málsins, að almenningur mun þurfa á þessu ári að greiða hærri heildarskatta en hann greiddi í fyrra.

Ég sagði áðan, að þetta væri önnur aðferðin, sem nota mætti til að bera saman breytingar á skattbyrðinni. Hin er í raun og veru miklu einfaldari, vegna þess að þar kemur ekkert pex um skattvísitölu til skjalanna, það má alveg sleppa allri deilu um það atriði. Hin aðferðin, sem er í raun og veru mun einfaldari, er fólgin í því að athuga raunverulega skattgreiðslu ákveðinna manna eða tiltekinna stétta í fyrra, — það liggur fyrir í opinberum heimildum, um það getur enginn maður deilt, hvað menn raunverulega greiddu í skatta í fyrrasumar, — og bera það saman við það, sem menn munu koma til með að greiða í skatt í sumar samkv. frv., eins og þau eru núna. Það eina, sem þarf að áætla í því sambandi, er það, hverjar tekjurnar hafi orðið í fyrra, 1971, sem lagt verður á nú í sumar.

Sérfræðingar hafa þegar gert víssar áætlanir um þetta og menn þekkja breytingarnar á tekjutöxtum, sem orðið hafa á milli þessara tveggja ára, þannig að þetta er hægt að áætla með nokkurri vissu. Ég hef aflað mér áætlana um þetta varðandi nokkrar helztu launastéttir landsins og hika ekki við að fullyrða, að þær eru mjög varlegar og eru byggðar á þeirri vitneskju, sem er um ca. 21% heildartekjubreytinga, tekjuhækkun á milli áranna 1970 og 1971 og síðan eru breytingar á tekjum einstakra stétta miðaðar við það, sem vitað er um taxtabreytingar og kaupbreytingar á tekjum stéttanna á þessu tímabili.

Þessi athugun, sem ég hef gert með aðstoð sérfróðra manna, tekur til nokkurra helztu launþegastétta í landinu. Hún tekur til verkamanna, iðnaðarmanna, afgreiðslumanna í verzlunum, skrifstofumanna, ríkisstarfsmanna, starfsmanna sveitarfélaga, undirmanna á fiskiskipum og yfirmanna á fiskiskipum. Og eins og menn sjá á þessari upptalningu, þá er hér um að ræða meginþorra alls launafólks í landinu. Ég hef athugað annars vegar, hvað þessar stéttir greiddu í tekjuskatt og útsvar í fyrra, greiddu í reynd í fyrra í tekjuskatt og útsvar af meðaltekjum hverrar stéttar þá. Og hins vegar hef ég athugað, hvað þessar sömu stéttir mundu greiða í tekjuskatt og útsvar samtals í sumar, miðað við áætlaðar meðaltekjur þessara sömu stétta á árinu 1971, í fyrra. Þetta er í raun og veru einfaldasti og óumdeilanlegasti samanburðurinn, sem hægt er að gera á því, hvort skattbyrðin er að léttast eða þyngjast.

Ég kaus þann kostinn að miða við hjón með tvö börn, það er algengasta fjölskyldustærðin. Ég kaus líka þann kostinn til að hafa óvissuþættina sem allra minnsta að blanda fasteigna- og eignarskattsgreiðslum ekki inn í dæmið, því að eignaaðstaða fólks er svo gerólík, að það mætti vefengja niðurstöður, ef verið væri að taka það þar inn í, og enn fremur taldi ég rétt að miða við 10.5% útsvarsálagningu. Það hefði ekki verið rétt að miða við 10% útsvarsálagningu, vegna þess að Samband ísl. sveitarfélaga hefur lýst því yfir, að sá tekjustofn muni hvergi nærri reynast nægilegur og var þetta víðurkennt af hv. Ed. á þann hátt, að heimilað var að leggja á allt að 11%, með leyfi hæstv. félmrh. Og mér er tjáð af fróðum sveitarstjórnarmönnum, að það sé öldungis vist, að mjög verulegur ef ekki meiri hluti sveitarfélaga, einkum þau stærstu, muni fara fram á það við hæstv. félmrh. að fá að nota 11% heimildina. Hins vegar munu ýmis minni sveitarfélög, einkum sveitarfélög í dreifbýli, ekki nota heimildina að fullu og jafnvel veita afslátt. En til þess að ég verði ekki vændur um að nota hæstu hugsanlega tölu, taldi ég ekki rétt að miða útreikningana við, að 11% heimildin væri alls staðar notuð, heldur fór meðalveginn og niðurstöðurnar eru byggðar á því, að útsvarsálagning verði yfirleitt á þessu ári 10.5% að meðaltali, og getur enginn haldið því fram, að þar sé um að ræða tilraun til þess að stækka eða ýkja dæmið. En niðurstaðan af þessum útreikningum er þessi:

Í fyrra greiddu verkamenn að meðaltali af sínum tekjum 52 þús. kr. samtals í tekju- og eignarskatt. Þeir koma til með að greiða í sumar af sínum meðaltekjum í fyrra 48 þús. kr. Skattur verkamanna lækkar beinlínis í krónum og þá auðvitað einnig í hlutfalli af tekjunum. Þeir eru eina stéttin, sem mun njóta skattlækkunar, og því ber sannarlega að fagna. Það var það eina, sem var rétt í ummælum hæstv. félmrh. um þetta efni, að skattur verkamanna, heildarskattbyrði verkamanna mun léttast, og því fagna ég. En skattbyrðar allra annarra launastétta í þjóðfélaginu munu þyngjast og sumra meira að segja mjög verulega.

Iðnaðarmenn greiddu í fyrra að meðaltali af sínum tekjum 75 þús. kr. Þeir munu í sumar verða að greiða 87 þús. kr. að meðaltali af sínum meðaltekjum. Afgreiðslumenn í verzlunum greiddu í fyrra 62 þús. kr. Þeir munu greiða 69 þús. kr. núna og eru þó hrein láglaunastétt. (BP: Hvernig á að reikna þetta út?) (Gripið fram í: Hann gefur sér allar forsendur.) Ég gef mér ekki forsendurnar. Ég er búinn að skýra, hvernig forsendurnar eru fengnar. Ég skal gjarnan enn endurtaka það fyrir bæði ráðh. og hv. þm.

Forsendurnar eru þannig fengnar, að vitað er, hvað heildartekjur milli áranna 1970 og 1971 hafa hækkað. Þær eru taldar hafa hækkað um a.m.k. 21.5%. Síðan eru þetta taxtabreytingar hjá öllum þeim launastéttum, sem ég hef hér nefnt. Þær liggja auðvitað fyrir, og það er eingöngu miðað við taxtabreytingarnar. Þess vegna sagði ég áðan, að sú tekjuhækkun, sem er miðað við, er í algeru lágmarki. Það vita allir, sem vilja vita það, að raunverulegar tekjur manna hafa hækkað meira en sem nemur taxtabreytingunum. Ég reikna samt ekki með meiru en því, sem verkalýðsfélög hlutaðeigandi stétta hafa samið um fyrir félagsmenn sína. Öll tekjuaukning, sem er umfram það, er ekki reiknuð hér með. Hér er um algerar lágmarkstölur að ræða. (Gripið fram í.) Þeir eru auðvitað fallnir burtu, eins og gefur að skilja. (Gripið fram í.) Má ég halda áfram að lesa? Ég sé það, að stjórnarsinnar gerast mjög órólegir, sem er hins vegar alveg ástæðulaust, og mér finnst vera alveg óhætt fyrir þá að hlusta rólega á þetta. Ég get vel skilið, vegna þess, sem fram kemur, að þeim muni ekki líða allt of vel hið innra með sjálfum sér, en það er óþarfi að auglýsa það svona í látbragði út á við.

Um skrifstofumenn er það að segja, að í fyrra greiddu skrifstofumenn af sínum meðaltekjum 73 þús. kr., en þeir munu í sumar greiða 87 þús. kr. Hækkun úr 73 þús. kr. Ríkisstarfsmenn greiddu í fyrra af meðaltekjum sínum 99 þús. kr., en þeir munu greiða í sumar 146 þús. kr. Starfsmenn sveitarfélaga greiddu í fyrra 83 þús. kr. af sínum meðaltekjum, en munu í sumar greiða 122 þús. kr. Undirmenn á fiskiskipum greiddu í fyrra af sínum meðaltekjum 56 þús. kr., en munu greiða í sumar 90 þús. kr., hækkun úr 56 þús. kr. í 90 þús. kr. Og yfirmenn á fiskiskipum greiddu í fyrra 106 þús. kr., en munu í sumar greiða af sínum meðaltekjum 169 þús. kr. Hér er um að ræða samanburð á krónutölu heildarskattgreiðslu í fyrra og væntanlegri heildarskattgreiðslu í ár. Nú ber auðvitað að taka tillit til þess, að krónutekjur hækka milli áranna, þannig að í sjálfu sér er ekki óeðlilegt, að skattar manna hækki í krónutölu, og auknar skattbyrðar ber að sjálfsögðu ekki að mæla í hækkun krónutölu skatta á milli ára, heldur í hinu, eins og ég sagði áðan, hvort menn borga hlutfallslega meira af tekjum sínum í skatt á einu ári heldur en öðru. Ég skal ekki þreyta hv. þdm. með meiri talnalestri, en ef athuguð er hlutfallsleg skattgreiðsla þessara stétta af tekjum sínum í fyrra og væntanleg hlutfallsleg skattgreiðsla þeirra í ár, þá kemur í ljós, að hlutfallsleg skattgreiðsla tveggja stétta mun lækka eilítið, verkamanna að sjálfsögðu, þar sem beinlínis krónutala þeirra í skatti lækkar, og afgreiðslumanna í verzlunum, sem lækkar eilítið. En hlutfallsleg skattgreiðsla allra annarra launastétta í landinu mun aukast. M.ö.o., í sumar munu allar launastéttir í landinu nema verkamenn og afgreiðslumenn í verzlunum borga hærri prósentu, hærra hlutfall af tekjum sínum í skatt heldur en þeir gerðu í fyrrasumar. Og í sumum dæmum er þessi hækkun svo mikil, að hreint ranglæti verður að telja. Um ríkisstarfsmenn gildir það t.d., að þeir borguðu í fyrra af sínum tekjum 18.8%, en munu borga 22.1% af tekjum sínum í sumar samkv. frv. Og um undirmenn á fiskiskipum gildir það, að þeir borguðu í fyrra 13.1% af sínum tekjum í skatt, en munu í sumar samkv. frv. borga 16.8% í skatt og útsvar, hækkun úr 13.1 í 16.8%. Það er því engum blöðum um það að fletta, að skattbyrði almennings mun þyngjast mjög verulega í kjölfar samþykkta þessara frv. Er þetta í raun og veru staðreynd, sem er svo augljós, að mig hefur furðað mjög á þeim málflutningi hæstv. ríkisstj. og málgagna hennar, að halda því fram, að skattbyrði almennings muni nokkurn veginn verða hin sama í ár og áður, það sé ekki um umtalsverða breytingu að ræða, og eins og hæstv. félmrh. sagði áðan, að vekja þær vonir hjá láglaunafólki, að skattbyrði muni léttast í sumar, en hara hækka á einhverju fólki með breið bök. Ég satt að segja skil ekki, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur getað talið heppilegt fyrir sig að beita slíkum málflutningi, af því að hún hlýtur að vita rétt eins og við hinir vitum það, að þegar skattseðlarnir koma í sumar, þá verður niðurstaðan allt, allt, allt önnur. Ég hefði getað skilið ríkisstj., ef hún hefði beitt málflutningi eins og þeim að segja: Við erum með ný verkefni. Við höfum aukið almannatryggingar og við erum að gera og ætlum að gera þetta og hitt. Þess vegna er nauðsynlegt, að menn borgi meira í skatt en menn borguðu í fyrra. Þetta hefði verið heiðarlegur og drengilegur málflutningur, sem hefði vakið virðingu margra, sem annars eru ekki allt of hrifnir af hæstv. ríkisstj. En að beita hinum málflutningnum, sem hún hefur beitt, að reyna að telja almenningi trú um, að skattbyrðin muni ekki þyngjast og vita það, að dómurinn kemur eftir nokkra mánuði á skattseðlunum sjálfum, það er málflutningur, sem ég ekki skil.

Ég sagði, að annað atriði, sem jafnan ætti að athuga, þegar gagngerðar breytingar á skattalögum væru á döfinni, væri þetta, sem ég hef nú verið að gera að umtalsefni, hvort launafólki sé ætlað að borga óeðlilega mikla skatta, og þó einkum, hvort skattbyrðin sé að þyngjast miðað við það, sem áður var. Hitt atriðið, sem ég sagði, að jafnan ætti að keppa að, væri það að reyna að gera skattkerfið einfaldara en það var áður. Ég hygg, að almennt samkomulag sé um það, að skattkerfi íslenzku þjóðarinnar hafi í áratugi verið allt of flókið og það hafi verið vanrækt langa lengi að reyna að gera það einfaldara og stefna að því að gera það sem einfaldast. Mér er ljóst, að nokkur atriði í þessum frv. ganga einmitt í þá átt að gera skattkerfið einfaldara en það áður var, og þeim ákvörðunum fagna ég að sjálfsögðu. En eitt mjög stórt spor er þó stigið aftur á bak á þessu sviði að því er snertir einföldun skattkerfisins, og það einmitt í þessu frv., sem hér er nú til 1. umr. Í þessu frv. er nefnilega gert ráð fyrir því, að útsvör séu lögð á annan tekjugrundvöll en tekjuskattur, þar eð útsvörin eiga að verða brúttóskattur, en tekjuskatturinn að halda áfram að vera nettóskattur. Og þessi breyting er gerð, án þess að hugtakið brúttóskattur hafi verið vandlega skilgreint eða sýnt fram á, að það sé sanngjarn álagningargrundvöllur. Það hefur ekki heldur verið gerð nein tilraun til þess að bæta úr ágöllum nettótekjuhugtaksins í gildandi lögum, en þeir eru verulegir, þó að ég sjái ekki ástæðu til þess að fara út í það hér. Hið nýja skattkerfi, sem nú er boðað, gerir hér ráð fyrir tvenns konar grundvelli við álagningu opinberra gjalda, sem miðað er við tekjur, og verður skattkerfið við það auðvitað flóknara en það var áður, en ekki einfaldara.

Með hliðsjón af þessu mun það í n. verða aðaltill. mín, að þessu frv. verði vísað til ríkisstj. til nánari athugunar. Verði það ekki niðurstaðan, þá mun ég í n., sem ég á sæti í, heilbr.- og félmn., gera grein fyrir nokkrum breytingum, sem ég tel nauðsynlegt að gera á frv., en þær lúta fyrst og fremst að því að halda ýmsum frádrattarliðum, sem eru í gildandi útsvarslögum varðandi sjómenn og námsmenn, og mun ég að sjálfsögðu gera nánari grein fyrir því að fluttum till. við 2. umr. Þá tel ég einnig nauðsynlegt, að fallið sé frá þeirri fyrirætlun að afnema þau skatthlunnindi, sem gift kona, sem vinnur utan heimilis, hefur notið í því formi, að heimilt hefur verið að draga frá 50% af þeim tekjum, sem hún aflar sér við vinnu utan heimilis, því að enginn vafi er á því, að ef þetta ákvæði verður fellt niður úr útsvarslögum, þá mun útsvarsbyrði giftra kvenna, sem vinna utan heimilis, þyngjast mjög verulega og hætta verður á því, að atvinnuvegir þjóðarinnar missi mikilsvert vinnuafl. En það er að sjálfsögðu mjög skaðlegt. Raunar er ég þeirrar skoðunar, að þau ákvæði, sem í gildandi lögum eru til þess að ívilna giftum konum, sem vinna utan heimilis, séu ekki nægileg. Og í sambandi við tekju- og eignarskattsfrv., í sambandi við áskorun til ríkisstj. um að halda áfram endurskoðun skattalaga, þá setti ég fram hugmynd um það, að það yrði athugað af hálfu hæstv. ríkisstj., — slík athugun á þar heima, —hvort ekki væri unnt að bæta úr ágöllum, sem jafnvel nú eru á skattamálum hjóna, með því að gera hvort hjóna um sig að sjálfstæðum skattþegni, og flutti um þetta brtt.

Nú gerðist sá leiðinlegi atburður, að þegar þeirri till. var fyrst útbýtt, þá var henni útbýtt algerlega brenglaðri, því að í prentun hafði efni hennar farið algerlega í handaskolum. Af því að mér er sagt, að þetta hafi verið gert að umtalsefni á kvöldfundi hér s. I. þriðjudag, þá þykir mér rétt í örfáum orðum að skýra frá, hvernig slíkt og annað eins og þvílíkt gat gerzt. Skýringin er sú, að ég hafði samið brtt. í samráði við lögfræðing, sem er sérfróður um skattamál, brtt. allar og þ. á m. þessa. Við höfðum í upphafi hugsað okkur að hafa till. mun ítarlegri en okkur sýndist svo seinna ráðlegt að hafa hana. Með því móti yrði málið of flókið og of torskilið, svo að við styttum till. mjög í handriti með útstrikunum á mörgum setningum. Mér er alveg ljóst, að það handrit var ekki nógu gott. Ég afhenti það fyrir hádegi á laugardag inn til skrifstofunnar, en okkur kom saman um, að það væri öruggara, vegna þess að bæði væri málið flókið og hins vegar handritið ekki gott vegna útstrikana, að ég læsi yfir próförk af brtt. En þá gerist það um helgina, að ég veikist af inflúensu og las því ekki próförkina og satt að segja hugsaði ekki heldur út í það, hreinlega gleymdi því að biðja einhvern annan um að gera það í staðinn fyrir mig, þannig að það gerist, að þessari brtt. er útbýtt þannig, að hún var auðvitað hverjum viti bornum manni gersamlega óskiljanleg, og á því hlaut hver einasti maður að átta sig, vegna þess að gerð var grein fyrir efni till. í nál. mínu og þar var till. skýrð. Þar hafði handritið verið fullkomlega vélritað og gott, þannig að það átti engum góðviljuðum manni með fullu viti að geta blandazt hugur um, að hér væri um að ræða prentvillu, rugling í prentun. Enda fór það svo, að skrifstofan leiðrétti þetta sjálf og till. var réttri útbýtt, áður en til atkvgr. kom við 2. umr. Ég man ekki eftir því áður, að prentvillur, jafnvel þótt meinlegar séu, hafi verið gerðar að uppistöðu í ræðum. Ég fjölyrði ekki um þetta meir, en hefði mér verið sagt það áður, að það gæti komið fyrir, að þm., jafnvel ráðh., gerði sér leik að því að snúa, auðvitað vitandi vits, út úr augljósum prentvillum, þá hefði ég sagt fyrir fram, að slíkt væri óhugsandi á Alþingi Íslendinga. En maður verður reynslunni ríkari. Og þar með er þetta mál útrætt af minni hálfu.

Ég skal að síðustu fallast á þau tilmæli hæstv. félmrh. fyrir hönd míns flokks að hraða þessu máli í gegnum þessa hv. d., hraða störfum í n., sem ég á sæti í, og sjá til þess, að málið verði ekki fyrir neinum óeðlilegum töfum. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að málið er þrautrætt í samvinnu beggja n., bæði fjhn. og heilbr.- og félmn., og hef ég enga trú á öðru en að n. geti lokið málinu á mjög skömmum tíma. A.m.k. skal ég stuðla að því, að svo geti orðið.