18.12.1972
Neðri deild: 27. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabankans um nýtt gengi íslenzkrar krónu er afleiðing eða fylgifiskur gengisbreytingarinnar, þ.e. sams konar frv. og þau, er jafnan áður hafa fylgt gengisbreytingum. Það er nauðsynlegt að fá það afgreitt sem fyrst, svo að gjaldeyrísviðskipti geti hafizt á ný. Ég hef því beint þeim tilmælum til stjórnarandstæðinga, að þeir flýti, eftir því sem kostur er, fyrir afgreiðslu þessa máls og helzt svo, að það verði afgreitt í dag. Ég hygg, að jafnan áður hafi sá háttur verið hafður á, að það hafi verið greitt fyrir framgangi frv. sem þessa. Af þessum tilmælum mínum leiðir það, að ég mun reyna, eftir því sem mér er frekast unnt, að stilla máli mínu hér í hóf og mun ekki að fyrra bragði vera með sérstakar ýfingar í sambandi við þetta mál.

Um þetta frv. út af fyrir sig þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Það er, eins og ég sagði, gamall kunningi, sem hefur verið og er jafnan fylgifiskur gengisbreytinga og hefur fyrst og fremst að geyma nauðsynleg atriði tæknilegs eðlis, og fylgja á þeim fullnægjandi skýringar í aths. með frv. Eina nýja atriðið er raunar 3. gr., sem breytir leyfilegu svigrúmi frá stofngengi í 2.25% í hvora átt í stað 1% nú. Fyrir þessari breytingu er gerð grein í aths. með 3. gr. frv. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Flestar þjóðir heims hafa nú með leyfi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tekið upp 2.25% frávik til hvorrar áttar frá stofngengi. Er ákvæði um þetta tekið upp að beiðni bankastjórnar Seðlabankans til breytingar á lögum bankans, en þau hafa byggt á 1% fráviki til hvorrar áttar.“

Í tilkynningu þeirri, sem Seðlabankinn gaf út í gærkvöld, eru frekari rök færð fyrir þessu á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta:

„Mikil óvissa er um það, hver muni verða þróun framleiðslu og viðskiptajafnaðar á næsta ári. Vegna þróunar aflabragða undanfarandi ára er torvelt að spá um þorskafla á komandi vetrarvertíð, en það eykur á þá óvissu, sem ætið ríkir um tekjur sjávarútvegsins. Jafnframt er erfitt að leggja á það dóm á þessu stigi, hvort takast muni að gera fullnægjandi ráðstafanir til að halda hækkun framleiðslukostnaðar í skefjum og koma í veg fyrir víxlhækkun verðlags og kaupgjalds, er brátt mundi eyða hagstæðum áhrifum hverra aðgerða sem ætlaðar væru til þess að bæta stöðu atvinnuveganna.

Með tilliti til þessarar efnahagslegu óvissu og hinna tíðu gengis- og verðlagsbreytinga erlendis þykir eðlilegt að stefna nú að nokkru meiri sveigjanleika í gengisskráningu en tíðkazt hefur til þessa. Liggur beinast við að gera þetta með þeim hætti, að leyfð verði hér á landi sömu frávik um kaup- og sölugengi frá stofngengi eins og flestar þjóðir heims hafa nú tekið upp með leyfi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þ.e.a.s. 2.26% frávik til hvorrar áttar frá stofngengi. Bankastjórn Seðlabankans hefur því beint þeim tilmælum til ríkisstj., að hún beiti sér fyrir lagabreytingu, er heimíli allt að 2.25% frávik kaup- og sölugengis frá stofngengi hér á landi, og er þess vænzt, að sú lagabreyting geti náð fram að ganga, áður en gjaldeyrisviðskipti hefjast að nýju.“

Við þessi rök seðlabankastjórnarinnar hef ég í sjálfu sér engu að bæta, get gert þau að mínum.

Ég geri naumast ráð fyrir því, að deilur verði um þetta frv., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, úf af fyrir sig. Það er hins vegar skiljanlegt, að hér verði umr. um forsendur þess, sjálfa gengisbreytinguna. Er skiljanlegt, að stjórnarandstæðingar telji sig þurfa að ræða það mál á breiðum grundvelli. Er ekkert við því að segja. En að þessari forsendu fyrir þessu frv., sem hér liggur fyrir, sjálfri gengisbreytingunni, ætla ég að víkja með nokkrum orðum. Ég vil þó aðeins, áður en ég kem að því, undirstrika það, að ég ætla, að enginn neiti því, að um sé að ræða vanda í íslenzku efnahagslífi, né heldur deili um það, í hverju hann sé í höfuðdráttum fólginn. Um hitt geta skoðanir verið skiptar, og um það verður sjálfsagt deilt, af hverju vandinn stafi, hvort við honum hafi verið brugðizt í tæka tíð o.s.frv. Um það skal ég ekki ræða að svo stöddu, en leyfi mér aðeins að minna á, að mér hefur virzt, að hv. stjórnarandstæðingar gerðu sízt minna úr þessum vanda en við stjórnarsinnar, heldur meira. Og ef vandi er fyrir hendi, þá er auðvitað ekki um annað að ræða en að finna leiðir til þess að komast út úr þeim vanda, úrræði til þess að mæta honum. Og þá kem ég að því að gera í stuttu máli grein fyrir þeirri forsendu, sem er fyrir þessu frv., sem hér liggur fyrir, sjálfri gengisbreytingunni.

Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, ákvað bankastjórn Seðlabankans í gær með samþykki ríkisstj. og að höfðu samráði við bankaráð að taka upp nýtt gengi íslenzkrar krónu. Hið nýja gengi felur í sér lækkun um 10.7% frá því gengi, sem í gildi hefur verið. Þessi ákvörðun á sér nokkurn aðdraganda, eins og kunnugt er.

Þegar brbl. um tímabundnar efnahagsráðstafanir voru sett hinn 11. júli s.l., var ljóst, að leita þyrfti varanlegri úrræða til þess að mæta aðsteðjandi efnahagsvanda, ekki sízt til þess að tryggja rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuveganna og jöfnuð í viðskiptum þjóðarinnar við útlönd. Hinn 18. júlí s.l. skipaði ríkisstj. n. til þess að gera till. um leiðir og valkosti í efnahagsmálum með það fyrir augum að halda verðbólgu í svipuðum skorðum og í nágrannalöndunum, treysta grundvöll atvinnuveganna og tryggja atvinnuöryggi og kaupmátt launa. Í þessa n., sem hlotið hefur nafnið valkostanefnd í daglegu tali, voru skipaðir eftirtaldir menn, eins og hv. alþm. er kunnugt: Jón Sigurðsson hagrannsóknastjóri, formaður, Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, Jóhannes Elíasson bankastjóri, Ólafur Björnsson prófessor, Guðlaugur Þorvaldsson prófessor, Þröstur Ólafsson hagfræðingur, Halldór S. Magnússon viðskiptafræðingur. Lagt var fyrir n. að hafa samráð við Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands. Af hálfu þessara samtaka voru nefndir til þessa samráðs Björn Jónsson, forseti Alþýðusambands Íslands, og Jón Bergs, formaður Vinnuveitendasambands Íslands.

N. hóf störf þegar í ágústbyrjun og fylgdist síðan náið með þróun efnahagsmála og kynnti sér horfurnar fram undan eftir föngum. Samráðið við samtök vinnumarkaðarins var aðallega í því fólgið, að samráðsaðilum var skýrt frá mati n. og horfum í efnahagsmálum og fyrir þá voru lögð gögn um þessi atriði. Þeim tímabundnu efnahagsráðstöfunum, sem ákveðnar voru með brbl. frá 11. júlí s.l., var ætlað að standa til áramóta. Af þessari ástæðu var ljóst, að álít n. þyrfti að koma fram sem fyrst, til þess að það kæmi að gagni við töku ákvarðana um þær aðgerðir, sem leysa ættu brbl. af hólmi um áramótin. Jafnframt var ljóst, að mikilvægt væri að koma till. um almennar leiðir í efnahagsmálum á framfæri um líkt leyti og fjallað yrði endanlega um fjárlagafrv. og framkvæmda- og fjáröflunaráætlun á Alþ., enda eru á þeim vettvangi teknar mikilvægustu fjármálaákvarðanir ársins. Hvort tveggja þetta mælti með því að hraða störfum n. eftir föngum, strax og fram voru komnar frumáætlanir stjórnvalda á þessu sviði. Á hinn bóginn hlaut vandlega yfirvegað mat á efnahagshorfum næsta árs og athuganir á samhengi hagstærða á því ári að vera meginforsenda till. um efnahagsaðgerðir. Vegna þeirra miklu breytinga, sem orðið hafa í efnahagslífi okkar á þessu ári, var þetta verk óvenjuvandasamt. Til þessara athugana þurfti að ætla rúman tíma, og eðli málsins samkv. hlaut þetta mat að verða þeim mun betra sem lengra væri á árið liðið og þannig meiri vitneskja fyrirliggjandi um raunverulega framvindu efnahagsmála á árinu 1972 og þar með traustari undirstaða undir spá fyrir næsta ár.

N. skilaði síðan áliti sínu um mánaðamótin síðustu. Helztu niðurstöður þessa mats á horfum í efnahagsmálum, sem n. byggði till. sínar á, en þetta mat var í aðalatriðum shlj. skýrslu hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins frá því í okt. um þjóðarbúskapinn, framvinduna 1972 og horfur 1973, — má setja fram í 10 eftirfarandi atriðum, og eru þessi 10 atriði, sem ég tel hér á eftir, í raun og veru aðeins útdráttur úr þeirri skýrslu, sem lögð hefur verið fyrir hv. alþm., og þar tekið upp í styttra máli, hver höfuðatriðin eru:

1. Að aukning þjóðarframleiðslu gæti í mesta laga orðið 4–5%.

2. Ef haldið verður út árið 1973 niðurfærsluráðstöfunum samkv. brbl. frá 11. júlí 1972, eða ef greiddar verða fullar vísitölubætur á kaup á árinu 1973, er með grunnkaupshækkunum 1. marz 1973 og þeim áformum um skattlagningu og tilfærslu, sem felst í fjárlagafrv., stefnt að 6–7% aukningu kaupmáttartekna heimilanna árið 1973 og þar með væntanlega svipaðri aukningu einkaneyzlu frá hinu háa stigi ársins 1972. Þetta er að sjálfsögðu miðað við, að full atvinna haldist.

3. Mat á útgjalda- og framkvæmdaáformum þess opinbera og einkaaðila bendir til þess; að samneyzla muni aukast um 6–7% og fjármunamyndunin í heild um 2–3%. Í heild væri um að ræða 7.2% magnaukningu verðmætaráðstöfunar, en 5.5%, ef birgðabreytingar útflutningsvara eru frá taldar. Af þessu hlyti að leiða, að sá verulegi viðskiptahalli, sem verið hefur út á við undanfarin 2 ár, yxi að mun á árinu 1973.

4. Spár um útflutningsframleiðslu benda til þess, að sjávarvöruframleiðslan geti aukizt að magni um 2-7%, en að verðmæti um 15–20%. Hér er þá byggt á mikilli bjartsýni um loðnuveiði og um verðlag á fiskimjöli og lýsi. Í heild er gert ráð fyrir, —– miðað við lægra tilvikið, sem ég nefndi hér að framan um sjávarvörur, — að magnaukning útflutningsframleiðslu geti orðið 11%, einkum vegna álsins, og verðhækkun að meðaltali 9%. Þessari verðhækkun er mjög ójafnt dreift. Almennt er reiknað með 4% verðhækkun á sjávarvörum 1973, öðrum en fiskimjöli og lýsi, en þar er reiknað með mjög mikilli hækkun, 80–90% á mjöli, en 40–50% á lýsi.

5. Þrátt fyrir þessa bjartsýni um útflutningsframleiðslu telja sérfræðingar, að stefni í mikinn balla á viðskiptajöfnuði eða um 5500–5800 millj. kr. Að hluta til skýrist þetta af óvenjumiklum innflutningi fiskiskipa og þá fyrst og fremst togara og að nokkru leyti af birgðaaukningu. En þótt leiðrétt sé fyrir þessum atriðum, er talið, að eftir standi halli, sem rekja má til almennrar eftirspurnar af stærðargráðunni um 3000 millj. kr. Að óbreyttri lántökustefnu væri við því að búast, að nettóinnstreymi erlends fjármagns á næsta ári yrði um 2600 millj. kr. og þannig gæti stefnt í yfir 3000 millj. kr. rýrnun gjaldeyrisstöðu. Samdráttaráhrifa slíkrar þróunar mundi þó fljótlega gæta og þan verka á móti henni með þeim hætti, að atvinnurekstur og þar með tekjur þjóðarinnar mundu dragast saman.

6. Í þjóðhagsspánni er gert ráð fyrir a.m.k. 7–8% almennri verðhækkun og 13–14% hækkun kauptaxta af ársmeðaltali á árinu 1973. Vafalítið mundi, ef allt fer fram sem horfir, gæta tilhneiginga til meiri verðhækkunar, en jafnan er erfitt að ráða nákvæmlega í, að hve miklu leyti umframeftirspurn veldur verðhækkun heima fyrir og að hve miklu leyti halla út á við. Þær rannsóknaraðferðir, sem beitt er, hafa sennilega tilhneigingu til þess að vanmeta verðbólguhættuna við þessar aðstæður.

7. Á þeim forsendum, sem miðað er við í þjóðhagsspánni, er óleystur fjárhags-, fjáröflunar eða niðurskurðarvandi á sviði opinberra framkvæmda og fjárfestingarlána, sem nema röskum 3 þús. millj. kr. Þessi fjáröflunarvandi virðist nú hafa lækkað í frekari meðförum stjórnvalda um nálægt 700 millj. kr. auk hugsanlegrar frestunar á greiðsluhalla af óleystri fjárþörf frá fyrra ári.

8. Á forsendum þjóðhagsspárinnar skortir um 1000–1200 millj. kr. á tekjur ríkissjóðs til þess að ná endum saman miðað við framhald niðurgreiðsluráðstafana.

9. Á forsendum þjóðhagsspárinnar má búast við verulegum hallarekstri fyrirtækja í sjávarútvegi í öllum greinum nema fiskmjölsvinnslu og loðnuveiðum. Tapið í heild gæti numið 700–950 millj. kr., en ef hagnaður fiskmjölvinnslu er talinn frá 1000–1200 millj, kr. Hér er þá miðað við, að í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins renni 317 millj. kr. af loðnuafurðum. Auk þessa halla væri um að ræða halla á sjóðakerfi sjávarútvegsins, sem næmi 150–200 millj. kr. Horfur væru einnig á taprekstri í iðnaði, ekki sízt í útflutningsiðnaði. Sennilega gæti hallinn verið af stærðargráðunni 100 millj. kr. í almennum iðnaði í heild samanborið við 400 millj. kr. hagnað í þessari grein árið 1971. Afkomuhorfur annarra greina, sem mæta samkeppni erlendra aðila, eru einnig erfiðar. Þannig gæti stefnt í yfir 100 millj. kr. tap hjá þremur stærstu skipafélögunum, samanborið við 40 millj. kr. hagnað árið 1971, og yfir 100 millj. kr. tap hjá stóru flugfélögunum tveimur, miðað við óbreyttar gjaldskrár þessara aðila. Á það skal þó lögð áherzla, að vitneskja um afkomu annarra greina en sjávarútvegs er afar ófullkomin.

10. Af því, sem hér að framan hefur verið rakið, er ljóst, að þessi frumdrög þjóðhagsspár geta ekki rætzt sem spá um raunverulega þjóðhagsniðurstöðu næsta árs, nema að því gefnu, að hvers konar halla, sem þessi þróun fæli í sér, hvort heldur í atvinnurekstri, opinberri starfsemi eða í viðskiptum þjóðarbúsins við útlönd, verði mætt með því að ganga á gjaldeyrissjóð eða með enn meiri skuldasöfnun erlendis. Enginn vafi leikur á, að öruggur rekstur undirstöðuatvinnuveganna og þar með talin full atvinna verður ekki tryggður að óbreyttu tekjuverði þeirra, nema lánastofnanir fjármagni taprekstur fyrirtækja hömlulítið eða ríkisstyrkir eða aflétting gjalda komi til. Án nýrrar skattheimtu gildir einu til skamms tíma litið, hvor þessara leiða er farin, enda kæmi fljótt að því, að viðskiptabankar teldu sig ekki geta veitt slíka fyrirgreiðslu til fyrirtækja í taprekstri, þar sem fjárhagsgrundvöllur þeirra mundi brátt bresta. Þar sem í slíkri stefnu mundi einnig felast mjög mikil peningaþensla af hálfu Seðlabankans, hlyti framhald hennar að verða afar rík tilhneiging til verðhækkunar, sem aftur eykur vanda útflutningsatvinnuveganna og veikir enn stöðu þjóðarbúsins út á við.

Þetta er það mat á efnahagshorfum, sem fram kemur í þeim skýrslum, sem lagðar hafa verið fyrir hv. alþm., og er þess vegna út af fyrir sig ekki neinn nýr sannleikur fyrir þeim, þó að ég hafi gert það mér til hægðarauka að draga þetta saman í nokkuð styttra mál en í skýrslunum er. En þetta mat, sem kemur fram í þessum gögnum og lagt var fyrir hv. alþm. í nefndum skýrslum, mótast aðallega á mánuðunum ágúst–okt. og tók að sjálfsögðu mið af því, sem þá virtist líklegast um þróun aflabragða og útflutningsverðlags. Þróunin síðustu mánuðina hefur reynzt heldur hagstæðari en menn þorðu að spá þá. Þannig benda nú allar líkur til þess, að útflutningsframleiðsluminnkunin í sjávarútvegi verði ekki nema 5–6% samanborið við fyrri spár um 7–9%. Þegar þessar tölur eru skoðaðar, ber þó að hafa í huga, að framleiðslumagn sjávarútvegsins minnkaði einnig í fyrra um tæp 5% samtals, samtímis því sem sókn bátaflotans jókst um tæp 3%. Og í ár er sóknaraukningin áætluð um 4%. Þannig hefur verið um verulega minnkun afla á sóknareiningu að ræða undanfarin 2 ár. Það er sú staðreynd, sem engum þýðir að mótmæla.

Verðlagsþróun sjávarafurða hefur einnig reynzt nokkru hagstæðari en spáð hafði verið. Þannig má sennilega telja, að verðlag frystra fiskafurða hafi nú þegar náð nokkurn veginn því stigi, sem spáð var fyrir árið 1973 að meðaltali. Innflutningsaukningin í sept. og okt. var einnig nokkru minni en við hafði verið búizt og við er miðað í þessu yfirliti úr þjóðhagsspánni, sem ég las hér upp áðan. Þótt þannig megi e.t.v. nú rökstyðja nokkru bjartari mynd af horfum fyrir næsta ár en upp er dregin í skýrslum hagrannsóknadeildar og valkostanefndarinnar, leikur enginn vafi á því, að við okkur blasir tvíþættur meginvandi á sviði efnahagsmála: Annars vegar stefna útgjaldaáform þjóðarinnar í heild verulega fram úr framleiðslugetu þjóðarbúsins, en slíku misvægi fylgir hætta á viðskiptahalla umfram eðlilegan fjármagnsinnflutning og verðbólguþróun. Hins vegar skortir á, að rekstrargrundvöllur útflutningsatvinnuveganna og annarra greina, sem mæta erlendri samkeppni, sé nægilega tryggður á næsta ári. Þessi grundvallarvandi birtist í ýmsum myndum, en einkum í margvíslegum fjárhagsvanda, bæði hins opinbera og einkaaðila, í samkeppnisgreinunum.

Það varð að öllu athuguðu niðurstaða ríkisstj., og um það er alger eining innan ríkisstj., að sú lækkun á gengi íslenzku krónunnar um 10.7%, sem ákveðin var í gær, væri heppilegasta leiðin til þess að mæta þessum vanda.

Vegna þess, hve mikil óvissa ríkir um það, hver verða muni þróun framleiðslu- og viðskiptajafnaðar á næsta ári, og einnig með tilliti til hinna tíðu gengis- og verðbreytinga erlendis, hefur, eins og ég drap reyndar á í upphafi máls míns, þótt eðlilegt að stefna nú að nokkru meiri sveigjanleik í gengisskráningu en tíðkazt hefur til þessa. Liggur beinast við að gera þetta með þeim hætti, að leyfð verði hér á landi meiri frávik kaup- og sölugengis frá stofngengi en það 1% frávik til hvorrar áttar, sem nú er í lögum. En flestar þjóðir heims hafa einmitt nú með leyfi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tekið upp 2.25% frávik til hvorrar áttar frá stofngengi. Innan þessa bils getur þannig verið um meiri eða minni breytingu á genginu að ræða, eftir því sem aðstæður bjóða.

Til þess að tilætlaður árangur náist með þessari efnahagsaðgerð, þarf að styðja hana með aðhaldssamri fjármála- og peningamálastefnu. Þannig er afar mikilvægt, að á næsta ári verði haldið aftur af útlánum, framkvæmdum og umsvifum hins opinbera, — ríkis, ríkisstofnana og sveitarfélaga, — eftir því sem tök eru á og samrýmzt getur æskilegri, atvinnulegri og félagslegri framþróun. Og auðvitað á hið sama við um einkaaðila. Á þessi atriði mun reyna, þegar endanlega verður gengið frá fjárl. ársins 1973 og framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ríkisins fyrir það ár. Síðast, en ekki sízt verður að freista þess að ná um það víðtækri samstöðu að draga úr þeirri verðbólguhættu, sem óneitanlega fylgir gengisbreytingu. En þessi hætta er einmitt meginókostur gengisbreytingarinnar, þótt hún hafi að dómi sérfróðra manna ýmsa yfirburði sem lausn á aðsteðjandi efnahagsvanda. Þessir yfirburðir, eins og raunar beinlínis má lesa í skýrslu efnahagsmálanefndarinnar eða valkostanefndarinnar, liggja fyrst og fremst í því, að gengisbreytingin veldur almennri hækkun tekna allra greina útflutnings og mismunar í því efni ekki milli greina, eins og hætt er við, að hefði fylgt öðrum leiðum, jafnframt því sem hún bætir samkeppnisaðstöðu allrar innlendrar atvinnustarfsemi gagnvart innflutningi með því, að innfluttar vörur og þjónusta hækka í verði samanborið við innlendar. Þar með dregur gengisbreytingin úr innflutningi, jafnframt því sem tekjur útflutningsgreina hækka. Á miklu veltur, að stuðningsaðgerðir, sem rætt var um hér að framan og ég rakti, takist vel, til þess að tryggja, að sá árangur, sem gengisbreytingin færir eða stefnir a.m.k. að, verði varanlegur.

Svo sem ég hef áður nefnt, var það niðurstaða valkostanefndarinnar, að samsettar aðgerðir með 12% gengislækkun sem kjarna næðu bezt þeim tölulegu markmiðum, sem sett voru fyrir efnahagsmálastefnu 1973. Það liggur þó í hlutarins eðli og er reyndar lögð á það rík áherzla í skýrslunni sjálfri, að það heildarmat, sem ræður vali leiða, hlýtur ætíð að vera fjölþætt og huglægt mat, eins og þar segir, sem er fyrst og fremst stjórnmálalegs eðlis. Það er bæði um það að ræða að vega og meta mikilvægi einstakra efnahagslegra markmiða og ekki síður að taka tillit til fleiri þátta þjóðarbúsins og þjóðlífsins.

Eins og menn hafa lesið og kynnt sér í skýrslu valkostanefndarinnar, er þar lýst þremur meginleiðum til lausnar á efnahagsvandanum, eins og hann nú liggur fyrir: Millifærsluleið, sem byggist á almennri skattheimtu og síðan uppbótakerfi eða styrkveitingum, ef menn vilja tala um það, til atvinnuveganna, sem í raun og veru er þó aldrei rétt, að tala um styrkveitingar til undirstöðuatvinnuvega. Niðurfærsluleið, sem byggist á niðurfærslu kaupgjalds og verðlags. Og loks uppfærsluleið, sem svo er kölluð í skýrslunni, eða gengislækkun.

Í skýrslunni er, eins og hv. þm. hafa haft tækifæri til að kynna sér, sagður kostur og löstur á þessum þremur meginleiðum, eftir því sem tök hafa verið á að meta það og þessir sérfræðingar 7 komu sér allir saman um. Það liggur þó í augum uppi, að jafnvel það mat getur aldrei orðið tæmandi eða fullnægjandi. Margvísleg álitamál og matsatriði önnur en þau, sem tölur ná til, koma einnig til greina. Hér er ekki sízt um að ræða langtímasjónarmið og ýmis atriði, sem varða frambúðarkosti eða galla tiltekinna aðgerða, og að auki ýmsa þætti efnahagsmála, sem nær eru í tímanum, en er illa eða alls ekki lýst í því talna- og upplýsingakerfi, sem er undirstaða tölulegs mats á áhrifum efnahagsaðgerðanna. Í þessu sambandi er um hvort tveggja að ræða: efnahagsleg sjónarmið og framkvæmdaatriði, bæði að því er varðar nauðsyn lagasetningar og síðar framkvæmd hennar og eins það, hversu auðvelt eða torvelt muni reynast að vinna aðgerðunum fylgi, samþykki eða a.m.k. forðast beinar mótmælaaðgerðir af hálfu hagsmunasamtaka og raunar einnig á sjálfum vettvangi stjórnmálanna. Þetta almenna mat varðar ekki hvað sízt framtíðarmöguleika atvinnulífsins. Hagvaxtarmarkmiðið, rekstrargrundvöllur atvinnuvega og hagnýt nýting framleiðsluafla eru að mörgu leyti samofin sjónarmið, ekki sízt þegar litið er lengra fram í tímann en til næsta árs.

Millifærsluleiðin hefur ýmsa ókosti frá þessu sjónarmiði, ef litið er svo á, að sá vandi, sem við er að fást í atvinnulífinu, sé varanlegur eða a.m.k. ekki að öllu leyti háður tímabundnum aðstæðum, sem von sé til að breytist innan skamms til batnaðar. Sá kostur millifærsluleiðarinnar, að hún gerir kleift að mismuna eftir þörfum um styrkveitingar milli atvinnuvega, er því aðeins kostur, að um tímabundið rekstrarvandamál einstakra greina sé að ræða. Eigi rekstrarvandamál atvinnuveganna og þá einkum útflutningsatvinnuveganna sér sameiginlegan kjarna, þ.e. að innlent kostnaðarverðlag sé almennt orðið of hátt miðað við verðlag útflutningsteknanna, þ.e.a.s. gjaldeyrisins, getur þessi kostur orðið dýrkeyptur, því að þá væri í reynd aðeins verið að leysa hluta vandans, en honum að öðru leyti skotið á frest. Þetta væri rétt, ef þau dæmi, sem við er stuðzt við mat á afkomu atvinnuvega, hafa almennara gildi en svo, að þau lýsi einungis sínu eigin þrönga sviði. Mismunun í styrkveitingum eða uppbótum milli atvinnugreina, sem stendur lengi, hefur mikla tilhneigingu til þess að úreldast og getur, þegar frá líður, haft neikvæð áhrif á nýtingu framleiðsluþátta og þar með hagvöxt. Af skiljanlegum ástæðum hneigjast slík kerfi til þess að viðhalda því, sem fyrir er, oft á kostnað greina, sem ekki eru komnar á legg eða ná ekki að vaxa úr grasi, stundum einfaldlega vegna þess, að lítið er um þær vitað. Millifærsla til atvinnuvega eftir knappt metnum þörfum hefðbundins útflutnings gæti unnið á móti brautryðjendastarfi í iðnþróun og dregið úr vaxtamöguleikum nýrra útflutningsgreina. Og auk þess kemur það til, að fjármagnsflutningur innan okkar þjóðfélags er þeim vandkvæðum bundinn, — eins og ég hef gert grein fyrir áður á öðrum stað, — að tæplega verður um það að ræða, að bætt verði við beina skatta, svo að nokkru nemi, eins og nú er komið, og þess vegna yrði ekki annar kostur en afla þeirra tekna, sem til þyrfti að færa, með óbeinum sköttum, en óbeinir skattar koma jafnharðan inn í vísitölu eftir því kerfi, sem við búum við, og þess vegna verður það til þess að auka verðbólgu og magna í raun og veru, þegar skammt er liðið frá, þann vanda, sem við er að glíma. Ég hef lýst því áður, að ég tel þetta kerfi, sem við búum við í þessum efnum, gallað. Ég tel litla skynsemi í því að leyfa hinu opinbera, — og gera ráð fyrir því sem sjálfsögðum hlut, — að það geti lagt á skatta, en það sé jafnframt lögð á það í raun og veru sú kvöð að skila aftur nokkrum hluta skattsins, en það er í raun og veru það, sem þetta kerfi býður. Þess vegna er einmitt millifærsluleiðin í stórum stíl a.m.k. mjög torveld, þó að hún geti óneitanlega haft vissa kosti, ef um skammtímavandamál er að tefla.

Gengisbreytingin er ekki með þessum vanköntum eða a.m.k. ekki með öllum þessum vanköntum, sem fylgja millifærslu, og hefur því sem lausn á atvinnuvegavanda ýmsa kosti. Meginókostir hennar liggja í því, að hún getur viðhaldið hinum rótgróna verðbólguhugsunarhætti, sem hér hefur verið landlægur árum saman. Og þrátt fyrir það, þó að það sé býsna vinsælt að tala illa um verðbólgu, þá held ég nú samt, að reyndin verði sú, þegar til raunveruleikans kemur, að hún eigi sér býsna marga fylgjendur og það séu býsna margir, sem eru ófúsir til þess að stíga skref til baka. En í sambandi við þessa gengisfellingu, sem ég er nú að mæla fyrir, þó að með óbeinum hætti sé, þar sem það er aðeins frv., sem hér er til umr. að formi til, þá er rétt að benda á það, að fyrri gengisbreytingar — stórgengisbreytingar — hafa oft verið framkvæmdar við slakt atvinnuástand og gjaldeyrisskort, ekki sízt eftir að dregizt hafði úr hömlu að leiðrétta varanlega rekstrarskilyrði útflutningsgreina. Alkunna er, að megintilgangur sumra þessara gengisbreytinga var að hreinsa upp flókin styrkja- eða fjölgengiskerfi, sem höfðu gengið sér til húðar, a.m.k. að mati þeirra aðila, sem stóðu fyrir þeim gengisbreytingum. Gengisbreytingarnar 1967 og 1968, sem voru miklar, voru þó ekki af þessu tagi, heldur komu í kjölfar verulegrar aflaminnkunar og verðlækkunar á fiskafurðum. Reynsla okkar og mat á gengisbreytingum er því aðallega mátað af mjög miklum breytingum gengisskráningar. Slíkum stórbreytingum fylgir að sjálfsögðu veruleg hætta á bakslagi. Gengisbreytingin, sem nú hefur verið ákveðin, er miklu minni en síðustu gengisbreytingar, auk þess sem hún er nú nokkru sveigjanlegri, ekki sízt með tilliti til gerbreyttra aðstæðna í gengismálum í heiminum og í viðhorfum manna til beitingar gengisskráningar sem hagstjórnartækis. En það er staðreynd, að það hefur átt sér stað víðtæk breyting í þeim efnum á allra síðustu tímum.

Því skal ekki neitað og sízt af mér, að ýmislegt hefði mælt með því, að reynt yrði að fara niðurfærsluleið að einhverju leyti til þess að leysa efnahagsvandann, sem við er að fást, ekki sízt með það í huga að reyna að eyða stöðugri verðbólguhugsun með þjóðinni. Hins vegar er hvort tveggja, að aðstæður í launa- og verðlagsmálum virðast þær, að ekki sýnist fært að ná neinni umtalsverðri verðhjöðnun eftir þessari leið, og að óvissa um framkvæmd verðlækkana í kjölfar kauplækkana er mikil. Þessi atriði hníga í þá átt, að erfitt er að hugsa sér niðurfærsluleið nú sem aðaluppistöðu í heildarlausn. Til þess að niðurfærsla komi til greina sem aðaltæki, þarf að vera fyrir hendi mikil áherzla á gildi verðlagsmarkmiðsins og vilji til þess að færa verulegar fórnir fyrir framtíðina, því að ef niðurfærslan tækist, hlyti hún til langs tíma litið að hvetja til meiri rekstrarhagkvæmni og samkeppni. Óvissuatriðin, sem tengd eru þessari leið, eru það mörg. Á það er líka rétt að benda, að niðurfærsluleiðin, sem lýst er í skýrslu valkostanefndarinnar, er svo mjög blandin millifærsluleið, að ókostur hennar segir sjálfsagt einnig nokkuð til sín í sambandi við hana. Ég held þess vegna, að hvort sem mönnum er það nú ljúft eða leitt, þá verði þeir að horfast í augu við, að það er ekki raunsætt nú að gera ráð fyrir því, að niðurfærsluleið verði farin.

Það er til gamall málsháttur, sem segir, að neyðin kenni naktri konu að spinna. Það geta hugsanlega komið þeir tímar, að menn verði nauðugir viljugir að fara inn á niðurfærsluleið. En þá er ekki víst, að sú braut verði blómum stráð. Og eins og ég sagði áðan, þrátt fyrir allt — ég vil nú ekki segja glamur, en orðaflaum um verðbólgu og hennar forkastanleika, þá er eins og það séu æðimargir í þessu þjóðfélagi, sem hafi bundið sig við verðbólguna og finnst, hvort sem það er rétt eða rangt, að þeir eigi talsvert undir því, að hún haldi áfram. Þetta er nú sannleikurinn umbúðalaus, hvernig sem hann lætur í eyrum manna. Menn eru ófúsir að stíga til baka. Þeir eru fáir, sem treysta því, að tapið af því lendi ekki á sér.

Í sambandi við tímasetningu efnahagsaðgerðanna nú má almennt segja, að stjórnvöld standi nú betur að vígi en oft áður til þess að ná hagfelldum árangri með almennum aðhaldsaðgerðum eða niðurfærslu, þar sem við búum við ágætt atvinnuástand, eigum traustan gjaldeyrisforða og getum því með allt öðrum hætti en við aðþrengdar aðstæður vegið og metið frambúðargildi hugsanlegra aðgerða. Aðalatriðið er að bregðast við horfunum, áður en alvarleg veikleikamerki fara að gera vart við sig. Hæfilegar aðhaldsaðgerðir nú, sem ekki taka allt of stuttan tíma í viðmiðun, koma í veg fyrir, að til kollsteypuaðgerða þurfi að grípa síðar. Auk þess má á það benda, að afar auðvelt mun reynast að rétta sig af í átt til rýmri eftirspurnarskilyrða, yrði slíks talin þörf á næstu missirum, og á ég þar auðvitað við atvinnumálin og atvinnuöryggi.

Á það er rétt að leggja áherzlu, að þær efnahagsaðgerðir, sem nú verður ráðizt í, þurfa að verða við það miðaðar að tryggja almennan rekstrargrundvöll sjávarútvegsins og þá einkum þeirra undirstöðugreina hans, sem treysta á bolfiskafla. Skyndilegur, óviss, en að sjálfsögðu velkominn búhnykkur á þröngu sviði innan sjávarútvegsins, eins og nú er búizt við að því er loðnuafurðirnar varðar, má ekki valda því, að þessi vandi, sem er fyrir hendi að því er aðalgreinarnar varða, sé vanmetinn. Jafnframt mun reynast nauðsynlegt að taka að nokkru leyti rekstrarvandamál togaraflotans til sérstakrar meðferðar. Það verður að haldast í hendur, að gildi auðlinda sjávarins sé rétt metið og að nýjum greinum séu gefin lífvænleg vaxtarskilyrði. Til langs tíma litið falla þessi sjónarmið saman, og því þarf að gæta þess, að efnahagsaðgerðirnar séu ekki einskorðaðar við þarfir þess, sem er og hefur verið, heldur sé einnig tekið mið af því, sem koma skal, þ.e. taka þarf tillit til frambúðarhagsmuna sjávarútvegsins, sem ráðast af styrk fiskstofna, og ekki siður til áætlana um skipulega eflingu útflutningsiðnaðar.

Af þessum ástæðum, sem ég hef hér rakið, er það mat ríkisstj., að gengisbreytingin nái þessum markmiðum skást af þeim kostum, sem fyrir hendi voru, ef henni er fylgt eftir með skipulegum stuðningsaðgerðum.

Það er að sjálfsögðu svo, eins og fram hefur komið, að í þessari gengisskráningarleið, sem hér er farin, er ekki þrædd sú till. eða sú hugmynd, sem valkostanefndin setti fram um svokallaða uppfærsluleið, vegna þess að kaupgjaldsvísitalan er látin halda áfram að mæla áhrif gengisfellingarinnar. Ef það hefði ekki verið gert, hefði mátt segja, að hróflað væri við kjarasamningum. Inn á þá leið vill ríkisstj. ekki fara án samkomulags við aðila vinnumarkaðarins. Hins vegar verður haldið áfram viðræðum við launþegasamtökin um hugsanlegar breytingar á gildandi vísitölufyrirkomulagi. Af þessu leiðir auðvitað, að áhrifa gengisbreytingarinnar hlýtur að gæta í verðlagi, og verður að horfast í augu við þá staðreynd, að hin jákvæðu áhrif hennar, — sem ég hef að vísu lagt megináherzluna á í máli mínu hér að undanförnu, — geti orðið skammvinnari en ella og að erfitt geti reynzt að halda verðlagsþróun í þeim skefjum, sem gert var ráð fyrir í málefnasamningi ríkisstj., eða í svipuðu horfi og í nágrannalöndunum. Mér dettur ekki í hug að reyna að blekkja neinn með því að neita þessu. Og ég held, að það þýði ekki og það sé bezt að játa þetta hreinskilningslega.

Að því er ríkissjóðsdæmið varðar, — sem ég ætla ekki í þessu sambandi að víkja mikið að, en er auðvitað nátengt öllum efnahagsaðgerðunum, - þá munu áhrif gengisbreytingarinnar hafa jákvæð áhrif á það, þó að þar komi vissulega mínusliðir á móti. Þau áhrif nægja þó auðvitað ekki til að jafna metin í ríkissjóðsdæminu, þar eð gert er ráð fyrir því að halda dýrtíðarráðstöfunum í svipuðu horfi og á þessu ári, en á því mun verða full þörf að mínum dómi. Þar þurfa því að koma inn tekjupóstar, sem í athugun eru nú í sambandi við lokastig fjárlagameðferðarinnar. Enn fremur er það, að liður í þessum aðgerðum er það, sem kemur í ljós í sambandi við afgreiðslu fjárl., að fengin verði heimild til lækkunar á fjárveitingum, sem ekki eru bundnar í öðrum lögum en fjárl., sem svigrúm gefur til niðurskurðar í þá átt, sem gert er ráð fyrir í till. valkostanefndar, þó að ég vilji ekki í þessum orðum mínum slá fastri neinni heildarfjárhæð í því sambandi. Það skýrist við heildarfjárlagaafgreiðsluna, sem kemur til innan tíðar. Sú aðgerð, sem hér hefur verið ákveðin, mun einnig að nokkru leyti eða eitthvað hjálpa til þess að leysa vandamál fjárfestingarsjóða.

Ég lofaði því nú að vera ekki mjög langorður, og mér er skylt að standa við það fyrirheit, þar sem ég hef farið fram á það við stjórnarandstæðinga að greiða fyrir málinu, og ég skal þess vegna fara að ljúka þessum inngangsorðum mínum. Ég get að síðustu sagt það, að gengislækkun í sjálfu sér er að sjálfsögðu aldrei neinn fagnaðarboðskapur. Það þarf varla að taka það fram, að til þessa úrræðis grípur engin ríkisstj. að gamni sínu. Til þessa úrræðis er auðvitað aldrei gripið nema af illri nauðsyn að mati stjórnvalda, og hún verður auðvitað alltaf neyðarúrræði, en getur verið óhjákvæmilegt neyðarúrræði.

Stöðugt og traust gengi er að sjálfsögðu grundvallaratriði undir traustu og heilbrigðu efnahagslífi. En það er samt annað grundvallaratriði, sem verður að setja enn ofar. Það er, að atvinnuvegir þjóðarinnar séu í fullum gangi; það er, að atvinnuöryggið sé í lagi, að allir hafi atvinnu. Þess vegna er það og verður ætíð æðsta boðorðið í efnahagslífi þjóðar, ekki sízt í efnahagslífi íslenzkrar þjóðar, að tryggður sé grundvöllur undirstöðuatvinnuveganna, hvað sem gengisskráningu líður. Hjá þjóð eins og okkur, sem á svo mikið undir útflutningi og því, að rekstrargrundvöllur atvinnuvega sé tryggður, hlýtur það alltaf að verða nr. eitt að tryggja næga atvinnu. Og sé það ekki hægt á annan hátt en þann að hækka andvirði þess gjaldeyris, sem þeir skila þjóðarbúinu í hendur, þá verður að gera það, hvort sem mönnum þykir það ljúft eða leitt. Hjá því verður aldrei komizt nema um takmarkaðan tíma að viðurkenna þessa staðreynd, ef ekki finnast leiðir til þess að lækka framleiðslukostnað eða þá að flytja til framleiðsluatvinnuveganna fjármagn eða einhvers konar uppbótakerfi, sem oftast nær samkv. reynslu hér og annars staðar endar þó fyrr eða síðar með breyttri gengisskráningu.

Ég held, að með þeirri aðgerð, sem ríkisstj. hefur ákveðið, takist, ef vel tekst til, að ná því markmiði að skapa atvinnuvegunum traustan grundvöll; að skapa og tryggja atvinnuöryggi hér á landi; að tryggja kaupmátt launa. Hitt verður erfiðara, — og mér dettur, eins og ég sagði áðan, ekki í hug að neita því, — að tryggja, að verðlagsþróun á næstunni haldist hér á landi í svipuðum skorðum og hjá nágrannaþjóðum okkar. Við í ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar höfum vissulega staðið andspænis vandasömu mati. Og ég vona, að hv. alþm. skilji, og ég vona, að öll þjóðin skilji, að við höfum þurft nokkurn tíma til þess að átta okkur á því og framkvæma það mat.

Ég vona, að mat okkar í þessu efni sé rétt. Það er sannfæring mín, að við höfum, — miðað við aðstæður og það samkomulag, sem unnt var að ná meðal þeirra flokka, sem að ríkisstj. standa og hafa ólík sjónarmið um margt, — þá höfum við valið réttu leiðina. Og þó að ég viti, að hugur stjórnarandstæðinga til þessarar ríkisstj. er að sjálfsögðu blandinn, þá vona ég, að flestir landsmenn sameinist um þá ósk, að þær aðgerðir, sem nú hefur verið gripið til, megi ná tilætluðum árangri.