19.10.1971
Efri deild: 3. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

4. mál, kaup á skuttogurum

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 2. þm. Reykv., sem hér kom fram, um það, hvort ekki væri rétt, að sú n., sem fjallar um þetta frv., athugaði möguleika á því að rýmka heimildir laganna enn frekar en gert er með þessum brbl., þ.e. að gera þá rað fyrir því, að keyptir yrðu enn þá fleiri togarar samkv. ákvæðum þessara laga en þessir átta, vil ég segja það, að það er að sjálfsögðu vel þegið, að sú n., sem mun athuga þetta mál, athugi það, en æskilegt væri, að hún kannaði málið með tilliti til þess, sem er nú að gerast í sambandi við endurnýjun togaraflotans í landinu. Það er kunnugt, að þegar hafa verið gerðar allmikilvægar ráðstafanir í þá átt að lyfta undir það, að togarafloti landsmanna verði endurnýjaður og efldur mjög verulega, og nú standa yfir samningagerðir allmargra aðila um þetta efni. Ég tel sjálfsagt, að um leið og að því er hugað, hvort rétt þyki að kaupa fleiri skip samkv. ákvæðum þessara laga, sem eru með nokkuð sérstökum hætti, þá sé fylgzt með því, hvað er að gerast almennt í togaraendurnýjunarmálum okkar. Ég vek athygli á því, að í þessum lögum, sem hér er fjallað um, eru ákvæði um það, að gert er ráð fyrir því, að sveitarfélög leggi fram ákveðinn stuðning við togarakaupin. Það hefur þegar sýnt sig, að þessi stuðningur sveitarfélaganna getur verið raunhæfur á vissum stöðum, en ekki öðrum, svo að það er enginn vafi á því, að hér er ekki um fullnægjandi lausn á þessum vanda að ræða að mínum dómi í öllum tilvíkum, en ég tel sem sagt sjálfsagt að athuga þennan möguleika, hvort ekki sé fært að gera ráð fyrir kaupum á enn þá fleiri skipum en þetta frv. fjallar um eftir þessari leið, sem mörkuð er í frv.

Einnig getur að sjálfsögðu komið til greina að athuga um breytingar á frv. sjálfu, þannig að það næði þá yfir breiðara svið. Ég tek undir það, sem hv. þm. minntist hér á, að sú n., sem mun fjalla um frv., athugi þessa möguleika um leið og hún kynnir sér nýbyggingar togara almennt.