16.03.1972
Neðri deild: 53. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Grundvöllur þess frv., sem liggur hér fyrir um tekjustofna sveitarfélaga, er auðvitað sá, hvaða verkefni sveitarfélögin hafa með höndum og hversu mikið fé þau þurfa til þess að sinna þeim störfum. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga er mikið vandamál og ég ætla, að allir séu á einu máli um það, að á því máli þarf að fara fram gagnger og rækileg endurskoðun. Það er á því enginn vafi, að æskilegt er að greina betur sundur ýmis þau verkefni, sem nú hvíla sameiginlega á ríki og sveitarfélögum. Um sum verkefni er í raun og veru alveg óljóst eftir íslenzkum lögum, hvor aðilinn á að hafa frumkvæði. Ég get nefnt sem dæmi atvinnumálin, ef atvinnuleysi er yfirvofandi eða á skollið að sumu leyti, húsnæðismálin, og þannig mætti nefna marga fleiri málaflokka, sem í rauninni er ekki ljóst um eftir íslenzkri löggjöf, á hvorum aðila frumkvæðið og meginskyldurnar hvíla.

Í öðru lagi er mjög æskilegt að greina betur sundur ábyrgð og framkvæmdir og fjáröflun um ýmislegt, sem nú er á höndum beggja aðila. En einnig er það víst, að mörg mál, sem nú eru ýmist að öllu leyti eða einhverju leyti á höndum ríkisins, eru betur komin í höndum sveitarfélaganna einna. Ég nefni þar m.a. skólamál og fræðslumál, íþróttamál og mannvirki, félagsmál ýmis, barnaheimili, barnavernd, velferðarmál aldraðra og margt og margt fleira mætti hér tiltaka. Þetta er allt að sjáifsögðu til athugunar og ég veit, að hæstv. ríkisstj. hefur í hyggju að gefa þessu málefni verulegan gaum. Hingað til liggja ekki fyrir neinar till. í þessu efni frá ríkisstj., fyrir utan það, sem ég mun nefna hér á eftir, tryggingar og löggæzlu, en mér dettur ekki í hug að álasa hæstv. ríkisstj. fyrir það. Þvert á móti, ég tel einmitt, að slík athugun þurfi mjög gaumgæfilega skoðun og krefjist síns tíma.

En þetta frv., sem hér liggur fyrir, byggist á því m.a., að tveir málaflokkar séu að öllu leyti á kostnað ríkisins, sem sveitarfélögin hafa greitt til áður, það eru tryggingarnar og það er löggæzlan. Um þetta er ekki nema gott eitt að segja og í samræmi við óskir og till. sveitarstjórnasambandsins fyrr og síðar. Það er því ekkert óeðlilegt, þó að Samband ísl. sveitarfélaga þakki fyrir sig og hafi á ráðstefnu sinni nú ekki alls fyrir löngu þakkað ríkisstj. fyrir þessar góðu gjafir.

En í sambandi við framkvæmd þessa máls er þó ekki hægt hjá því að komast að minnast á það, sem aflaga fer. Nú er það svo, að löggæzlumenn eru yfirleitt eða að verulegu leyti starfsmenn sveitarfélaganna og á nú að gera þá að starfsmönnum ríkisins og ríkið hafi allan tilkostnað við löggæzluna. Hér í Reykjavík eru að ég ætla 164 lögreglumenn, sem allir eru skipaðir starfsmenn Reykjavíkurborgar. Með þessum fyrirætlunum ríkisstj. er ætlunin að flytja þennan hóp manna þegjandi og hljóðalaust frá Reykjavíkurborg yfir á hendur ríkisins. Fyrir þessu er gert ráð í grg. með þessu frv., sem hér liggur fyrir, og margyfirlýst af ríkisstj. Nú skildi maður ætla, að það hefði þó verið frumskylda hæstv. ríkisstj. að ræða við þessa starfsmenn og samtök þeirra, sem eru löggildur aðili að kjarasamningum, áður heldur en slíkar ráðstafanir eru tilkynntar og ákveðnar. En svo er mál með vexti, að þótt nú séu liðnir röskir þrír mánuðir frá því að þetta frv. er lagt fyrir og tilkynnt var opinberlega um þessar ákvarðanir ríkisstj. og þingmeirihluta, þá hefur ekkert verið af hálfu ríkisstj. rætt við þessa starfsmenn, sem þannig á að þeim forspurðum að því er virðist að flytja frá borg yfir til ríkis.

Nú skal ég undirstrika það og endurtaka, að það hefur verið ósk sveitarstjórnarmanna, að sveitarfélögin losnuðu við þennan kostnað, en vinnubrögðin í þessu efni eru óafsakanleg. Og svo hefur þessum vinnubrögðum verið tekið, að 12. febr. s.l. hélt Lögreglufélag Reykjavíkur, sem er lögmætur samningsaðili um þetta mál. aðalfund sinn og voru þar lagðir fram undirskriftalistar frá 114 lögreglumönnum, þar sem þeir mótmæla því, að borgarlögreglan í Reykjavík verði gerð að ríkislögreglu, nema því aðeins, að tryggt verði með fyrirfram gerðum samningum milli ríkisstj. og Lögreglufélags Reykjavíkur, að í engu verði skert starfskjör, sem borgarlögreglumenn njóta nú, en þau eru í ýmsu betri en starfskjör ríkislögreglumanna. Við teljum það fráleitt, að Reykjavíkurborg sé látin afhenda ríkinu 164 starfsmenn sína, án þess að neitt sé um það rætt við stjórn stéttarfélags þeirra eða á annan hátt leitað þeirra álits. Í framhaldi af þessu gerði svo Lögreglufélag Reykjavíkur ályktun um þessi mótmæli, sem send var dóms- og kirkjumrn., en það virðist koma fyrir ekki, engar viðræður hafa enn í dag átt sér stað við þennan aðila. Nú er það svo, að eins og kemur fram í þessum undirskriftum og álitsgerðum, þá njóta borgarlögreglumenn að ýmsu leyti betri kjara heldur en ríkislögreglumenn, og eitt er það, sem ég ætlast beinlínis til, að hæstv. ríkisstj. gefi yfirlýsingar um, um leið og hún hefur ákveðið, að þessi hópur manna skuli þannig flytjast yfir til ríkisins, yfirlýsingu um það, að þessir opinberir starfsmenn skuli einskis missa í varðandi sín kjör.

Í öðru lagi er æskilegt að fá það upplýst, hvernig hugsuð er samningsaðild þessara starfsmanna gagnvart ríkinu, eftir að þessi flutningur hefur átt sér stað. Hingað til hefur Lögreglufélag Reykjavíkur verið beinn samningsaðili við hlið Starfsmannafélags Reykjavíkur við borgaryfirvöld, og nú er spurningin, er það ætlun ríkisstj., að þetta félag renni þá inn í Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og að það verði samið um þess mál ekki beint, eins og verið hefur, heldur fyrir milligöngu þess handalags. Ég vildi vekja athygli á þessu atriði í sambandi við flutning á þessum starfsmönnum, því að ég tel, að hér sé um vinnubrögð að ræða, sem ekki er hægt að þegja yfir og sem ekki er hægt að bjóða stórum hóp starfsmanna hins opinbera. Og þetta er að vísu furðulegt. Það er eins og það ætli að verða árátta hæstv. ríkisstj. hinna vinnandi stétta að storka opinberum starfsmönnum með vinnubrögðum, sem að dómi formanns BSRB minna helzt á aðfarir útlendra atvinnurekenda gegn íslenzkum launþegum fyrir rúmlega hálfri öld. Þegar þetta bætist ofan á þá stórstyrjöld, sem hæstv. ríkisstj. hefur staðið í mánuðum saman við BSRB, þá er vissulega ástæða til þess að hreyfa þessu og óska skýrra svara frá hæstv. ríkisstj.

Þegar menn reyna að gera sér grein fyrir því, hverra tekjustofna sveitarfélögin þurfi með til að sinna sínum verkefnum, þá er það upp talið í 1. gr. þessa frv., hverjir þeir tekjustofnar séu, og er það að verulegu leyti í samræmi við það, sem gildandi er nú, útsvör, aðstöðugjöld, framlög úr Jöfnunarsjóði og fasteignaskattur. Nú er það svo, að langsamlega mikilvægasta sporið, sem stigið hefur verið til umbóta fyrir sveitarfélögin, var stigið 1960, þegar sveitarfélögunum var fenginn hluti af söluskatti. Það hafði löngum verið baráttumál sveitarfélaganna, að þau þyrftu ekki að mestu leyti að byggja á útsvörunum, sem auðvitað eru miðað við stopula og breytilega atvinnuafkomu nokkuð breytileg frá ári til árs, og óskuðu eftir því að fá fleiri stoðir að standa á. Þetta var gert 1960 með þessari mikilvægu ákvörðun Alþ. þá að veita sveitarfélögunum um hendur Jöfnunarsjóðs 1/5 söluskattsins. Þetta helzt áfram óbreytt, þó þannig, að nú eru aðrar prósentur heldur en upphaflega voru ákveðnar, viss hundraðshluti af aðflutningsgjöldum og viss hundraðshluti af söluskatti, en í meginatriðum er þessu haldið enn, og er ætlað að gera það með frv. En í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár munu það vera um 614 millj. kr., sem sveitarfélögin eiga með þessu móti að fá. Að þessu leyti er því gert ráð fyrir að halda áfram því, sem gert var réttilega 1960, og er það vel. Þó hefði ég talið æskilegt fyrir mitt leyti, að hlutur sveitarfélaganna af þessum tekjustofnum, hinum óbeinu sköttum, væri gerður stærri heldur en nú er.

Ég nefndi það, að sveitarfélögin hefðu með eðlilegum hætti þakkað fyrir sig á þeim fulltrúaráðsfundi, sem haldinn var ekki alls fyrir löngu, og hefur því mjög verið á lofti haldið af stjórnarsinnum og málgögnum þeirra. Og þá er alltaf vitnað í örlítinn hluta, hinn almenna inngang í þessari yfirlýsingu, en sleppt því, sem kannske er ekki alveg eins hagstætt fyrir hæstv. ríkisstj.

Fulltrúaráðsfundurinn lýsti því yfir, að hann teldi frv. fela í sér mikilvæga einföldun á samskiplum ríkis og sveitarfélaga og stefnt virtist að einfaldara og virkara skattkerfi, — það er nú að vísu sagt „virðist“, það er ekki alveg fullyrt, að svo sé, að tekjustofnar sveitarfélaga eru ekki eins haðir hagsveiflum og verið hefur og ríkið tekur að mestu að sér hina félagslegu þætti skattlagningar. Þetta, að ríkið tekur að sér löggæzlukostnað og almannatryggingar, er eðlilegt og allir sammála um það.

Varðandi það, að sveitarfélögin verði ekki eins háð hagsveiflum, þá er auðvitað átt við fasteignaskattana, sem allir vita, að er mjög traustur tekjustofn og breytist ekki svo ýkjamikið frá ári til árs, þótt aðrir tekjustofnar kynnu að breytast. Það er ekkert óeðlilegt, að sveitarfélögin fagni þessu, en um leið og ég nefni fasteignaskattana, þá vil ég taka það fram, að þótt þeir séu sjálfsagðir tekjustofnar sveitarfélaga, þá tel ég, að of langt sé gegnið og fasteignaskattarnir ætlaðir of háir með þessu frv., sem hér liggur fyrir. En það segir fleira en þetta í ályktun sveitarstjórnasambandsins. Þar segir í fyrsta lagi, að tekjustofnakerfi það, sem í frv. felst, gefi alls ekki nægilegt svigrúm til tekjuöflunar. Það sé ljóst, að mörg þéttbýlissveitarfélög verði að nýta alla tekjuöflunarmöguleika með öllum álagsheimildum frv. og nokkur sveitarfélög virðist alls ekki ná saman endum. Meiri sveigjanleiki í notkun tekjustofna sé nauðsynlegur en gert er ráð fyrir í frv. Enn fremur segja sveitarfélögin: Eigi sveitarfélögin að geta haldið þeim framkvæmdahraða, sem þau hafa haft að undanförnu, hvað þá aukið hann, sem víða virðist nauðsynlegt, er fullljóst, að ákvæði frv. gefa alls ekki nægilega möguleika til tekjuöflunar. Þess vegna er niðurstaða þessa fundar m.a. sú, að það þurfi að gera þær breytingar að veita meiri möguleika til tekjuöflunar og sveitarfélögin þurfi á meiri valkostum að halda í nýtingu tekjustofna.

Á margt fleira er bent, sem æskilegt væri að breyta í þessum frv. Þetta er nauðsynlegt, að við höfum í huga. Og í stað þess að stefna markvisst að auknu sjálfsforræði sveitarfélaganna, gefa þeim sæmilega rúmar hendur til þess að sinna sínum mikilvægu verkefnum, þá er með þessu frv. fremur þrengt að þeim og þau fá ekki það svigrúm, sem þau óska eftir og þurfa á að halda. Nú veit ég ósköp vel, að hæstv. ráðh. munu svara þessu, að sveitarfélögin þurfi meira svigrúm og meiri tekjumöguleika, með því, að þetta stangist alveg á við það, sem hér hafi verið haldið fram af stjórnarandstöðunni, að heildarupphæð skattanna samkv. þessum frv. sé allt of há. Og hér rekist eitt á annars horn, eins og hæstv. félmrh. vitnaði hér í eftir þjóðskáldið. En við þetta er margt að athuga.

Í fyrsta lagi er það, að við, sem höfum gagnrýnt, að heildarupphæð skattanna til hins opinbera samkv. þessum frv. geti orðið og verði líklega allt of há, byggjum gagnrýni okkar að þessu leyti fyrst og fremst á því, að ríkissjóður ætli að taka miklu meira til sinna þarfa en æskilegt er, en ekki sveitarfélögin. Og þegar við lítum á það, sem ég aðeins minntist á við 3. umr. um tekjuskattsfrv., þegar við athugum, að útgjöld ríkisins hækka á einu ári um sem næst 50%, þá hljóta menn að sjá, að hér er eitthvað bogið við og verður að staldra víð. Ég skal út af ummælum hv. frsm. meiri hl. taka það fram, að ég er ekki að ásaka núv. hæstv. ríkisstj. fyrir þessa útgjaldaaukningu alla saman. Því fer fjarri. Það er alveg réttilega á bent af honum, að margt af þessu stafaði af eldri ákvörðunum eins og launasamningum opinberra starfsmanna frá 1970, af því að ríkissjóður tekur tryggingamálin o.s.frv. Þetta er sjálfsagt að viðurkenna. En engu að síður hljóta allir alþm., hvar í flokki sem þeir standa, hvort sem þeir eru stuðningsmenn eða andstæðingar núv. ríkisstj., að staldra við og hugleiða: Er það mögulegt fyrir hið íslenzka þjóðfélag að halda áfram á þessari braut að hækka svona stórkostlega útgjöld ríkisins og álögur hins opinbera á einu ári og taka jafnmikinn hluta þjóðarteknanna eins og gert er með þessu?

Það er líka margt, sem bendir til þess, að ríkið ætli sér nokkru stærri hlut nú af tekjum hins opinbera heldur en ástæða er til. Og það leikur grunur á því, að sá mikli tekjuauki, sem ríkissjóður muni fá með tekjuskattslögunum nýju, verði meiri heldur en nemur þeim útgjaldaauka, sem hann tekur nú á sig frá sveitarfélögunum, þannig að okkur segir svo hugur um, að ríkissjóður muni nú heldur hagnast á þessu um leið og hann þrengir kosti sveitarfélaganna.

En um leið og við tölum um það að gefa sveitarfélögunum nægilegt svigrúm og sæmilega frjálsar hendur, þá vil ég líka minna á það, að sveitarfélögin hafa á undanförnum árum og áratug ekki notað til fulls allar þær álagsheimildir, sem þau hafa haft. Ef litið er t.d. á útsvarsálagninguna s. I. áratug, þá ætla ég, að muni hafa á skort frá 6% og upp í 24%, þegar tekin eru öll sveitarfélög landsins, að þau hafi í heild notað ýtrustu möguleika til útsvarsálagningar. Ég held líka, að sveitarfélögunum sé treystandi til þess að hafa sæmilega rúmar hendur um tekjuöflun, vegna þess að sveitarfélögin bera vissulega sína pólitísku ábyrgð ekki síður heldur en Alþ. og ríkisstj. Hver sveitarstjórn er ábyrg sinna gerða, bæði náttúrlega gagnvart sinni eigin samvizku og auk þess gagnvart kjósendum, sem þær þurfa að bera sin mál undir á fjögurra ára fresti. Og kem ég nú að atriði, sem ég bið sérstaklega hæstv. félmrh. að leggja vel eyru við.

Svo hefur nefnilega verið í okkar skattamálum undanfarin ár, ég vil segja allan áratuginn, að flestir hafa verið sammála um það að miða skattalög, hvort sem er til ríkis eða sveitarfélags, við það að taka í vaxandi mæli tillit til félagslegra ástæðna, mannúðarástæðna, líknarsjónarmiða, menningarsjónarmiða. Ef menn athuga skattalög síðustu áratugi, þá gætir þessara sjónarmiða í vaxandi mæli við skattalagabreytingar hér á hv. Alþ. Nú er því ekki að neita, að við athugun á þessu frv. virðist að mörgu leyti stefnt hér í öfuga átt og brott frá þeirri mannúðar- og félagsmálastefnu, sem verið hefur ríkjandi að undanförnu. Og ég veit, að hæstv. núv. félmrh. hefur mikinn og einlægan áhuga á þessum efnum, en ég er hræddur um, að honum hafi bara orðið á í messunni að þessu leyti með flutningi frv., og vonast til þess, að þegar hann stígur í stólinn næst, þá verði betra hljóð í honum varðandi þetta efni. Þetta skal ég nú aðeins rökstyðja í fáeinum orðum.

Með þessu frv. er gerð sú grundvallarbreyting á útsvarsálagningu, að í stað þess að leggja á nettótekjur, eftír að alls konar frádrættir hafa verið leyfðir af mannúðar- og menningarástæðum, þá á nú að leggja útsvar á brúttótekjur og þar með svipta gjaldanda margvíslegum frádrætti, sem hann af þessum ástæðum hefur getað leyft sér. Og ef við lítum t.d. á það, sem leyft hefur verið hingað til og er í gildandi lögum, en á nú að banna, þá eru það t.d. þær undanþágur, sem greinir bæði í 12. og 13. gr. núgildandi tekjuskattslaga. Frá tekjum skal draga, áður en skattur er á lagður, segir í upphafi þessara gr. beggja, og þetta átti bæði við tekjuskatt og útsvar. Þessum frádráttarheimildum er haldið í verulegum atriðum varðandi tekjuskatt, en þær eiga að falla niður varðandi útsvör. Og hvað er hér um að ræða? Það er í fyrsta lagi samkv. 12. gr. vexti af skuldum gjaldanda. Nú er það svo, að vafalaust er það rétt, að þessi heimild hefur verið misnotuð og það er æskilegt að takmarka hana. Og á það var hins vegar réttilega bent af hv. 8. landsk. þm., Braga Sigurjónssyni, í ágætri ræðu hans í gær, að vitanlega eru það fráleit vinnubrögð að ætla þá að láta saklausa gjaldendur, sem vissulega þurfa á þessum frádrætti að halda, gjalda fyrir einhver mistök einhverra annarra eða misnotkun. Og vegna þess að margir hér á landi og fleiri en þekkist í öðrum löndum eiga sjálfir sínar íbúðir og byggja yfir sig, þá er það svo, að vaxtabyrði er væntanlega nokkru almennari og þyngri á hinum almenna gjaldanda og ekki sízt á unga fólkinu heldur en annars staðar. Hingað til hefur verið eftir gildandi lögum heimild fyrir t.d. ungt fólk, sem hefur komið sér upp íbúð, að draga frá vaxtagreiðslur, sem vel geta verið undir eða yfir 100 þús. Það er ekki gott að vita. Ef menn skulda í nýrri íbúð eina millj., sem ég býst við, að sé ekki ákaflega óalgengt, eru vextir af því 100 þús. kr. Þetta á að koma til frádráttar tekjum manna. Nú er bannað samkv. frv. að draga þetta frá útsvarstekjum, því að það á að leggja á tekjurnar brúttó.

Glöggt dæmi um furðulega útkomu í þessu efni var dregið hér fram tvívegis af hv. 5. þm. Norðurl. e., Lárusi Jónssyni, og óskað svara. En þau svör hafa ekki fengizt. Og það er þetta, að ef fjölskylda hefur af nauðsyn vegna stækkunar hennar selt sína íbúð og keypt aðra í staðinn, þá sem sagt fær sá aðili væntanlega vaxtatekjur af þeirri íbúð, sem hann seldi. Það telst honum til tekna og verður lagt á það útsvar, en hann fær engan frádrátt fyrir þeim vöxtum, sem hann þarf að greiða af hinni nýju íbúð. Þetta er óréttlæti og fráleit niðurstaða, sem er ekki viðunandi. Í rauninni hjálpar það ekki ýkjamikið, þó að sett sé nú inn ákvæði varðandi fasteignaskatta í 5. gr. 4. mgr. þessa frv. um. að sveitarstjórn sé heimilt að undanþiggja nýjar íbúðir og íbúðarhús fasteignaskatti í allt að tvö ár, eftir að afnot hefjast, því að þetta ákvæði er líka ranglátt. Það getur auðvitað hjálpað mörgum, en ef tvær fjölskyldur, ungar fjölskyldur með nýstofnað heimili, kaupa sér íbúð, önnur nýja íbúð og hin notaða íbúð, þá nýtur önnur þessara fríðinda, en hin ekki. Þetta er ekki réttlátt.

Ef við lítum frekar á 12. og 13. gr. tekjuskattslaga um heimild til undanþága, þá eru m.a. í e-lið 12. gr. undanþegnar tekjuskatti einstakar gjafir til menningarmala, vísindalegra rannsóknastofnana, viðurkenndrar líknarstarfsemi o.s.frv. innan vissra marka. Þetta ákvæði hefur haft mjög mikla þýðingu fyrir þau líknar-, menningar- og vísindasamtök, sem hér er um að ræða. Þessu er nú kippt burt að því er útsvörin snertir. Og í f-lið þessarar 12. gr. segir, að draga megi frá tekjum kostnað við öflun bóka, tímarita og áhalda til vísindalegra og sérfræðilegra starfa o.s.frv. Nú verður útsvar lagt á allt þetta, og er það ekki beinlínis til framdráttar vísindastarfsemi og rannsóknum í landinu.

Ef við lítum svo á 13. gr., þá kemur fyrst, að draga skal frá eftir gildandi lögum kostnað við stofnun heimilis og skal sá frádráttur nema 55 þús. kr. Þetta er fellt niður. Það má ekki draga þetta frá við útsvarsálagninguna. Í öðru lagi helming af björgunarlaunum, er áhafnir skulu hljóta. Þetta má ekki lengur draga frá við útsvarsálagninguna. Iðgjöld launþega til stéttarfélaga, sjúkrasjóða og styrktarsjóða má ekki heldur draga frá. Iðgjöld af lífeyri, sem skattgreiðandi er skyldur samkv. lögum að tryggja sér eða maka sínum og börnum sínum. og iðgjöld af hverri annarri lögboðinni persónutryggingu.

Þetta voru nokkur dæmi þess, sem nú skal draga frá tekjum, áður en útsvar er á lagt. Þetta er ekki heimilt eftir þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Enn eitt dæmi skal ég nefna. Meðlagsgreiðslur með börnum. t.d. til einstæðra mæðra, hvort sem það eru ógiftar mæður eða ekkjur, eru núna frádráttarbærar. Það segir í 16. gr. núgildandi tekjuskattslaga: „Meðlagsgreiðsla skal ekki talin til tekna hjá því foreldri, sem við henni tekur.“ M.ö.o. það er ekki lagt útsvar á það. Ég hef ekki komið auga á — það má vera, að hægt væri að benda manni á það, en ég hef ekki komið auga á heimild til þess í þessu frv. um tekjustofna sveitarfélaga — heimild til þess að undanþiggja meðlagsgreiðslur með börnum útsvari. Ef við nú athugum það, að meðlagsgreiðsla á s.l. ári var að ég ætla 30 þús. með hverju barni, þá má sjá, hversu miklu máli þetta skiptir. Við skulum taka ekkju eða einstæða móður með þrjú börn, 90 þús. kr. Þetta er skattfrjálst í dag eftir gildandi lögum, en útsvar virðist eiga að leggja á það að fullu eftir þessu frv. Ég vonast til þess, að hæstv. ráðh. geti bent á eitthvað í frv., sem veiti þarna undanþágu, og mundi auðvitað fagna því, en ég hef ekki komið auga á það. Og þó að í 26. gr. þessa frv. sé heimild til þess eða þar segi nú, að fyrir hvert barn 16 ára eða yngra, sem gjaldandi hefur á framfæri sínu, skal lækka útsvar hans um 1000 kr., þá hjálpar þetta ákaflega lítið í þessu dæmi, sem ég var að nefna, því að heimildin, sem kemur þar næst á eftir, heimild til að lækka um 2 þús. kr. fyrir hvert barn, gildir því aðeins, að gjaldandi hafi fleiri en þrjú börn innan 16 ára á framfæri sínu.

Þetta, sem ég nú hef nefnt, er ein af mörgum óheillavænlegum afleiðingum þess að fara inn á brúttóálagningu útsvara. Ég fyrir mitt leyti er andvígur þeirri leið og ég tei. að hér sé ranglega að farið og ríkisstj. hefði átt að halda áfram nettóteknaleiðinni og nota hana bæði við álagningu tekjuskatts og útsvars, eins og verið hefur.

En það er fleira, sem hér kemur til greina. Nú höfum við heyrt það hvað eftir annað, að þessar breytingar og sérstaklega breytingin varðandi útsvörin. 1%, 10% í stað 10%, 20% og 30% nú, sé mikil einföldun og verði til þess að greiða fyrir því, að staðgreiðslukerfið verði upp tekið. Þetta er nú ekki nema hálfur sannleikur. Að vísu greiðir það fyrir staðgreiðslukerfi að fækka þrepunum eða tekjuskattsstigunum. En á hinn bóginn er það spor í öfuga átt og málið gert flóknara og erfiðara fyrir staðgreiðslukerfi, að nú er tvenns konar grundvöllur, nettó varðandi tekjuskattinn og brúttó varðandi útsvörin. Það er vissulega í framkvæmd til mikils trafala.

En varðandi staðgreiðslukerfið, þá vil ég aðeins undirstrika það enn þá einu sinni, að ég tel brýna þörf á, að hraðað sé að koma því á. Það er rétt, án þess að ég ætli að fara út í almennan rökstuðning fyrir því máli eða rekja sögu þess, að minna á það, að það eru liðin um það bil tíu ár síðan undirbúningur hófst að þessu máli. Og fyrir réttum níu árum eða í marz 1963 gerði hv. 1. landsk. þm., Eggert G. Þorsteinsson, fsp. hér í Alþ. um það, hvað liði rannsókn og athugun á því, að opinber gjöld verði innheimt af launum jafnóðum og þau eru greidd. Það féll í minn hlut að gera grein fyrir þessu, og skýrði ég þá m.a. frá því, að haustið áður, 1962, hefði verið hafinn undirbúningur og öflun gagna um þetta mál. Síðan hefur þetta mál verið á döfinni í áratug og verið lögð í það mjög mikil vinna. Árið 1967 var kosin mþn. í málið. Hún skilaði áliti snemma árs 1970, sem hæstv. ríkisstj. þáv. lét leggja fyrir Alþ. og er þar mjög ýtarleg grein gerð fyrir málinu. Og niðurstöður þeirrar nefndar, sem hafði unnið að málinu í nær þrjú ár, var þessi, að hún var sammála um að leggja til. að staðgreiðslukerfi skatta yrði komið á hér á landi. Varðandi framkvæmdina er aðeins eitt atriði, sem ég vildi hér drepa á. Og það er það, að nefndin lagði til, að stigar tekjuskatts og útsvars eða þrep stiganna yrðu gerð tvö í stað þriggja. Með þeim hætti, að tvö þrep yrðu varðandi hvorn skattinn sem væri, þá mætti vel framkvæma staðgreiðslukerfið. Ekki var talið nauðsynlegt og er ekki talið nauðsynlegt, að það sé aðeins eitt. Að vísu mundi það verða enn þá auðveldara og einfaldara í framkvæmd. Nú er það þannig samkv. þeim frv., sem ríkisstj. leggur fyrir, að tekjuskattsstigarnir eru, eins og nú er orðið, þrír eða þrepin þrjú, en hins vegar eitt stig varðandi útsvörin. Það fáránlega eða furðulega ákvæði, sem var í frv. upphaflega um alls konar lækkanir, þýddi það, að raunverulega voru útsvarsþrepin 27, en ekki eitt. En sem betur fer hefur það verið afnumið í meðförum þingsins.

Ég vil undirstrika, að það er alger misskilningur, að brúttókerfið eða brúttóálagning sé nokkurt skilyrði fyrir staðgreiðslu. Ég tel einmitt, að það torveldi, vegna þess að tekjuskatturinn er lagður á nettó. Hitt er svo annað mál, að æskilegust í sambandi við staðgreiðslukerfið væri sú leið, sem bent hefur verið á í nál. sjálfstæðismanna hér í sambandi við þessi mál, að álagning tekjuskatts yrði í rauninni í einu lagi, sem sagt, það yrði sameinaður tekjuskattur og tekjuútsvar, lagt á í einu lagi og sveitarfélögin fengju þann tekjustofn. Jafnvel þó að menn vildu ekki ganga svo langt, að sveitarfélögin fengju þann tekjustofn allan, þá tel ég mjög æskilegt, að að því verði stefnt, að hvort tveggja verði lagt á í einu lagi og þá helzt ekki með meira en tveim skattþrepum. Með þeim hætti ætti að vera orðinn góður grundvöllur fyrir staðgreiðslukerfi, sem ég tel mjög æskilegt að komist á hið fyrsta.

Ég skal ekki hafa öllu fleiri orð um þetta mál að sinni, en vil að lokum minnast þó á eitt mál, vegna þess hve mjög það hefur verið rætt hér í þessum umr., og það er varðandi sköttun hjóna. Hér liggja fyrir ýmsar till. í því efni og skal ég ekki fara út í þær. Ég gerði það nokkuð í sambandi við umr. um tekjuskattsfrv. hér um daginn. Ég tel fyrir mitt leyti, að æskilegust lausn sé sú, sem sjálfstæðismenn hafa gert að till. sinni hér í þingi og raunar oft áður, þ.e. að tekjum hjóna verði skipt til helminga eða að samanlögðum skattskyldum tekjum hjóna, sem samvistum eru, verði skipt til helminga og reiknaður skattur af hvorum helmingi fyrir sig.

Hins vegar er þetta mál allt saman ákaflega flókið. Bæði koma hér inn reglur gildandi laga um fjármál hjóna, um hjúskapareign og hjúskaparrétt, um séreign, og ekki síst það ákvæði, sem er í lögum og m.a. í þessu frv. um tekjustofna nú, að hjón bera fulla ábyrgð hvort á annars sköttum. Þetta hefur komið ákaflega illa út oft og tíðum, þegar t.d. eiginkona hefur helgað heimilinu alla starfskrafta sina og alls ekki unnið úti, og eftir margra ára hjúskap skilja hjónin og það er kannske skattskuld á heimilinu, sem nemur stórkostlegum fjárhæðum, kannske nokkur hundruð þúsundum eða 1/2 millj., eins og ég ætla, að hafi komið fyrir ekki alls fyrir löngu. Konan, sem aldrei hefur haft út úr þessu neinar tekjur, sama sagan eins og um venjulegar húsmæður, hún er svo, þegar hjónin skilja, ábyrg fyrir þessari skattgreiðslu. Þetta er auðvitað alveg fráleit niðurstaða og er eitt af mörgum dæmum, sem styður það, að hér þarf gagngerðrar endurskoðunar við. Nú hefur því verið yfir lýst af hæstv. ríkisstj., að áfram verði haldið endurskoðun á skatta- og útsvarsmálum, enda er auðvitað full þörf á því, og m.a. hefur hæstv. fjmrh. lýst því yfir, að þetta mál varðandi tekjur hjóna verði tekið alveg sérstaklega til athugunar. Hv. 12. þm. Reykv. benti á það hér núna áðan í sinni ræðu, að æskilegt væri, að sérfræðingar á sviði sifjaréttar væru þar til fengnir. Ég vil í þessu sambandi benda sérstaklega á eitt og beina því til bæði hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh., sem báðir munu að sjálfsögðu hafa hönd í bagga um þessa endurskoðun. Nýlega hefur verið stofnuð við Háskóla Íslands sérstök rannsóknastofnun um fjölskyldurétt og fjölskyldumálefni. Sú rannsóknastofnun er á vegum lagadeildar Háskólans, en skal hafa samvinnu við aðrar háskóladeildir og hliðstæðar stofnanir erlendis. Nú vildi ég beina því til hæstv. ráðh., að ég teldi mjög æskilegt, að það yrði kannað, hvort þessi rannsóknastofnun vildi ekki taka að sér að kanna þetta mál rækilega, um skattamál hjóna, afla gagna um það frá öðrum löndum, bæði um löggjöf og greiðslu og sem sagt kanna málið til hlítar, þannig að slík hlutlaus könnun lægi fyrir, þegar Alþ. næst þarf um þetta mál að fjalla.