19.04.1972
Efri deild: 69. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

160. mál, lán til kaupa á skuttogurum

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fjhn. d. hefur fjallað um frv. til I. um heimild fyrir ríkisstj. að veita sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á skuttogurum. Hér er um að ræða lagabreytingu, sem er forsenda þess, að kaupendur hinna mörgu skuttogara, sem nú er verið að semja um smíði á erlendis, geti fengið lán erlendis, sem nemi 80% af kaupverði hvers skips. Til viðbótar fá svo kaupendur 5% lán úr Byggðasjóði og verða því sjálfir að leggja fram í 5% af kaupverði. Um smíði skipa erlendis hefur gilt sú almenna regla, að kaupendur hafa fengið 67% lán með ríkisábyrgð og 5% að auki, samtals 72%, og þetta hefur gilt um öll skip nema sex stóra skuttogara, sem verið er að smíða erlendis og samið var um í tíð fyrri stjórnar, en þar var um sérstaka fyrirgreiðslu að ræða, eins og kunnugt er. Hvað snertir kaup á minni gerð skuttogara, er núna verið að auka opinbera lánafyrirgreiðslu um 13%, úr 72% í 85%, en til þess þarf sérstaka lagaheimild um sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs til viðbótar hinni einföldu ábyrgð, sem er að finna í fjárlögum 1972. Þessi sérstaka fyrirgreiðsla ásamt þeirri miklu bjartsýni í sjávarútvegsmálum, sem fylgt hefur í kjölfar ákvörðunarinnar um útfærslu landhelginnar, hefur haft í för með sér einstakan áhuga útgerðaraðila á skuttogarakaupum. Nú þegar mun vera gengið frá kaupum á 22 skuttogurum af meðalstærð utanlands frá til viðbótar þeim sex, sem áður hafði verið samið um. Þá eru ekki með taldir þeir bráðabirgðasamningar um togarakaup, sem gerðir hafa verið, en ekki hafa verið endanlega staðfestir af samningsaðilum og íslenzkum stjórnvöldum. Af þessum 22 togurum eru átta væntanlegir á árinu 1972, 13 væntanlegir á árinu 1973 og einn á árinu 1974. Kaupverð þessara 22 togara mun vera miðað við núverandi aðstæður um 2340 millj. kr., en kaupverð þeirra sex, sem áður var búið að semja um, mun vera um 844 millj. eða samtals um 3180 millj. Auk þessa verða svo allmargir togarar smíðaðir innanlands á næstu árum, eins og kunnugt er, og þeir eru ekki taldir með í þessum tölum. Ýmsar raddir hafa heyrzt um það, að hér væri of langt gengið og hér væri of stórt stökk tekið á skömmum tíma. Vissulega er það rétt, að hyggilegra hefði verið, að endurnýjun togaraflotans hefði byrjað fyrr og hún hefði dreifzt á lengra tímabil. Ég vil þó leyfa mér að undirstrika það hér, að það mikla skref, sem nú er verið að stíga, er tvímælalaust algerlega óhjákvæmilegt. Við verðum að treysta undirstöðu efnahagslífsins, framleiðsluna sjálfa, miklu betur en gert hefur verið, og sérstaklega er það sjálfsagt í kjölfar útfærslu landhelginnar, og segja má, að engin fjárfesting skili jafnmiklum og skjótum arði á jafnöruggan hátt eins og þessi.

Kaupverð þessara skipa er að verulegu leyti goldið með erlendu lánsfé. Fyrir 28 skip þurfum við að greiða að jafnaði 400 millj. kr. á ári í erlendum gjaldeyri, ef miðað er við, að við borgum skipin að öllu leyti upp á átta árum, sem við gerum nú sennilega ekki. En sé miðað við átta ára tímabil, þá jafnar þetta sig út með 400 millj. kr. á ári, þessi fjárfesting. Og ég held, að það geti ekki talizt nein ofætlan okkar Íslendinga, þegar t.d. er höfð í huga sú staðreynd, að þjóðin eyddi á s.l. ári helmingi hærri upphæð, eða um 800 millj. kr., í einkabíla og byggði sér íbúðarhúsnæði fyrir um 2700 millj. Undirstaða efnahagslífsins má ekki gleymast eða verða út undan. Staðreyndin er auðvitað sú, að þessir 28 skuttogarar, sem í dag er frágengið að verði smíðaðir erlendis, auk þeirra, sem verið er að smíða innanlands, eru aðeins byrjunin, fyrsta stórátakið af mörgum, sem á eftir verða að koma, ef undirstaðan á raunverulega að standa undir þeim lífskjörum, sem við viljum búa við.

Fjhn. leggur til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Jón Árnason: Herra forseti. Það verður ekki annað sagt en það sé gleðilegur vottur í okkar atvinnulífi, að svo mikill áhugi er til staðar eins og raun ber vitni um í sambandi við nýjar skipabyggingar. Og eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, frsm. fjhn., í sambandi við þetta mál, þá er nauðsynlegt að treysta undirstöðu útgerðarinnar, sem er aðalundirstaðan undir gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Undir þetta vil ég taka og ég er ekki viss um, að allir hv. alþm. hafi gert sér grein fyrir því, hvaðan er komin sú bjartsýni, sem leiddi til þess, að menn fengu áhuga á því að fara út í auknar skipabyggingar hér á landi og stóraukna útgerð. Við vitum, hvernig komið var á árunum 1967 og 1968, þegar segja mátti, að ekki væri neinn fjárhagslegur grundvöllur undir rekstri útgerðarinnar eða fiskvinnslunnar í landi. Ástandið var orðið þá þannig, að menn óskuðu helzt, sem áttu atvinnutækin, að þau væru stöðvuð, og menn höfðu ekki grundvöll fyrir rekstri skipanna. Þá var það, að fyrrv. ríkisstj. gerði þær ráðstafanir, sem vöktu þann aukna áhuga, sem hefur komið fram nú í seinni tíð í sambandi við aukna útgerð í þessu landi og aukna fiskvinnslu. Það er rétt, að hér er um geysilega stórar fjárhæðir að ræða, sem þarf til þessara framkvæmda, og varðandi þessi skip, sem hér hefur verið rætt um, hvorki meira né minna en 3184 millj. kr., eins og hv. frsm. fjhn. sagði hér áðan. En okkur Íslendingum er hollt að líta í fleiri áttir í sambandi við útvegsmálin, því að við megum passa okkur á, að við stöðnum ekki um of í þessum efnum. Og þegar horft er til þess ástands almennt séð, sem í okkar útgerðarmálum ríkir nú og fram undan er, þá verður ekki annað sagt en opinber stjórnvöld geri of lítið af því að huga að fleiru en bara því að byggja skip. Við verðum líka að tryggja það, að við getum fullunnið eða komið í verð þeim afla, sem þessi nýju skip, sem koma til landsins á næstu mánuðum og árum og sem nú er búið að semja um, munu væntanlega draga í bú.

Ég verð að segja, að mér finnst það vera fullkomlega eðlilegt, að inn á þetta sé komið um leið og verið er að afgreiða slíkt stórmál sem hér um ræðir í sambandi við stórauknar skipabyggingar. Í sambandi við landhelgismálið vitum við, hvað að okkur snýr, a.m.k. í dag hjá þeim stórþjóðum, sem við höfum átt okkar aðalviðskipti við, og fisksölumál, a.m.k. sala á ísfiski, hafa byggzt á undanförnum árum og áratugum á Bretlandi og Vestur-Þýzkalandi. Við vítum, hvernig horfir nú í dag samkv. þeim röddum, sem þaðan berast hingað til landsins. Og ef þeir gera alvöru úr því, sem þeir hafa sagt varðandi viðskipti okkar með afurðir fiskiðnaðarins, þá þurfum við að íhuga alvarlega og gera okkur grein fyrir því, að því aðeins munu þessi væntanlegu nýju skip skila þjóðarbúinu þeim arði, sem vonir eru tengdar við og ætlazt er til, að fyllilega sé tryggt, að við getum selt þann afla, sem að landi berst, og unnið hann, eftir því sem á þarf að halda.

Því miður verður að segja það, að það hefur verið allt of mikið andvaraleysi hjá ríkisstj. og stjórnvöldum í þessu landi gagnvart því að bæta hag fiskvinnslunnar í landinu, og það skyldu menn þó gera sér ljóst, að það er ekki nóg að afla fiskjarins. Það verður líka að sjá fyrir því, að hægt sé að nýta fiskaflann. Og við vitum líka að fengnum upplýsingum með nægum fyrirvara frá einni okkar langstærstu viðskiptaþjóð, Bandaríkjunum, að nú stendur fyrir dyrum að gera breytingar á hreinlætisaðstöðu í fiskvinnslustöðvunum, sem getur haft úrslitaáhrif um það, hvort við getum haldið viðskiptum á næstu árum við þessa viðskiptaþjóð. Það er ekkert gert til þess að fjármagna þessa hluti um leið og við önum áfram og byggjum ný skip og flytjum þau hingað til landsins, til þess að geta tekið þátt í stórauknum fiskveiðum.

Eins og ég sagði áðan, er það gleðilegur vottur, að við aukum okkar skipastól. En við verðum að hafa jafnhliða því einhverja fyrirhyggju og fyrirsjón í þeim málum að geta nýtt þann afla, sem að landi mun berast. Og ég álít, að eins og nú horfir, þá sé það mjög vanhugsað af ríkisstj. að geyma lengur að gera nauðsynlegar ráðstafanir í fjárútvegun til þess að endurbyggja frystihúsin og bæta aðstöðuna í landi, þannig að við verðum fullfærir um að nýta þann sjávarafla, sem hm væntanlegu, nýju og stórvirku fiskiskip, sem koma til landsins á næstu mánuðum og árum, munu leggja hér á land. Ég álít, að hér sé um mjög alvarlegt mál að ræða fyrir efnahagslíf íslenzku þjóðarinnar, ef ekki verður þegar nú á næstunni hafizt handa um það að gera átak vegna fiskiðnaðarins og skapa frystihúsunum aðstöðu til þess að geta endurskipulagt og endurbyggt aðalfiskvinnslustöðvarnar, sem eru frystihúsin. Enn sem komið er hefur ekkert heyrzt frá stjórnvöldum um það, hvað þeir hugsa, hvernig eða á hvern hátt þeir hugsa sér að fjármagna þessat framkvæmdir. En það má öllum vera ljóst, að við svo búið má ekki lengi standa, og því aðeins verða þessar björtu vonir, sem útgerðarmenn hafa nú í sambandi við skipabyggingar, að veruleika og að hagstæðum árangri fyrir þjóðarbúið, að við gleymum ekki öðrum endanum, við gleymum ekki að byggja upp aðstöðuna í landi til þess að taka á móti þessum afla.

Við munum eftir því, að á þeim árum, sem við stóðum í hinu svokallaða þorskastríði við Breta, jókst geysilega mikið það aflamagn, sem barst á land. Þá hafði staðið yfir um þó nokkuð langan tíma uppbygging frystiiðnaðarins í landinu og það var engu öðru frekar að þakka en einmitt því, að frystihúsin voru þá fær um að taka á sig stóraukið fiskmagn til vinnslu og hagnýtingar í landi, að ekki fór verr, sem ella hefði farið, ef slík aðstaða hefði ekki verið fyrir hendi í landinu. Nú er það hins vegar svo, að fyrir liggur, eftir því sem upplýst er, að Bandaríkjamenn láti verða úr því að stórauka kröfur til hreinlætis í þeim fiskvinnslustöðvum, sem þeir vilja kaupa fisk af. Þetta er alveg á sama hátt og hefur átt sér stað með landbúnaðarafurðirnar. Við þekkjum það af reynslu undanfarinna ára, að það hafa verið örfáar vinnslustöðvar, sláturhús í þessu landi, sem hafa verið viðurkennd og Bandaríkjamenn hafa viljað taka við afurðum frá, og ef það færi á sama hátt með fiskiðnaðinn, að það væru ekki nema örfá hús í þessu landi, sem væru fær um að taka við framleiðslunni, þá sjá allir heilvita menn, hvert stefnir í þessum málum.

Ég taldi eðlilegt að segja þessi fáu orð í sambandi við afgreiðslu þessa máls varðandi kaup á nýjum skuttogurum til landsins, vegna þess að mér finnst, að Alþ. eigi ekki að horfa fram hjá þessu brýna nauðsynjamáli, sem verður að leysa á næstu mánuðum.