05.04.1972
Neðri deild: 57. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

33. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Því miður var ég fjarverandi úr d., þegar frv. þetta var hér til 2, umr., en ég var með í huga að koma fram með ábendingu við eina gr. þess, en það er 8. gr., þar sem ræðir um prófdómara. Þar er gert ráð fyrir, að breytt verði frá því, sem áður var, en í gildandi lögum er það ákvæði, að einn prófdómari skuli vera við hverja grein nema í fallfögum. Þar skulu vera tveir prófdómarar. Mér tókst ekki fyrir fundinn nú að ná sambandi við Stýrimannaskólann í Reykjavík, en ég ræddi þetta atriði við Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum og spurði um hans álit á þessu. Hann taldi, að varðandi a.m.k. eina kennslugrein, siglingafræðina, væri mjög varhugavert að stíga þetta skref aftur á bak að fækka prófdómurum úr tveimur í einn.

Ég var með í huga að bera fram skrifl. brtt. nú við 3. umr., en vildi þó áður leyfa mér að spyrjast fyrir um hjá hv. frsm. menntmn., hvort þetta atriði hafi verið sérstaklega rætt í n. eða rætt við skólastjóra Stýrimannaskólans í Reykjavík eða þá, sem frv. sömdu. Ég tel, að það sé um svo mikilvæga kennslugrein að ræða, þar sem er siglingafræðin, að þar beri að hafa alla gætni við, að eftirlit sé eins öruggt og við verður komið. Siglingafræði fer fram í fjórum skriflegum prófum og tveimur munnlegum prófum, og ef það er aðeins á valdi kennara og eins prófdómara kannske að meta námsgetu eða námsárangur einstakra nemenda, þá hygg ég, að þeir geti stundum lent þar í nokkrum vanda. Þetta er ákaflega flókin námsgrein, og er tekið próf í henni, eins og ég sagði, í fjórum skriflegum greinum og tveimur munnlegum. En áður en ég legg þessa till. fram, langaði mig að spyrjast fyrir um það hjá hv. frsm. n„ hvort þetta atriði hafi sérstaklega verið tekið til meðferðar og rætt við skólastjórann eða þá n., sem samdi frv. En þarna er vissulega verið að stiga skref aftur á bak frá því, sem áður var í lögum og er enn í gildandi lögum, sem ég tel að þurfi að skoða vel, áður en það verður gert.