21.04.1972
Neðri deild: 64. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

162. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Jón Skaftason:

Herra forseti. Á þskj. 580 hefur sjútvn. leyft sér að flytja brtt. að ósk hæstv. sjútvrh. Brtt. þessi hljóðar þannig:

„Við 3. gr. bætist ný mgr., svo hljóðandi:

Þó skal sjútvrh. heimilt að ráðstafa útflutningsgjaldi af saltaðri síld og flökum úr saltaðri síld, sem flutt er út á árinu 1972, til síldarútvegsnefndar, m.a. vegna kostnaðar við öflun markaða fyrir saltaða síld af fjarlægum miðum.“

Þessi brtt. er flutt samkv. ósk sjútvrh. Það er svo, eins og hv. alþm. vita, að á undanförnum aflaleysisárum hefur ekki veiðzt nein síld um þriggja ára skeið, svo að nokkru nemi. Af þessum ástæðum hefur fjárhagur síldarútvegsnefndar orðið mjög bágborinn og einnig vegna þess, að á hennar vegum liggja vörubirgðir víðs vegar um landið, tunnur, salt o.fl., sem nemur hundruðum millj. kr., sem óhjákvæmilega eru í mikilli hættu, ef ekki fæst nein síld til landsins. Vegna þessa og vegna hins líka, að nú eru uppi ráðagerðir um að reyna að ná síld af Hjaltlandsmiðum hingað til lands til söltunar, og í því sambandi er nauðsynlegt að fara að kanna möguleikana á markaði fyrir slíka síld og hvaða verð er hægt að fá fyrir hana, er þessi brtt. flutt, um heimild til handa sjútvrh. til þess að gefa eftir til síldarútvegsnefndar útflutningsgjald af þeirri söltuðu síld, sem flutt er út á árinu 1972, og útflutningsgjald af flökum úr saltsíld, sem flutt eru út á sama ári.