18.12.1972
Neðri deild: 27. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Erlendur stjórnmálamaður komst eitt sinn svo að orði: Ef maður hefur lofað einhverju fyrir kosningar, sem hann getur svo ekki staðið við, þá verður hann líka að vera maður til að svíkja það eftir kosningar. — Ég held, að enginn geti láð mér, þó að mér komi þessi gamla saga í hug, þegar ég virði fyrir mér, hvernig ástatt er fyrir hæstv. núv. ríkisstj. og stjórnarflokkunum.

Í sambandi við gengislækkunina, sem út af fyrir sig liggur alls ekki hér fyrir til atkvgr., vegna þess að hún er þegar gerður hlutur af ríkisstj., þá er rétt aðeins að virða fyrir sér nokkuð forsögu þessa máls, því að fram til ársins 1961 var sú skipan þessara mála, að gengi íslenzku krónunnar var ákveðið í lögum. Það var ekki unnt að breyta gengisskráningunni nema með venjulegri löggjöf frá Alþ. Þáv. ríkisstj. ákvað að breyta þessu og koma í það horf, að það væri Seðlabanki Íslands með samþykki ríkisstj., sem ákvæði gengið hverju sinni. Þegar þessi breyting var til umr. á Alþ. 1961 1962, beittu núv. stjórnarflokkar sér allir mjög eindregið á móti henni, kröfðust þess, að það væri Alþ. eitt, löggjafarvaldið, sem gæti ákveðið gengið. Þeir notuðu þar sterk orð og ekki sízt hæstv. núv. bankamála- eða viðskrh., sem mótmælti því þannig í nál. og ræðum, að þetta væri tilræði við þingræðið, það væri Alþ. eitt, sem ætti að ákveða gengið. Og hv. núv, stjórnarflokkar og þm. þeirra lögðu svo mikla áherzlu á þetta atriði, að þeir greiddu allir með tölu atkv. gegn því, að þetta frv. gengi til 2. umr. í þessari hv. d., sem er mjög óvenjulegt. Þessi breyting var samt sem áður gerð. Þegar kemur svo að því, — að sjálfsögðu þjóðinni mjög á óvart, — að núv. ríkisstj. ákveður að grípa til gengislækkunar, þá hefði mátt ætla, ef eitthvert samræmi væri í orðum og gerðum, að stjórnin hefði þá lagt fyrir Alþ. frv. til laga um það, að Alþ. skuli aftur taka í sínar hendur ákvörðunarvaldið um gengisskráningu og ákveða gengið í þetta sinn. Þetta gerði ríkisstj. ekki. Hún hefði þá getað valið annan kost, og það er að bera málið undir Alþ., áður en að ákvörðunin var tekin, annaðhvort sem till. til þál. eða í öðru formi, til að fá samþykki Alþ., áður en ákvörðunin var tekin. Hvorugt gerði ríkisstj., þrátt fyrir það að hún hefði fyrir nokkrum árum talað um það sterkum og stórum orðum, að samkv. kröfu þingræðisins á réttum leikreglum væri það Alþ. eitt, sem ætti að ákveða gengið. Meira að segja hafði hæstv. ríkisstj. ekki svo mikið við alþm. að láta þá vita af þessu, þó að hún bæri það ekki undir samþykki þeirra, heldur lét þm. frétta um þessa gengislækkun í fjölmiðlum. Það er rétt að rifja upp þennan aðdraganda, af því að hann talar nokkuð sínu máli um orð og gerðir.

Þegar gengið var til Alþingiskosninga síðast, einkenndi það mjög baráttu allra núv. stjórnarflokka, að gengisbreytingar viðreisnarstj. væm víti til varnaðar og því mætti treysta, að ef þeir kæmust til valda, yrði gengisbreytingu ekki beitt sem hagstjórnartæki eða leið út úr efnahagsvanda. Þetta var kosningaboðskapur allra núv. stjórnarflokka og kjósendur þeirra hafa vissulega trúað því, að þessu mætti treysta, að mynduðu þeir stjórn og réðu meiri hluta á Alþ., yrði ekki farið að grípa til gengislækkana sem úrræða í efnahagsvanda. Stjórnin var svo mynduð, og í stjórnarsáttmálanum eru ákvæði, sem benda mjög til þess, að ekki ætti nú að grípa til gengislækkana. Í kaflanum um kjaramál í stjórnarsáttmálanum segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. leggur ríka áherzlu á, að takast megi að koma í veg fyrir þá háskalegu verðlagsþróun, sem átt hefur sér stað í efnahagsmálum undanfarin ár og leitt hefur til síendurtekinna gengislækkana og óðaverðbólgu.“

Í þessum formála er því bent sérstaklega á, að barizt verði gegn óðaverðbólgu og gengislækkunum. Ég held, að engum hafi dulizt, hvað í þessu fólst. En síðan kemur setningin, sem hæstv. ríkisstj. vitnar nú alltaf í, þar sem segir, að ríkisstj. muni ekki beita gengislækkun gegn þeim vanda, sem við er að glíma í efnahagsmálum. Auðvitað skildu menn þetta þannig á sínum tíma, þegar stjórnin var mynduð, að ekki ætti að beita gengislækkun gegn vanda efnahagsmála yfirleitt. Nú er þetta túlkað þannig, að eingöngu hafi verið átt við þann vanda sem þá var. Í því felst það, að með gengislækkuninni í gær er ekki verið að glíma við arfinn frá fyrrv. ríkisstj., sem þeim verður svo tíðrætt um, heldur er það einhver nýr vandi, sem skapazt hefur.

En það er vissulega mjög athyglisverð túlkunaraðferð á stjórnarsáttmálanum, að þetta og þetta ákvæði eigi eingöngu við það ástand, sem var, þegar stjórnin var mynduð. Ég held, að hv. stjórnarflokkum gæti komið til hugar að nota þessa sömu túlkunaraðferð kannske síðar í öðrum samböndum. Við skulum segja t.d., að í stjórnarsáttmálanum er talað um varnarsamninginn við Bandaríkin. Hann skal tekinn til endurskoðunar eða uppsagnar í því skyni, að varnarliðið hverfi frá Íslandi í áföngum, og skal að því stefnt, að brottför liðsins eigi sér stað á kjörtímabilinu, Í samræmi við þessa túlkun á gengislækkunarklausunni, mætti vel segja, ef þeir hætta við að láta varnarliðið fara, — það var auðvitað átt við það varnarlið, sem var, þegar samningurinn var gerður, og nú er það þannig samkv. föstum reglum, að hermennirnir eru hér aðeins eitt ár, þeir sem einhleypir eru, en fjölskyldumennirnir í mesta lagi tvö ár, — að áður en kjörtímabilið er á enda, verður allt varnarliðið, sem þá var, horfið af landi brott og málið þar með leyst, samningurinn að fullu efndur. Það má segja, að þessi nýja túlkunaraðferð hæstv. forsrh. og ríkisstj. að skýra ákvæðin sem þau eigi aðeins við þennan og þennan vanda, sem þá var, — þessi túlkunaraðferð, svo að maður vitni í gamalt orðtak getur orðið þeim „geysihagleg geit“.

Nú er það svo, að þrátt fyrir allt, sem á undan er gengið um viðhorf núv. stjórnarflokka til gengislækkunarmálsins, þá afrekuðu þeir það samt á fyrsta misseri sinnar ævi að lækka gengi íslenzku krónunnar um 81/2%. Þetta var reyndar afsakað með því, að dollarinn hefði lækkað og íslenzka krónan yrði að fylgja honum. Nú er það þannig, að flestar okkar nágrannaþjóðir héldu sínu gengi óbreyttu miðað við gull þrátt fyrir fall dollarans. Út af fyrir sig var ekki brýn nauðsyn að láta íslenzku krónuna falla jafnmikið og dollarinn var lækkaður. Að vísu er langstærsti markaðurinn fyrir okkar útflutningsafurðir í Bandaríkjunum. Hugsanlegt var að fara hér einhverja millileið eftir því magni og verðmæti, sem við seldum til ýmissa landa. Ríkisstj. ákvað að fylgja dollaranum að fullu, og áður en eitt missiri var liðið af hennar ævi, hafði hún lækkað gengið um 8% og nú lækkar hún það aftur um 10.7%. Er nú svo komið, að erlendur gjaldeyrir hefur hækkað í verði á æviskeiði þessarar stjórnar um 21.6% og eru þá ekki tekin með þessi 2.25%, sem farið er fram á í því frv., sem hér liggur fyrir, að heimilt sé að hækka eða lækka gengið um, og getur þessi lækkun því innan skamms orðið nokkru meiri. Það hefði einhverjum þótt fyrirsögn fyrir síðustu kosningar, þegar stjórnarflokkarnir og málsvarar þeirra börðu sér á brjóst, sóru og sárt við lögðu, að gengislækkun væri bara úrræði viðreisnarstjórnarinnar og ekki kæmi til mála, að þeir færu að beita slíku, — það hefði þótt fyrirsögn, að innan 3 missera eða um það leyti, sem stjórnin hefði lifað 3 misseri, væri hún búin að hækka erlendan gjaldeyri í verði um yfir 20%. En það er staðreynd.

Þegar gengislækkunin á sér stað eða talin er þörf á henni, er brýn nauðsyn og algjör forsenda að taka alla aðalþætti efnahagslífsins til athugunar og gera um þá heildaráætlun til að reyna að fá heildarlausn á öllum helztu þáttum. Þannig var staðið að gengisbreytingunni 1960. Sé talað um mikla gengislækkun 1960, eins og hér hefur verið rækilega bent á, þá er um missögn að ræða. Hér var um það að ræða, að uppbótakerfi með margföldu gengi var breytt yfir í rétt gengi. Þetta var aðalbreytingin, sem gerð var 1960, og þetta margfalda gengi uppbótakerfisins var fyrst og fremst verk fyrri vinstri stjórnarinnar. En um leið og viðreisnarstjórnin ákvað að breyta gengisskráningunni 1960, gerði hún heildaráætlun um alla helztu þætti atvinnu- og efnahagslífs. Þannig voru um leið að sjálfsögðu tekin fjármál ríkisins, fjárlagadæmið, það var tekinn greiðslujöfnuðurinn við útlönd, skattamálin í heild, banka- og útlánamálin, atvinnumálin. Það var reynt að fá heildaryfirsýn yfir alla þessa þætti, og árangurinn birtist einnig í því, að í 3 ár samfellt, — sem ég ætla, að sé einsdæmi í seinni tíma sögu okkar, — í 3 ár samfellt tókst að koma á jafnvægi í íslenzku efnahagslífi, árin 1960, 1961 og 1962. Við höfðum jafnvægi í viðskiptunum við útlönd, jafnvel nokkurn greiðsluafgang og við söfnuðum álitlegum gjaldeyrissjóði, og okkur tókst þessi ár öll að halda fullri atvinnu. Það var ekkert atvinnuleysi til á þeim tíma.

Nú í dag eru mörg sjúkdómseinkenni á íslenzku efnahagslífi: viðskiptahallinn er stórkostlegur, fasteignir hafa nú á síðustu 2–3 missirum hækkað stórkostlega í verði, þannig að langt er síðan fasteignir hafa hækkað jafnört á jafnskömmum tíma, byggingarvísitalan hefur í tíð þessarar stjórnar hækkað um 29%. Fjárfesting í landinu í heild er of mikil, þannig að stórkostlegt kapphlaup er víða um vinnuaflið með þeim afleiðingum, sem það hefur. Fjárlögin eru orðin með þeim hætti, að þjóðinni stafar voði af. Þegar gjaldaupphæð fjárlaga hefur á 2 árum hækkað úr 11 milljörðum upp í yfir 20 milljarða, þá hlýtur öllum að vera ljóst, að hér er of langt gengið. Þetta þolir þjóðarbúskapurinn ekki.

Þegar ríkisstj. ákveður nú gengislækkun, fylgja ekki með slíkri ákvörðun neinar heildarráðstafanir um alla helztu þætti atvinnulífsins og efnahagslífsins. Það hefur verið minnzt hér á einstaka atriði, sem er verið að gera, sem í rauninni eru hreint kák. Þetta er í þeim mun undarlegra, þegar athugað er, að þessi ríkisstj. hafði sérstaklega ætlað að búa við áætlanagerð um atvinnumál og efnahagsmál. Og eins og segir í kaflanum um atvinnumál í stjórnarsáttmálanum, á að gera áætlanir til langs tíma og það á að gera áætlanir til skamms tíma, það átti að gera áætlanir um alla skapaða hluti í þjóðfélaginu. En þrátt fyrir þetta hefur allt rekið á reiðanum í efnahagsmálunum. Fyrst þegar ríkisstj. tekur við, er verðstöðvunin, sem verið hafði, framlengd fyrst um sinn til áramóta, til ársloka 1971, til þess að ríkisstj. gæti fengið umhugsunartíma til að gera áætlun um efnahagsmál um lengri tíma. Sú áætlun var ekki tilbúin, og þá var ákveðið um áramót að halda áfram verðstöðvun að nokkru leyti, niðurgreiðslum að nokkru leyti, en draga úr þeim að sumu leyti með þeim afleiðingum, að ýmsar verðhækkanir urðu. Síðan líður næsta missiri. Þá eru gefin brbl. um að stöðva allt og stórauka niðurgreiðslur, vegna þess að ríkisstj., þó að hún hefði haft eitt ár til ráðstöfunar til umhugsunar, þá þurfti hún eitt misseri í viðbót til þess að hugsa sig um. Nú er hún búin að hugsa sig um í 3 misseri, og þá liggur fyrir gengislækkun, án þess að nokkur heildaráætlun um okkar efnahagslíf liggi fyrir.

Þegar spurt er hér um það, hvort við séum samþykkir gengislækkuninni og munum fallast á hana, þá vil ég fyrst endurtaka það, að hún liggur ekki fyrir til atkv. í Alþ., vegna þess að ríkisstj. hefur ekki valið þann kostinn að bera hana undir Alþ. En varðandi gengislækkunina annars vil ég segja það, að hvernig til tekst um hana, það veltur fyrst og fremst á því, hvað gert er á öðrum sviðum þjóðlífsins. Ef verðbólgan heldur áfram á flestum sviðum, eins og verið hefur, þá er gengislækkunin gagnlaus. Ef fjárfestingin og kapphlaupið um vinnuaflið heldur áfram eins og verið hefur, ef hækkanir á fasteignum halda áfram eins og verið hefur, ef viðskiptahallinn verður jafngífurlegur eða allt að því eins og verið hefur og önnur verðbólgueinkenni fá að halda áfram að leika lausum hala, þá er ekkert gagn að gengislækkuninni og jafnvel getur hún verið skaðleg. Ég skal engu spá um það, hvort hún kemur að gagni, en það er víst, að ef ekki verða aðrar aðgerðir henni samfara en þær, sem stjórnin hefur þegar boðað, þá er hætt við, að efnahagslífið stefni áfram út í ógöngur, og þá er hætt við, að þessi leið leysi lítt nokkurn vanda, heldur hlaði á sig nýjum búsifjum. Þess vegna má nú búast við, að hæstv. ríkisstj. lifi við harmkvæli úr þessu, unz hún sálast um síðir, vafalaust við mikinn fögnuð fólksins.