07.02.1972
Efri deild: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

160. mál, lán til kaupa á skuttogurum

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hér eru nú orðnar býsna almennar umr. um togarakaupamál, sem mér sýnist, að séu alllangt fyrir utan það tilefni, sem það litla frv. gefur, sem hér liggur fyrir, þar sem aðeins er um það að ræða að veita ríkisstj. heimild til þess að gefa út sérstaka sjálfskuldarábyrgð í því tilviki, þar sem Alþ. hefur tiltölulega nýlega staðfest við fjárlagaafgreiðslu heimild til handa ríkisstj. til þess að veita ríkisábyrgðir í þessu skyni. En eins og hér hefur komið fram, þá hefur þótt réttara að taka af öll tvímæli um það, að hér getur orðið um það að ræða, að veita þurfi sjálfskuldarábyrgð, en ekki aðeins einfalda ábyrgð, eins og túlka má eflaust þá samþykkt, sem Alþ. veitti með fjárlagaafgreiðslunni. Ég hélt nú, að út af fyrir sig ætti þetta ekki að þurfa að taka langan tíma í umr., að afgreiða þetta atriði. En inn í þetta mál hafa svo spunnizt ýmsar hugleiðingar manna varðandi skuttogarakaup almennt eða endurnýjun togaraflotans almennt. Og það leynir sér ekki, að það er hér á ferðinni, eins og reyndar ótrúlega víða í þessu landi, ef maður ætti að miða við það, sem maður les í blöðum, að það virðist fara hrollur um menn, þegar á að fara að endurnýja togaraflotann í landinu, þá verða menn hræddir og spyrja um marga hluti og tala um flóðbylgju o.s.frv. Ég verð nú að segja það, að ég hef ekki orðið var við það enn þá, að neitt slíkt sé að ganga yfir í sambandi við endurnýjun togaraflotans og þær reglur, sem ríkisstj. hefur sett af sinni hálfu varðandi fyrirgreiðslu í þessum efnum. Það hefur komið hér fram í þessum umr. og verið staðfest áður, að þó að þessi fyrirheit séu búin að liggja fyrir alllengi um tiltekna fyrirgreiðslu við þá, sem hugsa sér að kaupa skuttogara af tiltekinni stærð, að þeir geti fengið fjárhagslega fyrirgreiðslu, sem nemur allt að 85% af kostnaðarverði skipanna, þá hefur reynslan sýnt það, að aðeins 11 aðilar hafa getað uppfyllt þau almennu skilyrði, sem sett hafa verið, og hér er því aðeins um það að ræða, að hægt er að afgreiða fyrirliggjandi 11 beiðnir varðandi þessi skuttogarakaup, en ekki neinn óskalista upp á 40 skip, eins og hér er endurtekið í sífellu.

Eflaust mætti bæta því við, að þeir eru eflaust fleiri en 40 í landinu, sem óska eftir því að eiga þess kost að geta keypt sér skuttogara. Það hefur verið svo um langan tíma á Íslandi, að óskir manna í þessum efnum eru býsna stórar. En sem sagt, reynslan hefur nú sýnt þetta, að hér er aðeins um það að ræða, að 11 aðilar geti notfært sér þessa heimild eins og sakir standa. En um það er síðan spurt í framhaldi af þessu: Er ætlun ríkisstj. að leyfa samninga um svo mörg skip samkv. þessari reglu eins og aðilar koma til með að geta beðið um eða geta uppfyllt? Í mínum augum er spurning um þetta afskaplega svipuð því eins og spurt væri: Ætlar Fiskveiðasjóður og þar með ríkisstj. að heimila mönnum að hyggja eins marga báta og þeim kemur til hugar að gera samkv. lögum og reglum sjóðsins? Eða ætlar ríkisstj. að leyfa mönnum að halda áfram að flytja inn bila til landsins án þess að setja þar á einhver mörk, ef þeir bara geta borgað bílana?

Vitanlega er hér aðeins um það að ræða, að settar eru tilteknar reglur. Ef það kemur í ljós, að þær reglur virðast vera af því tagi, að hér geti orðið um einhvern yfirinnflutning að ræða, óæskilegan, þá gerist það í þessu tilviki eins og öðru, að ríkisstj. endurskoðar sínar reglur og kann þá að setja á einhverjar hömlur. En ég segi, að það hefur ekkert gerzt enn þá í þessum málum, sem gæfi tilefni til slíks, að við færum að banna þeim að kaupa skip, flytja inn skip, sem geta greitt þau að því marki, sem settar hafa verið reglur um, á sama tíma sem við leyfum aðilum að kaupa það til landsins, sem nú er leyft í dag. Þvert á móti er um það að ræða, eins og líka hefur komið fram í þessum umr., að það eru hér margir aðilar, sem eru að óska eftir því að fá að kaupa skip af þessu tagi, sem ekki geta uppfyllt þær reglur, sem settar hafa verið, og þá er farið að ræða um það: Á ekki að lána þeim fé til þess að kaupa skipin líka? Það er auðvitað málefni út af fyrir sig á hverjum tíma, hvort ástæða þykir til þess, vegna þess að þeir, sem hafa fjárráðin til, séu ekki nægilega margir til þess að leysa tiltekin vandamál af eigin getu, hvort þá eigi að gripa til þess að hjálpa hinum til þess að komast yfir hjallann, sem ekki hafa nægileg fjárráð. Og í þessum efnum er spurt um það: Ætlar ríkisstj. sér að hafa þetta mál í sínum höndum eða er ætlunin, að Framkvæmdastofnunin hafi það? Í mínum augum er það alveg ljóst, að Framkvæmdastofnun hefur auðvitað ekkert með það að gera að veita leyfi til þess að flytja inn skip til landsins. Það er ekki hennar verkefni. Ríkisstj. hefur ekki annað í þessum efnum að gera, að því leyti til sem hún fjallar um þetta nú, en það, að settar hafa verið ákveðnar reglur um fyrirgreiðslu, og um beiðni þeirra sem uppfylla þessar reglur, er fjallað af réttum stjórnarvöldum og þeir fá svör um það, hvort þeir fá heimild til þess að flytja skipin inn í landið eða ekki. Og ég sé ekki, að það eigi að vera verkefni Framkvæmdastofnunarinnar að fjalla um það, hvort þeir, sem geta keypt sér skip, fái leyfi til þess að flytja þau inn í landið. Hitt er hins vegar mjög eðlilegt verkefni Framkvæmdastofnunarinnar, að fjalla um það, hvort æskilegt sé að aðstoða ýmsa þá, sem eru að sækja um að fá að kaupa skip og ekki hafa fjárhagslega getu til þess samkv. settum reglum að komast yfir þessi skip. Það liggur að mínum dómi í hennar verkahring og er afar eðlilegt, að hún fjalli um það. En þarna liggja alveg greinileg mörk á milli. Ríkisstj. hefur gefið út ákveðin fyrirheit um fyrirgreiðslu. Þeir, sem geta uppfyllt þessi skilyrði, leggja vitanlega fyrir sínar umsóknir til þeirrar nefndar, sem starfar á vegum viðskrn. varðandi erlendar lántökur, og þeir verða afgreiddir þar með sínar heiðnir, á meðan ekki hefur þótt ástæða til þess að setja nýjar reglur til þess að koma í veg fyrir yfirinnflutning á þessari tegund af vöru eins og hverri annarri. En sem sagt, á meðan málin standa þannig, að það liggur ekki fyrir, að fleiri en 11–12 aðilar eru færir um það að kaupa skip af þessari gerð samkv. tilsettum reglum, þá hefur það ekki hvarflað að mér, að það þurfi að setja einhverjar reglur til að koma í veg fyrir, að menn geti fengið að kaupa þessi skip, frekar en það hafi hvarflað að mér, að rétt væri að setja reglur um það að draga úr lánum Fiskveiðasjóðs frá því, sem verið hefur, vegna þess að það séu á ferðinni allt of mikil bátakaup í landinu. Það getur hugsanlega komið upp, að til slíks þurfi að taka. En það er ekkert slíkt enn þá að gerast, eftir því sem ég bezt veit.

Mitt svar við þessum spurningum er því það, að það komi sem sagt fyrst til þess að fara að taka það til athugunar, hvort ríkisstj. ætlar að leyfa ótakmarkað að flytja inn skip samkv. þessum reglum, þegar umsóknir eru orðnar svo margar, að manni sýnist, að hér sé eitthvað að komast í óefni, þá fyrst þarf að taka það til athugunar. Og mitt svar við hinni spurningunni varðandi það, hver eigi um þessi mál að fjalla, er þetta, að eðlilega fjalla þær stofnanir hjá ríkinu um innflutning á skipum, sem það eiga að hafa með höndum samkv. réttum lögum og reglum, að því leyti til sem um venjuleg kaup og innflutning er að ræða, en að hinu leytinu, þegar til þarf að koma einhver sérstök aðstoð, þá verður vitanlega ríkisstj. annaðhvort að taka nýja ákvörðun í þeim efnum eða þá Framkvæmdastofnunin, sem hefur samkv. lögum rétt og skyldu til þess að kanna slík mál, gerir um það till., hvort hún vill fara að veita þar viðbótaraðstoð eða ekki.

Þá var hér spurt einnig um það, hvað liði fjárhag Fiskveiðasjóðs í sambandi við þessi gífurlegu skipakaup. Þá er því ekki að neita, að Fiskveiðasjóður stendur þannig, að hann þarf á allmiklu meira fjármagni að halda til sinna almennu útlána en hann hefur sjálfur árlega tekjur til, og þannig hefur þetta verið nú um nokkurra ára skeið. Það þarf því að afla Fiskveiðasjóði aukins fjármagns, en ekki vegna togarakaupa. Það hefur þegar verið gerð greiðsluáætlun fyrir Fiskveiðasjóð fyrir yfirstandandi ár, og það er ekki gert ráð fyrir því, að Fiskveiðasjóður láni út af því, sem þar hefur verið gerð áætlun um, eina einustu krónu til kaupa á togurum. Og það gefur enda auga leið, að kaup af þessu tagi, þar sem samið er um það, að erlendir aðilar láni 80% af andvirði skipanna til 8 ára, og hlutverk Fiskveiðasjóðs er því fyrst og fremst að taka þessi erlendu lán og breyta þeim jafnóðum í lengri lán, þá er slíkt tiltölulega létt fyrir Fiskveiðasjóð, og mætti svo gjarnan verða, þegar litið er á málið sem heild, að þessi skip hefðu unnið þannig fyrir sér á þessum 8 árum, að það íþyngdi Fiskveiðasjóði hreinlega ekki neitt. En þetta snýr vitanlega allt öðruvísi við að því leyti til, sem um skipasmíði innanlands er að ræða, en þar yrði Fiskveiðasjóður að leggja fram allmikið lánsfé á byggingartíma skipanna og í rauninni mjög mikið lánsfé út á slíkar nýhyggingar, og það er honum auðvitað mjög þungbært. En hér er nú verið að ræða fyrst og fremst um innflutning á skipum, því að um smíði innanlands á þessum tegundum af skipum er nú ekki mikið að ræða samkv. þeim reglum, sem ríkisstj. hefur sett varðandi þessi atriði.

Ég vildi aðeins að lokum segja það, að ég óttast ekki fyrir mitt leyti á neinn hátt, að við endurnýjun okkar togaraflota, sem nú stendur yfir, sé verið að gera of stór átök. Ég óttast miklu fremur hitt, að við hefðum þurft að gera meira, eins og þar er ástatt, hreinlega vegna þess, að fjárhagsgeta þeirra, sem verða að standa að endurnýjuninni, sé ekki nægilega mikil. Við skulum líka gæta vel að því, að þó að til þess komi, að hingað kæmu til landsins togarar samkv. þessum reglum, bæði vegna þeirra samninga, sem fyrrv. ríkisstj. gerði, og þeirrar fyrirgreiðslu, sem núv. ríkisstj. hefur heitið í þessum efnum, — þó að hingað kæmu togarar, sem næmu í kringum 30 að tölu, eins og vel má vera, að geti orðið, en er þó talsvert mikið fyrir ofan þá tölu, sem þó liggur fyrir okkur í dag, sem verulega er líkleg, þá er þó augljóst, að togarafloti landsmanna verður að þeim 2–3 árum liðnum, þegar þessir togarar gætu hér allir verið komnir í gagnið, enn allmiklu minni en hann var fyrir rúmum l0 árum. Og við skulum líka hafa það í huga, að þessi togarafloti Íslendinga á að verða hér á okkar fiskimiðum á sama tíma sem við erum að gera ráðstafanir til þess að reka út af okkar fiskimiðum í kringum 300 erlenda togara, svo að það er auðvitað enginn vafi á því, að við erum hérna með því, sem við höfum sett okkur í þessum efnum, að gera ráð fyrir því, að hér verði á okkar fiskimiðum á næstu árum miklu færri togarar en hafa verið á miðunum um langan tíma, og einnig það, að við erum ekki að ganga lengra í sambandi við okkar eigin togararekstur en við höfum gert oft áður.

Það er svo hins vegar mikið vandamál, sem hér hefur aðeins verið drepið á, að það eru að sjálfsögðu nú eins og áður til ýmsir staðir á landinu, sem vildu gjarnan fá meiri fyrirgreiðslu en hina almennu fyrirgreiðslu til þess að kaupa sér togara, eins og þeir hafa áður sótt um aðstoð til þess að kaupa báta. Það er mikið vandamál, hvað er hægt að gera til þess að leysa úr vandamálum þeirra og í hvaða formi á að vera aðstoð við þá og hvað þannig kynnu að verða keyptir margir togarar. Um það þarf auðvitað að fjalla af aðilum, sem leita þurfa nákvæmra upplýsinga um öll mál, hvað réttast er að gera í þeim efnum.

Ég held, að ég hafi svo svarað því, sem beinlínis var hér beint til mín, og gert mínar almennu aths. í tilefni af ýmsu því, sem hér hafði fallið í orðræðum manna um þetta mál.