25.10.1971
Efri deild: 5. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

33. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er til 1. umr., er nú borið fram á Alþ. öðru sinni. Fyrrv. ríkisstj. lagði það fyrir þingið s.l. vetur, en þar varð það ekki útrætt. Núv. ríkisstj. hefur ákveðið að taka málið upp að nýju og leggja það aftur fyrir hæstv. Alþ. Hér er um að ræða nýtt frv. til I. um Stýrimannaskólann í Reykjavík. Núgildandi lög um þennan skóla eru ekki ýkja gömul. þau eru ekki eldri en lög nr. 84 frá 1966, en þeir menn, sem þetta frv. hafa samið, hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að affærasælast sé að setja ný lög að fullu um Stýrimannaskólann, frekar en beita sér fyrir einstökum breytingum á núgildandi lögum.

Meginbreytingin á lögum um Stýrimannaskólann samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir, er sú, að þyngd eru inntökuskilyrði í skólann og þá aðeins að einu leyti, hvað varðar undirbúningsmenntun. Það er lagt til með þessu frv., að gagnfræðapróf verði skilyrði til inntöku í Stýrimannaskólann. Samkv. núgildandi lögum er ekki slíkt lágmarksákvæði um menntun. Inn í skólann geta fengið inngöngu samkv. lögunum menn, sem hafa ekki meira en barnafræðslu. Þetta hefur valdið þó nokkrum vandkvæðum við kennslu í skólanum. Þar hefur við kennslu þurft að taka tillit og taka mið af þeim nemendum, sem lakast eru undirbúnir, og þá gjarnan í almennum greinum eins og stærðfræði, tungumálum og slíku. Þessu á nú að reyna að ráða hót á með því að gera gagnfræðapróf eða tilsvarandi menntun að inntökuskilyrði, svo að þeir, sem koma inn í skólann, séu allir nokkurn veginn sambærilega á vegi staddir, svo að ekki þurfi að tefja eða draga úr kennslu í sérgreinum, að einstakir menn í nemendahópnum séu miklu lakar undir almennu greinarnar búnir en aðrir. Þó er það síður en svo ætlunin að setja hér upp nokkra girðingu eða hömlur á inngöngu í skólann hjá þeim, sem á annað borð hafa uppfyllt siglingaskilyrðin.

Með þessu frv., ef að lögum verður, er skólanum lögð á herðar sú skylda að hafa á ári hverju námskeið fyrir þá, sem ekki hafa gagnfræðapróf fyrir, fjögurra mánaða námskeið í hinum almennu greinum, sem mestur misbrestur er á, að menn séu nógu vel undirbúnir í, þegar þeir koma í skólann, sem sé stærðfræði, eðlisfræði, íslenzku, ensku og dönsku. Og til þess að það sé eins vel tryggt og kostur er, að þetta nýja inntökuskilyrði um gagnfræðapróf verði mönnum ekki fjötur um fót til inngöngu í Stýrimannaskólann, er jafnframt ákvæði í 15. gr. frv. um, að auk þess sem undirbúningsnámskeið séu haldin í Reykjavík, sé heimild til þess að halda þau árlega, ef þörf krefur og aðsókn er nógu mikil, á Akureyri, Ísafirði og í Neskaupstað. Einnig er heimild í frv. til að hafa námskeiðin á enn fleiri stöðum, ef aðsókn er svo mikil, að réttlætanlegt sé.

Þetta er meginbreytingin, sem í frv. felst frá núgildandi lögum, en þó eru nokkrar aðrar, sem ég vil aðeins geta um, þótt þær séu ekki jafn veigamiklar. Þá er það fyrst, að þetta frv. er næstum helmingi styttra en núgildandi lög fyrir þá sök, að fellt er niður mjög langt mál, þar sem fjallað er um upptalningu á námsefni til prófs í einstökum greinum. Það þykir ekki heppilegt að binda prófkröfurnar í lögum, heldur er vilji þeirra manna, sem samið hafa frv., að þær verði ákveðnar í reglugerð, vegna þess hve miklu auðveldara er að laga reglugerðarákvæði að breyttum kröfum og breyttum tímum en að gera breytingar á lagaákvæðinu.

Þá er það einnig nýmæli í þessu frv., að samræma á farmannamenntun og fiskimannamenntun í 2. bekk, svo að þar sé um sambærilegt próf að ræða bæði hjá farmönnum og fiskimönnum, og þetta hefur í för með sér, að kennslan í fiskimannadeild í 2. bekk lengist um hálfan annan mánuð, úr 6 í 71/2 til samræmis við farmannadeildina. Ákvæði er um, að námstími sé til 15. maí, þ.e. hálfs mánaðar lenging, því að nú er gert ráð fyrir skólatíma til aprílloka ár hvert.

Þá er ákvæði um aukna fræðslu í fiskimannadeild um meðferð fiskafla um borð í skipunum, og býst ég við, að hv. þm. séu mér sammála um, að þar sé á þessu sviði reynt að koma til móts við mikla þörf, að meðferðin á aflanum um borð í fiskiskipunum sé eins góð og kostur er.

Loks er um það ákvæði í þessu frv., að setja skuli á stofn skólanefnd við Stýrimannaskólann. Það má nokkurri furðu sæta, að við jafngamla og virðulega menntastofnun og Stýrimannaskólann í jafn mikilvægri grein skuli engin skólanefnd hafa verið starfandi. Nú er gert ráð fyrir, að hún komi til sögunnar og verði skipuð fulltrúum frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, frá Vinnuveitendasambandi Íslands, frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og formaður frá menntmrn.

Ég tel, að ekki orki tvímælis, að frv. þetta, ef að lögum verður, horfi í þá átt að efla Stýrimannaskólann og gera hann sem gagnlegasta menntastofnun skipstjórnarmanna. Aukinni tækni bæði við siglingar og veiðar, sem sjómenn fá í hendur, hljóta að fylgja auknar kunnáttukröfur til þeirra, sem takast á herðar ábyrgð á skipi og mönnum. Álit þeirra, sem um þetta mál hafa fjallað, er, að í frv. séu uppfylltar þær þarfir, sem nú eru brýnastar til að efla sjómannamenntun í landinu.

Ég beini því til hæstv. forseta og hv. þd., að málinu verði vísað til hv. menntmn.