02.02.1972
Efri deild: 42. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

153. mál, umferðarlög

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 11. jan. s.l. Eru þau um breytingu á umferðarlögum. Sú breyting, sem þar er um að ræða, er þess efnis, að nokkur sjálfsábyrgð er lögð á bifreiðaeigendur, sem valda tjóni. Kemur sú efnisbreyting fram í 1. mgr. 1. gr., sem er um breyt. á 73. gr. umferðarlaganna, og þar segir svo, með leyfi forseta:

„Nú hefur viðurkennt vátryggingafélag, sbr. 70. gr., greitt bætur samkv. framangreindu, og skal þá sá, sem fébótaábyrgð ber á tjóni samkv. 69. gr., endurgreiða vátryggingafélaginu fjárhæð, sem nemur 2.5% af vátryggingarfjárhæð ökutækisins samkv. 1. mgr. 70. gr., ef tjónið nemur þeirri fjárhæð, en ella að fullu. Endurkröfurétti þessum fylgir lögveð í ökutækinu á sama hátt og greinir í 4. mgr. 69. gr., þó þannig að veðband það, sem þar greinir, gangi fyrir.“

Eins og vátryggingarfjárhæð ökutækja er ákveðin nú, ábyrgðartryggingin, þá svarar þessi prósenta, sem þarna er nefnd, til þess, að á bifreið geti þetta numið 7500 kr.

Í 3. mgr. 1. gr. er ákveðið eða segir, að bannað sé að kaupa tryggingu gegn endurkröfu vátryggingafélags. Með þessari lagabreytingu, sem hér er gerð, er stefnt að því að hamla á móti eða draga úr hinum alvarlegu og sífjölgandi umferðarslysum. Það þarf væntanlega ekki að hafa um það mörg orð hér, hve alvarleg umferðarslysin eru orðin. Það liggja ýmsar augljósar og að vísu skiljanlegar ástæður til fjölgunar umferðarslysa nú á síðustu tímum. Bifreiðum hefur fjölgað hér mjög mikið að undanförnu. Umferðin hefur því aukizt gífurlega. Vegum og götum er hins vegar ábótavant, eins og allir þekkja. Það verður einnig að játa, því miður, að umferðarmenning er hér ekki komin á það stig, sem æskilegt væri. En því miður verður líka að segja það eins og það er, að einn þáttur í umferðarslysum er sá, að ýmsir ökumenn sýna ekki þá gætni og tillitssemi í umferðinni, sem vera ætti. Má reyndar segja, að í því efni skorti á hjá gangandi vegfarendum einnig.

Alvarlegast af öllu í sambandi við þetta mál er þó ölvun við akstur, sem hér ber því miður allt of mikið á. Ölvaðir ökumenn eru auðvitað stórhættulegir sjálfum sér og öðrum. Því verður þannig ekki á móti mælt, að umferðarslysin eru mjög tíð og hefur farið fjölgandi. Þar eru auðvitað slys á mönnum tilfinnanlegust og sorglegust og vekja sjálfsagt oft og einatt mesta athygli, hvort sem þau hafa dauða eða örkuml í för með sér eða minni háttar meiðsl, og það tjón, sem af því leiðir, verður seint metið til fjár, þó að reynt sé að gera það. En beint fjártjón, beint eignatjón er einnig stórkostlegt.

Umferðarráð hefur gert ýmsar skýrslur um þessi efni. Þær skýrslur segja okkur t.d. það, að árið 1969 voru umferðarslys hér skráð 4883, en árið 1970 var talan komin upp í 5689. Tölur liggja ekki fyrir frá síðasta ári, en það má víst fullyrða, að sú tala verði talsvert hærri.

Þessar skýrslur, sem umferðarráð hefur gert og n. sú, sem fær þetta frv. til meðferðar, getur að sjálfsögðu fengið aðgang að, eru fróðlegar á ýmsa lund. Þar eru t.d. slysin flokkuð eftir því, hvar þau gerast, nokkuð í stórum dráttum, t.d. hvort þau hafa átt sér stað í þéttbýli, sem kallað er, eða utan þéttbýlis. Það má segja, að niðurstaðan af því sé sú, að um 85% slysanna séu í þéttbýli, en svona 14–15% utan þéttbýlis. Þetta er þannig þessi tvö ár, sem ég minntist á, annað árið er 85% í þéttbýli og hitt árið 86%. Þessi stórkostlegu og mörgu umferðarslys, hvort sem þar er nú um að ræða árekstra eða annars konar umferðarslys, hafa auðvitað í för með sér mjög miklar skaðabótagreiðslur tryggingafélaganna. Og þær miklu skaðabótagreiðslur þeirra hafa svo haft í för með sér hækkuð iðgjöld, og það verður að segja það eins og það er, að það hefur æ ofan í æ að undanförnu orðið að hækka iðgjöld tryggingafélaganna í þessu sambandi. En þessi hækkuðu iðgjöld og tjónagreiðslur jafnast eða er þannig jafnað á fjöldann má segja að vissu leyti, og má því segja, að í raun og veru leggist tjónið að síðustu á allan almenning í landinu.

Eins og löggjöfin hefur verið, hafa bifreiðaeigendur ekki borið neina sjálfsábyrgð í sambandi við þessa skyldutryggingu eða ábyrgðartryggingu. Það hefur að vísu verið heimild til endurkröfu alveg samsvarandi og samhljóða eins og nú er í 2. mgr. 1. gr., þar sem vátryggingafélag hefur endurkröfurétt á hendur hverjum þeim, sem valdið hefur slysi eða tjóni af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Lækka má endurkröfuna með hliðsjón af sök tjónvalds, efnahag hans, fjárhæð tjónsins eða öðrum atvikum. Þetta ákvæði var tekið inn í umferðarlögin á sínum tíma, en þá aðeins sem heimildarákvæði, en vitaskuld út frá nokkuð svipaðri hugsun og þetta frv., sem hér liggur fyrir. En þá þótti ekki rétt að fara lengra heldur en að þarna væri um heimild að ræða. Og skilyrði fyrir því, að til endurkröfu gæti komið, voru þau, að um ásetning eða stórkostlegt gáleysi væri að ræða.

Það er sérstök nefnd, sem fjallar um þessar endurgreiðslukröfur, úrskurðar um þær. Og þessi nefnd hefur gert greinargóða skýrslu um hvert ár, og liggja þannig fyrir upplýsingar um það, hve mikið hefur kveðið að þessum endurkröfum og hve mikið hefur verið tekið til greina. Ég verð að segja það eins og það er, að mér virðist, að tryggingafélögin hafi verið furðulega sparsöm á það að nota þessa heimild. Árið 1969 fékk þessi nefnd 66 mál til meðferðar, einungis 66 mál til meðferðar, og af þeim 66 málum úrskurðaði hún endurkröfurétt í 61 máli. Árið 1970 fékk hún hins vegar 103 mál til meðferðar, en úrskurðaði endurkröfurétt í 92 tilfellum. S.l. ár, 1971, fékk hún 157 mál til meðferðar og úrskurðaði endurkröfurétt í 143 tilfellum. Í þeirri skýrslu, sem þessi nefnd lætur frá sér fara um þetta, þá flokkar hún ástæðurnar, sem þarna er um að ræða, og án þess að fara nánar út í þá flokkun má segja það almennt, að það er í langflestum þessum tilfellum um ölvun að ræða, og virðist satt að segja, að tryggingafélögin geri ekki mikið af því að reyna að koma fram endurkröfu nema um sé að ræða ölvun eða þá einhverjar annarlegar ástæður á borð við það. Þess vegna er það nú svo í reyndinni og hefur verið, að þrátt fyrir þetta heimildarákvæði er það oft svo, að þeir, sem í þessu lenda að valda tjóni, þurfa oft ekki annað en tilkynna tjónið og félagið borgar þá, vátryggingafélagið, og þeir sleppa við öll fjárútlát í sambandi við þetta.

Slík skipan er ekki heppileg að mínum dómi og skapar ekki nægilegt aðhald í þessu efni. Með þessum lögum, brbl., sem hér er farið fram á staðfestingu á, er hins vegar farið inn á þá braut að láta menn, sem tjóni valda, borga jafnan nokkuð sjálfa. Það er trú mín, að slíkt muni verða þeim nokkurt aðhald og stuðla að því, að menn fari gætilegar. Vitaskuld er enn ekki fengin nein reynsla í þessu efni, sem á er hægt að byggja, og þess vegna ekki á þessu stigi hægt að fullyrða um árangur af þessum aðgerðum. En ég skoða þetta sem tilraun, sem rétt og sjálfsagt er að gera, en mér er það hins vegar ljóst, að fleira þarf til að koma til þess að reyna að hamla á móti eða draga úr þeirri óhugnanlegu umferðarslysaöldu, sem hér hefur borið á að undanförnu. En það er óhjákvæmilegt að mínum dómi að hafa uppi viðleitni í þá átt, og þessi lagabreyting er einn liður í þeirri viðleitni.

Í sambandi við þetta mál hafa komið fram raddir um það, að það væri ástæða til þess að setja á fót sérstakan dómstól, hafa menn nú sagt, sem menn hafa þá kallað umferðardómstól, til þess að skera úr skjótt eða svo skjótt sem verða má vissum ágreiningsefnum, sem upp kunna að koma í þessu sambandi. Um það get ég aðeins sagt það á þessu stigi, að þetta mál er í skoðun. Það er í athugun hjá starfsmönnum dómsmrn., sem um þetta fjallar, en ég þori ekki á þessu stigi að segja um það, hver niðurstaðan verður af þeirri athugun.

Það er meginatriði í þessu sambandi, að það er farið inn á þessa braut, sem um er að ræða hér í þessu frv. Hitt er og verður auðvitað lengi álitamál, hvaða upphæð á að nefna í því sambandi. En þarna hefur nú verið nefnd þessi upphæð, sem ég hef áður nefnt. Ég hygg, að það fari nokkuð nærri lagi. Það er upphæð, sem munar um og líklegt er, að geti haft einhver áhrif í þá átt, sem til er ætlazt. Hins vegar ætti sú upphæð eigi að verða mönnum ofviða. Ég vil undirstrika það, sem augljóst er reyndar af frv., að þessi ákvæði breyta engu fyrir þann, sem fyrir tjóni verður. Hann á eftir sem áður rétt sinn óskertan á hendur tryggingafélaginu. Það er engin áhætta lögð á hann. Samskipti hans og tryggingafélagsins eru alveg óbreytt frá því, sem verið hefur. Hann getur gert sína kröfu og gerir sína kröfu alveg fulla á hendur tryggingafélaginu, og tryggingafélaginu er skylt að standa honum skil á henni. En það er tryggingafélagið, sem á að endurkrefja þann, sem tjóni veldur, um þessa upphæð, og tryggingafélaginu er skylt að gera það. Það skal gera það eins og segir í lögunum. Og þetta er byggt á því, að þarna sé eiginlega ekki nóg að hafa heimild. Að nokkru leyti er stuðzt við þá reynslu, sem fengizt hefur í sambandi við endurkröfuheimildirnar í 2. mgr. 73. gr.

3. mgr. 1. gr. er svo sett, til þess að aðhaldið skerðist ekki eða verði ekki skert. Það er augljóst mál, að þetta skapar tryggingafélögunum náttúrlega nokkurt erfiði og umstang og hefur í för með sér nokkurn kostnað fyrir þau að endurkrefja um þessa upphæð. Þó er líklegt, að þau geti fundið leiðir til þess að gera þetta á nokkuð hagkvæman hátt, án þess að það skapi óeðlilegan kostnað.

Það er von mín, að þetta muni leiða til þess, að menn fari gætilegar. Og í baráttunni gegn umferðarslysunum má að mínum dómi ekkert til spara. En það er eins og ég sagði áðan, að vitaskuld er þetta ekki nema einn liður í þeirri baráttu, sem verður að hafa uppi gegn umferðarslysunum. Það eru mörg önnur atriði, sem þar koma til og bent hefur verið á, og þá auðvitað fyrst og fremst löggæzla. Það er óhjákvæmilegt að halda uppi allstrangri löggæzlu til þess að reyna að afstýra umferðarslysum. Menn verða að horfast í augu við það, að það verður að leggja í allmikinn kostnað í því sambandi. Og löggæzlan verður að vera á þann veg, að hún geti orðið mjög virk í þessu sambandi.

Enn fremur er bent á það, að það yrði að beita t.d. ökuleyfissviptingu meira en gert hefur verið, og mín skoðun er sú, að það eigi að beita ökuleyfissviptingu til bráðabirgða strax, þegar heimild er til þess, þegar um ölvun við akstur er að tefla. Og ég hef látið þá skoðun uppi, að það hafi ekki verið nóg að gert í því efni, og framkvæmdin í þeim efnum hefur verið nokkuð mismunandi í hinum ýmsu umdæmum og ég fyrir mitt leyti hef eftir því sem í mínu valdi stendur lagt á það áherzlu, að þær heimildir, sem í lögum eru að þessu leyti til, verði notaðar. Auðvitað er svo umferðarfræðslan hér mikið atriði og verður að leggja áherzlu á hana og ég held, að það verði að leggja aukna áherzlu á hana í skólum og þá þannig, að ég held, að það verði að taka hana upp sem almennan þátt í náminu alveg á borð við aðrar námsgreinar og það á ekki að vera að fá neina aðkomumenn til þess að koma í skólann til þess að predika um það efni, heldur á það að vera að mínu mati sá fasti og reglulegi kennari, sem tekur þessa námsgrein alveg eins og aðrar námsgreinar og fer með hana á sama hátt til þess að leggja áherzlu á, að þarna sé ekki um neitt sérstakt föndur að tefla, heldur alveg fullkomna alvöru. Svo hefur auðvitað réttilega verið bent á það, að það yrði að gera ríkar kröfur til kunnáttu og hæfni ökumanna og í því sambandi fyrst að hyggja að því hvort kennslu þeirra væri á réttan veg fyrir komið.

Öll þessi atriði og mörg fleiri þarf að taka til skoðunar og vinna að því, að það geti orðið endurbætur í þessum efnum. Það má enginn búast við neinum snöggum breytingum í þessu, en ég held, að með því að allir leggist á eitt megi líka hafa áhrif á almenningsálitið og færa það eitthvað í annað horf heldur en það hefur verið að þessu leyti til. Og þá er ég ekki í vafa um það, að það hefur sín áhrif. Eins og ég hef þegar áður sagt, þá er auðvitað ekki hægt á þessu stigi að fullyrða um það, hver áhrif þessi litla breyting, sem hér er um að ræða, kann að hafa í för með sér í þessu efni, en hún er tilraun og tilraun, sem ekki má láta undir höfuð leggjast að gera. Og það fer svo eftir reynslunni, sem af því fæst, hvort menn vilja halda áfram á þessari braut eða breyta til.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að þessu frv. verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.