17.04.1972
Neðri deild: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

153. mál, umferðarlög

Frsm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir til 2. umr., er til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 11. jan. s.l. Það hefur gengið gegnum hv. Ed., sem samþykkti það óbreytt og athugasemdalaust. Frv. þetta fjallar um breytingar á 73. gr. umferðarlaga, og er sú breyting í höfuðatriðum á þá lund, að hafi vátryggingafélag greitt bætur vegna umferðarslyss, þá skal sá, sem fébótaábyrgð ber á tjóni, endurgreiða vátryggingafélaginu fjárhæð, sem nemur 2.5% af vátryggingarfjárhæð ökutækis, ef tjónið nemur þeirri fjárhæð, en annars að fullu. Þessum endurkröfurétti vátryggingafélagsins fylgir lögveð í ökutækinu á sama hátt og greinir í 4. mgr. 69. gr. umferðarlaga, þó þannig að veðband það, sem þar gremir, gengur fyrir. Þá er og kveðið á í 1. gr. frv., að bannað sé að kaupa tryggingu gegn endurkröfu vátryggingafélags.

Svo sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh., er hann mælti fyrir frv. hér í hv. d., þá mundi sjálfsábyrgðin samkv. þessu nema 7500 kr. á ökutæki. N. kynnti sér umsagnir þær, er bárust hv. Ed., og ræddi þær og n. er sammála um, að hér sé stigið skref í þá átt að bæta umferðarmenningu og umferðaröryggi. Líklegt hlýtur að teljast, að sjálfsábyrgð þeirra, sem valda tjóni, muni stuðla að því, að ökumenn sýni meiri varkárni í umferðinni. Þetta er líka skoðun þeirra aðila, er hv. Ed. leitaði til um umsagnir, en þeir benda á, að jafnframt þessu þurfi að gera aðrar ráðstafanir á sviði umferðaröryggis. Þannig segir umferðarráð í umsögn sinni, að það telji, að sú stefna, sem felist í frv., geti stuðlað að auknu umferðaröryggi og telur rétt, að þessi tilraun sé gerð, en vekur athygli á því, að samhliða þessari breytingu sé þörf ýmissa annarra ráðstafana á sviði umferðaröryggismála og vísar í því sambandi til ályktunar sinnar frá 27. okt. 1971. Félag ísl. bifreiðaeigenda telur bæði kosti og galla á sjálfsábyrgð í þessu formi, en niðurstaða umsagnar þeirra hlýtur þó að teljast jákvæð, og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Félags ísl. bifreiðaeigenda metur þá viðleitni til að fækka tjónum, sem frv. ber með sér, en telur hins vegar, að nauðsynlegt sé að grípa til frekari ráðstafana, ef frv. á að ná tilgangi sínum.“

Þessar frekari ráðstafanir eru að dómi stjórnarinnar stofnun umferðardómstóls, aukin refsiákvæði við flótta frá tjónsvettvangi og loks stóraukin starfsemi í umferðarfræðslu og slysavörnum. Þá leggur Samband ísl. tryggingafélaga til, að frv. verði samþ., og telur, að hér sé farið inn á rétta braut til þess að leysa að nokkru það mikla öngþveiti, sem nú ríkir í umferðarmálum.

Rétt er að geta þess, að fulltrúar frá félagi sendibílstjóra sneru sér til n. vegna sérstaks vanda, sem að þeim snýr í sambandi við sjálfsábyrgð. Þeir benda réttilega á, að þeir veiti borgarbúum ómetanlega aðstoð við að draga bíla þeirra í gang, þegar kalt sé að vetrarlagi, og láti í té aðra dráttaraðstoð, þegar á þurfi að halda. Samkv. 67. gr. umferðarlaga ber eigandi dráttartækis alla ábyrgð, ef tjón hlýzt af. Vissulega á eigandi dráttartækis skaðabótakröfu á hendur hinum aðilanum, ef sannað þykir, að hann eigi sök. En sendibílstjórar óttast samt, að hlutur þeirra sé ekki nægilega tryggur, og óttast margar endurheimtukröfur vátryggingafélags vegna tjóna, sem verða með þessum hætti. N. ræddi þetta vandamál á fundi og varð sammála um, að sendibílstjórar veittu almenningi svo mikla þjónustu, að nauðsynlegt væri, að mál þetta yrði kannað nánar. Ekki þótti n. samt rökrétt að leggja fram brtt. við þessa umr., en lítur svo á, að mál þetta beri að kanna nánar. N. áskilur sér rétt þess vegna til að koma með brtt. við 3. umr., ef í ljós kemur að það leysi umræddan vanda. Að öðru leyti mælir n. með, að frv. verði samþ., en fjarstaddur afgreiðslu var einn nm., hv. 11. landsk. þm., Ólafur G. Einarsson.