15.03.1972
Neðri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hlanda mér í almennar umr. um skattmálin. Það er eitt atriði, sem ég vildi gjarnan minnast á. Það fjallar um 5. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir, í kaflanum um fasteignaskatt.

Í upphafi þeirrar gr. eru taldar upp fasteignir, sem undanþegnar eru skattinum. Ég stóð í þeirri meiningu, að í þessari upptalningu væri einnig orlofsheimili launþegasamtakanna, og hafði ástæðu til að halda, að svo væri. Ég gat því miður ekki verið við 1. umr. hér í þessari hv. d. og verð því að biðjast afsökunar á því, að ég kem hér með brtt., sem fer í þessa átt og sem n. gat því miður ekki fengið tækifæri til að fjalla um milli umr. En erindið er einvörðungu það hér í ræðustólinn að flytja brtt. við 5. gr. á þann veg, að á eftir orðinu „barnaheimili“ í 1. mgr. komi: orlofsheimili launþegasamtaka.

Ég tel, að það sé mjög við hæfi, að þessi orlofsheimili séu undanþegin fasteignaskatti. Þau eru yfirleitt þannig í sveit sett, að sveitarfélögin hafa ekki kostnað af þeim. Sjálf hafa samtökin orðið að sjá um allar vegalagnir, öll frárennsli og allt slíkt, og ef eitthvað væri, þá væri frekar að sveitarfélögin hefðu ábata heldur en hitt, og þess vegna tel ég ekki rök fyrir því, þegar undanþágur á annað borð eru hafðar í lögum, að orlofsheimili launþegasamtakanna séu ekki einnig í þeim hópi.

Það er sjálfsagt vitað mál, að það er ákaflega fjarri því, að þessi fyrirtæki séu neinn gróðavegur, það er alveg öfugt. Þau samtök, sem hafa komið sér upp þessum orlofsheimilum, verða að reka þau með allmiklum fjárframlögum umfram það, sem hægt er að taka fyrir afnotarétt af þessum heimilum, þannig að ég sé ekki, að nein ástæða sé til að skattleggja þau sérstaklega nú, þegar mjög svipaðar stofnanir eru undanþegnar skattinum.

Ég vil, herra forseti, óska eftir, að afbrigða verði leitað um þessa till., sem er skrifleg.