15.03.1972
Neðri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. I. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Við 1. umr. málsins ræddi ég frv. almennt. Við þessa 2. umr. mun ég aðeins ræða eitt atriði, þ.e. brtt., sem ég flyt af hálfu Alþfl. varðandi skattamál hjóna, og geri ég það einnig að gefnu tilefni frá frsm. hv. meiri hl. n. Brtt. okkar Alþfl.-manna er um það, að sú heimild, sem verið hefur í lögum allar götur frá 1957, um rétt til þess að draga helming frá þeim tekjum eiginkonu, sem hún aflar utan heimilis, sá réttur haldist. En það er kunnara en frá þurfi að segja, að þessum rétti er haldið eingöngu í tekjuskattslögunum, en á að fella hann niður í útsvarslögunum, og þarf ekki að fjölyrða um það, að við þetta munu heildarskattgreiðslur giftra kvenna, sem vinna utan heimilis, aukast. Skattbyrði giftrar konu, sem vinnur utan heimilis, mun þyngjast og það mun án efa draga úr tilhneigingu giftra kvenna til þess að afla sér tekna utan heimilis. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að vinnuafl giftra kvenna, einkum og sér í lagi í þágu sjávarútvegs, hefur verið mjög mikilvægt og það væri að því þjóðarskaði, ef konur hættu að hafa áhuga á því að láta vinnuafl sitt í té í þágu íslenzkra atvinnuvega, ekki þá sízt sjávarútvegsins, þar sem nú er beinlínis skortur á vinnuafli.

Þessi heimild til helmingsfrádráttar við skattgreiðslu af tekjum giftrar konu var lögtekin af ríkisstjórn Hermanns Jónassonar, ef ég man rétt, árið 1957. Ég átti sæti í þeirri stjórn og ég taldi þá þessa lausn á skattamálum hjóna ekki vera fullnægjandi. Ég hef allar götur síðan verið þeirrar skoðunar, að hún sé ekki fullnægjandi lausn á því vandamáli, sem þarna er um að ræða. Vandamálið, sem rétt var að ráðast gegn 1957, var alveg augljóst. Fram til þess tíma höfðu tekjur, sem gift kona aflaði utan heimilis, verið lagðar við tekjur eiginmannsins, þannig að heildartekjur heimilisins fluttust gjarnan í hærri skattstiga en ef eiginmaðurinn einn hefði aflað teknanna. M.ö.o., það var munur á því, að eiginmaðurinn jók tekjur sínar, og hinu, að tekjur heimilisins jukust vegna þess að eiginkonan tók að vinna utan heimilisins. Þetta var alveg augljóst misrétti. Með þessu móti var greiddur miklu hærri hundraðshluti af tekjum giftrar konu, sem vann utan heimilis, en af tekjum konu, sem vann sama starf, en var ekki gift. Hjón, sem bjuggu saman án þess að vera gift, greiddu mun lægri skatta en gift hjón, sem unnu nákvæmlega sams konar störf og ógiftu hjónin. Þetta var svo augljóst ranglæti, það hafði lengi verið svo augljóst ranglæti, að úr þessu var reynt að bæta með þeim ákvæðum, sem ríkisstjórn Hermanns Jónassonar lögtók og hafa verið í gildi allar götur síðan, bæði að því er snertir tekjuskatt og útsvar. Nú er hins vegar ætlunin að fella þetta niður að því er útsvarsgreiðsluna snertir, svo að gamla ranglætið kemur upp aftur. Gagnvart sveitarfélögum verður áberandi munur á því, hve há gjöld kona, sem er gift, verður að greiða af tekjum sínum og hins vegar hvað ógift kona, sem e.t.v. býr með manni, rekur sameiginlega heimili með manni og vinnur nákvæmlega sama starf og gifta konan, greiðir, þ.e.a.s. annað og lægra útsvar. Að því er útsvörin snertir er því ranglætið frá því fyrir 1957 vakið upp aftur, og þetta ber auðvitað að harma. Að sjálfsögðu skil ég ástæðuna fyrir því, að ríkisstj. telur sig nauðbeygða til að gera þetta. Hún er auðvitað sú, að það er horfið frá því að innheimta útsvör sem nettóskatta og þarf að innheimta þá sem brúttóskatta, svo að það skapast við það tækniörðugleikar á því að halda frádrætti, eins og þeim, sem hérna er um að ræða. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því, að ég tel, að ekki hefði átt að hraða endurskoðun skattalaganna jafnmikið og gert hefur verið, heldur athuga allt málið miklu betur til næsta hausts, og er það ein af röksemdunum fyrir því, að við í Alþfl. leggjum til, að málinu verði vísað í heild til ríkisstj.

En ég sagði áðan, að strax 1957 og allar götur síðan hefi ég verið þeirrar skoðunar, og það er skoðun Alþfl., að sú lausn, sem þá var fundin, hafi vissulega verið mikil bót frá því, sem áður hafði verið, þó að hún sé ekki fullnægjandi. Af hverju teljum við hana ekki fullnægjandi? Hvað er enn ranglátt í kerfinu, þó að giftri konu sé leyft að draga frá helming tekna sinna við álagningu tekjuskatts, að ég nú ekki tali um, þegar ekkert má draga frá, eins og vera á gagnvart útsvarsgreiðslu? Ranglætið, sem helzt, sem er óleyst, ranglætið, sem ekki er bætt úr, er það, að starf giftra kvenna á heimili er vanmetið. Sú kona ein nýtur skattfríðinda og naut útsvarsfríðinda, sem vinnur utan heimilisins, en sú kona, sem vinnur á heimili og stuðlar auðvitað með því að tekjuöflun mannsins, nýtur engra skatthlunninda. Hér er um að ræða vandamál. að vísu mjög flókið vandamál, sem alveg nauðsynlegt er að finna einhverja bót á. Við þm. Alþfl. höfum sett fram þá hugmynd, að það verði athugað að gera allar konur að sjálfstæðum skattþegnum, ekki aðeins þær, sem vinna utan heimilis, heldur einnig þá giftu konu, sem vinnur á heimilinu. En þá þarf auðvitað að ætla henni einhvern tiltekinn hluta af tekjum heimilisins, tekjum eiginmannsins, sem áætluð laun fyrir það starf, sem hún vinnur á heimilinu. Það þarf að áætla, hvað sá hluti á að vera hár, og í sjálfu sér þyrfti þá að endurskoða alla skattstiga í framhaldi af því. Þetta er flókið mál og þess vegna ekki auðvelt að bera fram till. um endanlega lausn á því, endanlega skipun á málinu, nema að undangenginni mjög rækilegri athugun. Ég hef rætt þetta mál við hæstv. fjmrh., og eins og ég hef getið í nál. mínu, þá hefur hæstv. fjmrh. sýnt þessu sjónarmiði fyllsta skilning og hann hefur heitið því, að við þessa umr. muni hann lýsa því yfir, að þessi hugmynd, að allar konur, hvort sem þær vinna utan heimilis eða á heimili, skuli verða sjálfstæðir skattþegnar, verði athuguð í sumar í sambandi við þá almennu endurskoðun, sem á skattalögunum á að fara fram, og til hennar verði tekið tillit við endanlega tillögugerð ríkisstj. á næsta Alþ., að sjálfsögðu eftir því hver niðurstaða athugunarinnar verður. Fyrir þennan skilning vil ég færa hæstv. fjmrh. sérstakar þakkir.

Einn hv. þm., hv. 4. landsk. þm., frú Svava Jakobsdóttir, hefur í till. og í ræðu sett fram aðra hugmynd um þetta mál. Hugmynd hennar er sú, að aðeins giftar konur, sem vinna utan heimilis, eigi að vera sjálfstæðir skattþegnar. Hún virðist sem sagt vilja hverfa frá frádráttarreglunni, en taka upp þann hluta hugmyndar Alþfl., að gera eingöngu þær giftar konur, sem vinna utan heimilis, að sjálfstæðum skattþegnum. Ef dæma má af frásögn blaðs hennar, Þjóðviljans, af umr. hér á hinu háa Alþ., hefur frúin verið býsna stórorð. Hún kenndi hugmyndir Alþfl. um þetta mál við miðaldasjónarmið, og einhver fleiri stóryrði viðhafði hún. Ég vildi hennar vegna óska þess, að hún hefði ekki látið sér nein stór orð um munn fara, vegna þess að það kemur í ljós við skoðun málsins, að hún veit augsjáanlega ekki nokkurn skapaðan hlut, um hvað hún var að tala, né heldur, hvað í hugmynd hennar einni saman fólst, og skal ég víkja svolítið nánar að því á eftir. Það er e.t.v. ekki ætlazt til þess, það er e.t.v. ósanngjarnt að ætlast til þess, að ágætur rithöfundur hafi eitthvert vit á skattamálum, en hún ætti þá að hafa vit á því að tala ekki mjög mikið um þau. A.m.k. ekki að hafa mjög stór orð um þau. Til þess finnst mér mega ætlast af jafngáfaðri konu og frú Svava Jakobsdóttir er. Það sem á milli ber þeirra sjónarmiða, sem hún hefur gerzt málsvari fyrir, og sjónarmiða okkar Alþfl.-manna, er einmitt þetta, að konan, sem vinnur heima, hún á líka skilið, — þetta undirstrika ég sérstaklega, — hún á líka skilið að njóta hagræðis af því að vera sjálfstæður skattgreiðandi. Það má ekki eingöngu hugsa um þær konur, — þó að auðvitað sé ég líka að hugsa um þær og gæta hagsmuna þeirra, — sem vinna utan heimilisins, það má ekki gleyma þeim, sem vinna á heimilinu, af því að þær beinlínis stuðla að tekjuöflun eiginmannsins. Í flestum tilfellum gæti hann ekki aflað sér þeirra tekna, sem hann aflar, ef konan starfaði ekki á heimilinu. Hún á því í raun og veru hluta af tekjum mannsins. Að hafna þessu, að hafna því að telja störf konu á heimili jafneðlileg og jafnrétthá í skattatilliti og störf konu, sem vinnur utan heimilis, það er miðaldasjónarmið, ef á annað borð á að blanda slíkum orðum inn í umr. eins og þessar.

Nú skal ég taka mjög einfalt dæmi, sem öllum ætti að vera auðvelt að skilja, áreiðanlega hv. 4. landsk. þm., frú Svövu Jakobsdóttur, líka. Ég harma það mjög, að hún skuli ekki vera í d. til þess að fylgjast með þessu. Málið er í raun og veru mjög einfalt. Við skulum gera ráð fyrir því, að hjón taki sameiginlega að sér starf, vinni það að hálfu leyti hvort og jafnframt að jöfnu að heimilisstörfum. Það er m.ö.o. algert jafnræði milli hjónanna. Það ætti að vera sjónarmið, sem hv. 4. landsk. þm. og aðrir skoðendur ættu að geta viðurkennt alveg fúslega sem réttmæta og sanngjarna forsendu. Hjón taka að sér verk sameiginlega, þau gætu verið blaðamenn, þau gætu unnið að ritstörfum, þau geta unnið að þýðingum eða einhverju því um líku. Það mætti nefna ótal mörg dæmi um það, að hjón gætu unnið sameiginlega að einu starfi og skipt svo á milli sín heimilisverkunum, eins og mér skilst nú, að sé farið að tíðkast hjá ungu fólki hér í Reykjavík, ekki sízt því, sem tilheyrir tiltekinni hreyfingu, sem kennd er við rauða sokka. Þetta er í raun og veru því máli og þeirri hreyfingu alveg óskylt. Sem sagt forsendurnar eru þessar: Bæði hjónin vinna utan heimilis, helming af einu starfi, og bæði hjónin vinna á heimilinu og þau afla sér hvort um sig fyrir starf sitt utan heimilisins 250 þús. kr. tekna. Heimilið hefur 500 þús. kr. í tekjur, — sem er nokkuð óraunsætt dæmi miðað við rithöfunda, blaðamenn og annað slíkt ágætisfólk. Samkv. reglum þeim, sem gilt hafa síðan 1957 og eiga að gilda enn varðandi tekjuskattinn, þá eru 50% af tekjum eiginkonunnar frádráttarbærar. Tekjuskattur þessara hjóna, tekjuskattur eiginmannsins yrði 56 450 kr. Af 1/2 millj. kr. tekjum heimilisins, 250 þús. tekjum hvors aðilans fyrir sig, ætti að greiða í tekjuskatt 56 450 kr. Nú skulum við taka till. hv. 4. landsk. þm., frú Svövu Jakobsdóttur, og gera ráð fyrir því, að hvort hjónanna fyrir sig yrði gert sjálfstæður skattaðili, þannig að lagt yrði sérstaklega á tekjur hjónanna hvors um sig. Þau hefðu jafnar tekjur og borguðu því jafnan tekjuskatt 34 450 kr. hvort eða samtals 68 900 kr. Hvað kemur í ljós? Haldið þið, að frúin hafi reiknað með þessu? Samkv. hennar till. mundi tekjuskatturinn hækka á hjónunum, en einungis, ef hvort um sig yrði gert sjálfstæður skattaðili. M.ö.o., samkv. gildandi reglum, eins og ég sagði áðan, þá hefði tekjuskattur orðið 56 450 kr., en samkvæmt hugmynd frú Svövu yrði hann 68 900 kr. Þetta gæti t.d. endurskoðandi hv. frsm. n. án efa staðfest, að rétt er reiknað, og þarf ekki að vera í næsta herbergi til að sannfærast um það. M.ö.o. er skattahækkunin … (Gripið fram í.) Já, já, það er velkomið og má margfara yfir það. (Gripið fram í.) Það gerir endurskoðandinn. Ef það er hv. þm. einhver hugarléttir, þá var það reiknað á skattstofunni fyrir mig, — þeir ættu að kunna að reikna þetta, — af ágætum lögfræðingi þar, einum bezta starfsmanni skattstofunnar, sem ég veit, að sumum hv. þm. er vel kunnugur. M.ö.o. hugmyndir frú Svövu mundu leiða til 12 450 kr. hækkunar á sköttum þessara hjóna, sem fullkomið jafnræði er á milli. Það er af þessum sökum. sem ég held, að ef hún hefði vitað, hvað hún var að segja, ef hún hefði vitað, hvað hún var að leggja til, þá hefði hún hagað orðum sínum ofboð lítið hóflegar en mér skilst á Þjóðviljanum, að hún hafi gert.

En nú skulum við koma að kjarna málsins. Gerum ráð fyrir, að konan vilji vinna öll heimilisstörfin og maðurinn taki að sér allt starf utan heimilisins, ef t.d. þau eru blaðamenn, að hann vinni fulla vinnu sem blaðamaður, en konan vinni þá fulla vinnu á heimilinu, sem getur verið full þörf fyrir, ef þau eiga börn og af ýmsum ástæðum. Tekjurnar haldast óbreyttar, það sér hver maður. Tekjurnar haldast óbreyttar, 1/2 millj. kr., starfið utan heimilisins er nákvæmlega það sama og áður og verkefnin á heimilinu hafa í engu breytzt. Nú hefur aðeins orðið önnur verkaskipting á milli hjónanna, þau hafa komið sér saman um aðra verkaskiptingu sín á milli heldur en áður var. Ekkert hefur breytzt annað en verkaskiptingin á milli hjónanna. En hver skyldi nú tekjuskattur heimilisins verða? Hann verður 111 450 kr. Í þessu tilfelli hækkar hann um 42 550 kr. Vegna hvers? Einungis vegna breyttrar verkaskiptingar hjónanna. Einungis vegna þess, að í staðinn fyrir, að hvort um sig vinni helming starfsins úti og helming verkefnisins heima fyrir, maðurinn vinnur úti og konan vinnur heima, þá hækkar tekjuskatturinn um hvorki meira né minna en 42 550 kr. Það er þetta ranglæti, sem við Alþfl.-menn erum að benda á. Þetta ranglæti erum við að benda á, í þessu felst stórkostlegt vanmat. Það er ekki hægt að sanna með einfaldari hætti. Ég hef velt því fyrir mér, hvernig ég gæti haft dæmið sem allra, allra einfaldast, þannig að jafnvel þeir, sem annars ekki skilja allt of mikið í þessu, þeir raunverulega skildu það, og ég vona, að mér hafi tekizt það með þessu móti, þetta sé alveg augljóst. Vanmat á störfum giftu konunnar heima fyrir kemur fram í þessu, að eingöngu breytt verkaskipting veldur 42 550 kr. tekjuskattshækkun á þessu heimili. Ég vona, að enginn ágreiningur geti verið um það, að þetta er ranglátt. Úr þessu þarf að bæta. Hitt skal ég fúslega játa, að ég hef ekki, og við í Alþfl. höfum ekki á þessari stundu á reiðum höndum till. um það í einstökum atriðum, hvernig úr þessu megi bæta, því að dæmið er mjög flókið. Þess vegna bar ég fram till. um það við tekjuskattsfrv. í hv. Nd., þegar það var hér, — hún er endurflutt í hv. Ed. núna, — að við framhaldsendurskoðun skattalaganna skyldi ríkisstj. taka þetta vandamál til sérstakrar athugunar og finna á því lausn.

Það, sem þarf að athuga í þessu sambandi, er, hverjar eru eðlilegar tekjur giftrar konu, hvaða tekjur á að áætla giftri konu með eðlilegum hætti. Það væri eðlilegt að finna út meðaltal af tekjum allra kvenna á landinu og ætla giftri konu fyrir heimilisstörfin eitthvað því líkt og það þarf auðvitað að umreikna alla tekjuskattsskala, vegna þess að skattgreiðendum fjölgar stórkostlega, og persónufrádrætti þyrfti hugsanlega að breyta með einhverjum hætti. Dæmið er mjög flókið. Þess vegna fluttum við ekki till. um endanlega lausn, heldur hugmynd um athugun á málinu. Og þeim mun vænna þykir mér um það, að hæstv. fjmrh. skuli hafa sýnt málinu þann skilning að játa, að hér sé um raunverulegt vandamál að ræða, sem skoða þurfi ofan í kjölinn, og ég tel hugmynd okkar í Alþfl. að þessu leyti hafa fengið algjörlega jakvæða og fullnægjandi afgreiðslu, sem ég er þakklátur fyrir.

Till. hv. minni hl. í Ed. um þetta efni mun verða dregin til baka með hliðsjón af þessum vinsamlegu undirtektum hæstv. fjmrh. Ég flyt nokkrar aðrar brtt., sem eru augljósar, og ég tel ekki ástæðu til að vera að tefja dýrmætan tíma hv. d. með að útskýra þær, því að minn flokkur mun stuðla að því, að þetta mál geti hlotið afgreiðslu hér í dag, og sé ég ekki ástæðu til að orðlengja um hluti, sem ekki þurfa skýringar við. En þetta þótti mér nauðsynlegt að kæmist á framfæri í sambandi við skattamál hjóna um leið og ég að síðustu endurtek þakklæti mitt til hæstv. fjmrh. fyrir skilning á þeirri hugmynd, sem við höfum sett fram um skattamál hjóna.