12.04.1972
Efri deild: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

74. mál, bann við losun hættulegra efna í sjó

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti.

Allshn. hefur rætt það frv., sem hér er til umr., og mælir með samþykkt þess, eins og frv. var afgr. frá Nd., sbr. þskj. 483.

Aðalefni þessa frv. kemur fram í 1. gr., svo og í 5. gr. frv. Í 1. gr. er íslenzkum skipum bannað að losa í sjó, hvort heldur er innan eða utan íslenzkrar lögsögu, þau efni eða efnasambönd, sem hættuleg geta verið sjávarlífi eða heilsu manna. Bann þetta nær til allra eiturefna, lífrænna og ólífrænna, auðleysanlegra og torleysanlegra sambanda málma og málmleysingja, geislavirkra efna og sprengiefna. Í 2. gr. frv. er ákvæði, sem heimilar ráðh. að setja reglugerð um þetta bann, sem greinir í 1. gr. í 3. gr. frv. er tekið fram, að íslenzkum ríkisborgurum eða fyrirtækjum sé einnig bannað að stuðla að losun hinna bönnuðu efna. Og í 4. gr. segir, að ákvæði í 1.–3. gr. eigi einnig að ná til losunar þarnefndra efna eða efnasambanda á hafi úti úr öðrum flutningatækjum en skipum.

Eins og ég sagði áðan, þá er annað meginefni þessa frv. að finna í 5. gr., en þar segir, að ríkisstj. sé heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd þær alþjóðasamþykktir, sem kunna að verða gerðar um varnir gegn mengun alþjóðlegra hafsvæða, og skulu auglýsingar um staðfestingu og gildistöku viðkomandi samþykkta birtast í C-deild Stjórnartíðinda.

Þetta frv. á sér þá forsögu, að á síðasta ári komu saman til nokkurra funda fulltrúar frá sjútvrn. og utanrrn. Norðurlanda til þess að ræða mengun hafsins og hugsanlegar aðgerðir gegn þeirri miklu ógnun, sem mengun er öllu sjávarlífi. Niðurstöður þessara viðræðufunda urðu þær, að á fundi utanrrh. Norðurlanda 26. apríl á s.l. ári var ákveðið, að Norðurlönd skyldu stíga sitt fyrsta sameiginlega skref í baráttunni gegn mengun sjávar með því að koma á í þessum löndum banni við losun hættulegra efna í sjó á þann veg, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Á þessum fundi utanrrh. í apríl í fyrra var einnig samþykkt, að Norðurlöndin skyldu reyna að vinna þátttökuríki í Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni til fylgis við sams konar bann, og hinn 4. maí s.l. var Bretum og Hollendingum afhent orðsending í þessu tilefni.

Á s.I. hausti, í október, var svo efnt til ráðstefnu í Osló, sem Norðmenn boðuðu til, til þess að ræða þessi mál. Á þessari ráðstefnu tókst að ganga frá í öllum meginatriðum uppkasti að alþjóðasamþykkt, eins og gert er ráð fyrir í 5. gr. þessa frv.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að rekja ítarlega þessa forsögu málsins. Þessi mál, mengunarmálin almennt, eru mjög á dagskrá um þessar mundir, mjög til umræðu víða um lönd og á vettvangi alþjóðlegrar samvinnu. Þannig er nú fram undan ráðstefna, sem Sameinuðu þjóðirnar efna til í Stokkhólmi á næsta sumri um umhverfismálin og mengunarmálin.

Þessi mál eru margháttuð. Einn þáttur þeirra er viðleitni til að koma í veg fyrir mengun hafsins, og þessi viðleitni hefur verið tekin upp sérstaklega á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það er fyrir frumkvæði Íslendinga árið 1969, sem þetta hefur verið gert. Þá lögðu Íslendingar til, að þessi vandi í sambandi við mengun hafsins yrði lagður fyrir æðstu stofnun Sameinuðu þjóðanna, allsherjarþingið.

Ég vék að umhverfisráðstefnunni í Stokkhólmi. Fyrir þá ráðstefnu hafa verið haldnir ýmsir fundir til undirbúnings, m.a. í Ottawa í nóv. s.l. Einn liður í þessum undirbúningi er ráðstefna sú um mengun hafsins, sem nú stendur yfir hér í Reykjavík.

Það er mjög ánægjulegt, að það skuli verið haldið áfram þeirri stefnu, sem fyrrv. ríkisstj. tók upp 1969, með því að beita áhrifum Íslands á þessum vettvangi. Það hefur aldrei verið ágreiningur um þetta mál. hvorki í tíð fyrrv. ríkisstj. eða núv. En um leið og við beitum okkur á alþjóðavettvangi í þessum efnum, þá er að sjálfsögðu eðlilegt og sjálfsagt, að okkar hlutur liggi ekki eftir, hvað varðar okkar eigin löggjöf. Þetta frv. er einn liður í því, að svo verði ekki. Það mun vera áhugi fyrir, og mér sýnist fara vel á því, að Alþ. afgreiði þetta frv. áður en lokið er þeirri ráðstefnu, sem nú stendur yfir hér í Reykjavík um varnir gegn mengun hafsins. Ég vil því mælast til þess, að hv. deild hafi hraða afgreiðslu á þessu máli, og ég vildi jafnframt mælast til þess, að það yrði leitazt við að ljúka einnig 3. umr. í dag.