07.02.1972
Efri deild: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

160. mál, lán til kaupa á skuttogurum

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Mér þykir ljóst, að ég verði að taka af allar efasemdir um það, að hroll setji að mér í sambandi við þessi togarakaup. Ef aðeins væri um í 1 togara að ræða, þá má vera, að svo færi, því að það þykir mér satt að segja allt of lítið til endurnýjunar á okkar togaraflota. Ég minnist þess þó, að í útvarpsviðtali við hæstv. sjútvrh. kom fram, að í undirbúningi væri og a.m.k. langt komið með kaup á töluvert fleiri togurum, mig minnir 20 eða 22. Jafnvel þá tölu hræðist ég alls ekki.

En það, sem ég vildi freista að fá fram með þeirri spurningu, sem ég lagði hér fram áðan, var, hver sú fyrirgreiðsla væri, sem hæstv. ríkisstj., og hæstv. sjútvrh. fyrst og fremst, teldi eðlilega í sambandi við þessi 15%, sem ég hef minnzt á, því að ég leyfi mér að fullyrða, að allmargir af þessum 11 togurum, sem hafa verið nefndir, og hvað þá af þeim 20, sem um hefur verið talað, hafa fengið vilyrði fyrir töluvert meiri fyrirgreiðslu en a.m.k. hefur legið í loftinu. Ég leyfi mér að fullyrða, að ýmsir af þessum aðilum hafi fengið vilyrði fyrir skammtímafyrirgreiðslu á allmörgum millj. af umræddum 15% og ég fyrir mitt leyti tel mjög vafasamt, að þar sitji allir, sem hafa sömu aðstæður, sömu skuldabréf og sömu möguleika til útvegunar fjármagns, við sama borð. Það er fyrst og fremst þetta atriði, sem ég hef áhyggjur út af, og ég tel satt að segja ríka ástæðu til þess að þetta verði afgreitt fyrr en síðar, vegna þess að margir af þessum væntanlegu togarakaupendum eru nú í miklum vandræðum, vegna þess að þeir fá ekki þá fyrirgreiðslu, sem aðrir hafa fengið. Ég held, að það sé bráðnauðsynlegt að líta á þennan þátt málsins án tafar. Svo eru vitanlega margir fleiri þættir, sem nauðsynlegt er að líta jafnframt á.

Hitt er svo annað mál, að ég er mjög ákveðinn stuðningsmaður hæstv. ríkisstj. í skipulagshyggju og áætlunarmálum, því að ég hef talið, að það væru ein þau merkari ný vinnubrögð, sem hæstv. ríkisstj. vill beita sér fyrir. Því hef ég nokkrar áhyggjur út af því, að þetta stóra mál, — og ég er ekki meiri karl en það, að mér finnst nú 4000 millj. kr. fjárfesting nokkuð stórt mál, — skuli ekki vera tekið inn í þá ítarlegu áætlunargerð. Ég veit, að það hefur legið á þessum togurum, en ég hygg þó, að enn sé tími til að líta á málið frá þeim sjónarhóli. Og sem stjórnarmeðlimur í margnefndri Framkvæmdastofnun ríkisins verð ég að viðurkenna það, að mér þótti nokkuð fróðleg þau ummæli hæstv. ráðh., að Framkvæmdastofnunin hefði, að því er mér skildist, mjög lítið með þetta mál að gera. Einn stærsti þátturinn í nýsamþykktu frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins er einmitt sú áætlanagerð, sem stofnuninni er ætlað að taka upp. Og því er ekki að neita og ég er ekki að ljóstra neinu þar upp, þótt ég lýsi því hér, að stjórn Framkvæmdastofnunarinnar hefur einmitt talið þetta mál svo viðamikið, að nauðsynlegt væri þegar og með forgangshraða að gera þar nokkra áætlun um, og er það starf að einhverju leyti hafið. Ef stofnunin á ekki að fjalla um áætlun á þessu sviði, vakna hjá mér margar spurningar um það, um hvað hún á í raun og veru að fjalla. Það verð ég að viðurkenna.

Vitanlega er ljóst, að allar slíkar áætlanir hljóta að verða samþykktar af hæstv. ríkisstj. En síðan tekur við lánadeild þessarar stofnunar, sem er ætlað að útvega fjármagn til slíkra framkvæmda í bæði það sem öðrum sjóðum er ætlað að standa fyrir, og jafnvel umfram það. Mér sýnist því satt að segja hlutverk þessarar stofnunar á umræddu sviði mjög veigamikið og mér sýnist rík ástæða til að fá úr því skorið, hvert það er, eftir ummæli hæstv. ráðh. hér áðan. Mér hrýs, eins og honum, ekkert hugur við því fjármagni, sem Fiskveiðasjóður út af fyrir sig þarf að leggja til þessara mála, enda dreifist það á nokkuð langan lánstíma, og ég, eins og hann, vænti þess fyllilega, að þessir togarar, þó að þeir verði 40 eða jafnvel fleiri, vinni vel fyrir sér og vel fyrir íslenzka þjóðarbúið. Þannig er þessi fjárfesting að mínum dómi fyllilega réttlætanleg. Engu að síður tel ég, að með þetta mál eigi að fara eins og aðrar stórar framkvæmdir í okkar þjóðfélagi. Þær á að vinna skipulega og samkv. góðum áætlunum.