17.04.1972
Neðri deild: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

198. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta mál er komið frá Ed, og breytingin, sem það felur í sér, er aðeins sú, hvernig skuli skipa stjórn Framleiðnisjóðsins. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir því, að skipaðir skuli samkv. tilnefningu einn frá Búnaðarfélagi Íslands, annar frá Stéttarsambandi bænda og tveir án tilnefningar, en formaður sjóðsstjórnarinnar skal vera forstöðumaður Efnahagsstofnunar eða fulltrúi hans, eins og segir í lögunum. Um síðustu áramót var svo Efnahagsstofnunin lögð niður, þegar gildi tóku lög um Framkvæmdastofnun ríkisins, og þess vegna er þessi breyting gerð.

Nú er lagt til, að stjórnin verði þannig skipuð, að einn verði eftir tilnefningu Búnaðarfélags Íslands og annar frá Stéttarsambandi bænda — það er eins og stendur í lögunum, — en síðan einn eftir tilnefningu stjórnar Búnaðarbanka Íslands og einn eftir tilnefningu stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins. Ráðh. skipi formann án tilnefningar. N. hefur athugað frv. og mælir með samþykkt þess óbreytts. Benedikt Gröndal var fjarstaddur, er málið var afgreitt.