23.03.1972
Efri deild: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

20. mál, innflutningur búfjár

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta var lagt fyrir hv. Alþ. í byrjun þessa þings, og hefur það lengst af verið í Nd. Var það sent til umsagnar mörgum aðilum, sem talið var, að hefðu þekkingu og reynslu í þessum málum, og mæltu allir þeir aðilar með samþykkt frv.

Í hv. Nd. bar landbn. d. fram nokkrar brtt., sem allar voru samþ., en till. þessar eru á þskj. 380. Þær fjalla einkum um það að fella út úr frv. staðsetningu sóttvarnastöðvar ríkisins að Bessastöðum. Sóttvarnastöðinni skal valinn staður, þar sem skilyrði eru góð til einangrunar að dómi yfirdýralæknis og stjórnar Búnaðarfélags Íslands. Önnur breyting, sem var gerð á frv., er sú, að fara skuli með afurðir af gripum stöðvarinnar eins og segir í 17. gr. frv. Að öðru leyti er frv. þetta óbreytt, eins og það kom fyrir Alþ. og undirbúningsnefndin, er samdi frv., gekk frá því. En í þeirri nefnd áttu sæti þeir Ólafur E. Stefánsson nautgriparæktarráðunautur, Páll A. Pálsson yfirdýralæknir og Guðmundur Jónsson skólastjóri að Hvanneyri.

Aðalefni frv. felst í 1. gr. þess, þar sem segir, að landbrh. sé heimilt að láta flytja inn djúpfryst holdanautasæði af Galloway-kyni, og skal það eingöngu notað í sóttvarnastöð ríkisins. Heimild þessa má ráðh. því aðeins nota, að þrír aðilar mæli með innflutningi á sæði þessu hverju sinni, en þeir eru stjórn Búnaðarfélags Íslands, yfirdýralæknir og forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskólans í meinafræði á Keldum.

Ástæðan fyrir því, að frv. þetta er eingöngu bundið við holdanaut af Galloway-kyni, er sú, að þessi holdanautastofn er þegar fyrir hér á landi, og það hefur sýnt sig, að hann þrífst hér vel, er nægjusamur, bæði hvað húsakynni og fóður snertir. Það er því auðvelt, ef menn vilja, að ná stofni þessum hreinræktuðum á mun skemmri tíma en ef inn yrði flutt sæði úr öðrum holdanautastofnum. Galloway-kynið hefur reynzt vel erlendis. Það gefur gott og mikið kjöt, og kálfarnir eru bráðþroska.

Í frv. þessu er svo ráð fyrir gert, að þeir gripir, sem verða í sóttvarnastöð ríkisins, verði þar ævilangt, en ekki fluttir lifandi burtu. Þegar það hefur sýnt sig, að smitandi sjúkdómar hafa ekki borizt með sæðinu til landsins, þá verður leyft að flytja sæði úr nautum sóttvarnastöðvarinnar til þeirra, er þess óska innanlands. Ef allt gengur vel, þá er hugsanlegt að fá sæði frá stöðinni, eftir að hún hefur starfað í þrjú ár, og þegar tímar liða, fæst sæði úr nokkurn veginn hreinræktuðum nautum, en það tekur mun lengri tíma.

Í frv. þessu er lögð á það rík áherzla, að hið djúpfrysta sæði. sem inn verður flutt, sé úr nautum, sem geymd eru á sæðingarstöðvum erlendis, þar sem opinbert eftirlit er með öllu hreinlæti og heilbrigði gripanna. Þess vil ég geta, að það Búnaðarþing, sem kom saman í vetur, samþykkti einróma frv. það, sem hér liggur fyrir, og óskaði þess, að það næði fram að ganga. Þess má geta, að mál þetta, innflutningur búfjár, hefur oft verið til umræðu á Búnaðarþingi og stéttarsambandsfundum bænda og víðs vegar á fundum bænda á landinu. Hér er því um einn af mörgum óskadraumum bændanna að ræða, sem vonandi rætist nú á þessu þingi með samþykkt þessa frv.

Ísland er þegar orðið mikið ferðamannaland, og verður það sjálfsagt meir í framtíðinni en þegar er orðið. Þeir, sem hótelin reka, segja, að erlendir ferðamenn spyrji mikið eftir nautakjöti, sem því miður er ekki alltaf til og stundum misjafnt að gæðum. Ég vona, að með aukinni nautakjötsframleiðslu verði landbúnaður okkar efldur og bændastéttin standi þar með styrkari fótum og geti því betur búið að sínu í framtíðinni.

Þess má geta, að á fjárlögum þessa árs eru veittar 2 millj. kr. til byggingar sóttvarnastöðvar ríkisins. Það eru því miklar líkur á, að hafizt verði handa í þessum efnum á yfirstandandi ári, og mun samþykkt þessa frv. flýta fyrir framgangi þessa máls.

Eins og fram kemur á þskj. 489, þá mælir landbn. með, að frv. þetta verði samþ. óbreytt, eins og það kom frá Nd.