15.03.1972
Neðri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég hafði því miður ekki aðstöðu til að vera hér viðstödd, þegar hv. 7. þm. Reykv. flutti fyrri ræðu sína í dag, en hún fjallaði víst áreiðanlega um giftar konur.

Hann mun hafa sagt, að ég sem rithöfundur ætti ekki að vera að skipta mér af skattamálum. Ég veit ekki, hvort hann er að ráða mér heilt með eigin reynslu sína af tónsmíðum í huga, hvort þær rökleysur, sem hann hefur borið hér á borð, standa í einhverju sambandi við tónskáldaiðju hans. Ég hélt nú frekar, að ástæðunnar væri að leita í forustugreinum Alþýðublaðsins, sem hafa tönnlazt á því að undanförnu, að hugmyndin um sérsköttun hjóna væri mjög nýstárleg. Flestum kemur sú staðhæfing á óvart, en þetta er nú hin eina afsökun fyrir hinni furðulegu framkomu þm. Alþfl. í þessu máli, að sérsköttun sé í þeirra augum slíkt nývirki, að þeir hafi ekki áttað sig á því enn þá.

Athugasemdir hv. 7. þm. Reykv. í minn garð munu eiga rót að rekja til þeirrar till., sem ég flutti hér um að hver maður, sem aflaði skattskyldra tekna eða ætti skattskyldar eignir, væri sjálfstæður skattþegn.

Ég verð að segja það, að allt í sambandi við afgreiðslu þessa máls kom mér mjög á óvart. Ég vil þá gera hér að nokkru umræðuefni framkomu hv. þm. Braga Sigurjónssonar, þegar þessi till. kom hér til gerviatkvgr. í síðustu viku. Þá stóð þessi hv. þm. upp til þess að lýsa því yfir, að till. mín næði ekki til húsmæðra, hún næði einungis til þeirra kvenna, sem öfluðu tekna utan heimilis. Það er svo búið að rugla hv. þm. Alþfl. í ríminu, að þeir gera ekki lengur ráð fyrir því, að húsmóðir geti átt eignir. Nú vita flestir, að þessu var svo háttað, þegar húsmóðir og gift kona var algjörlega ófjárráða, en þetta er nú breytt og þykir mér hálf-furðulegt að þurfa að vera að segja hv. þm. Alþfl. það hér, en ég tel það svo sem ekkert eftir mér, ef það gæti hjálpað þeim til að endurhæfa sig eitthvað.

Þá er það annað atriði, sem ég vil leggja áherzlu á í sambandi við þessa athugasemd hv. þm. Braga Sigurjónssonar. Ég vil biðja hv. þm. um að líta á báðar till. saman. Þeir Alþfl.-menn leggja til, að maðurinn greiði konunni laun, en ef gagnrýni þeirra á mína till. stenzt, þ.e. að hún taki ekki til húsmóður á heimili, þá reikna þeir ekki með, að þeir peningar verði skattskyldar tekjur. Maðurinn borgar launin, en samt eru það ekki tekjur, þegar það er komið í hendur konunni. Hvers konar peningar eru þetta þá? Er þetta þjórfé, eða vilja kannske hv. alþm. svara því?

Ég hef nú tekið þetta dæmi til að sýna, hversu gjörsamlega ruglaðir þeir eru í þessum málum, og það kemur mér mjög á óvart að heyra það, að hv. 7. þm. Reykv. skuli hafa vitað, a.m.k. allt frá árinu 1957, að hugmyndin um sérsköttun hjóna hefur verið á döfinni á Norðurlöndum.

Mitt ráð til hv. þm. Alþfl., úr því að hv. 7. þm. Reykv. var nú að gefa mér það ráð hér áðan að skipta mér ekki af skattamálum, mitt ráð er það, að þeir hætti að hugsa um konur, a.m.k. í bili, í þeirri von að þeir tækju sönsum.

Ég ætla ekki að halda langar orðræður hér um, hvernig því skuli hagað, að hver maður greiði skatta af eigin tekjum. Að þessu hefur lengi verið unnið á Norðurlöndum og helmingsreglan, sú sem hv. þingflokkur sjálfstæðismanna leggur til að verði tekin upp, hefur alls staðar á Norðurlöndum strandað, vegna þess að hún er í andstöðu við hjúskaparlöggjöfina. Þetta þýðir það í reynd, að við erum að gera aðila skattskyldan fyrir eignum eða tekjum, sem hann á ekki.

Í Svíþjóð og í Noregi hafa menn farið út á þá braut að gera hvort hjónanna um sig skattskylt fyrir eigin tekjum og eigin eignum. Í Noregi er meira að segja sá varnagli sleginn, að hafi annar aðill hjónabandsins ekki aflað tekna á árinu, þá sé hann ekki skattskyldur. Þetta kemur alls ekki neinu máli við það, hvort við metum hússtörf til verðmæta eða ekki. Ef við ætlum að meta hússtörf til verðmæta, þá verður að taka til greina barnafjölda, það verður að taka til greina, hvers konar heimili þetta er. Hv. 7. þm. Alþfl. gerir ráð fyrir því, að vinna eiginkonu hátekjumannsins verði hærra metin en sú vinna, sem eiginkona lágtekjumannsins innir af hendi.

Ég vil aðeins í lokin leggja áherzlu á það, sem hv. 12. þm. Reykv. sagði, að ef þessi mál eiga að komast áfram, þá verður að taka fullt tillit til sifjaréttarlaga og fara í því að fordæmi nágrannaþjóða.