17.04.1972
Neðri deild: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

106. mál, verslunaratvinna

Frsm. meiri hl. (Stefán Gunnlaugsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til athugunar frv. til I. um breyt. á l. nr. 41/1968, um verzlunaratvinnu. Hún hefur ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. Minni hl. n., hv. 9. landsk. þm., gerir brtt. Frv. er um það, að ráðh. geti veitt undanþágu frá þekkingar- og menntunarskilyrðum, sem gildandi lög setja um veitingu verzlunarleyfa. Minni hl. n. vill, að settar séu vissar skorður við slíkum undanþáguveitingum. Meiri hl. telur, að verði brtt. hv. 9. landsk. þm. samþykkt, náist ekki að fullu fram það, sem að er stefnt með flutningi frv., svo sem ég mun nánar gera grein fyrir hér á eftir.

Með setningu laga um verzlunaratvinnu, nr. 41 frá 2. maí 1968, er krafizt strangra menntunarskilyrða miðað við það, sem áður var, þegar verzlunarleyfi eru veitt. Viðkomandi verður að hafa lokið prófi úr verzlunarskóla, sem viðurkenndur er af ráðh„ eða hlotið aðra menntun, sem ráðh. metur jafngilda. Það má veita þeim verzlunarleyfi, sem um þriggja ára skeið hefur starfað við verzlun og að þeim starfstíma loknum sótt sérstök námskeið í verzlunarfræðum, sem ráðh. viðurkennir, og hefur lokið þaðan prófi. Slík verzlunarnámskeið hafa ekki verið haldin til þessa, og meðan ekki er völ á slíkum námskeiðum má þó veita þeim verzlunarleyfi, sem starfað hefur þrjú ár við verzlun og sannar með vottorðum vinnuveitenda, að hann hafi til að hera þá þekkingu, sem talin er nauðsynleg til verzlunarreksturs.

Þá verður sá, sem rétt á á verzlunarleyfi, að vera fjárráða og samkv. lögum frá 1968 einnig að hafa íslenzkt ríkisfang og vera heimilisfastur á Íslandi. Varðandi þetta síðasta atriði, ríkisfang og heimilisfestu, var gerð breyting á árinu 1970 í sambandi við aðild Íslands að EFTA, þannig að ráðh. var veitt heimild til að víkja frá því skilyrði. Og enn fremur er ráðh. heimilað að víkja frá þeim kröfum, sem félögum og stofnunum eru sett samkv. 5. gr. laganna frá 1968. Var það einnig talið nauðsynlegt vegna EFTA- aðildarinnar. Það hefur komið í ljós við framkvæmd laganna, að ekki reynist unnt að veita verzlunarleyfi ýmsum þeim, sem sjálfsagt verður að telja að geti átt kost á leyfi til verzlunarreksturs. Má þar til nefna t.d. iðnaðarmenn í strjálbýli, sem sjaldan hafa verzlunarskólapróf, verzlunarstarfsemi í sambandi við olíu- og benzínsölu í strjálbýli, rekstur hannyrðaverzlana og ýmsa aðra verzlunarþjónustu í strjálbýli samhliða öðrum atvinnurekstri. Nefnd sú, sem samdi frv. að l. um verzlunaratvinnu frá 1968, var skipuð fulltrúum samkv. tilnefningu Félags ísl. stórkaupmanna, Sambands ísl. samvinnufélaga, Neytendasamtakanna og Kaupmannasamtaka Íslands. Það er fróðlegt að lesa aths. með þessu frv., en þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Nefndin er á einu máli um, að þau markmið, sem stefna ber að við setningu laga um verzlunaratvinnu, séu þessi: 1. Að borgarar eigi völ á sem beztri verzlunarþjónustu á hverjum stað og tíma. 2. Að tryggja, að þeir aðilar, sem fást við verzlun, séu búnir þeim hæfileikum, að þeir geti uppfyllt þær skyldur, sem slíkur rekstur leggur þeim á herðar, ekki hvað sízt gagnvart samfélaginu í heild. 3. Að tryggja, að verzlun sem atvinnugrein geti þrifizt í landinu.

Nefndin gerir sér ljóst, að á þeim tíma, sem liðinn er síðan gildandi lög um verzlunaratvinnu voru sett, hefur átt sér stað mjög greinileg þróun í þá átt að veita einstökum hópum manna einkarétt eða forgangsrétt til ákveðinnar tegundar vinnu. Þannig hafa iðnaðarmenn í löggiltum iðngreinum einkarétt til að selja iðnaðarvinnu af því tagi, vélstjórar hafa forgangsrétt að slíkum störfum og sama máli gegnir um skipstjórnarmenn, matsveina, leigubifreiðarstjóra, vörubifreiðarstjóra o.s.frv. Nefndin telur, að sú þróun, sem hér um ræðir, miðist um of við hagsmuni þeirra aðila, sem sérréttindi eignast, og jafnframt hafi hagsmunir þeirra aðila, sem áttu að njóta starfa eða þjónustu þessara starfsstétta, verið fyrir borð bornir.

Nefndin telur því ekki æskilegt, með hliðsjón af þeim markmiðum, sem sett hafa verið hér að framan, að rétturinn til að stunda verzlun verði gerður að neins konar sérréttindum. Nefndin telur þvert á móti æskilegt, að einstaklingar og fyrirtæki séu eins frjálsir að því að stunda verzlun og frekast er kostur, svo framarlega sem tryggt sé eins og kostur er, að verzlunin fullnægi skyldum sínum gagnvart borgurunum og samfélaginu. Nefndinni er enn fremur ljóst, að ýmis mjög sérstök vandamál rísa í sambandi við verzlun í strjálbýli.“

Þannig hljóða þessi orð. Með hliðsjón af þessu get ég ekki betur séð en þetta frv., sem hér er á dagskrá, sé í anda þeirra orða, sem ég hef lesið hér upp úr grg. þeirra, sem sömdu frv. að l. frá 1968. Þó er það nú svo, að þrátt fyrir þessar yfirlýsingar þeirra, sem unnu að samningu þessa umrædda frv. að l. frá 1968, um að eitt meginmarkmið þess væri að gera verzlunina sem frjálsasta, varð sú reyndin á, að skilyrðin um þekkingu og menntun voru gerð mun strangari en verið hafði í eldri lögum og eftir að lögin frá 1968 um verzlunaratvinnuna, sem hér eru gerð að umtalsefni, gengu í gildi, hefur verið vísað til viðskrn. ýmsum og mjög sundurleitum beiðnum um veitingu verzlunarleyfa, sem viðkomandi lögreglustjóri eða borgarfógeti í Reykjavík hafa ekki treyst sér til að verða við. Reyndin hefur einnig orðið sú hvað viðskrn. áhrærir, að sjaldnast hefur verið unnt að veita verzlunarleyfi í þeim tilvikum vegna hinna ströngu þekkingarskilyrða, þótt oft hafi verið mjög ósanngjarnt og óeðlilegt og algjörlega andstætt sjónarmiðum góðrar verzlunarþjónustu að synja umsækjendum um leyfi. Ef þetta frv., sem hér er til umr., nær fram að ganga, en með því er ætlunin að veita ráðh. heimild til að veita undanþágu frá þekkingarskilyrðum 3. tölul. 4. gr. laga nr. 41 frá 1968, þegar sérstaklega stendur á, er áformað af hálfu embættismanna viðkomandi rn., að gangur mála varðandi undanþágur verði í þá átt, að umsækjendur, sem undanþágu æskja að njóta, snúi sér ávallt til lögreglustjóra eða borgarfógetans í Reykjavík með umsóknir sínar, en aldrei milliliðalaust til viðskrn. Lögreglustjórinn bendi umsækjendum á að afla þeirra gagna, sem kostur er á og máli skipta í þessum efnum, og má þar til nefna sérstaklega, í fyrsta lagi prófskírteini eða afrit þeirra, í öðru lagi vottorð um störf við verzlun og í þriðja lagi meðmæli um hæfni umsækjenda til að reka verzlun og ummæli um nauðsyn þeirrar verzlunarþjónustu, sem skapast með hinum fyrirhugaða verzlunarrekstri. Það er talið eðlilegast, að lögreglustjórar sjálfir og/eða viðkomandi sveitarstjórnir láti í té meðmæli og umsagnir þessar, enda eru slíkir aðilar sem staðbundin yfirvöld hæfust til þess. Þegar áður greindra gagna hefur verið aflað, senda lögreglustjórarnir þau til viðskrn. til ákvörðunar. Þetta er sem sagt sá framgangsmáti, sem embættismenn í viðskrn. hugsa sér að viðhafður verði í sambandi við undanþáguheimildir, ef þetta frv., sem hér er til umr. verður að lögum. Þetta frv. miðar þannig að því að koma í veg fyrir leyfissynjanir, þegar e8lisrök og sanngirni mæla með leyfisveitingum. Þar sem hér er um að ræða undantekningarákvæði, sem skýra verður þröngt, tel ég fyrir mitt leyti, að ráðh. hafi alls ekki ótakmarkað vald til undanþáguveitinga. Lög með þessari undanþáguheimild eru a.m.k. ekki grundvöllur slíks valds að áliti lögfræðinga, sem vel eru heima í þessum málum.

Ég fyrir mitt leyti er að vísu þeirrar skoðunar, að heppilegast sé, ef unnt væri, að breyta lögunum á þann veg, að hægt yrði að komast hjá því, að ráðh. hefði vald til undanþáguveitinga. Ef slíkt að sjálfsögðu hið æskilegasta í allri lagasetningu. En því miður er því ekki að heilsa, að svo geti ávallt verið og alls ekki undir þeim kringumstæðum, sem hér um ræðir. Ef farið verður inn á þá braut að tilgreina í lögum eða í reglugerð þau tilvik, þar sem undanþágu er unnt að fá, eins og minni hl. allshn. leggur til með brtt. sinni er hætt við, að vandræðin verði ekki leyst, þar sem um er að ræða svo sundurleit og margbreytileg tilvik, að ógerlegt er að telja þau svo tæmandi sé. Fljótlega munu koma á daginn tilvík, sem ekki eru talin upp og því ekki undanþáguhæf, en sem eðlilegt er þó að njóti undanþágu. Slíkri beiðni yrði því að hafna, og situr þá allt í sama farinu. Er þetta álit embættismanna í viðskrn., sem hafa þessi mál með höndum. Einnig má benda á það, að verði valinn sá kostur að telja upp þau tilvik, þar sem unnt er að veita undanþágu frá þekkingarskilyrðinu í 3. tölul. 4. gr. laganna frá 1968, er ekki loku fyrir það skotið, að ýmsir sjái möguleika til að afla sér verzlunarleyfis, sem ella hefðu ekki hugleitt að hefjast handa í þeim efnum. Kynni e.t.v. svo að fara, að slík tæmandi talning yrði því fremur til að fjölga undanþágum en hitt.

Með hliðsjón af því, sem hér hefur verið rakið, hefur meiri hl. allshn. ekki getað fallizt á brtt. hv. 9. landsk. þm. og leggur til, að frv. verði samþykkt óbreytt.