13.03.1972
Neðri deild: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Að sjálfsögðu hafa stjórnarandstæðingar nú rætt frv. um tekjustofna sveitarfélaga og komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri óburður hinn mesti, ekki í húsum hæfur og væri hægt að finna því allt til foráttu, þ. á m. það tvennt, að þetta væri skattpíningarfrv. af fyrstu gráðu, og jafnframt, að það veitti samt ófullnægjandi tekjur handa sveitarfélögunum. En þá kem ég nú ekki endunum saman þrátt fyrir allar góðar útskýringar á málflutningnum.

Það er, eins og ég sagði í minni framsöguræðu, fjöldi manns, sem fæst við að reikna dæmið, gefur sér ákveðna forsendu og fær þá útkomu, sem hver vill, og síðan er ekki svo auðvelt að fá sameiginlegar niðurstöður. Menn tala nú mjög mikið, og það gerði hv. 7. þm. Reykv., um skattvísitöluna, sem væri allt of lágt áætluð. Á undanförnum árum var það höfuðdeiluefnið milli Sjálfstfl. og Framsfl. og raunar Alþfl. líka, að skattvísitalan væri ekki rétt, hún mældi ekki þær verðlagshækkanir, sem yrðu, og væri röng. Nú er því sama haldið fram, skattvísitalan röng, en nú eru það aftur stjórnarsinnarnir gömlu, fulltrúar fyrrv. ríkisstj„ sem komast að þeirri niðurstöðu, að hún eigi ekki að vera lág, hún eigi að hækka, taka risaskref, hún eigi að fara a.m.k. upp í 121.5 í staðinn fyrir 106.5, sem nú er miðað við. Svona veldur það miklu, hver á heldur.

Það var ekki mjög auðvelt að fá Sjálfstfl. og Alþfl. inn á röksemdir framsóknarmanna varðandi skattvísitölu meðan fyrrv. stjórn sat að völdum. En nú virðist hv. 7. þm. Reykv. vera búinn að tileinka sér fyrri kenningar framsóknarmanna um þetta töfralyf, skattvísitöluna. Ég er alveg sannfærður um það, að hún er enginn kínalífselexír, skattvísitalan, eða hvernig hún er ákveðin. Hitt er mér ljóst, að mikil hækkun skattvísitölu mundi verða til þess að vernda mjög hina stærri skattborgara, og þar liggur hundurinn grafinn. Það vilja menn fá. Það, sem þyrfti aftur til þess að vernda betur hina lægst launuðu, það er að hækka persónufrádrátt í skattalöggjöfinni, og það kostar ríkið miklu minna að gera það, léttir á þeim. sem mest þurfa á létti að halda, en veður ekki upp í gegnum allt skattkerfið með skattalækkanir.

Hv. 7. þm. Reykv. var með tvær aðferðir til þess að komast að sannleikanum um galla þessa frv. Og hann sagði. að sú síðari væri einfaldari og auðskildari. Það má vel vera, að hún sé það. Hún var í því fólgin, sú aðferðin. að menn skyldu hara sjá, hversu miklu hærra útsvar þeir fengju í ár heldur en í fyrra. Þá verða menn auðvitað líka að taka tillit til þess, hversu miklu hærri tekjur manna eru í ár heldur en í fyrra og láta þá reikna tekjurnar í ár út eftir gamla kerfinu og því nýja. Þá er ég alveg með á nótunum, ef það á að gera það þannig. En bezt held ég, að sé fyrir okkur alla að bíða hara eftir því, sem út kemur, og láta reynsluna skera úr.

Líka fór hv. 7. þm. Reykv. að reikna út, hvernig þetta kæmi út að því er snertir sveitarfélögin. Og þá komst hann að þeirri niðurstöðu, að ef hann reiknaði með því, að meðaltalið yrði 10.5%, útsvarsupphæðin 10.5%, — ekki alveg í toppi, hann ætlaði að vera svo sanngjarn, ekki 11%, en 10.5, það væri við hæfi, — og þá fékk hann það út, að verkamenn eða fólk með verkamannatekjur mundi lækka í sköttum, en allar aðrar stéttir mundu hækka. Ríkisstarfsmenn gat hann tekið alveg í einni visk, svo ósamstæðir sem þeir eru, og komst að þeirri niðurstöðu, að þeir mundu verða grálega leiknir. Ég held, að bókstaflega sé ekkert að marka þessar bollaleggingar, þó að þær séu fram settar í tölum. Og styrkist ég þá enn í þeirri trú, sem ég hef lengi haft, og hún er sú, að séra Guðmundur Guðmundsson frá Gufudal, sá spaki maður, hafi haft rétt fyrir sér, þegar hann sagði fyrir mörgum áratugum síðan: „Ekkert er eins auðvelt og að ljúga með tölum.“ Og það kunna þeir hér ekkert síður en annars staðar.

Einu er ég alveg sammála hv. 7. þm. Reykv. í, og það er það, að það er ekki heppilegt fyrir okkur í stjórnarflokkunum að gera lítið úr þeim sköttum, sem fólk verður látið bera samkv. hinni væntanlegu löggjöf. Það vil ég heldur ekki gera. Ég segi, það verður ekki hér um neinar skattalækkanir að ræða. En þeir færast til, þeir verða lægri á hinum tekjuminni, þeir verða þyngri á hinum tekjumeiri. Og ég vil bara draga upp rétta mynd af þessu, því að það er rétt, að það gæti verið óheppilegt fyrir stjórnina að fá þann skell á sig að vera búin að gylla þetta fyrir fólki og svo blasir veruleikinn við eftir nokkra mánuði og væri þá miklu óhagstæðari og verri heldur en við hefðum sagt. Þetta væru því óskynsamleg vinnubrögð af hendi stjórnarinnar. En ég er afskaplega ánægður með þau vinnubrögð stjórnarandstöðunnar, að þeir ýki sem allra mest hina væntanlegu skattbyrði, máli djöfulinn á veggi í öllum áttum og hræði fólk sem allra mest, því að það leiðir til þess, að fólk segir, þegar skattseðillinn kemur: Nú, það er þó ekki verra en þetta. Þeir voru búnir að segja okkur jafnvel, að það yrði miklu verra. Þetta er ágætur stuðningur við stjórnina, og ég þakka fyrir það.

Það var talið til kosta skattkerfinu, ef það yrði einfaldara, og hv. 7. þm. Reykv. viðurkenndi, að að nokkru leyti væri það svo, að með skattafrv. stjórnarinnar væri skattkerfið í einstökum atriðum nokkru einfaldara.

Hinn formaður stjórnarandstöðunnar, hv. 1. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, ræddi líka um þetta frv. og hafði um það mörg ófögur orð, taldi þetta vera mikið flaustursverk, væti stjórninni til smánar, það þyrfti að umsmiða þetta o. s. frv. Ég vænti þess þá, að þeir, sem sjá þessi feiknamissmíði á frv., láti það sjást í sínum till., að þeir vilji smíða þennan grip upp á nýtt og endurbæta hann. Ekki sá ég mikið af þeim tilburðum í till. sjálfstæðismanna í hv. Ed. Það var hið mesta fjaðrafok, þær till., sem þeir komu með, eftir að þeir höfðu fengið sólarhringsfrest til undirbúnings að búa út till. Það var reytingur sitt úr hvorri áttinni, og hefði áreiðanlega ekki orðið til þess að umbæta frv. í heild, ef það tillögusafn hefði fengizt samþ., sem reyndar varð nú ekki.

Í stað þess að ræða um missmíðin á frv., fór hv. 1. þm. Reykv. síðan að tala um vinnubrögðin í sambandi við frv., sagði m.a., að stjórnarflokkarnir hefðu svikizt um að hafa samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og þar fram eftir götunum. Þetta er þó ekki rétt. Það voru menn fengnir til þess að semja frv. um tekjustofna sveitarfélaga, sem voru mjög nákomnir Sambandi ísl. sveitarfélaga, fulltrúi úr fulltrúaráði þess átti þar sæti og einn hv. þm. hér játaði það áðan, að það hefðu a.m.k. verið haldnir einir fjórir sameiginlegir fundir með Sambandi ísl. sveitarfélaga til þess að ræða málin við fulltrúa sambandsins á ýmsum stigum þess. Og þetta var sannarlega gert svona. Það var unnið að undirbúningi málsins í nánu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga og með fulltrúum frá Reykjavíkurborg, sem einnig voru til kvaddir.

Hv. 1. þm. Reykv. komst að sömu niðurstöðu og hv. 7. þm. Reykv., að hér væri um gífurlega skattpíningu að ræða, og það orðalag notaði hann einmitt. Hann sá fleira, sem honum þótti mjög miður fara, eins og það, að sjómannafrádráttur væri skertur. Mér þætti nú afar fróðlegt að heyra það, með hvaða hætti það er gert í þessu frv. eða frv. um tekju- og eignarskatt. Þar eru skattfríðindi sjómanna aukin stórlega og ekki haggað við neinum þeim réttindum sem sjómenn hafa, svo að þetta er hreint öfugmæli. Þessi hv. þm. komst líka að því, að það væri verið að níðast á ekkjum og að manni skildist líka helzt munaðarleysingjum, en Gylfi Þ. Gíslason, hv. 7. þm. Reykv., hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að það yrði skattaléttir á venjulegum verkamannatekjum. Það yrðu þá a.m.k. að vera nokkuð auðugar ekkjur, sem yrðu þunglega fyrir barðinu á þessu frv., og má vera, að hv. þm. hafi einhverjar slíkar í huga.

Eitt sagði hv. 1. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, sem ég er honum nokkurn veginn sammála um. Aðstaða sveitarfélaga verður mjög misjöfn. Þetta er rétt. Aðstaða sveitarfélaganna hefur verið, er og verður mjög misjöfn, og það verður ekki lagað með einu eða neinu skattafrv. Það getur vel verið, að það verði örfá sveitarfélög, sem fá engan afgang, þó að þau fái allar þær heimildir til skattpíningar, sem menn hér nefna svo, og leggi á alveg eftir ýtrustu ákvæðum frv. En það verða líka mörg, mjög mörg sveitarfélög, sem ekkert hafa að gera með heimildir frv. og þurfa vafalaust ekki að leggja meira á en 5, 6 eða 7%, þurfa alls ekki að fara neitt í námunda við 10%. Þetta byggist á því, að þetta er allt saman heimilt í frv., að byrja hvar sem er á þessum stiga upp að 10. Sum þurfa áreiðanlega ekki meira en 5, 6 eða 7%. En önnur þurfa vafalaust að nota 10% heimildina og jafnvel álagsheimildina líka. En þetta frv. er það rúmt, að þarna á að vera nóg rúm fyrir öll sveitarfélögin. En þar sem þessi hv. þm. hafði fyrst og fremst haft stór orð um skattpíninguna og fullyrðir síðan, að það vanti á hjá sumum sveitarfélögunum og þau verði hart leikin, þá segi ég, ekki verður þó hægt að bæta úr því með því að draga úr skattpíningunni. Ef bæta á úr þörfum einstakra sveitarfélaga, sem ekki fá nægar tekjur, þá verður að auka skattpíninguna, svo að þessu kem ég ekki saman.

Hv. 1. þm. Reykv. las upp úr samþykkt fulltrúaráðs Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég gæti líka mætt hér með annað plagg frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, sem var niðurstaðan af ráðstefnu, sem Samband ísl. sveitarfélaga hélt um þetta frv., um tekjustofna sveitarfélaganna. Og sú niðurstaða frá þeirri ráðstefnu var jákvæð.

Þessi ráðstefna Sambands ísl. sveitarfélaga lýsti því yfir, að hún teldi frv. í meginatriðum stefna í rétta átt, enda eru mörg atriða í þessu frv., sem beint eru jákvætt svar við eldri og nýrri óskum Sambands ísl. sveitarfélaga varðandi skattalög. Þ. á m. er ákvörðunin um útsvörin. Það er að óskum Sambands ísl. sveitarfélaga, að létt er af sveitarfélögunum gjaldaliðum, sem sveitarfélögin eru ekki ákvarðandi aðili um, eins og t.d. löggæzlukostnaðinum og tryggingunum, og við þessum óskum er orðið. Að vísu hefur Samband ísl. sveitarfélaga látið uppi margar aðrar óskir, sem ekki er fullnægt með þessu frv., en sem sannarlega er ekki útilokað, að litið verði á við framhaldsendurskoðun málsins, eins og t.d. að ætla sveitarfélögunum einhver þau verkefni, sem nú eru á höndum ríkisins, en þætti betur fara, að sveitarfélögin hefðu sjálf með að gera. Það getur vel komið til mála.

Þá er komið að því, sem hv. 11. landsk. þm., Ólafur G. Einarsson, vék að. Hann taldi einmitt, að það þyrfti að framkvæma gagngera endurskoðun á verkefnaskiptingunni í þá átt, sem sveitarfélögin hefðu áður óskað, og það er áreiðanlegt, að á það verkefni verður litið, þó að það sé alls ekki auðvelt að koma því eingöngu í verk í sambandi við skattalög. En hv. 11. landsk. þm. komst að þeirri niðurstöðu, að það bæri miklu fremur að hafa áhyggjur af því, hvernig hagsmunum sveitarfélaganna yrði borgið með þessari löggjöf. Þar er ég honum sammála. Það er miklu meiri ástæða til þess að óttast það, að teflt sé á tæpasta vað í einstökum tilfellum varðandi það atriði að sjá hag sveitarfélaganna nægilega vel borgið, heldur en hins að vera að staglast á skattníðslunni, sem ætti þá að gefa gífurlegar tekjur, þannig að sveitarfélögin böðuðu í rósum. Því er ekki til að dreifa. Skattníðslubrigzlunum vísa ég alveg á bug.

Þessi hv. þm. fullyrti, að tekjuskerðing sveitarfélaganna yrði gífurleg og sum þeirra yrðu mjög hart úti. Hvernig skyldi vera hægt að koma þessum fullyrðingum hans saman við fullyrðingar forustumanna bæði Sjálfstfl. og Alþfl. um skattníðsluna? Þarna er það eins og þjóðskáldið Jón Þorláksson á Bægisá sagði:

„Eitt rekur sig á annars horn, eins og graðpening hendir vorn.“

Hv. 5. þm. Norðurl. e. bar fram spurningar um skilgreiningu frv. á brúttótekjum, sem útsvörin skulu leggjast á eftir. Það er nú ekki mikið nýjabragð að þessari lagasetningu, því að að því er þetta snertir er í IV. kafla frv. vitnað í gildandi lagaákvæði. Um þetta er fjallað í 21.–23. gr. frv. og vitnað í eldri lagaákvæði. Og ef þau hafa skilizt fram til þessa, þá vænti ég, að einhverjum takist að skilja þau nú og framvegis, því að þau eru óbreytt. Hér segir, með leyfi hæstv. forseta, það er IV. kaflinn um útsvör:

„Hver maður skal greiða útsvar til þess sveitarfélags, sem hann átti lögheimili í næstliðinn 1. des. samkv. þjóðskrá, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum þessum.“

Næsta gr.: „Útsvarsskyldir eru þeir, sem um ræðir í 1.–4. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 68 15. júní 1971, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og lög nr. 22 frá 9. marz 1956, um skatt- og útsvarsgreiðslur útlendinga, gjaldenda, sem eru á förum úr landi o.fl.“

Og 23. gr.: „Útsvar skal leggja á þær tekjur, sem

taldar eru í 7. gr. laga nr. 68 15. júní 1971, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. þó 10. gr. þeirra laga. Frá tekjum þessum skal draga gjöld þau, sem talin eru í 11. gr. A-lið, B-lið 1. mgr. og C-lið, sbr. 15. gr. laga nr. 68/1971, hjá þeim, sem atvinnu reka eða sjálfstæða starfsemi í eigin nafni, þó ekki útleigu íbúðarhúsnæðis. Frádráttur skal þó aldrei hærri vera hjá gjaldanda en tekjur hans af atvinnurekstri og starfsemi. Enn fremur skal draga frá tekjunum eigin húsaleigu og skyldusparnað, sbr. 11. gr. laga nr. 30/1970.“

Hér er eingöngu vitnað til eldri laga, sem verið hafa í gildi, að því einu undanskildu, að hér er ákveðið, að tekjur af eigin húsaleigu og skyldusparnaði skuli dragast frá. Það er nýtt ákvæði, sem kom inn núna í meðferð hv. heilbr.- og félmn. Ed.

Ég endurtek það, að hafi þessi ákvæði skilizt áður, þá ætti að vera möguleiki á að skilja þau enn. (Gripið fram í.) Ja, það er samkv. tilvitnunum hér í hin eldri lög og tekið fram, að skuli dragast frá. Það á a.m.k. að vera alveg á hreinu. Svo kemur 10% gjaldið, þegar búið er að gera þennan frádrátt. Ég held, að það verði ekki neinn vandi, hvorki hjá skattstjórunum né sveitarstjórnunum að komast að niðurstöðu um það, hvernig eigi að leggja útsvörin á og hvaða atriði koma þar til frádráttar, áður en álagningin fer fram.

Mér skildist á hv. 9. landsk. þm., að hann væri yfirleitt á móti fasteignasköttum og teldi, að þetta verkaði á móti einkaeign á íbúðarhúsnæði. Ég get nú ekki séð, að það sé rétt röksemd. Auðvitað er fasteignaskattur nothæfur skattstofn, af því að það eru svo margir á Íslandi, sem eiga húseignir, eiga fasteignir. Og við verðum að leggja skatta á eignir og tekjur. Það væri ranglátari skattstofn, sem félli aðeins á örfáa einstaklinga, og svo yrði, ef húseignir á Íslandi væru í fárra höndum. En þetta er yfirleitt almennt í okkar þjóðfélagi, og þess vegna er þetta breiður, jafn og réttlátur skattstofn. Hann er líka stöðugur frá ári til árs og kemur í veg fyrir sveiflur miklu frekar en skattlagning á tekjur hjá sveitarfélögunum og þau vita betur fótum sínum forráð frá ári til árs. Eignir og tekjur verða að vera grundvöllur skattálagningar, því að á hina eignalausu og tekjulausu er ekki um að ræða að leggja skatta. Ég er því ekki sammála hv. þm. um það, að forðast beri fasteignaskattana, af því að fasteignir séu svo almennt í eigu manna, að þetta verði skattlagning á hinn almenna borgara. Það er rétt, það verður skattlagning á hinn almenna borgara.

Hv. sami þm. minntist á þetta ákvæði, sem komið er nú inn í frv., að fólk, sem er að eignast þak yfir höfuðið, nýtur samkv. frv. skattfrelsis næstu tvö árin eftir að húseign er tekin í notkun. Um þetta hafði hann ekki annað að segja en það, að þetta væri óverulegt. En þarna er þó tillit tekið til unga fólksins, sem er að brjótast í því að eignast húsnæði og stendur í mestu erfiðleikunum fyrstu tvö árin, meðan það er að komast yfir íbúðina. Það má vel vera, að mönnum sýnist, að þarna ætti að hafa lengra tímabil, en þá koma menn með till. um það. En þetta er vissulega í áttina. Þetta er til þess að mæta miklum erfiðleikum, sem fólk á oft við að stríða, þegar það er að komast yfir íbúð. Ég álít, að þetta ákvæði sé til bóta.

Þá vék hv. 9. landsk. þm. að því, að í raun og veru væri í bráðabirgðaákvæði með frv. næstum viðurkenning á því, að svo gæti farið, að tekjur sveitarfélaganna samkv. hinni nýju löggjöf yrðu ekki eins drjúgar sveitarfélögunum og samkv. gömlu löggjöfinni. Það er rétt. Það er ekki fullyrt, að ekki geti komið fyrir, að eitthvert sveitarfélag þurfi á öllum álagsheimildum að halda, og jafnvel tekið í mál. að svo kynni að fara, að eitthvert sveitarfélag næði samt ekki endum saman. Og þá er þetta öryggisákvæði, að á árinu 1972 megi félmrn. veita sveitarfélögum sérstakt aukaframlag, ef í ljós kæmi, að ákvæði laga þessara reyndust þeim óhagstæðari en lög nr. 51 frá 1964. slíkt framlag skal þó aðeins veita, ef hlutaðeigandi sveitarfélag innheimti fasteignaskatt með fullu álagi, leggi á útsvar án afsláttar og fullt aðstöðugjald samkv. ákvæðum 36. gr. Vitanlega ber ekki að heimila neinu sveitarfélagi þetta aukaframlag nema því aðeins, að sveitarfélagið sé búið að nota aðrar heimildir laganna. Fyrr er þess ekki þörf. En það gefur fulla tryggingu fyrir því, að sveitarfélag lendi ekki í vanda, að það geti alveg verið öruggt um það, að það fái eins miklar tekjur og eftir gamla kerfinu með þessu aukaframlagi, ef á þarf að halda.

Hv. þm. hafði þó hugboð um það, að það gætu nú aðeins orðið drýgri tekjurnar hjá sveitarfélögunum heldur en lægi fyrir á pappír nú, því að fasteignamatið nýja væri miðað við árið 1970, 1969 eða 1970. Og það er alveg rétt. Þarna er dálítill varasjóður vafalaust fyrir sveitarfélögin, þær fasteignir, sem hafa orðið til á árinu 1970–1971, og verðmæti þeirra verður auðvitað skattlagt eins og eldri fasteignir. Þetta hefur vafalaust ekki verið tekið inn í útreikningsdæmin, og er þarna sem eins konar varasjóður. Og hann spurði, hvort þetta hefði verið athugað. Þetta hefur vissulega verið athugað og er tekið með hér í bráðabirgðaákvæði frv. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjmrh. er heimilt að ákveða breytingu á hinu nýja fasteignamati til samræmis við verðlag í árslok 1971.“ Það má sem sé færa fasteignamatið frá 1970 til samræmis við verðlag í árslok 1971, og undir það kæmu líka þær byggingar, sem orðið hafa til síðan frá fasteignamatinu var gengið. Þarna er dálítill varasjóður, sem vafalaust mundi tryggja það nokkurn veginn, að sveitarfélögin yrðu ekki fyrir þungum skakkaföllum. hart úti, eins og hér hefur verið orðað, sem ég er þó hræddari um, að yrði niðurstaðan heldur en hitt, að skattpíningin sé svo svívirðileg, að öll sveitarfélögin vaði í tekjum. En það hlýtur að vera afleiðingin af því.

Ég bað Framkvæmdastofnun ríkisins að gefa mér upp, hvaða heildartekjur sveitarfélögin mundu hafa fengið á árinu 1972 eftir gamla kerfinu. Og svar Framkvæmdastofnunarinnar er þetta: Samkv. gildandi lögum eru heildartekjur sveitarfélaga á árinu 1972 áætlaðar 4 295 millj. kr. Heildartekjur sveitarfélaga á árinu 1972 eru áætlaðar 3 187 millj. kr., eins og frv. er nú. En þá verður að taka eitt með í reikninginn og það er það, að það eru færð frá sveitarfélögunum verkefni, sem hefðu kostað um 850 millj. kr., ef það hefði verið óbreytt. Spurði ég því líka um það, hvað útgjaldalækkun sveitarfélaganna vegna afnáms framlags til almannatrygginga og löggæzlu svo og lækkunar framlags til sjúkratrygginga um helming væri áætluð á árinu 1972, og er svarið það, að hún mundi vera um 850 millj. kr. á árinu 1972. Ef ég því geng út frá óbreyttum verkefnum, þá blasir þetta við, að samkv. gamla skattkerfinu hefðu skatttekjur sveitarfélaganna í heild orðið 4 295 millj. kr. á árinu 1972, en 4 037 millj. kr. á þessu sama ári, 1972, miðað við óbreytt verkefni, aðeins lægra. Með því rjúka alveg um koll öll brigzlin um skattpíninguna, því að það er tæpast, að frv. gefi þær tekjur, sem gamla kerfið hefði gefið að óbreyttum verkefnum. En álagsheimildirnar eru áætlaðar samkv. frv., eins og það er nú, á fasteignaskattinn 180 millj. kr. og á útsvörin 310 millj. kr. eða samtals um 490 millj. kr. Það saxast dálitið á þessar álagsheimildir, þannig að þær verða ekki afgangs hjá sveitarfélögunum, en þegar búið er að athuga það, hvað þá verði eftir af álagsheimildunum, þá eru það 232 millj. kr., sem þá væru eftir, en gæti þó orðið meira, ef heimildin er notuð til þess að færa fasteignamatið til samræmis við verðlag í árslok 1971. En það hafa reikningsfróðir menn talið að mundi geta gefið 15–20% hækkun á fasteignaskattinum. Ég held því, að það sé nokkurn veginn eins nálægt því komizt og hægt var að ætlast til, að tekjurnar, sem nýja kerfið gefur, eins og frv. er nú, séu nokkurn veginn samsvarandi þeim tekjum, sem gamla kerfið hefði gefið á árinu 1972, ef niðurstaða Framkvæmdastofnunar ríkisins er rétt, eða röskir 4 milljarðar kr.

Hv. 3. þm. Sunnl. staldraði í ræðu sinni við 34. gr. frv. og var ekki alveg viss um, hvernig ætti að skilja þá gr. Ég játa, að það er kannske ekki ástæðulaust, en þetta á sér alveg góða og gilda skýringu. Greinin er svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú þykir sýnt, að innheimtar tekjur hrökkvi ekki til greiðslu gjalda á reikningsárinu, og getur þá sveitarstjórn ákveðið hækkun álagðra útsvara sem svarar því, sem á vantar, þannig að öll útsvör verði hækkuð eftir ákveðnu hundraðshlutfalli. Álögð útsvör, að viðbættri hækkun, mega ekki hærri vera en fyrir er mælt í 25. gr.

Með öðrum orðum, þau mega ekki fara yfir 10%. Hér er átt við það, að sveitarfélögin, sem eru með 5, 6, 7, 8 eða 9% og komast að þeirri niðurstöðu, að þau nái ekki endum saman, hafa heimildir til þess að hækka um sama hundraðshluta yfir alla línuna, þangað til þau hafa náð endum saman. En hin, sem eru í hámarki, geta ekki notað sér þessa gr. Þau verða að nota viðbótarákvæðið, bráðabirgðaákvæðið um aukaframlag, sérstakt aukaframlag. Þessi gr. er varðandi þau sveitarfélög, sem eru þarna neðar á skalanum, en það verður yfirgnæfandi meiri hluti sveitarfélaganna á landinu, sem verður ekki með álagsheimildina í toppi. Það er margbúið að athuga það. Það voru nokkur, sérstaklega sjávarútvegsþorp og kaupstaðir, sem byggja mikið á útgerð og höfðu notað álagsheimild aðstöðugjaldsins alveg í toppi, sem virtust koma illa út, eins og frv. var lagt fram upphaflega. En þá var ekki það ákvæði, sem nú er í frv. um aðstöðugjaldið. Með því að mega nota 65% af aðstöðugjaldinu, eins og það var á lagt samkv. gamla kerfinu, batnar hagur þessara bæjarfélaga verulega, og veit ég ekki til, að neinir útreikningar hafi sýnt það, að þau bæjar- og sveitarfélög, sem aðallega byggja á útgerð og notuðu aðstöðugjaldsheimildina til fulls, verði neitt harðar úti heldur en önnur. En það var svo í fyrstu, eins og frv. var lagt fram. En úr því hefur verið bætt með heimildinni um álagningu aðstöðugjaldsins.

Hv. 3. þm. Sunnl. lýsti þeirri skoðun sinni, að honum þætti það óheppilegt, að sveitarfélögin fengju mismunandi heimild til aðstöðugjaldsins. Þarna er bara byggt á reynslunni. Sum sveitarfélögin, eins og Reykjavíkurborg, höfðu ekki notað aðstöðugjaldsálagningarheimildina, aldrei notað hana til fulls, og það þótti því eðlilegt, að þeir staðir, sem ekki hefðu þurft á henni að halda, fengju ekki nú endilega lagaheimild til þess að nota hana í toppi. Þessi bæjarfélög verða engum rétti svipt. Þau verða með svipaða heimild og þau höfðu áður haft, aðeins skerta, enda er líka ætlunin að víkja heldur frá þessum tekjustofni að ósk Sambands ísl. sveitarfélaga og margra annarra, ef annar tekjustofn fengist, sem heppilegri þætti. Það hefur um langan tíma verið mikið deiluefni, hvort ætti að nota aðstöðugjöldin sem skattstofn. Það er hvergi hægt að nota heimildirnar eins og þær voru áður í lögum eða eru nú í lögum, heldur aðeins 65% af þeirri álagsheimild, sem notuð var í viðkomandi sveitarfélagl. Og þannig er dregið úr notkun þessa gjaldstofns.

Ég skal ekki fjölyrða meira um þetta. Ég held, að það sé hvorki sannleikur, að hér sé um gífurlega skattníðslu að ræða samkv. þessu frv., né heldur hitt, að sveitarfélögin séu svipt gífurlegum möguleikum til þess að afla sér nauðsynlegra tekna miðað við gamla skattakerfið. Þær tölur, sem ég hef hér lesið sem niðurstöður Framkvæmdastofnunar ríkisins, benda til þess, að tekjuöflunin sé mjög álíka samkv. frv., eins og það nú er, eins og þær mundu hafa orðið eftir gamla kerfinu á árinu 1972, sem sé röskir 4 milljarðar kr. í báðum tilfellunum að óbreyttum verkefnum. En heimildirnar þó þar að auki þannig, að nokkur hundruð millj. standa út af og einkanlega gæti það orðið aðeins meira, þegar búið væri að framreikna fasteignaskattinn fram til ársloka 1971.

Ég vil svo aðeins að síðustu láta það í ljós, að mér þætti mjög vænt um það, ef hv. n., sem nú tekur við málinu, gæti starfað á morgun og helzt lokið sínu starfi sem fyrst, svo að ekki þyrfti að verða töf á afgreiðslu málsins.