20.03.1972
Efri deild: 60. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

161. mál, lántaka vegna kaupa á þyrlu og viðgerðar á varðskipinu Þór

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég hafði ætlað mér að segja nokkur orð við 1. umr. þessa máls, en eins og menn rekur minni til, þá fór frv. umræðulaust til n., því var ekki fylgt úr hlaði, en frv. er stjfrv., eins og við öll vitum. Ég vil láta í ljós sérstaka ánægju yfir því, að þetta mál, þyrlukaupin, skuli nú vera komið á það stig, sem nú er raun á, og þetta tæki væntanlegt til landsins nú alveg á næstunni.

Það var í tíð fyrrv. ríkisstj., í dómsmrh.-tíð Jóhanns Hafstein, að athuganir hófust á kaupum þessa tækis og reyndar endurbótum eða endurnýjun á flugkosti Landhelgisgæzlunnar. Eins og kunnugt er, var hér lítil þyrla, sem var sameign Landhelgisgæzlunnar og Slysavarnafélagsins, og hefur hún innt af höndum mikið og þarft verk í þágu bæði björgunar og gæzlu, sem og sjúkraflutninga, þegar mikið reið á. Það var hins vegar vitað, að það var mjög takmarkað, hvaða verkefnum þessi litla þyrla gat annað, og því var stefnt að því að athuga um kaup á stærra tæki, sem veitti meiri möguleika til þess að sinna þeim verkefnum, sem þyrlunni eru ætluð. Forstjóri Landhelgisgæzlunnar hafði með höndum athugun á þyrlum af meðalstærð. Þar komu aðallega til greina tvær tegundir að lokum, og eftir nána athugun og yfirvegun var ákveðið að stefna að því að kaupa þyrlu af þeirri gerð, sem nú er hingað að koma. Og mér finnst, að það megi gjarnan koma hér fram, að þar höfum við notið sérstakrar velvildar af hálfu bandarísku strandgæzlunnar, „coastguard“, og þessi þyrla fæst eiginlega á mjög hagstæðu verði fyrir okkur. Enn fremur hefur bandaríska strandgæzlan veitt mikla fyrirgreiðslu um þjálfun manna til þess að fara með þyrluna, bæði að fljúga henni og eins þjálfun tæknimanna til viðgerða og eftirlits með þessu tæki. Ég vildi láta þetta koma sérstaklega fram.

Um tækið sjálft vil ég aðeins segja það, að það kom til umr. hér í þessari hv. þd. á síðasta þingi. Það var í sambandi við frv., sem þá lá hér fyrir d. og gaf tilefni til þess, að þessi þyrlukaup voru þá rædd, en þau voru þá í undirbúningi og komin mjög á rekspöl. Ég skal ekki fara að endurtaka hér þá miklu kosti, sem þetta tæki hefur. Til björgunar er það alveg sérstaklega heppilegt, m.a. vegna útbúnaðar til þess að draga upp og slaka niður, sem er yfirleitt ekki á þyrlum nema þeim, sem sérstaklega eru ætlaðar til slíkra starfa. Einnig er þyrlan mjög hagkvæm til sjálfrar landhelgisgæzlunnar, að mér er sagt, því að þótt flugvélakostur sé fyrir hendi, þá er ekki unnt og sérstaklega ekki á smærri flugvélum að fljúga alltaf svo lágt og svo nærri veiðiskipum, að hægt sé að fylgjast nákvæmlega með veiðiaðferðum þeirra, og eru þyrlurnar hins vegar tilvaldar einmitt í þeim efnum til að geta skoðað nákvæmlega, hvers konar veiðar skip stunda.

Auk þyrlukaupanna var einnig í athugun endurnýjun á flugvélakostinum, og nákvæm athugun gerð á Sif, flugvél Landhelgisgæzlunnar, sem nú hefur verið seld. Hún var á sínum tíma keypt á mjög hagkvæmu verði, en var ekki svo heppileg sem frekast hefði verið á kosið til notkunar fyrir Landhelgisgæzluna. En það stóð til þá, að hún færi í mjög dýra klössun, og það hefur sýnt sig, sem reyndar var nú talið nokkurn veginn ljóst, að ekki mundi á nokkurn hátt borga sig að láta vélina fara í klössun með áframhaldandi notkun fyrir augum.

Einnig var í fyrra, og það byrjaði reyndar fyrr, gerð athugun á endurnýjun aflvéla í varðskipinu Þór, sem hefur verið mikið vandamál eiginlega alla tíð, og það lágu fyrir kostnaðaráætlanir, býsna nákvæmar, um það, hvað slík endurnýjun mundi kosta, og nú er svo komið, að Þór mun í sumar verða sendur út og endurnýjaðar í honum aflvélarnar. En að sjálfsögðu verður að sæta lagi þann tíma árs, sem siður er þörf á mikilli landhelgisgæzlu til þess að láta slíka viðgerð eða endurnýjun fara fram, því að hún tekur marga mánuði.

Auk athugunar á flugkostinum, sem er auðvitað afar áríðandi, einmitt með þessa miklu stækkun landhelginnar fyrir augum, sem nú er fram undan, þá liggur og í augum uppi, að það þarf að byggja þar á viðbragðsflýti, sem flugvélar og þyrlur hafa umfram skipin, en að sjálfsögðu dettur engum í hug annað en Landhelgisgæzlan þurfi einnig að eiga öflugan skipakost. Endurnýjun aflvélanna í Þór er liður í því að gernýta þann skipakost, sem fyrir hendi er, og að sjálfsögðu held ég, að engum blandist hugur um, að síðan verði áfram að halda og auka skipastólinn. Ég skal ekki fjölyrða frekar um það. Um það liggur fyrir þáltill. í hv. Nd. Alþ., og ég skal ekki frekar um það ræða.

En málefni Landhelgisgæzlunnar hefur mikið borið á góma undanfarið. Bæði liggja hér fyrir þinginu fsp. og mál hana varðandi, og einnig hafa spunnizt umr., um eitt atriði í málefnum Landhelgisgæzlunnar, sem okkur hefur satt að segja þótt býsna furðulegt og það er sú ákvörðun, að það húsnæði, sem Landhelgisgæzlunni var ætlað í nýju lögreglustöðinni, skuli nú vera tekið undir eitt af rn. Um leið og ég lýsi ánægju minni yfir því, að þyrlukaupin skuli nú vera komin á þetta stig og þetta góða og öfluga gæzlu- og björgunartæki skuli nú vera að komast í gagnið fyrir okkur Íslendinga og fyrir íslenzka sjómannastétt, þá vil ég um leið og get ekki hjá því komizt að láta í ljós, að ég harma, að húsnæðismál Landhelgisgæzlunnar skuli hins vegar vera í því horfi, sem nú er ljóst, að þau muni vera, eða sem maður hefur ástæðu til að ætla, að fullákveðið sé.