02.02.1972
Efri deild: 42. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

153. mál, umferðarlög

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Enda þótt það sé nú kannske vafasamt að halda því fram, að þessi löggjöf sem hér er um að ræða, sé fyrst og fremst orðin til í þeim tilgangi að fyrirbyggja slysin, þá er það víst, að von er til þess, að nokkur áhrif geti hún haft á þau hörmulega tíðu umferðarslys, sem hér eru í dag. Ástæðan til þess að ég kom hér var sú, að ég vildi benda á þá staðreynd, að það er sannarlega árangurs að vænta í baráttunni gegn slysum. Það hefur sýnt sig á öðrum sviðum. Fyrir nokkrum áratugum síðan voru slys á vinnustað algengust allra slysa. Þá var tekin upp hvarvetna um heim öflug barátta fyrir bættri aðbúð á vinnustað, fyrir fræðslu og allar ráðstafanir gerðar, sem unnt var, til að koma í veg fyrir þau slys. Árangurinn var sá, að Kanadamenn létu fyrir nokkrum árum gera rannsókn á því, hvernig slysatíðni væri hjá þeim og með hverjum hætti slysin urðu. Þá kom í ljós, að slys á vinnustað voru orðin fágætust af slysum, þ.e. á þremur aðalslysastöðunum, sem hvarvetna eru, sem er heimilið, umferðin og vinnustaðurinn. Nú voru slys á vinnustað allt í einu komin niður í lægsta sæti. Og þetta var þakkað hinni miklu baráttu, sem tekin hafði verið upp til varnar gegn slysum á vinnustað.

Nú er það svo, að ein algengasta dánarorsök allra manna innan fimmtugs eru slys. Þess vegna er hér um mjög viðamikið mál að ræða og mál, sem hefur mikil áhrif á meðalaldur í hverju landi. Og ég held því, að úr því að við erum farnir að ræða þessi mál hér og farið er að benda á þetta sem leið til að fækka slysum, þá sé einmitt tækifæri nú til þess að hefja öfluga herferð og baráttu gegn umferðarslysum, sem sannarlega eru mikið vaxandi hjá okkur og vafalaust margar leiðir hægt að fara til þess að hamla á móti. Ég vil þó taka það fram, að okkar bættu vegir hafa það vafalaust í för með sér, að meiri hætta er á slysum, vegna þess að eins og sagt hefur verið hér áður eru slysin fyrst og fremst vegna ógætni, tillitsleysis og hraða í umferðinni og enn fremur vegna ölvunar við akstur. Þetta eru kannske meginorsakirnar. En einmitt á góðu vegunum og auðförnu hættir mönnum við að slappa af og vara sig ekki á hættunni. Ég vildi því fyrst og fremst vekja athygli á því, að fræðsla og áhugi fyrir að bæta úr slysunum hefur borið árangur á öðrum sviðum og við getum vænzt þess, að ef við snúum okkur að því í alvöru að reyna að hamla á móti umferðarslysunum, þá megi vænta nokkurs árangurs, þó að að sjálfsögðu sé um mjög erfitt vandamál að ræða.