08.03.1972
Efri deild: 52. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

153. mál, umferðarlög

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir til umr., er til staðfestingar á brbl. frá 11. jan. s.l. Höfuðefni frv. er á þá lund, að hafi vátryggingafélag greitt bætur vegna umferðarslyss, þá skal sá, sem fébótaábyrgð ber á tjóni, endurgreiða vátryggingafélaginu fjárhæð, sem nemur 2.5% af vátryggingarfjárhæð ökutækis, ef tjónið nemur þeirri upphæð, en annars að fullu. Þetta er höfuðefni þess ásamt því, að frv. gerir ráð fyrir því, að bannað verði að kaupa endurtryggingu í þessu skyni.

Ástæðan fyrir þessari lagasetningu er að sjálfsögðu hin mikla aukning umferðarslysa á síðari árum, sem okkur öllum er jafnkunnugt um. Með þessum ákvæðum er talið líklegt, að hamlað verði að nokkru á móti þessari háskalegu þróun. Ökumenn sýni öllu fremur gætni eða varkárni nauðsynlega í akstri og fylgi betur settum umferðarreglum.

Með iðgjöldum sínum hefur allur almenningur eða réttara sagt allir vátryggjendur ökutækja, bifreiða, staðið undir þeim hóflausa kostnaði, sem leitt hefur af hinum miklu tjónum og auknu umferðarslysum. En við sjálfsábyrgðina að þessu leyti verður sjálfur tjónvaldurinn að taka á sig nokkurn hluta af þessum kostnaði, og þykir það mörgum eðlilegt, og flestum sýnist það spor í rétta átt að létta þannig á þeim, sem ekki valda slysum, en hafa hingað til orðið að borga brúsann.

Allshn. hefur leitað umsagnar nokkurra aðila og vildi ég leyfa mér að drepa á höfuðinntak þessara umsagna. En allt er þetta mál mjög umfangsmikið og í raun og veru mjög erfitt til afgreiðslu, þannig að verulegu muni. Þó er þessi þáttur, sem frv. fjallar um, engu að siður nokkuð mikilvægur að áliti okkar í allshn. og fleiri.

Umferðarráð segir í stuttu máli, að sú stefna, sem felst í þessu frv., að leggja sjálfsábyrgð á þá, sem fébótaábyrgð bera á umferðarslysi, geti stuðlað að auknu umferðaröryggi, og umferðarráð leggur áherzlu á, að þessi tilraun sé gerð. En umferðarráð vekur jafnframt í bréfi sínu athygli á því, að samhliða þessari breytingu sé þörf margra annarra ráðstafana á sviði umferðaröryggismála, og umferðarráð getur þess, að það hafi samþykkt margar ályktanir í þeim efnum.

Félag ísl. bifreiðaeigenda hefur líka sitt að segja um þetta mál, og þeir, sem hafa samið þetta bréf og gengið frá því, en það mun vera stjórn FÍB, slá bæði úr og í og telja upp nokkuð marga kosti sjálfsábyrgðar, eina fjóra, og svo tala þeir um gallana og þeir sýnast vera öllu fleiri. En þegar dregur að lokum bréfsins, þá segir stjórn FÍB, að hún meti þá viðleitni til að fækka tjónum, sem frv. ber með sér, en telur hins vegar nauðsynlegt að grípa til frekari ráðstafana, ef frv. á að ná tilgangi sínum. Þeir minnast hér á þrjú atriði eða þrjá þætti, sem þeir telja að sérstaklega beri nauðsyn til að taka til athugunar jafnframt.

Það er í fyrsta lagi stofnun umferðardómstóls. Og þeir segja, að það sé algjör forsenda þess, að það sé hægt að framkvæma þessi sjálfsábyrgðarákvæði, svo að þau komi réttlátlega, eins og þar stendur, niður á bifreiðaeigendum. Í öðru lagi séu þyngd refsiákvæði við flótta frá tjónavettvangi. Og í þriðja lagi verði stóraukin starfsemi í umferðarfræðslu og slysavörnum. Þeir mæla þannig engan veginn gegn þessu ákvæði, en telja, eins og umferðarráð, að fleiri þætti þurfi jafnframt að leysa í þessum málum.

Þá vildi ég geta um umsögn frá Sambandi ísl. tryggingafélaga, og þeir segja m.a.: „Það er skoðun vor, að með því að leggja nokkurn hluta tjónbóta á þá, sem samkv. lögum bera ábyrgð á ökutækjum sínum og þar með tjónum, sem ökutækin valda, sé stuðlað að því, að ökumenn sýni meiri gætni og varkárni í umferðinni, þar sem þeir verða þar með sjálfir að bera nokkra fébótaábyrgð á þeim umferðaróhöppum, sem þeir kunna að valda, og það er skoðun vor“, segja þeir í bréfinu, „að hér sé farið inn á rétta braut.“ Og leggja þeir til, að frv. verði samþykkt.

Svo hefur okkur borizt bréf frá fjórða aðila, sem ekki var beðinn um að senda okkur umsögn, en þar fyrir höfum við tekið vingjarnlega á móti þessu erindi, þótt við í n. höfum ekki talið okkur fært að taka það erindi eða þá ósk til greina. Það er frá félagi sendibílstjóra, sem heitir Trausti. Þeir segja m.a.: „Sendibílstjórar hafa um margra ára skeið veitt borgurum þá þjónustu að draga bíla þeirra í gang, þegar kalt er að vetrarlagi, svo og látið í té aðra dráttaraðstoð, þegar á þarf að halda. Er hér um að tefla verulegan þátt í atvinnustarfsemi sendibílstjóra og jafnframt nauðsynlega þjónustu við allan almenning. Þegar bifreið dregur aðra bifreið, er sérstök slysahætta fyrir hendi. Eiga sér þá stundum stað óhöpp, sem oftast má rekja til óvarkárni eða mistaka þess, sem situr undir stýri þeirrar bifreiðar, sem dregin er, en í slíkum tilfellum lendir öll ábyrgðin á eiganda dráttartækisins, þ.e. sendiferðabifreiðarinnar.“

Og þeir halda áfram og segja, að þetta komi mjög illa við sendibílstjórana, félag þeirra, og telja þetta svo alvarlegt, ef ekki fáist breyting á þessu, að hætta verði með öllu þeirri þjónustu að draga bifreiðar vegna þessarar sérstöku áhættu, sem af því stafi vegna þessa ákvæðis. Enn fremur segja þeir, að sendibílstjórar treysti sér ekki til að halda starfseminni áfram við þær aðstæður að eiga yfir höfði sér margar endurheimtukröfur vátryggingafélaganna.

Svo óska þeir sérstaklega, að það verði sett inn ákvæði þess efnis, að sendibilstjórar geti tryggt sín ökutæki sérstaklega í þessu skyni, þ.e. fái heimild til að endurtryggja. Við ræddum í n. lítils háttar um þetta, en við töldum okkur ekki fært að sinna þessu, enda tel ég a.m.k., að hægt sé með vissum hætti að fyrirbyggja tjón með öðrum hætti en að endurtryggja, fyrirbyggja, að þeir þurfi að greiða sjálfsábyrgðarfjárhæð. Og við í n. létum þetta frá okkur fara án þess að gera nokkuð í þá átt, að við breyttum neinu.

Hitt er annað mál, að um leið og n. samþykkir eða mælir með samþykkt frv. einróma, þá hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., en að öðru leyti hygg ég, að ekki þurfi að ræða um þetta meira. Þetta er tiltölulega einfalt mál og það á að vera kunnugt okkur öllum.

Þó vil ég geta þess, að í bréfi, sem mér barst frá Samvinnutryggingum, eru þeir einmitt að ræða um þessa sjálfsábyrgð og telja einmitt varðandi þetta ákvæði í brbl., sjálfsábyrgðina, að það það sé erfitt í framkvæmd að bæta framrúðubrot úr ábyrgðartryggingu og það verði að gera miklu ríkari kröfur til sannana í sambandi við rúðubrot en verið hafi. Og þeir segja í bréfinu samvinnutryggingamenn, að þetta hafi m.a. orsakað aukna eftirspurn eftir tryggingum á framrúðum bifreiða, og þeir hafi því ákveðið að taka upp slíkar tryggingar og innifela þær í skírteinum fyrir ábyrgðartryggingar á sama hátt og ökumanns- og farþegatryggingu. Þetta segir í þessu erindi Samvinnutrygginga. Og þá hygg ég, að í sambandi við þetta sérstaka atriði, rúðubrot, sé öllu til skila haldið í sambandi við sjálfsábyrgð að því er þau varðar, ef gert er skylt að tryggja þetta með þessum hætti sérstaklega, sem Samvinnutryggingar leggja kapp á og óska eftir, að menn geri almennt. Við ræddum m.a. um þessi rúðubrot í n., að þau væru ákaflega erfið viðfangs vegna þess, eins og ég sagði áðan, að það er ákaflega erfitt að sanna rúðubrot. Og við, sem höfum fengizt töluvert við slík rúðubrotsmál, vitum ósköp vel, að það er yfirleitt með þeim hætti að viðkomandi, sem gefur skýrslu og er talinn hafa brotið rúðuna, hann segir: Ja, ég var nú þarna á ferðinni á þessum tíma, en ég veit ekki meir. Það getur vel verið, að ég hafi brotið þessa rúðu eða steinkast komið frá minni bifreið, en ég veit ekki um það. Við skulum segja, að svo sé. Og þannig lýkur málinu. En eins og auðvelt er að skilja, þá er ákaflega erfitt um vik að sanna í málinu fullkomlega, hver er valdur að rúðubrotinu.

Með þessu er máli mínu lokið.