02.02.1972
Efri deild: 42. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

153. mál, umferðarlög

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil nú ekki lengja þessar umr. úr hófi fram. Aðeins vildi ég vegna orða í ræðu hv. 6. þm. Reykv. gera ofurlitla grein fyrir því, hvernig menntmrn. hefur síðan ég kom þar til starfa leitazt við að rækja sinn hlut í umferðarmálunum, þ.e. umferðarfræðsluna.

Ég hafði ekki setið þar lengi, þegar umferðarmálaráð kom á fund minn og gerði mér grein fyrir því, hvað það telur sig hafa að athuga við það, hvernig yfirstjórn menntamála hefur á undanförnum árum staðið að því að framkvæma umferðarfræðslu í skólunum, eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir. Þar var um að ræða sér í lagi tvö atriði, sem umferðarmálaráð óskaði mjög ákveðið eftir að breytt yrði í betra horf að þess dómi. Annars vegar var það, að sjá nemendum í skyldunámsskólunum fyrir námsbókum. Svo hafði verið um skeið, að þessum námsbókum var ekki útbýtt ókeypis í skólana, heldur voru þær seldar, að vísu ekki við háu verði, en þó nokkru, m.a. sökum þess að áherzla er lögð á að gera þessar bækur allmyndarlega úr garði, litprenta þær, þannig að hinir ungu nemendur taki vel eftir því, sem þar er sett fram í myndum og uppdráttum. Umferðarmálaráð hljóp hér undir bagga, a.m.k. eitt námsár ef ekki tvö, og greiddi úr sínum sjóði nokkra upphæð til Ríkisútgáfu námsbóka til að greiða fyrir ókeypis dreifingu á þessum bókum. Nú hefur það verið framkvæmt að dreifa án endurgjalds í skólana, bæði eldri fræðslubókum um umferðarmál og einnig nýrri bók, og vona ég, að reynslan sýni, að þar með sé bætt úr þeim skorti á námsbókum, sem talinn var vera.

Annað mál og öllu erfiðara viðfangs er að koma sjálfri kennslunni í betra horf, að sjá skólunum fyrir kennslukröftum, sem eru raunverulega hæfir til að veita fullnægjandi fræðslu um umferðarmál. Og þar hefur verið við töluverða örðugleika að etja, og að mínu áliti er meginúrbótin í því fólgin, að sjá um að fræðsla, sem nægir til að gera kennaraefnin hæfa umferðarkennara, eigi sér stað í kennaramenntun í Kennaraskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Þetta er auðvitað ekki ráðstöfun, sem ber skjótan árangur, en til frambúðar er hún bráðnauðsynleg, og nú er unnið að því að koma því atriði í fastar skorður.