12.04.1972
Efri deild: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

137. mál, skipan dómsvalds í héraði

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., er komið frá hv. Nd. og var þar samþ. með nokkurri breytingu, sem ég mun geta um síðar. Allshn. þykir rétt að mæla með samþykkt frv., svo breytts sem það kom frá fyrri deild. Nú vil ég fara örfáum orðum um efni þessa máls.

Eins og nú háttar í landi hér, eru löglærðir fulltrúar við flest bæjarfógeta- og sýslumannsembætti landsins. Í umfangsmestu embættum og þeim, sem eru á mestu þéttbýlisstöðunum, er tala slíkra fulltrúa allt upp í sjö. Hjá þessum stærri embættum er fjölgun dómsmála mjög ör, og svo er nú komið, að hinn reglulegi dómari annar ekki nema örlitlum hluta af þeim dómsmálum, sem til meðferðar koma. En eins og lögum háttar, er það aðeins einn aðili, sem hefur dómsvald á hendi í héraði utan Reykjavíkur, þ.e. sýslumenn og bæjarfógetar. Þannig hefur því þróunin orðið sú, að dómarafulltrúar hafa tekið langmestan hluta mála að sér, og sá hluti stækkar jafnt og þétt. Fulltrúarnir eru löggiltir til að fara með dómsmál og dæma í þeim á ábyrgð sinna yfirmanna. Vegna þessarar þróunar hafa dómarafulltrúarnir margir hverjir talið og enda allir, að eigi sé lengur við það unandi, að þeir hafi skyldur sem dómarar án þess að þau réttindi komi til, sem fylgja og eiga að fylgja dómarastarfl. Þetta sjónarmið verður að fallast á, og að því lúta ákvæði frv., eins og það kemur hingað í hv. Ed. Þannig er gert ráð fyrir því, að í þeim embættum, þar sem málafjöldi er hvað mestur, þ.e. við dómaraembættin í Reykjavík og Hafnarfirði, Kópavogi, Akureyri og Keflavík, verði skipaðir dómarar. Tala þeirra er í frv. mismunandi eftir umfangi embættanna. Með þeirri breytingu, sem gerð var í hv. Nd. og sjá má á þskj. 484, er lítils háttar fjölgun þeirra ákveðin, sem okkur í n. sýndist ekkert við að athuga. En ákvörðun dómsmrh. ræður um fjölda dómaranna innan þess ramma, sem í frv. getur. Með samþykkt þessa frv. er engin breyting gerð á dómstólaskipaninni sem slíkri, heldur má segja, að fylgt sé því fordæmi, sem lögin frá 1961 um svipað efni gefa. Eigi fremur verður að telja samþykkt þessa frv. til neinnar hindrunar, að því er varðar nýja skipan dómsmála í landinu, ef að henni yrði horfið síðar meir, og ég vil geta þess í þessu sambandi, að hæstv. dómsmrh. mun hafa hug á því að láta fram fara allsherjarendurskoðun á skipan þessara mála, og er allt vel um það að minni hyggju. Verksvið dómarafulltrúanna verður hið sama, en þeirra réttarstaða með frv., ef að lögum verður, er tryggð í samræmi við skyldur þeirra sem dómara.

Á dagskrá hv. d. eru hér einnig tvö mál. Annað er um breytingar á einkamálalöggjöfinni frá 1936, og hitt er um breytingar á lögum um meðferð opinberra mála frá 1961. Þessi frv. tvö fjalla bæði um nauðsynleg ákvæði, sem þurfa lagastaðfestingar við, ef þetta frv. verður samþ.

Ég sé ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þessi tvö fylgifrv., en ég hef aðeins drepið á þau í fyrri orðum mínum, en allshn. hefur einnig samþ. að mæla með framgangi þeirra tveggja frv.

Tel ég svo ekki ástæðu til að hafa um þetta mál fleiri orð og lýk máli mínu.