16.03.1972
Neðri deild: 52. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

33. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Hér er komið frá Ed. frv. til l. um Stýrimannaskólann í Reykjavík og á þskj. 413 liggja fyrir þær tvær gr. frv., sem breyttust í meðförum Ed., frá því að frv. var lagt fram. Meginstefnan, sem tekin er með þessu frv., það helzta nýmæli, sem í því felst, er að gera Stýrimannaskólann að öflugri menntastofnun og fræðslustofnun fyrir sjómannastéttina, með því að herða bæði inntökuskilyrðin hvað bóklega kunnáttu snertir, sem gerð eru til þeirra manna, sem inn í skólann vilja koma, og að útiloka þó ekki sjómannsefni, sem hafa lítið tækifæri haft til þess að afla sér bóklegrar menntunar, á þann hátt að skylda skólann til að efna til sérstakra undirbúningsnámskeiða fyrir þá, sem ekki hafa þegar þá fræðslu í bóklegum greinum, sem þarf til þess að koma við þeim fræðslutökum, sem skólastjórn og kennarar telja nauðsynleg.

Hingað til hafa engin sérstök skilyrði verið sett um bóklega kunnáttu þeirra manna, sem í Stýrimannaskólann hafa setzt, heldur aðeins um siglingatíma þeirra. Þetta hefur að dómi skólastjóra og kennara haft það í för með sér, að óhóflega mikið af námstíma fyrsta námsárið fer í það að kenna almennar námsgreinar, sem sumir nemendur hafa þegar tileinkað sér á fyrra kennslustigi, en aðra skortir. En með því að krefjast nú, að gagnfræðapróf eða hliðstætt próf eitt veiti tafarlausa inngöngu í skólann, og efna til sérstakra námskeiða fyrir nemendur, sem ekki fullnægja þeim skilyrðum, telur skólastjóri, að unnt sé að leggja mun meiri áherzlu en hingað til hefur verið unnt á sérkennsluefni skólans, sjómannafræðin.

Jafnframt þessu hefur verið felld niður úr eldri lögum upptalning á námsefni í deildum skólans fyrir hvert próf. Það þykir affarasælla að binda slíkt ekki í lögum, heldur gera það að reglugerðaratriði.

Þá er einnig í þessu frv. gert ráð fyrir því að samræma námsefni 2. bekkjar farmannadeildar og 2. bekkjar fiskimannadeildar þannig, að sömu skipstjórnarréttindi fáist eftir nám í þessum deildum. Þetta er lagt til með tilliti til þess, að miklu nánari tengsl eru hér milli farmanna og fiskimanna en hjá öðrum þjóðum. Sami skóli er fyrir báðar starfsgreinar, þar sem annars staðar eru sérstakir skólar fyrir hvora um sig.

Loks er það nýmæli í þessu frv., frá því sem áður hefur verið í lögum, að skipuð verði skólanefnd við skólann. Hún er við það miðuð, að sem nánust tengsl skapist milli skólans annars vegar og skipstjórnarfélaganna og vinnuveitendasamtaka, sem sjómenn hafa í þjónustu sinni hins vegar.

Ég tel ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa fleiri orð um þetta frv. að svo stöddu, en leyfi mér að leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og menntmn.