19.04.1972
Efri deild: 69. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

160. mál, lán til kaupa á skuttogurum

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Ég er því efnislega hlynntur og er ánægður með það, að þetta skref skuli vera tekið og fleiri gerðir keyptar. Ég man þó það, að þegar fyrrv. ríkisstj. var með kaupin á stærri skipunum, þá benti ég á það einn þm., að það væri nú rétt að hafa fleiri gerðir í huganum, einmitt vegna þess sem hæstv. forsrh. benti á núna í lok sinnar ræðu, að sömu stærðir fiskiskipa eða togara henta ekki alls staðar á landinu. Og þetta er auðvitað alveg rétt, og það meta viðkomandi aðilar á sínum stað. Þess vegna er áhuginn mismunandi á skipagerðum og stærðum.

Þessi gerð, sem er kölluð skuttogari, þarf sérstaka, mikla fyrirgreiðslu og er það sennilega nauðsynlegt. Hins vegar hefur ekki verið tekin ákvörðun um það, nema þá varðandi innlenda skipasmíði, að fiskiskip fengju jafnmikla fyrirgreiðslu eins og togararnir. Innlenda skipasmíðin hefur fengið góða fyrirgreiðslu, allt upp í 85%, jafnvel í sumum tilfellum meira og er það vel. Hvort það heldur áfram veit ég ekki um, en mig langar til að forvitnast um það í sambandi við togarasmíði hér heima, hvort þessir togarar, sem verða sennilega dýrari, þegar til uppgjörs kemur en erlendis frá og er ekkert við því að segja, hvort þeir njóti fyrirgreiðslu allt að 90% og hvað sé um gengisáhættu, því að það skiptir verulegu máli. Það er veruleg hvöt til þess að smíða skipin hér heima, ef slík fyrirgreiðsla er möguleg. Hún er auðvitað erfið, en kannske tekst það.

Það er talað um, hvers vegna þessi bylgja skellur á núna, og eins gefið í skyn svona á milli línanna, a.m.k. af öðrum ræðumönnum, að einhver ófreskja hafi verið því valdandi. Mig minnir nú, að hæstv. núv. sjútvrh. hafi verið stjórnarmaður í stóru útgerðarfyrirtæki á ákveðnum stað á landinu, og það fyrirtæki varð nú að leggja upp laupana, og kannske var það eðlilegt, vegna þess að það voru önnur atriði, sem kitluðu þá til starfsreksturs, nefnilega síldin. Hún flæddi yfir Austfirði og þá var rýr afli á togara. Þeir Norðfirðingar áttu ágætis skip, en töldu það skynsamlegt rekstrarlega séð fyrir sjálfa sig og bæjarfélagið að söðla um, og lái ég þeim það ekkert þannig séð. En áhugi manna dofnaði á togaraútgerð á þessu tímabili, þegar síldin gaf verulega mikið víða um land, og fari nú svo, að síldin bulli upp aftur bæði fyrir Austfjörðum og annars staðar, þá kynni nú svo að fara, að eitthvað færi að toga í þann mannskap, sem er á togurunum, yfir á síldarskipin aftur. Það má ímynda sér þann möguleika. Við höfum nú friðað síldarstofninn og vitanlega kemur síld, hvort sem hún kemur eftir tvö ár eða sex ár, hún kemur fyrr eða síðar, og þá vona ég, að menn haldi jafnvægi sínu í ljósi reynslunnar, bæði varðandi togarana og síldina, og báðar starfsgreinarnar fái skynsamlegan rekstrargrundvöll, því að þegar til lengdar lætur, þá er það heppilegast. En ég er ánægður með það, að togarasmíði er hér möguleg innanlands jafnframt því sem eðlilegt er að kaupa skip sem fyrst frá útlöndum. Hins vegar er ég ekkert of kátur yfir því, að nærri tugur skipa sé keyptur í einu lagi í gegnum eina samninga, vegna þess að við fáum þá með slíkum stórkaupum þá vankanta, sem um er að ræða. Skipin verða samtímis úrelt, og eðlileg þróun í þessu er nauðsyn. Það þekkjum við, sem höfum staðið í þessu undanfarin ár, en 3–4 skip eins eru rökrétt vinnubrögð frá mínu sjónarmiði, en ekki svo að skipti tugum. Það er ekki æskilegt. Það sýnir reynslan. Og við sjáum það, að svokallaðir nýsköpunartogarar eru allir úreltir í dag á sama tíma eða mjög svipuðum tíma og þá kemur þessi bylgjuhreyfing sífellt fram. nema öðruvísi sé staðið að kaupunum. Ég styð þetta frv., enda skrifaði ég undir nál. og tel hér vel að verki staðið hjá ríkisstj., en við skulum samt gera okkur grein fyrir því, að svo getur farið, að rekstur togara geti verið erfiður.

Einn þátt í sambandi við nýtingu fiskimiðanna, af því að við erum að tala um landhelgina í þessu sambandi, er nauðsynlegt að skoða mjög gaumgæfilega, með hvaða hætti þessi skip eiga að fá að fiska í okkar lögsögu, þegar við höfum náð þeim áfanga að hafa fullkomin yfirráð yfir okkar fiskveiðilögsögu út í 50 mílurnar. Um það geta orðið nokkur átök. En til þess að þessir togarar geti fengið að njóta sín fyllilega og komið með þann afla að landi, sem við vonumst til, að þeir geri, þá þarf að minni hyggju að endurskipuleggja veiðifyrirkomulag hjá okkur á þessu svæði.