07.02.1972
Efri deild: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

162. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég get nú tekið undir sumt af því, sem hv. 5. þm. Reykn. sagði hér um það vátryggingakerfi fiskiskipa, sem hér hefur verið í gildi og er enn í gildi. Ég tel á því mikla galla og það sé mjög þarft verk að taka það til endurskoðunar og reyna að fá breytingar á því. Ég get ekki sagt um það á þessu stigi, hvenær er að vænta till. frá þeirri nefnd, sem nú vinnur að endurskoðun á þessum reglum. Hún er í miðju verki. Þessi nefnd var skipuð þannig, að í henni eru tveir menn af hálfu útvegsmanna og þarna eru einnig fulltrúar sjómanna og vátryggingafélaganna og þeirra aðila, sem hér eiga einkum hlut að máli, svo að þess er að vænta, að í endanlegri niðurstöðu nefndarinnar komi fram öll þau sjónarmið, sem uppi eru um breytingar á þessu kerfi. Ég mun reyna að vinna að því, að nefndin ljúki sem fyrst störfum, svo að hægt verði að leggja fram brtt. við þetta kerfi helzt á þessu þingi, en því miður get ég ekki fullyrt um það, hvenær till. nefndarinnar er að vænta.

Hv. þm. minntist á, að mörg fiskiskip muni hafa verið nú um skeið vátryggð alllágt, undir réttu verði eða nauðsynlegu endurnýjunarverði. Þetta mun vera rétt, en þarna hafa verið í gildi ákveðnar reglur, þar sem verið hefur starfandi sérstök samstarfsnefnd þeirra, sem með tryggingarnar hafa haft að gera, og samtaka útvegsmanna, og vátryggingin eða matsverðið á skipunum mun hafa verið samkomulagsatriði þessara aðila. En hér er í rauninni um mjög alvarlegt mái að ræða, ef sú er raunin á að fiskiskipaflotinn er verulega vantryggður.

Ég get sem sagt á þessu stigi málsins ekki sagt neitt frekar um það, hvað hægt er að gera í þeim efnum. Það er eflaust allflókið mál að ætla að breyta þessu og mundi að sjálfsögðu kosta aukið fé, annaðhvort fyrir þennan vátryggingasjóð, ef hann ætti að standa undir dýrari tryggingum á skipunum, eða þá fyrir eigendur skipanna sjálfra. En vegna þess samkomulags, sem um þetta hefur gilt til þessa, þá hefur verið býsna erfitt að grípa hér inn í og breyta þessu fyrirkomulagi verulega.

En ég mun ýta á eftir þessari endurskoðunarnefnd, sem nú vinnur að endurskoðun á þessum málum, til þess að hægt verði að fá hennar till. hér í þingið hið allra fyrsta.