19.04.1972
Efri deild: 69. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

160. mál, lán til kaupa á skuttogurum

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Út af orðum hv. síðasta ræðumanns vildi ég aðeins segja það, að ríkisstj. hefur nýlega gert um það samþykkt, að hún skuli fyrir sitt leyti stuðla að því, að tekin verði upp raðsmíði nokkurra skuttogara hér innanlands, og mér er óhætt að segja það, að hún hafi fullan áhuga á því. Og ég get að sjálfsögðu tekið undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði um nauðsyn þess að byggja upp skipasmíðaiðnaðinn í landinu og það sé gert með fyrirhyggju og skipulegum hætti.

Ég hygg nú, að þrátt fyrir þá mörgu togara, sem nú hafa verið keyptir til landsins og sem menn hafa haft mikinn áhuga á að eignast, en sem sumum þykir nóg um að því er virðist, þá sé nægur áhugi enn hjá mörgum aðilum til þess að eignast togara. Og það liggja enn fyrir óskir um það efni, og þegar hefur fyrirtæki í skipasmíðaiðnaðinum hér í nágrenninu tekizt að gera samninga um smíði þriggja togara, og er þar með komið inn á þann grundvöll að nokkru leyti, sem að er stefnt af hálfu ríkisstj. Að sjálfsögðu ætti það ekki að vera síður áhugamál ríkisstj., að Slippstöðin á Akureyri, sem ríkið á nú meiri hluta fullkominn í, verði ekki verkefnalaus á næstunni. Ég hygg, að þar sé svo ástatt, að það séu næg verkefni þar fyrir hendi nokkuð nú fram undan og að hún gæti ekki snúizt við því af skyndingu að taka upp smiði togara. En hitt er sjálfsagt, að vinna að því, að þar geti verið smíðaðir togarar einnig, sem geti þá komið að nokkru leyti í stað þeirra togara, sem horfið var frá að smíða þar samkv. ósk og ákvörðun fyrirsvarsmanna stöðvarinnar. Þetta vildi ég aðeins láta koma fram.

Ég tek alveg undir það, að æskilegt sé, að það séu ekki mjög miklar sveiflur í þessari uppbyggingu, heldur að hún komi með jöfnum og stígandi hraða. En menn verða bara að aðgæta það, að skýringin á því stökki, sem nú er tekið, er sú, hve lengi endurnýjun togaraflotans lá niðri, og í raun og veru er hér um að ræða miklu meira en endurnýjun, vegna þess að nú er og hefur verið unnið að því markvisst, að togarar þessir, skuttogarar af þessari millistærð, komi á ýmsa þá staði, þar sem áður hefur ekki verið hugsað til þessarar útgerðar. Ég álít, að ef vel tekst til í þessu efni, geti það haft í för með sér geysilega breytingu til bóta fyrir marga þá staði úti um landið, sem hér er um að tefla. Hitt er svo annað mál, sem menn verða auðvitað að gera sér ljóst í sambandi við þessi togarakaup og togaraútgerð, að það hentar mismunandi stærð af skipum á hinum ýmsu stöðum. Þess vegna væri lítið vit í því og dettur heldur engum í hug, geri ég ráð fyrir, að það eigi að kaupa togara til allra útgerðarstaða á landinu. Það er engin ástæða til þess, þar sem mið eru það nærri, að þar henta betur önnur og minni skip. Og auðvitað verður að halda á þessu með fullri skynsemi og vinna einmitt að því á skipulegan hátt og með áætlun. Og það er einmitt meiningin að gera það, þó að þetta stökk hafi nú orðið nokkuð stórt.

Út af því, sem hv. 2. þm. Vesturl. sagði hér um nauðsyn á því, að fram færi endurnýjun í frystihúsunum, þá hygg ég, að sú nauðsyn sé öllum ljós, það hefur verið unnið að athugun í því efni og er unnið að athugun í því efni, og það er og verður líka unnið að því að afla fjár til þess að standa undir framkvæmdum í því efni. Það er enginn vafi á því, að þetta er eitt brýnasta verkefnið, sem bíður á næstunni, fyrir utan fiskiskipakaupin, og ég held, að hann þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af að í því efni sé sofið á verðinum.