18.12.1972
Neðri deild: 27. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég verð nú að gleðja hæstv. félmrh. með því að birtast hér sem heill þingflokkur. Honum tókst ekki á sínum tíma að vera nema hálfur þingflokkur, þegar hann og tvíburi hans, Björn Jónsson, mynduðu einn þingflokk.

Ástæðan fyrir því, að ég stend hér upp, er fyrst og fremst sú, að ég vil vekja athygli á einu máli, sem mér þykir mjög á skorta, að vakið sé máls á í þessum umr. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. forsrh., sem kom hér fram í upphafi, að nauðsynlegt sé að tryggja rekstur undirstöðuatvinnuveganna, og þær efnahagsráðstafanir, sem hér á að gera, eru ekki sízt knýjandi til að tryggja rekstrargrundvöll útgerðar og vinnslustöðva í sjávarútvegi, sem í reynd ákvarða gengi íslenzka gjaldmiðilsins. En í þessu sambandi vil ég benda á orðsendingu Farmanna- og fiskimannasambandsins til ríkisstj. frá 13. des. s.l. Þar kom fram, að nú hljóti að verða að taka skipulag fiskvinnslunnar föstum tökum, svo að hún geti skapað sér eðlilegan rekstrargrundvöll. Það kemur einnig fram í þessari sömu orðsendingu til ríkisstj. eitthvað á þá leið, að efnahagssérfræðingar á árunum 1967–1968 héldu því fram, að það væri nauðsynlegt að endurskipuleggja allan fiskiðnaðinn, en enn sem komið er örlar hvergi á aðgerðum. Í stað þess rísa í hverju útgerðarplássi vinnslustöðvar, allt frá dýrum og fullkomnum stöðvum niður í stöðvar, sem hafa aðsetur í alls konar skúrum. Hér er að mínu viti komið að kjarna málsins, sem nauðsynlegt er fyrir þingheim að íhuga. Það verður í sambandi við þessi mál öll að taka fiskiðnaðinn föstum tökum. Það er með öllu óviðunandi að moka alltaf öðru hverju millj. eða jafnvel milljörðum af almannafé í þessa atvinnugrein eftir ýmsum leiðum, jafnvel þótt hún sé að sjálfsögðu undirstaða undir efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Við vitum allir gjörla, að það eru dæmi um tvö frystihús í litlum sjávarplássum. Annað rekur t.d. kaupfélagið, hitt einkaaðili, og síðan er samkeppni, báða aðila skortir hráefni, og bæði eru frystihúsin rekin með tapi. Það er einnig dæmi um illa útbúin frystihús, sem hafa starfsrekstur aðeins hluta ársins. Við vitum einnig, að það eru til fiskvinnslustöðvar, sem hafa skilað ágóða, jafnvel þegar önnur frystihús hafa verið rekin með tapi.

Það er í raun og veru nóg komið af því að gefa þessari atvinnugrein einhvers konar deyfilyf á vissu árabili, einhverjar vítamínsprautur. Það verður að beita hnífnum. Það verður að ráðast að meininu sjálfu, en ekki alltaf leita í vasa almennings til þess að bjarga við þessum fyrirtækjum. Mér virðist þróunin vera mjög ískyggileg eða geta orðið ískyggileg í sambandi við skuttogarana. Til þeirra er lánað 90% af kaupverði, og ef að líkum lætur, fer þannig, að það muni þurfa að veita þessum togurum einhvers konar styrki af hálfu hins opinbera. m.ö.o.: það er búið þannig að hlutunum, að einkaframtakið er fólgið í því að hirða gróðann, þegar vel árar og vel gengur, en þegar illa árar, þá á að þjóðnýta tapið. Með þessu vil ég ekki segja, að það eigi ekki að veita dugmiklum atvinnurekendum sjálfsagða fyrirgreiðslu. Það þykir mér alveg sjálfsagt. En það er ógerningur að reka svona stóra og mikilvæga atvinnugrein á þann hátt, sem verið hefur í þjóðfélaginu. Og ég vil leggja áherzlu á það, að í sambandi við þær ráðstafanir, sem nú eiga sér stað, geri ríkisstj. úttekt á fiskvinnslunni í landinu og reyni að koma á sem mestri hagkvæmni í þeim málum, ella heldur þetta ófremdarástand áfram. Að sjálfsögðu hafa hraðfrystihúsaeigendur sín samtök og leggja fram sínar óskir, en ríkisvaldið á að taka þeim með nokkurri gát. Þegar hið opinbera stendur að því að færa til milljarða króna af almannafé til frystihúsaeigenda, verður ríkisvaldið að hafa aðhald að þessum fyrirtækjum og sjá til þess, að hér sé ekki sóað fé. Þetta tel ég ákaflega mikilvægt.

Ég hef áður látið í ljós skoðun mína á gengisfellingu. Ég vil þó í upphafi segja það, að ég tel, að stjórnarandstaðan hafi gert of mikið úr þeim vanda, sem við er að glíma. Ég vil benda á það, að í skýrslu valkostanefndarinnar, þar sem gerð er grein fyrir efnahagshorfum á næsta ári, er að sjálfsögðu miðað við þjóðhagsstærðir á árinu 1972. En þessar tölur árið 1972 eru ekki fulltraustar. Það hefur t.d. komið í ljós nú þegar, að aflabrögð verða 2% meiri en valkostanefndin notaði í útreikningi sínum. Einnig hefur komið í ljós, að fiskverðshækkunin á næsta ári, sem átti að verða 7–8%, er eiginlega þegar komin inn í verðið. Þetta skiptir auðvitað geysimiklu máli. Þannig koma fram stórar skekkjur í útreikningnum. Og ég vil líka benda á það, að skreiðarverðið fer mjög ört hækkandi og loðnuafurðir stíga geysimikið í verði, þannig að ég tel, að vandinn sé ekki eins mikill og margir vilja láta í skína, allra sízt að hér jaðri við hrun atvinnulífsins.

Hæstv. félmrh. talaði um gengisfellingu sem einhvers konar hallelúja-lausn á öllum vanda, og það er alveg nýr skilningur og opinberun fyrir mig, að gengisfelling sé annað en neyðarráðstöfun. Það er alveg nýtt. Ég vil t.d. benda á það, að á Norðurlöndum hafa verið til sams konar erfiðleikar og hjá okkur, hækkandi verðlag og verðbólga í landinu. En frændur vorir á Norðurlöndum hafa varazt það í lengstu lög að fella gengi. Þetta þekkjum við frá ráðstöfunum í Danmörku á síðasta ári og einnig í Svíþjóð. Þeir fara þá einhvers konar millileið, sem er á máli félmrh. auðvitað gengisfelling. En engu að síður er það staðreynd, að menn beita ekki gengisfellingu, nema þegar neyðarástand er, atvinnuleysi, aflabrestur verulegur og fall á útflutningsverðmæti. Þetta er viðhorf mitt til þessara mála, og ég tel, að þessar forsendur séu ekki fyrir hendi og þess vegna hefði átt að útvega fé með millifærsluleið og jafnframt draga meira úr fjárfestingu og útgjöldum ríkisins og reyna með hörku og aðhaldi í fjármálum að jafna þennan halla á fyrstu mánuðum ársins 1973.

Nú er svo komið, að gengisfelling er lausn á öllum efnahagsvanda og einkanlega sjálfsagt að nota gengisfellingu, ef vandinn er ekki mikill. Þetta er alveg nýtt viðhorf.

Eitt vil ég benda alveg sérstaklega á í málflutningi félmrh. Hann lét í það skína, að þessi till. frá þingflokknum hefði verið borin fram á ríkisstjórnarfundi og síðan hefði stjórnarflokkarnir sannfærzt um það á svipstundu, fengið hugljómun og talið, að þetta væri eina rétta leiðin, og síðan var ákveðin gengisfelling. Ég vil bæta þar við, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að félmrh. var einu sinni hálfur þingflokkur og það, sem hann sagði um þetta mál, er hálfur sannleikur. (Gripið fram í: Hver er sannleikurinn?)