22.03.1972
Efri deild: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

162. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. (Halldór Kristjánsson):

Herra forseti. Sjútvn. mælir einróma með samþykkt þessa frv. Það þarf ekki að gera mikla grein fyrir því hér, því að eins og það ber með sér, er það aðeins hækkun á útflutningsgjaldi til samræmis við þá verðlagsþróun, sem verið hefur í landinu, eins og rakið er. Í aths. með frv. er rakinn dálítið aftur í tímann ferill þessara mála og hvernig slíkar hækkanir hafi verið gerðar. N. getur þess í áliti sínu, að hún hafi kynnt sér fjárhag og stöðu Tryggingasjóðs fiskiskipa, og hann sannar það, að þörf hans fyrir auknar tekjur er sízt minni heldur en þetta frv. mun veita, þegar að lögum er orðið, svo að hér sýnist n., að raunar sé ekki um annað að ræða heldur en næsta sjálfsagðan, eðlilegan hlut og þessu geti naumast verið á annan veg hagað.