27.10.1971
Neðri deild: 6. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

20. mál, innflutningur búfjár

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Hinn 9. okt. 1969 skipaði fyrrv. landbrh. þriggja manna nefnd til þess að endurskoða lög um innflutning búfjár. Í nefndina voru skipaðir Páll A. Pálsson yfirdýralæknir, Guðmundur Jónsson skólastjóri á Hvanneyri og Ólafur E. Stefánsson ráðunautur.

Áður en ég vík að þessu frv., sem hér liggur nú fyrir á þskj. 20 og er breyting á lögum nr. 74/1962, um innflutning búfjár, ætla ég í nokkrum orðum að drepa á sögu þessa þáttar í landbúnaði íslenzku þjóðarinnar. d Alþ. 1933 kom fyrst fram frv. um innflutning nautgripa af brezku holdakyni. Það varð að lögum í júlí 1933, og komu fimm nautgripir frá Skotlandi inn samkv. þeim. Hér var um fjögur mismunandi kyn að ræða, en meðal þeirra var Galloway-kyn. Gripir þessir voru einangraðir í Þerney, en fljótlega kom í ljós sjúkdómur í þeim, hringskyrfi. Gripirnir voru síðan allir felldir, en einum kálfi var þó komið í land, og út af þeim kálfi er sá holdanautastofn, sem til er í landinu. Hann er ekki hreinn og sakir skyldleikaræktar þykir hann ekki hafa nægan vaxtarhraða. Megnið af stofninum er, sem kunnugt er, í Gunnarsholti, en fyrir fáum árum var hafin sérstök stofnræktun á gripunum úr Gunnarsholtshjörðinni, fyrst á Bessastöðum, en síðan voru þeir fluttir að Hvanneyri. Nokkuð hefur verið notað af þessum blendingum til einblendingsræktar á sláturkálfum undan íslenzkum mjólkurkúm. Þetta hefur bæði verið meðal einstakra bænda, sem hafa fengið naut frá Gunnarsholti, og svo hafa holdanaut verið á sæðingarstöðvum upp á síðkastið. Bændur hafa af þessu góða reynslu, og hefur það ýtt undir kröfur um hreinni stofn holdanauta. Tilraunir, sem voru gerðar til samanhurðar á vaxtarhraða hálfblendinga og gripa af íslenzkum stofni, voru gerðar í Laugardælum fyrir nokkrum árum. og þær sýndu, að vaxtarhraði blendinganna var töluvert meiri en samsvarandi íslenzkra gripa. Kjötgæði þykja og meiri af blendingunum. Þetta hefur lengi verið baráttumál bænda, sem vilja leggja inn á nýjar brautir og auka fjölbreytni búskaparins. Þau miklu áföll, sem við urðum fyrir af innflutningi búfjár. þó að ekki væru þau í sambandi við innflutning nautgripa, leiða eðlilega til þess, að við hljótum að vera varkárir hér. Ný tækni opnar hér nýja möguleika án verulegrar áhættu.

Höfuðbreytingarnar, sem er að finna í þessu frv. frá gildandi lögum, eru þær, að II kafla laganna er breytt, og fjallar hann um innflutning á sæði úr nautum af Galloway-kyni. Veigamestu breytingarnar eru í 11. gr. frv. Nú á aðeins að leyfa að flytja inn djúpfryst sæði. Áður mátti flytja inn venjulegt sæði, sem ekki er hægt að geyma nema í fáa daga. Þetta stafar að sjálfsögðu af hinni nýju tækni, sem tekin hefur verið upp, m.a. hér á landi í djúpfrystingarstöðinni á Hvanneyri. Þetta gefur allt aðra og meiri möguleika til innflutnings á sæði en áður hefur verið. Flytja má inn mikið magn í einu og nota það lengi, eftir að fullreynt er, að það flytur ekki með sér sjúkdóma. Þannig yrði sennilega flutt inn sæði úr sex völdum nautum, sem gæti enzt í 10 ár til þess að sæða stofnræktarkýr á einangrunarstöðinni. Ætlazt er til þess, að sæðið verði flutt inn sem sjaldnast og í nægilegu magni í hvert skipti, þannig að það nægi til kynblöndunarinnar.

Annað mjög mikilvægt atriði í 11. gr. frv. er það, að hún gefur ráðh. heimild til innflutnings, ef stjórn Búnaðarfélags Íslands, yfirdýralæknir og forstöðumaður tilraunastöðvarinnar á Keldum mæla með því. Í núgildandi lögum er það þannig, að fyrir þarf að liggja umsögn forstöðumanns tilraunastöðvarinnar á Keldum og meðmæli stjórnar Búnaðarfélags Íslands, en samþykkið er hjá yfirdýralækni. Nú hafa þessir þrír aðilar úrslitaáhrif um það, hvort leyft er eða ekki. Með þessu móti var ábyrgðin eingöngu á yfirdýralækni, en nú er hún færð yfir á þessa þrjá aðila.

Með þessu frv. eru settar strangari reglur um innflutning sæðis en þekkjast annars staðar í heiminum. Þar sem strangastar kröfur eru gerðar um heilbrigðiseftirlit á nautum, sem sæði er tekið úr til innflutnings, eins og t.d. í Ástralíu og Nýja-Sjálandi, er miðað við, að sæðið sé djúpfryst, en notað beint til kynblöndunar á stofni viðkomandi lands. Hér verður innflutt sæði aldrei notað beint, heldur aðeins notað á einangrunarstöð, þar sem hreinrækta á holdanautasæði við síendurtekna notkun djúpfrysts sæðis. Aldrei má flytja gripi út frá sóttvarnarstöðinni. Þar verður aðeins um djúpfryst sæði að ræða. Færi svo, að upp kæmi alvarlegur smitsjúkdómur í stöðinni, óþekktur hér, skal hafa á henni strangar gætur og jafnvel fella gripina. Ákvæði um gerð sóttvarnarstöðvarinnar, val á kynbótastöðvum erlendis, er sæðið er tekið frá, umsjón og eftirlit með stöðinni er að finna í 13. og 14. gr. frv., og eru þau öll miðuð við fyllsta öryggi.

Hér er eingöngu gert ráð fyrir því að flytja inn eitt kyn, Galloway-kyn, og er það valið vegna þess, að það er fengin góð reynsla af því hér og ekki vandkvæði á því að blanda því í íslenzka kynið. Það er harðgert og nægjusamt og gengur mjög vel á beit og nýtir vel beitiland og fóður, sem aðrar búfjártegundir nýta tæpast. Það hefur ekki þótt bráðþroska, en hefur farið fram á því sviði á síðari árum. Hefur það staðið framarlega síðustu árin á búfjársýningum í heimalandi sínu. Það mundi fylgja því tvöfaldur kostnaður að flytja inn tvö kyn. Eins og frv. gerir ráð fyrir, er bent á Bessastaði, enda er það sá staður, sem gert er ráð fyrir í gildandi lögum fyrir slíka búfjárræktarstöð, sem hér er áformað að koma upp. Hins vegar er því ekki slegið föstu í frv., að Bessastaðir verði valdir, heldur verður það mál athugað nánar, áður en ákvörðun verður tekin. Það, sem verður haft til hliðsjónar í sambandi við staðarvalið, er hvort tveggja í senn, kostnaður við að koma stöðinni upp og möguleikar til að einangra gripina, sem þar eru.

Gert er ráð fyrir því, að framkvæmdin verði með þeim hætti, að upphaflega verði keyptar 12 íslenzkar kýr og settar í þessa einangrunarstöð. Sæði verði tekið úr sex nautum og hafi þau verið í tvö ár í einangrun á viðurkenndri heilbrigðiskynbótastöð, og eingöngu er flutt inn sæði frá slíkum stöðvum. Og eins og áður segir, er helzt fyrirhugað að flytja inn mikið magn af sæðinu í upphafi. Afkvæmi kunna verða öll látin lifa fyrsta kastið, og að fjórum árum liðnum yrðu komnir í stöðina um 60 gripir og þar af 50 Galloway-blendingar, þriggja ára og yngri. Ekki er gert ráð fyrir, að hjörðin þurfi að verða stærri, en haldið verður áfram að æxla saman hreint Galloway-kyn með djúpfrystu sæði og blendinga, þannig að við þá blöndun fáist stöðugt kynhreinni holdanaut.

Eftir 10–12 ár má ætla, ef allt gengur vel, að kominn verði allhreinn stofn. Sæði til innanlandsnotkunar fengist fyrst eftir þrjú ár, og það yrðu hálfblóðs holdanaut, sem gæfu sláturgripi með holdablóð 1/4. Margir búfróðir menn og bændur álíta, að slík blendingsrækt sláturgripa undan íslenzkum mjólkurkúm eigi hér mjög vel við. Hún gæfi betri nýtingu á bústofni, fóðri og ekki sízt á beitilandi. Á landsvæðum, þar sem afréttarlönd eru ýmist ofsetin eða þola enga viðbót, en hafa góð skilyrði til hagabóta á láglendi, mundu skapast auknir möguleikar til kjötframleiðslu og bættrar landnýtingar. Búnaðarþing og bændasamtök hafa lengi og hvað eftir annað ýtt á í þessu máli og talíð það eitt af framfaramálum landbúnaðarins.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja fleira um þetta frv., en legg til, herra forseti, að því verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og landbn.