20.03.1972
Efri deild: 60. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

4. mál, kaup á skuttogurum

Frsm. (Halldór Kristjánsson):

Herra forseti. Vorið 1970 setti Alþ. lög um kaup á sex skuttogurum og síðan hefur verið unnið að undirbúningi þeirra kaupa, en í ljós hefur komið, að áhugi var fyrir kaupum fleiri skipa af þeirri gerð, og því voru brbl. um, að togararnir ættu að verða átta. Hér er um að ræða staðfestingu þeirra, en það hefur komið í ljós síðan frv. var lagt fram, að fleiri hafa slík skipakaup í undirbúningi, þannig að nú er nm að ræða 13 togara af því tagi, og hafa fjórir þeirra fimm, sem bætzt hafa við, þegar gengið frá sínum gögnum öllum, þannig að fullnægt er skilyrðum af þeirra hálfu, en ekki fyllilega hjá hinum fimmta. En n. hefur samt sem áður fallizt á það eða leggur til, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu þó, að í staðinn fyrir „allt að sex“ komi: allt að þrettán. Heimildin nái til þess. Ég held, að þetta sé svo kunnugt mál, að ekki sé ástæða til þess að fjölyrða hér frekar um það á þessu stigi.