15.03.1972
Neðri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Tómas Karlsson:

Herra forseti. Mig langar í upphafi aðeins að gera ummæli hv. 7. þm. Reykv., þau, sem hann hafði um hjón og sköttun þeirra, að umræðuefni. Ég skildi ekki betur á hans máli í dag en hann væri andvígur þeirri skerðingu, sem frv. hæstv. ríkisstj. hafa í för með sér í sambandi við skattlagningu á tekjum giftrar konu, sem vinnur úti. Er það ekki rétt skilið? (Gripið fram í.) Já, að halda því. Það er nefnilega það. En þá verð ég að segja það við hv. þm., að sú brtt., sem hann flutti um þetta efni, er enn óskiljanlegri mér heldur en er hún var þó flutt hér í upphaflegri mynd sinni, því að það er útilokað að breyta skattreglum á sköttun hjóna á þann veg, að þau séu skattlögð sitt í hvoru lagi, án þess að þessi réttindi verði í einhverju skert. Það er útilokað. Og ég skora á hv. þm. að gera þá grein fyrir því hér, hvernig hægt er að skattleggja hjón sitt í hvoru lagi, án þess að það hækki skatta giftrar konu, sem vinnur úti, frá því sem nú er, og án þess að það hafi í för með sér misrétti milli giftra kvenna og þá ógiftra kvenna, sem vinna úti. Það er útilokað frá mínum sjónarhóli að gera þetta tvennt í einu.

Aðallega stend ég þó hérna upp til þess að gera málflutning þessa hv. þm. að umtalsefni. Ég minntist nokkuð á útreikninga hans hér í hv. d., þegar hann var fjarstaddur vegna veikinda, en það voru m.a. útreikningar hans á skattvísitölu, sem urðu mér þá tilefni til þess að koma hér á ræðustól. Nú hefur þessi hv. þm. enn í nál. sínu við þetta frv., sem hér er til afgreiðslu, byggt málflutning sinn svo til einvörðungu á því, að réttmætt sé, að skattvísitala hækki í samanburðarútreikningum við gamla kerfið og hið nýja, svo að ég haldi mig við það orðalag, um 21.5%. Og hv. þm. flytur

þessa tölu og sína útreikninga án þess að blikna eða blána, og í því sambandi kemur mér í hug, að Cato hinn gamli endaði allar sínar ræður á því, að auk þess legði hann til, að Karþagóborg yrði lögð í eyði. En mér finnst — (Gripið fram í.) Það er rétt, ekki mótmæli ég því, að hann sagði það. En mér kom í hug, að það gæti farið vel á því, að þessi hv. þm., núna eftir endurhæfinguna í Kaupmannahöfn, byrjaði allar sínar ræður á því, sem Nóbelsskáldið sagði í sínu kvæði: „Héðan í frá er fortíð mín í ösku.“ Ég legg ekki til, að hann breyti næstu ljóðlínu eitthvað í þá átt að segja: framtíð mín er vinstri stjórnar ljóð, en hins vegar verð ég að segja það, að þessi hv. þm. talar alveg eins og hann hafi aldrei setið í ráðherrastól á Íslandi og aldrei haft nein afskipti af efnahags- og skattamálum hér í landi. Og vegna þessa er ekki hægt að komast hjá því að minna svolítið á það, sem þessi hv. þm. stóð að s.l. þrjú kjörtímabil í sambandi við framkvæmd skattkerfisins og í sambandi við ákvörðun skattvísitölu og leiðréttingu á persónufrádráttum og skattstigum milli ára.

Þegar þessi hv. þm. myndaði ásamt Sjálfstfl. ríkisstj. á árinu 1959, stóð hann að því að breyta skattalögum. Þá var samband milli skattvísitölu og nýrra skattalaga algerlega rofið. Og það stóð svo frá árinu 1960 fram til ársins 1965. Áður hafði verið í gildi skattvísitala, sem fylgdi kaupgjaldsvísitölu. Það var í fjmrh.- tíð hv. 1. þm. Austf., Eysteins Jónssonar, sem þessi skattvísitala var ákveðin, og henni var fylgt í hans tíð. En afleiðingin af því, að þarna var rofið sambandið á milli framfærslukostnaðar og skattalaga, afleiðingin varð sú, að skattbyrðin þyngdist sífellt ár frá ári 1960–1964. Og skattbyrðin á nauðþurftatekjum varð sífellt þyngri og þyngri. Þetta endaði með sprengingu sumarið 1964, þegar menn fengu skattseðla sína. Og það er okkur sérstaklega minnisstætt, vegna þess að þá sló málgagn þáv. fjmrh. því upp á forsíðu, þegar skattseðlarnir birtust, að nú væru allir menn ánægðir með skattana sína. En þegar farið var að kanna viðhorf almennings til skattanna nokkru nánar og þegar menn komust að raun um það, að skattbyrðin þyngdist svo mikið, að meðallaunamaður fékk ekkert nema skattakvittanir í launaumslög sín síðustu sex mánuði ársins, þá lögðu efnahagssérfræðingar hæstv. þáv. ríkisstj. það til, að þessu fólki yrðu veitt opinber lán, svo að það gæti staðið ríkissjóði og sveitarsjóði skil á sköttum sínum. Þetta leiddi til þess, að það var gerð bragarbót 1965 og skattvísitala og skattstigar leiðréttir nokkuð. En það var ekki tekið upp beint samband milli framfærsluvísitölu og skattalaga, heldur hafði ráðh. ákvörðunarvald á hverju ári að ákveða skattvísitölu. En í framkvæmd ákvað þessi ráðh., samráðh. hv. 7. þm. Reykv„ — á þann veg og sjálfsagt með hans samþykki, annað hefur ekki komið fram, — að vísitala framfærslukostnaðar hækkaði á árunum 1966–1971 um 96 stig, en skattvísitalan var ekki hækkuð nema um 68 stig á þessu sama tímabili, þannig að menn fengu ekki einu sinni leiðréttingu í samræmi við hækkun framfærslukostnaðar, þannig að skattbyrðin jókst sem þessum mismun nam, mismuninum á skattvísitölunni og vísitölu framfærslukostnaðat, og þetta er óhrekjandi. En svo var gerð bragarbót á síðasta þingi og skattvísitalan hækkuð verulega, um 20%, enda átti þá að fara að kjósa.

Þessir hv. þm. geta ekki gengið fram hjá þessum staðreyndum, þegar þeir ræða þessi mál hér, og þeir geta ekki á grundvelli sinnar fortíðar og sinnar ábyrgðar á landsstjórn undanfarin þrjú kjörtímabil látið eins og þetta sé ekki til. Og þeir geta ekki komið núna og slegið sér á brjóst: Hvaða vitleysa er þetta, þetta á að hækka um 21.5%, ekki 6.5% í þessum samanburði, eins og hæstv. ríkisstj. leggur til, því að það hefur alltaf verið skoðun stuðningsflokka ríkisstj., að skattvísitala ætti að fylgja vísitölu framfærslukostnaðar. Og vísitala framfærslukostnaðar hækkaði á árinu 1971, meðan þær tekjur féllu til, sem skattleggja á á þessu ári, um 6.5%. Og þess vegna er sá samanburður, sem gerður hefur verið, hárréttur. Og allt þetta tal um það, að það skattkerfi, gamla kerfið, sem hæstv. fyrrv. ríkisstj. ber ábyrgð á, sé skárra en það, sem hér er verið að afgreiða, er því út í hött. Sannleikurinn er sá, ástæðan til þess að þeir velja þessa tölu er einungis sú, að með því einu móti geta þeir fengið í útreikningum sínum, að gamla kerfið hafi verið eitthvað skárra en það, sem nú er verið að lögfesta. En þó ekki skárra en það, þrátt fyrir þessa tölu, 21.5%, að hv. 7. þm. Reykv. viðurkennir í sínu nál., að þrátt fyrir þá miklu hækkun, þessi 21.5%, þá mundi gamla kerfið ekki verða hagstæðara verkamönnum og afgreiðslufólki. En ég hélt einmitt, að það væri fólk, sem Alþfl. bæri sérstaklega fyrir brjósti, a.m.k. var það í eina tíð.

En það eru fleiri gögn, sem lögð hafa verið hér fram, svo sem útreikningar hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunar, áður Efnahagsstofnunar, — þó er það sami starfsmaður, — og þessi hv. þm. hefur ekkert gert til þess að hrekja þær tölur, sem þar hafa verið lagðar fram. En þær fela í sér allt annað heldur en hv. þm. hefur hér verið að halda fram. Og svona málflutningi er ekki hægt að láta ómótmælt. Ef við hefðum í þessum samanburðarútreikningi milli gamla kerfisins og hins nýja verið fullkomlega sanngjörn gagnvart hæstv. fyrrv. ríkisstj. miðað við reynsluna á framkvæmd hennar á skattvísitölu, framkvæmd hennar á skattalögum, þá hefðum við ekki átt í þeim samanburðarútreikningum að reikna með skattvísitölunni 6.5%. Við hefðum getað tekið t.d. meðaltal á hækkun milli ára 1966–1971, sem hefði verið það rétta, og þá hefði hún ekki hækkað um 6.5% heldur þriðjungi minna, eða um 4%, þannig að allt tal hv. stjórnarandstæðinga í sambandi við samanburð á gömlu kerfi og hinu nýja er út í hött.

Vegna þess að hér í þskj. hefur verið vitnað til einhvers tillöguflutnings hv. formanns þingflokks Framsfl., Þórarins Þórarinssonar, sem ég á sæti fyrir nú hér á Alþ., og ég bað við 2. umr. nm frv. ríkisstj. um tekjuskatt og eignarskatt hér í hv. d., að sýnt yrði fram á, að ekki væri bara dylgjur, heldur hefði við einhver rök að styðjast, en það var ekki gert, þá auglýsi ég eftir því enn, hvort hv. stjórnarandstæðingar geta fært sönnur á mál sitt, að hann hafi verið með einhvern tillöguflutning í sambandi við skattvísitölu, sem leyfi þeim að grundvalla þennan útreikning sinn, 21.5%, á. En ég þóttist hafa sýnt fram á það þá, — það voru ákaflega fáir hv. dm. þá í d., enda langt liðið á nótt, — að hann hefur ætíð lagt áherzlu á, að fylgt yrði vísitölu framfærslukostnaðar við ákvörðun á skattvísitölu, og svo verður enn gert, ríkisstj. miðar sinn samanburð við gamla kerfið og hið nýja á vísitölu framfærslukostnaðar og hún mun í framtíðinni starfa eftír því og leiðrétta skattalögin hverju sinni í samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar.