08.03.1972
Efri deild: 52. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

106. mál, verslunaratvinna

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Frv. það til l. um breyt. á l. um verzlunaratvinnu, sem hér liggur fyrir til 2. umr., er stjfrv. Efni þess er, að ráðh. geti veitt undanþágu frá ákveðnum menntunarskilyrðum í lögunum, til þess að leyfi verði veitt til verzlunaratvinnu, ef sérstaklega stendur á að mati ráðh.

N. hefur athugað þetta litla frv. og þykir rétt að mæla með því, að það verði samþykkt. Ég vil láta nokkur orð fylgja almennt um þessi mál.

Það er kunnugt, að lög frá 1968 um verzlunaratvinnu geyma býsna ströng ákvæði um menntunarskilyrði til að fá verzlunarleyfi, miðað við það, sem áður hafði gilt. Hin gömlu lög voru ekki svo ströng, og kannske er það eðlilegt miðað við þá tíma, þegar þau lög voru sett. Það hefur verið bent á það af ýmsum, að víða úti um land hagi þannig til, að skortur sé á verzlunarþjónustu í ýmsum sérgreinum og kannske jafnvel hér í þéttbýlinu og víðar, t.d. í iðnaði, þar sem iðnaðarmenn sjálfir vinna að framleiðslu á varningi, sem þeir hefðu beztu aðstöðu til að selja og væri mjög til hægri verka hæði fyrir þá og eins fyrir þá, sem á slíkri þjónustu þyrftu að halda. Nú er þess að geta, að í þessum lögum frá 1968 um verzlunaratvinnu er gert ráð fyrir því, að námskeið í þessu efni verði haldin af og til fyrir þá, sem ætla sér að stunda verslun. Slík námskeið hafa ekki enn þá verið haldin, svo að vitað sé, og í hinu almenna skólakerfi og eins í iðnskólum er alls ekki um neina kennslu að ræða, að því er ég bezt veit í þessum fræðum, verzlunarfræðum. En í lögunum er yfirleitt gert ráð fyrir því sem aðalreglu, að sá, sem ætlar sér að reka verzlun, verði að hafa lokið prófi úr verzlunarskóla, sem viðurkenndur er af ráðamönnum. Og einnig getur sá fengið verzlunarleyfi, sem hefur starfað um þriggja ára skeið við verzlun og síðan tekið próf eftir námskeið í verzlunarfræðum. Þetta eru nokkuð ströng skilyrði og þetta frv., sem hér er til umr., hnígur í þá átt að slaka svolítið á þessum þröngu skilyrðum, þegar sérstaklega stendur á að mati ráðherra.

Nú hafa ýmsir sízt af öllu viljað slaka á menntunarskilyrðum verzlunarmanna að þessu leyti og telja það til litilþægni, ef slakað er á, heldur eigi fremur að herða á menntunarskilyrðum. Og þá er líka tekið fram af sumra hálfu, að það sé ekki alveg víst fyrir fram, að ráðh. fari svo með slíka heimild sem bezt þætti á fara. Nú verður að geta þess, að í þessari grein, sem vitnað er í um menntunarskilyrði, er einmitt getið um það, að ráðh. hafi ýmsa aðstöðu til að veita undanþágur og meta a.m.k. ýmiss konar skilyrði, sem þar eru greind. Við í n. höfum ekki álitið, að það væri varhugavert, að ráðh. hefði þessa aðstöðu að geta vikið frá þessum ströngu skilyrðum, ef, eins og segir í lagafrv., sérstaklega stendur á.

Við höfum leitað umsagnar tveggja aðila, annars vegar Sambands ísl. samvinnufélaga og hins vegar Verzlunarráðs Íslands, og þeir eru a.m.k. ekki hvetjandi þess, að þetta frv. verði samþykkt, en taka þó ekki alveg af skarið. Í bréfi Verzlunarráðsins er m.a. vakin athygli á því, að nauðsynlega þurfi að setja reglur um þessi námskeið, sem rætt er um í lögunum, og eins reglur um það, hvernig eigi að haga verzlunarfræðslu í hinu almenna skólakerfi og iðnskólum landsins, og haga þá um leið menntunarskilyrðum eftir aðstæðum, svo sem eftir eðli, stærð og staðsetningu verzlunarrekstrar þess, sem koma á á fót. Raunar er þetta álit Verzlunarráðs Íslands mjög athyglisvert, og við í n. vildum einmitt benda á þetta, að það yrði gengið til þess að setja reglur, sem að þessu lúta, og vissulega er menntunarástand í þessum efnum þannig í okkar landi, að það má teljast sjálfsagt sæmilegt og fer þó heldur vaxandi aðstaða manna, sem vilja leggja stund á verzlun, til að öðlast þá menntun, sem nauðsynleg er.

En að öllu þessu virtu, eins og ég sagði áður, þá hefur n. lagt til, að þetta frv. verði samþykkt eins og það er á þskj. 127.