16.03.1972
Neðri deild: 53. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég mun leyfa mér að mæla hér örlítið fyrir nokkrum brtt., raunar 15 talsins, sem við í 2. minni hl. heilbr.- og félmn. þessarar d. flytjum á þskj. 466. Ég get um margar þessar brtt. vísað til þess, sem þegar er komið fram í málflutningi okkar. Ég mun aðeins nefna nokkur aðalatriði og þá fyrst I. brtt. okkar um það, að tekjustofnum sveitarfélaga verði fjölgað frá því, sem þetta frv. leggur til, þannig að til sveitarfélaga falli einnig framlög úr ríkissjóði, sem nema 5% af skattgjaldstekjum til tekjuskatts, eins og þær eru greindar í 25. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Þessi brtt. er tilkomin vegna þess, að samþykkt okkar till. að öðru leyti mundi hafa í för með sér nokkra tekjuskerðingu sveitarfélaga frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, og einnig vegna þess, að okkur finnst það eðlileg stefna, að í hlut sveitarfélaganna falli meiri hluti en nú er af beinum tekjuskattstekjum. Raunar gengur okkar stefna enn lengra. Hún er, að við viljum, að beinir tekjuskattar falli að öllu til sveitarfélaga, en ríkissjóður sitji síðan að öðrum tekjustofnum. Fasteignaskattar yrðu aðeins þjónustuskattar í samræmi við þá þjónustu, sem sveitarfélagi er nauðsynlegt að veita þeim fasteignum, sem þar eru.

Þetta er að mínu viti mjög eðlileg stefna, þar eð hingað til hefur fallið í hlut sveitarfélaga að sinna þeim verkefnum, sem standa í nánara og ef svo mætti segja persónulegra sambandi við hina einstöku skattborgara heldur en þau verkefni, sem ríkið sinnir. Þessa verkaskiptingu hefði að sönnu þurft að gera mun skýrari og standa að því leyti við ákvæðið í margnefndum málefnasamningi, sem ég hef nú aldrei meðferðis, en man þó, að þar er nefnt sem stefnumið að skuli gera, marka þessa tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga enn skýrara með það fyrir angum að gera sveitarfélögin sjálfstæðari. Undir þessa stefnu tökum við sjálfstæðismenn heils hugar og hörmum, að ekki skuli hafa verið neitt í því máli gert annað en taka viss verkefni frá sveitarfélögum, sem segja má raunar, að með eðlilegum hætti mættu gjarnan undir þau falla, en þetta breytir því í engu, að við stefnum að því, að slík endurskoðun á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga fari fram og henni verði lokið svo fljótt sem verða má.

2. brtt. okkar fjallar um fasteignaskatt. Við leggjum til, að í stað þess, að skylt sé sveitarfélögum að leggja skatt á allar fasteignir, sem metnar eru í fasteignamati, verði þeim það aðeins heimilt. Sveitarfélögum verði það í sjálfsvald sett, að hve miklu leyti þau nota heimild til álagningar fasteignaskatts. Í samræmi við það leggjum við til. að 3. mgr. 3. gr. frv. falli niður, og enn fremur leggjum við til, að 4. mgr. þeirrar gr., sem inn kom í frv. við meðferð þess hér á Alþ., falli niður þegar af þeirri ástæðu, að við teljum mjög ósanngjarnt og algerlega óeðlilegt að miða skattlagningu fasteigna við það, hvar eigendur þeirra eru búsettir. Enn fremur má nefna það, að mat á hlunnindum, sem þarna eru nefnd, mun vera miðað við þær tekjur, sem af þessum hlunnindum verða, og er fyllilega óeðlilegt að leggja skatt á það bæði í þeirri sveit, þar sem fasteignin er, og einnig á þær tekjur, sem þessi hlunnindi gefa af sér og eru svo skattlagðar í heimasveit gjaldandans.

Nokkrar brtt., sem við flytjum, eru aðeins til samræmis við aðrar brtt. okkar og sumar til að gera orðalag frv. skýrara. Svo er um brtt. okkar við 5. gr. Hún er einungis til þess að gera skýrara það ákvæði, sem hún felur í sér. Veigamikil brtt. er við 21. gr. um það, að þeir, sem útsvarsskyldir eru, séu ekki aðeins þeir einstaklingar, sem þar eru nefndir, heldur einnig fyrirtæki og félög, sem reka starfsemi í sveitarfélaginu. Þetta er í samræmi við ábendingar samtaka atvinnuveganna, þar sem þau samtök benda á, að tekjuútsvar fyrirtækja mundi stuðla að og auka áhuga sveitarfélags á að búa vel að sínum atvinnurekstri.

Næstu brtt. á eftir eru í samræmi við þessa meginstefnu, og við þessa sömu gr. er brtt., sem hér er merkt c í 7. brtt. okkar, sem fjallar um það, að hags einstaklingsins, réttar einstaklingsins, skattborgarans skuli vera betur gætt heldur en þetta frv. virðist stefna að. Eftir frv. eins og það er, hefur sveitarstjórn heimild til þess að hækka útsvör gjaldanda algerlega án hans vitundar eða án nokkurrar skýringar gagnvart gjaldanda og við leggjum til þá lágmarksleiðréttingu, að ef svo er gert, að framtali sé breytt gjaldanda í óhag, þá sé skylt að tilkynna honum þá fyrirætlan og gefa honum kost á því að gæta réttar sins. Þetta er einungis sjálfsagt mannréttindaatriði, sem mig furðar á, að ekki skuli enn þá hafa verið tekið til greina.

Við 25. gr. gerum við brtt. um það, að útsvar skuli ekki nema hærri hundraðshluta af tekjum en 10%, og höfum við þá í huga, að tekjuútsvar beri einnig aðrir aðilar, eins og ég nefndi áðan, að við gerðum brtt. um í sambandi við 21. gr., þ.e.a.s. félögin og fyrirtækin. Við 26. gr. gerum við þá brtt., að persónufrádráttur verði nokkru hærri heldur en frv. gerir ráð fyrir og einnig feli hún í sér nokkra ívilnun og raunar algera breytingu að því er varðar einstæða foreldra frá því, sem er í frv. Við leggjum til, að útsvar hjóna og einstæðra foreldra, sem halda heimili og framfæra þar börn sín innan 16 ára, lækki um 10 þús. kr., um 7 þús. kr. útsvar einstaklinga og um 5 þús. kr. hjá hvoru hjóna, ef þau telja fram sitt í hvoru lagi, og um 1500 kr. fyrir hvert barn innan 16 ára, sem gjaldandi hefur á framfæri sínu, og 2 þús. kr. fyrir hvert barn innan 16 ára, ef þau eru fleiri en þrjú. Þessa brtt. leggjum við mikla áherzlu á, sérstaklega að því er varðar frádrátt einstæðs foreldris, en ekki er gert ráð fyrir neinum sérstökum frádrætti einstæðra foreldra í þessu frv., sem við erum nú að ræða.

Þá gerum við tillögu til efnisbreytingar um álagningu aðstöðugjalds, breytingu á frv. eins og það er eftir 2. umr. hér í þessari d. í gær. Við gerðum við 2. umr. grein fyrir því, að þeirri breytingu, sem þá var gerð á frv., værum við ekki efnislega sammála, heldur teldum við það aðeins vera formlega leiðréttingu á frv., eins og það lá fyrir þá. Það er vitanlega með eindæmum, að það sé vísað í einni gr. í lög, sem síðan eru afnumin í þeirri næstu, eins og er í frv. Á þetta benti hv. 11. landsk. þm. í heilbr.- og félmn. og stjórnarsinnar sáu, að það mundi nokkru bjarga, að taka þessa ábendingu til greina. Þetta þýddi hins vegar alls ekki, að við værum þessari breytingu efnislega sammála, enda flytjum við brtt., sem ganga í aðra átt. Við í 2. minni hl. leggjum til, að aðstöðugjald megi leggja á á árinu 1972, en að hér verði ekki um að ræða ótakmarkaða heimild fram í tímann og aðstöðugjald megi ekki verða hærra í hverju sveitarfélagi en nemi helmingi þess hámarks, sem leyfilegt var á árinu 1971. Ég vísa um þetta atriði til þess rökstuðnings, sem við fluttum fyrir þessari skoðun okkar í gær, og viljum við að þessu leyti koma til móts við þær óskir samtaka atvinnuveganna, að þeim verði ekki íþyngt svo mjög sem nú er að stefnt með báðum þeim skattafrv., sem fyrir liggja hér á Alþ.

14. brtt. okkar er aðeins til samræmis eða leiðir af 1. brtt. okkar. Hún er aðeins um það, hvernig eigi að koma því fyrir, að framlög úr ríkissjóði, sem við nefnum þar, skuli renna til sveitarfélags, eftir hvaða reglum það skuli gert.

15. brtt. varðar loks atriði, sem hér var talsvert rætt í gær og að misjafnlega vel athuguðu máli að mér virtist. En okkar brtt. hljóðar svo:

„Við ákvæði til bráðabirgða bætist nýr liður: Sveitarstjórnum er heimilt með samþykki rn. að veita allt að 50% frádrátt frá tekjum giftrar konu, áður en útsvar er á þær lagt, þar til heildarendurskoðun á skattamálum hjóna hefur farið fram.“

Þetta er í samræmi við þá stefnu, sem okkar flokkur hefur markað, að heildarendurskoðun fari fram á skattamálum hjóna með það fyrir augum, að tekið sé tillit til þeirrar konu, sem vinnur alfarið á sínu heimili, eins og þeirrar konu, sem aflar tekna utan heimilis. Við viljum, að það sé gert á þann hátt, að við skattlagningu sé henni ætlaður til skattlagningar helmingur af tekjum heimilisins, hvort sem það er bóndinn, sem aflar þeirra tekna utan heimilis, konan, sem aflar þeirra, eða þau bæði til samans, þá séu alla vega þessar tekjur samanlagðar og þeim síðan skipt til helminga, áður en skattur er lagður á. Menn finna það þessari skoðun til foráttu, að þarna muni eiginkonu hátekjumanns verða óþarflega mikið ívilnað, eins og sagt er. Ég vil líka benda á það, að eiginmaður hátekjukonu, sem e.t.v. væri bundinn við störf á sínu heimili á meðan konan ynni úti allan daginn, nyti sams konar ívilnunar, ef það væri mönnum einhver huggun. Mín skoðun er sem sagt sú og ég er ófeimin við að segja það, að þótt tekjur heimilisins séu háar, hvort hjónanna sem aflar þeirra, þá tel ég, að hitt hjónanna eigi svo sannarlega sinn þátt í því, að þeirra tekna sé aflað, og finnst þessi röksemd, sem fram hefur verið borin gegn þessu, algerlega óhaldbær til að hagga þessari skoðun. Ég held einnig, að þessi stefna okkar sé mun nær meginreglum íslenzks sifjaréttar heldur en aðrar skoðanir, sem fram hafa komið um þetta efni.

Ég veit ekki, hvort ég á að fara út í þær röksemdir, sem hv. 5. þm. Vesturl. nefndi í sambandi við þessi mál. Hún virtist hafa talsverða tilhneigingu til að blanda þessari stefnu saman við aðstöðugjaldshugleiðingar. Ég vil aðeins benda á, að það fyrirkomulag, sem hún lagði til að upp væri tekið, að athuga störf á hverju heimili, hversu mismunandi þau eru, og meta þau síðan á mismunandi hátt og þá væntanlega til mismunandi hárra launa, þessi hugmynd er einmitt um það, að konan sé launþegi hjá manninum, m.ö.o. maðurinn atvinnurekandi, konan launþegi, heimilið fyrirtæki og maðurinn greiði aðstöðugjald. Ég sé ekki annað en þetta lægi í augum uppi, ef þessi leið væri farin. Þess vegna held ég, að það sé alveg einsýnt, að hún fylgi okkar till., ef hún er mótfallin því, að hjónin greiði aðstöðugjald af heimili sínu.

Ég legg enn áherzlu á það, að við endurskoðun á skattamálum hjóna verði haft samráð við sérfræðinga í sifjarétti, og vona og treysti því, að hæstv. ráðh„ sem þetta mál heyrir undir, hlutist til um, að svo verði gert.

Ég hef nú lokið við að mæla fyrir þessum till. í einstökum atriðum, vil aðeins við þetta bæta einu atriði, vegna þess að hv. 4. þm. Norðurl. e. lagði á það áherzlu hér í sínum málflutningi í gær, sem æ ofan í æ hefur komið fram sem röksemd eða ég vil segja afsökun stjórnarsinna fyrir því að standa hér að því að samþykkja þessi frv. Þeir segja sem sé, að þetta sé algerlega nauðsynlegt, vegna þess að við höfum samþ. hækkanir tryggingalaganna nú í vetur. Það er enginn mér vitanlega, — ekki a.m.k. í þeim þingflokki, sem ég starfa í, sem heldur því fram, að þetta sé eina leiðin til að fjármagna kerfi almannatrygginganna.

Því fer svo fjarri. Það má hugsa sér þar ýmsar leiðir, og margar þjóðir hafa reynt aðrar leiðir í þessu efni. Það skaðar ekki, að í því sambandi bendi ég á, svona rétt til að stytta mál mitt um þetta efni, grg. hv. 3. þm. Norðurl. v. fyrir till. um endurskoðun tryggingamála, sem hann flutti hér nú fyrir nokkrum dögum. Þar bendir hann einmitt á ýmis atriði í fjármögnun trygginga, sem kæmu til greina.

Sú niðurfelling nefskatta til tryggingakerfisins, sem stjórnarliðið hefur verið svo barnalega glatt yfir, allt frá því er þessi frv. voru lögð fram, er að mínu viti ekki að öllu leyti jafnánægjuleg og þeir vilja vera láta. Vera má, að ekki sé að öllu leyti rétt að kalla tekjuöflunarkerfi trygginganna, eins og það var, nefskatta, þar eð það voru í raun og veru svo mörg nef, sem ekki þurftu að standa straum af þessum skatti. Ég vil benda á, að tæp 18% gjaldenda á landinu árið 1970 voru elli- og örorkulífeyrisþegar, allt saman fólk, sem ekki þurfti að greiða nefskatta. Þetta fólk, 18% gjaldenda, var lögum samkv. undanþegið greiðslu þessara margumræddu nefskatta og naut sérstaks ellilífeyrisfrádráttar frá skattalögum. Þá má hafa það í huga, að á aldrinum 16–21 árs voru tæp 23% gjaldenda. Í mörgum sveitarfélögum tíðkaðist það að greiða tryggingagjöld fyrir fólk á þessum aldri, sem að miklum hluta til er námsfólk, sérstaklega þeir, sem eru innan við 18 ára, vegna þess að þeir voru innan við það tekjumark, sem ætlazt var til, að menn greiddu skatt af, voru á svonefndri skattleysingjaskrá. Enn má nefna, að talsverður hluti námsmanna greiddi ekki heldur nefskatta, bæði vegna sinna kjarasamninga og vegna lagaákvæða, en það voru iðnnemar. Ég hef því miður ekki tölur um, hvað þetta hefur verið margt fólk, en það sér hver maður, sem um þetta vill hugsa, að þetta er talsverður fjöldi. Enn bætist við, að fjöldi þeirra námsmanna, sem áður var gert að greiða tryggingagjald, fékk að vísu skattseðilinn sinn, þar sem þetta gjald var á lagt, en ég er hrædd um og geri ráð fyrir, að margir hv. þm. kannist við það, að það hafi verið í æðimörgum tilfellum, sem það féll í hlut foreldranna að greiða þetta gjald. Það, sem núna hefur gerzt, er, að þetta gjald hverfur af skattseðli unglinganna á heimilunum og er bætt við á skattseðil foreldranna, þó með misjöfnum þunga sé. Gjöld þessi hvíla eftir sem áður á heimilum unglinga. Ég held því, að þessi margumrædda niðurfelling nefskatta hafi ekki eins geysimikla þýðingu og oft er látið í veðri vaka.

Jafnvel má einnig benda á, að við fjármögnun tryggingakerfis finnst mér a.m.k. persónulega það vera skynsamlegt, að fólkið viti hvað það er að kaupa fyrir þá peninga, sem það greiðir til hins opinbera. Ég tel, að það væri sem sé ekkert á móti því, að sá hluti tekjuskatts, — ef fjármögnunin fer fram í því formi, — sá hluti tekjuskatts, sem gengur til tryggingakerfisins, sé tilgreindur, til þess að fólk átti sig á því, hvað það er, sem fer til þess að fjármagna tryggingarnar. Þá eru þær einnig nær því að vera raunverulegar tryggingar heldur en ef þær aðeins ganga inn í almennt tekjuöflunarkerfi ríkisins að ótilgreindum hluta. Það verður til þess, að talsvert dregur úr því tryggingasjónarmiði, sem ég tel, að eigi að ríkja á bak við fyrirkomulag almannatrygginga og ég held, að raunverulega hafi verið ætlunin í upphafi. Aðstoð við framfærslu á hins vegar að mínu viti fremur að tilheyra sveitarfélögunum og höldum við okkur þá við þá gömlu hugsjón, sem upphaflega stóð að margra áliti á bak við hina fornu hreppaskiptingu í landinu. Ég efast um, að það sé skynsamlegt að færa þau mál æ meir á ríkisins herðar. Þetta, vildi .ég sérstaklega benda á, vegna þess hve mjög því er haldið á loft, að tryggingakerfið sé orsök þess, að við séum að samþykkja þetta undarlega skattkerfi, sem nú stendur til að gera hér í báðum deildum Alþingis. Ég held, að hv. stjórnarsinnar verði að finna til þess einhverja haldbetri afsökun heldur en þá, að tryggingar þurfi að vera í landinu.