13.03.1972
Neðri deild: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. benti á það réttilega í framsöguræðu sinni, að hér væri um verulegar grundvallarbreytingar að ræða varðandi lög um tekjuöflun sveitarfélaga. Það er því eðlilegt, að þeir, sem við sveitarstjórnarmál fást, reyni að gera sér grein fyrir, hvernig þessar breytingar koma út í stórum dráttum. Það þarf því ekki að vera óeðlilegt, þó að ég hafi farið þá leið að afla mér fyrst og fremst upplýsinga frá því sveitarfélagi, sem ég er búsettur í, og þar sem ég hef um nokkuð langt árabil verið öllum hnútum kunnugur, til þess að reyna að sjá og gera mér grein fyrir. hvernig breytingarnar verka þar.

Varðandi þá höfuðbreytingu að hverfa frá stighækkandi útsvarsálögum á nettótekjur og yfir til einnar ákveðinnar prósentu á brúttótekjur sýnist mér, að fyrir einstaklinga í þessu sveitarfélagi í heild skipti það litlu máli. Brúttótekjur voru þar árið 1971 720 millj. kr. og álögð tekjuútsvör einstaklinga 67.3 millj. og hafði þá verið dreginn frá 6% afsláttur, sem sveitarfélagið var bundið af að gefa vegna fyrirmæla í lögum um stöðvun verðlags. Ég hygg þó, að það eigi eftir að sýna sig, að innbyrðis milli einstaklinga verður þarna veruleg breyting á. Ég þykist sjá það í hendi mér, að gjaldendum muni fjölga verulega í þessu sveitarfélagi, sem þar með þýðir það, að nú greiði ýmsir útsvar, sem ekki hafa greitt útsvar þar áður, þ.e.a.s. að þarna komi inn lægstu tekjurnar, sem verða útsvarsskyldar nú, þó að ekki hafi verið lögð útsvör á þær áður.

Þetta hefur auðsýnilega einnig í för með sér skerðingu fyrir tvo starfshópa, en það eru sjómenn og giftar konur. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. sjútvrh. vilji halda því fram, að 8% hækkun á sjómannafrádrættinum vegi þarna á móti. Ég tel, að svo sé ekki, því að mér er kunnugt um það eins og honum, að hann gaf um það ákveðið loforð, þegar verið var að leysa sjómannadeiluna, að sjómannafrádráttur skyldi hækka allverulega, eins og hann mun hafa orðað það við þá aðila, sem það loforð fengu hjá honum. Ég tel því, að þarna verði um að ræða beina hækkun útsvara á sjómannastéttinni, og tel ég það mjög illa farið og stefna í alveg öfuga átt. Ég tel einnig, að stefnt sé í öfuga átt með því að skerða þau hlunnindi, sem giftar konur hafa haft, sem unnið hafa úti, með því að fá einnig við álagningu útsvara frádregin 50% af tekjum sínum.

Ég hygg, að rétt sé fyrir hæstv. ríkisstj. að gera sér grein fyrir, hvað er að gerast í þjóðfélaginu einmitt varðandi framleiðslustéttirnar. Það hefur aldrei borið meira á því en einmitt núna eða á vetrarvertiðinni 1972, að það er að verða erfiðara að fá fólk til starfa í þessari atvinnugrein heldur en nokkurn tíma hefur verið áður. Ég hef beinlínis orðið var við gremju þess fólks, sem áður naut þessara hlunninda. Giftar konur, sem hafa unnið úti, hafa sagt, að þeim dytti bara ekki í hug að vera að leggja þetta á sig, ef starf þeirra væri ekki metið meira en svo, að þegar til skattlagabreytinga kæmi væru þær þar alveg sniðgengnar og þeirra álögur hækkaðar í staðinn fyrir það, sem hæstv. ríkisstj. heldur fram, að það sé verið að lækka skattana. Það þarf ekkert að vera með neinar rökræður um það, hvernig fara muni, ef verulegur samdráttur verður hjá þessum höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar, vegna þess að fólk fæst í minnkandi mæli til starfa við þessar atvinnugreinar. Þetta er undirstaðan, eins og allir vita, og mundi það hafa mjög uggvænlegar afleiðingar í för með sér fyrir þjóðarheildina, ef samdráttur yrði.

Þá er það ein breyting, sem þarna á sér stað í samhandi við niðurjöfnun útsvara, en hún er sú, að nú er fellt niður að leggja útsvar til sveitarfélags á félög og ýmsa aðra aðila. Í 28. gr. gildandi laga um tekjustofna sveitarfélaga er það sundurliðað í fimm liðum, á hverja beri að leggja útsvar. Það er fyrst og fremst á alla, sem lögheimili eiga hér á landi samkv. lögum nr. 35/1960, um lögheimili. Þessi liður er einnig látinn halda sér í því tekjufrv., sem nú er lagt hér fyrir. B-liðurinn er um hlutafélög og önnur félög. C-liðurinn í þessari gr. er um sjóði og stofnanir, sem reka atvinnu, svo og dánarbú og þrotabú. D-liðurinn er um útlendinga, útsvarsskyldu útlendinga, sem stunda atvinnu hér vissan tíma árs, og e-liðurinn er um aðra aðila, sem ekki hafa lögheimili eða aðsetur hér á landi, en reka hér atvinnu eða eiga hér arðbærar eignir. Mér sýnist þetta muni geta komið hálf ankannalega út hjá sveitarfélögunum. Við skulum hugsa okkur tvo kaupmenn, sem reka verzlun hlið við hlið. Annar rekur verzlunina á sínu eigin nafni, hinn hefur sett á hlutafélagsform með sér og sinni fjölskyldu. Öðrum ber að greiða tekjuútsvar til sveitarfélagsins, hinum ber að greiða aðeins tekjuskatt til ríkisins. Það má hugsa sér stærri atvinnurekstur, fiskvinnslustöð, þar sem eigandinn er sjálfur talinn fyrir atvinnufyrirtækinu, en önnur stöð er við hliðina, sem er í hlutafélagsformi. Það er nákvæmlega sama þar, að annarri stöðinni ber að greiða útsvar, tekjuútsvar til sveitarfélagsins, en hinni ber aðeins að greiða tekjuskatt til ríkisins. Ég hygg, að þetta muni valda óþarfa deilum innbyrðis og vera síður en svo til bóta í sambandi við þá breytingu, sem nú er fyrirhugað að gera, og vildi ég benda þeirri hv. n., sem þetta frv. fær til meðferðar, á að skoða þessi atriði sérstaklega.

Mér sýnist eftir frv., að t.d. útlendingar, sem hér koma og vinna og fram að þessu hafa verið útsvarsskyldir og eru samkv. gildandi lögum, séu ekki lengur skyldaðir til þess að borga útsvar til sveitarsjóðs, þar sem frv. gerir aðeins ráð fyrir, — 21. gr. þess — að hver maður skuli greiða útsvar til þess sveitarfélags, sem hann átti lögheimili í næstliðinn 1. des. samkv. þjóðskrá, eftir því sem nánar er ákveðið í lögunum, en ekki er talað um aðra aðila en þá, sem lögheimili eiga 1. des. Þó að þetta skipti kannske ekki miklu máli, þá er það þó svo, að fyrir sum sveitarfélög hefur þetta þýtt nokkrar tekjur, og víst er það, að Íslendingar, sem vinna erlendis, verða að greiða útsvar til þeirra sveitarfélaga, sem þeir starfa í, það er mér alveg kunnugt um, þannig að þá fá útlendingar, sem hér vinna, aðra aðstöðu en Íslendingar, sem erlendis vinna. Það má vel vera, að þetta verði til þess að laða að okkur vinnukraft, sem okkur vantar, og ef það yrði til þess, þá má segja, að eitt hefur það þó gott í för með sér.

Ég vil aðeins víkja nokkrum orðum að aðstöðugjaldinu. Það er vitað, að þegar lög um tekjustofna sveitarfélaga voru lögfest 1954, ef ég man rétt, var það í gildi hér á landi, hvort sem það studdist nú við lög eða ekki, að ýmis sveitarfélög lögðu á hið svo kallaða veltuútsvar. Var það mjög mismunandi eftir sveitarfélögum og má segja, að sums staðar hafi þetta verið komið kannske út í nokkrar öfgar, þar sem ég minnist þess, að í einstaka tilfellum var lagt allt upp í 4% á brúttótekjur nokkurra tiltekinna aðila, sem talið var að væru þess umkomnir að bera það hátt veltuútsvar af atvinnurekstri sínum. Með lögunum 1954 var hið svo kallaða aðstöðugjald lögfest, sem kom í staðinn fyrir veltuútsvörin. Þetta var þá þegar nokkuð umdeildur tekjustofn fyrir sveitarfélögin en sú nefnd, sem þau lög samdi, gat ekki orðið sammála og gat ekki fundið annan tekjustofn, sem talinn var eðlilegri eða heppilegri. Eins og frv. var lagt fram nú og hér hefur verið bent á, var hugmynd þeirra aðila, sem það sömdu, að stefna að því að afnema veltuútsvarið og taka þá gjöld af atvinnurekstrinum í fasteignasköttum. Það má segja, að þetta er sjónarmið út af fyrir sig, þó að að sjálfsögðu sé mjög um það hægt að deila, hvort sé eðlilegra eða hvort sé heppilegra og hvort sé betra fyrir atvinnureksturinn, þegar á reynir.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um aðstöðugjaldið, en eitt vildi ég mjög undirstrika, sem hér kom fram hjá einum hv. ræðumanni, og það er það, að ég ætla að vonast til þess, að Alþ. láti það ekki henda sig að fara að lögfesta hámarksheimild til handa sveitaryfirvöldum til þess að leggja á aðstöðugjöld mismunandi í hverju sveitarfélagi. Það er vitað, að sveitarfélögin hafa ekki öll notfært sér þá heimild, sem nú er í lögum til hámarksálagningar, en það hefur verið þeirra mat, hvað mikið þau hafa talið sig þurfa að nota af þeirri heimild, sem þeim er gefin í sambandi við álagningu aðstöðugjaldanna. En ef Alþ. ætlar að lögfesta það, að það skuli vera misjöfn aðstöðugjöld í sveitarfélögunum, tel ég það vera alranga stefnu og ekki geta samrýmzt þeirri þróun, sem eðlilega er að verða í skattamálum, að þar skuli aðstaða allra aðila vera sem jöfnust.

Þessi hugmynd, að draga úr aðstöðugjöldunum og taka í staðinn upp fasteignaskatta af atvinnurekstrinum, hefur að sjálfsögðu verið rædd og verður án efa til umr. frekar bæði nú og síðar. Þetta er gamalt mál sveitarfélaga og þeirra, sem þar ráða, hvernig hagkvæmt sé að taka inn tekjur handa sveitarfélögunum. En þarna hygg ég, að muni gæta mjög mikils misræmis, einnig í sambandi við álögur þessa skatts. Ég skal sleppa því, sem hér hefur verið bent á, en hefur þó alltaf í mínum augum verið mjög mikill ókostur við að leggja á háa fasteignaskatta, en það er það, að þetta hittir tvær stéttir þjóðfélagsins mjög illa. Það er í fyrsta lagi unga fólkið, sem á hverjum tíma er að byggja, er ávallt með íbúðir, sem eru hatt virtar til fasteignaskatts, skuldar mikið í þeim, eins og í flestum tilfellum mun vera, og á yfir höfði sér ofan á hið háa fasteignamat að fá mjög háan fasteignaskatt, þannig að þetta er ákaflega þungur haggi og dregur úr mönnum að ráðast í byggingu íbúða kannske af þeirri stærð og þeim dýrleika, sem þeir annars hefðu óskað eftir. Hins vegar hittir þetta einnig mjög illa margt eldra fólk, sem hefur kannske alla sína ævi búið í sæmilega góðum íbúðum, eins og hér hefur verið bent á, verið með nokkuð stóra fjölskyldu og eignazt íbúð í samræmi við það. En eftir að hjón, eldri hjón eru kannske orðin tvö ein í íbúðinni er þeim sárt, sem eðlilegt er, að þurfa að losa sig við þetta heimili sitt og flytja í aðra minni íbúð, kýs heldur að hafa rúmt um sig. Og margt af þessu fólki er þegar kannske orðið tekjulítið, lifir á ellilaunum eða tekjur þess hafa dregizt saman af eðlilegum ástæðum vegna minnkandi vinnu, og þess vegna hittir hækkandi fasteignaskattur þessa aðila einnig mjög illa.

Þetta er að mínum dómi mesti gallinn við það að innheimta stóran hluta af tekjum sveitarsjóðs í fasteignasköttum, að þessir tveir aðilar verða fyrst og fremst fyrir barðinu á þeirri tekjuinnheimtu.

Ég fór að gera mér grein fyrir, hvernig þessi breyting, hækkun fasteignaskatta, lækkun aðstöðugjalda, mundi verka fyrir fiskiðnaðinn, því að hann er sá höfuðatvinnuvegur, sem þjóðin byggir afkomu sína á, og þess vegna er eðlilegt, að maður reyni að gera sér grein fyrir, hvernig opinberar álögur verka á hann. Mér sýnist, miðað t.d. við fasteignamat á fiskvinnslustöðvunum í Vestmannaeyjum, sem eru í stærri flokknum af fiskvinnslustöðvum hér á landi, að þá skipti þetta í sjálfu sér engu máli, hvort hækkun fasteignaskattanna vegi upp lækkun aðstöðugjaldsins. Ef heimildin er notuð að fullu, eins og ég hygg, að muni verða gert, þá komi út í krónutölu nokkurn veginn svipað og áður var, meðan gamli fasteignaskatturinn var í gildi og aðstöðugjöldin eins og þau voru áður. En það er alveg auðséð, að margir aðrir aðilar, sem kannske hafa verulega veltu í húsnæði, sem er lágt að fasteignamati, eða eru í leiguhúsnæði, þar sem leigan hækkar ekki í samræmi við hækkun fasteignamatsins, þeir náttúrlega þéna á þessu. Og þar sem það er, þar á sér auðvitað stað tilfærsla á útgjöldum til sveitarfélagsins milli launþega og atvinnureksturs. Það má vel vera, að þetta sé eðlilegt og nauðsynlegt, og ætla ég ekki að fjölyrða um það, enda hef ég ekki kynnt mér svo náið, hvernig það annars kemur út, en mer finnst þetta þó liggja í augum uppi.

En það er eitt atriði í sambandi við fasteignaskattinn, sem kemur upp í mínum huga og ég vildi biðja þá hv. n., sem fær frv. til athugunar, að skoða nokkuð. Við skulum segja, að ein fiskvinnslustöð af meðalstærð muni í dag vera metin á um 50 millj. kr. — ég hef þær upplýsingar í þessu sambandi, að það muni vera eðlilegt fasteignamat á meðalstóru hraðfrystihúsl. — Ef heimildin er notuð til hækkunar fasteignaskattsins, eins og ég hygg að flest sveitarfélög muni fara inn á að gera, a.m.k. af atvinnurekstrinum, þá þýðir það, að þessi stöð á að borga 750 þús. kr. á ári í fasteignaskatt. Hvernig lítur þetta út t.d. fyrir lánastofnanir, þá sem þurfa að lána þessu fyrirtæki fé? Samkv. frv. eins og það er í dag er lögveð í eignunum til innheimtu á skattinum. Og hvernig lítur þetta þá út fyrir lánastofnanir, þegar það liggur alveg ljóst fyrir, að ef þetta fyrirtæki lendir í rekstrarörðugleikum og þar með greiðsluörðugleikum, geta sveitarfélögin komið og innheimt við skulum segja tveggja ára fasteignaskatt, 11/2 millj. kr. af þessu fyrirtæki og það er lögveð í eigninni? Auðvitað hljóta þeir, sem eiga veð í eigninni, að vera í hættu með að tapa sínu fé, ef illa fer, enda hljóta þeir kannske að meta það og gera það upp við sig, hvort þeir ekki verða að innleysa sín veð og yfirtaka eignina. Þeir eru þá í þessu tilfelli að byrja á því að leysa út 1.5 millj. kr. í lögveðsfasteignaskatti af fyrirtækinu.

Ég vil biðja þá n., sem fær þetta mál til athugunar, að skoða þetta atriði, hvort þetta getur ekki verið mjög neikvætt fyrir atvinnureksturinn, ef þessi kvöð verður sett á. En auðvitað verður ekki komizt hjá því með hækkuðum fasteignagjöldum, að þá hlýtur fasteignagjaldi að fylgja lögveðsréttur, og hefur alltaf verið og það er gert ráð fyrir því í frv., en þetta geta orðið afleiðingarnar, að ef fyrirtækið lendir í rekstrarörðugleikum og greiðsluörðugleikum, verða lánveitendur að gera það upp við sig, annaðhvort að tapa sínum lánum eða leysa inn fyrirtækið til sín með þessari upphæð, sem ég hef hér bent á.

Mér kæmi ekki á óvart, þó að þetta mundi skerða aðstöðu þessara atvinnufyrirtækja í sambandi við lanafyrirgreiðslu, sérstaklega þegar komið er niður fyrir 1. og 2. veðrétt.

Það er ein grein í frv., sem ég hefði viljað biðja hæstv. félmrh. að gera nánari grein fyrir. Það getur vel verið, að þetta sé misskilningur hjá mér, en það er 34. gr. Hvernig ber að skilja hana? Ég verð að viðurkenna, að mér er ekki almennilega ljóst, hvernig ber að skilja þá grein. Hún hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú þykir sýnt, að innheimtar tekjur hrökkvi ekki til greiðslu gjalda á reikningsárinu, og getur þá sveitarstjórn ákveðið hækkun álagðra útsvara, sem svarar því, sem á vantar, þannig að öll útsvör verði hækkuð eftir ákveðnu hundraðshlutfalli. Álögð útsvör, að viðbættri hækkun, mega ekki hærri vera en fyrir er mælt í 25. gr.

En 25. gr. er um það, að hvaða hámarki beri að leggja útsvörin á. Það, sem mér er ekki ljóst, er, hvað átt er við með því, að ef innheimtar tekjur hrökkvi ekki til greiðslu gjalda, hafi sveitarstjórn heimild til þess að ákveða hækkun álagðra útsvara, sem svarar því, sem á vantar, þó innan þess ramma, sem um getur í 2. málsgr. Mér finnst þetta stangast á, en það má vel vera, að þetta sé misskilningur hjá mér. Geri ég þá ráð fyrir, að hæstv. ráðh. geti leiðrétt það eða gert grein fyrir því, og væri mér það kærkomið.

Ég skal nú láta staðar numið. Þetta frv. kemur til umr., eftir að það hefur fengið skoðun í n., og gefst þá tækifæri til frekari umr. um það, ef tilefni sýnist til þess.