16.03.1972
Neðri deild: 53. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (706)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér í hinar almennu umr. um þetta frv. Mig langar aðeins til að segja fáein orð út af brtt., sem ég hef lagt til við 3. gr. frv., á þskj. 467, og sem ég er svona satt að segja hálfpartinn að gera mér vonir um, að kynnu kannske að verða samþ. af hv. stjórnarsinnum.

Fyrir jól lagði hv. 4. þm. Reykv., Tómas Karlsson, sem þá sat í Ed., fram till. þess efnis, að leggja skyldi 3% af fasteignamati íbúðar sem fasteignaskatt á það, sem væri umfram 3 millj. kr. Og með þetta var ég ákaflega ánægður. Ég sá það, að hér var í reynd farið að leggja á breiðu bökin, sem rætt hafði verið um, og gott ef það var ekki nefnt í kverinu, og taldi nú alveg sjálfsagt að fylgja svo ágætri till., þegar hún kæmi hér til hv. Nd. En eitthvað hefur gerzt í Ed., till. var þar felld, og trúlega hafa einhverjir stjórnarsinnar ekki lesið kverið nógu vel þann daginn. Ég hafði vonað, að þessi till. yrði kannske tekin upp við 2. umr. eða í hv. n. og að þetta mundi koma við 2. umr. En þegar það gerðist ekki, þá leyfði ég mér að flytja brtt. við 3. gr., sem er þó aðeins heimildartillaga, og miklu ómerkilegri í raun og veru heldur en hin till., sem flutt var. Hér er aðeins um heimild að ræða og er talað um í minni till. að heimila sveitarstjórn að leggja á 2% af fasteignamati íbúðarhúsanna, sem er umfram 4 millj. Og nú er ég að gera mér vonir um, að hæstv. stjórnarsinnar verði mér sammála um það, að það séu aðeins allra breiðustu bökin, sem hér er verið að leggja á, og mundu kannske geta fallizt á að samþykkja þessa till.

Í annan stað hef ég leyft mér að vekja athygli á því og flytja heimildartillögu um það, að heimilt sé sveitarstjórn, að fengnu samþykki fjmrh., að fella niður fasteignaskatt af fasteignum, — það hefði átt að standa „atvinnurekstrar“, — sem eru ekki notaðar í þágu atvinnurekstrar. Rökin fyrir þessari till. eru auðvitað alveg augljós. Mér finnst, að það sé fráleitt að leggja fasteignaskatt á fyrirtæki, atvinnufyrirtæki, sem eiga einhverjar fasteignir, en þar sem enginn rekstur á sér stað. Og mér er kunnugt um, að þetta er reynd á mörgum stöðum úti um land. Við skulum nefna síldarvinnslustöðvar. Þær kannske eiga einhverjar fasteignir og svo á að leggja 1% gjald eða svo á þessar fasteignir, en alls enginn rekstur er fyrir hendi. Og með hverju á eiginlega að borga þetta? Sum þessi fyrirtæki eiga kannske fullt í fangi með að borga afborganir og vexti, þó að þau eigi svo ekki að fara að borga fasteignagjöld til viðbótar. Mér finnst þetta eiginlega nálgast eignaupptöku, og ég bara skil ekki, með hverju slíkir aðilar ættu að borga í raun og veru. Mér finnst þess vegna nauðsynlegt að hafa slíka heimild inni í lögum. Fyrirtækin mundu sækja um til sveitarstjórnar. Sveitarstjórn mundi meta það, hvort þetta sé rétt, og sækja væntanlega um heimild fjmrh. og ég treysti því, að þetta yrði ekki gert nema í þeim tilvikum, þar sem þetta væri álitið réttlætismál.

Þetta eru afskaplega saklausar og eiginlega litlar till. Önnur hefur tvímælalaust a.m.k. eitthvert fylgi í stjórnarflokkunum. Hin finnst mér vera réttlætismál, og því vildi ég leyfa mér að vona, að þær hljóti nú þrátt fyrir allt og á elleftu stundu stuðning hv. stjórnarsinna.