18.12.1972
Neðri deild: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

114. mál, verðlagsmál

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd við 2. mgr. 1. gr. þessa frv., ef ég má lesa hana, með leyfi hæstv. forseta:

„Meiri hluti atkv. ræður ákvörðunum verðlagsnefndar. Verði atkv. jöfn, sker atkv. formanns úr.“

Nú vita allir, guð og menn, að þetta er hreinasta markleysa og stenzt ekki. Það eru önnur lög, sem ákveða allt annað en þarna segir í þessu frv., sem nú er lagt fyrir hæstv. Alþ. til samþykktar. í lögum um efnahagsaðgerðir frá í júlí er sérstakt ákvæði þess efnis, að það þurfi samþykki allrar n. til samþykktar um framgöngu máls í verðlagsnefnd. Nú er hins vegar ákveðið um sömu lög, að þau eigi að ganga úr gildi. Þeirra tíma er lokið nú um næstu áramót. En ekki hefur heyrzt neitt frá ríkisstj. um það, hvort þetta ákvæði eða önnur úr þeim lögum verði aftur tekin upp í nýja löggjöf, sem þessi hæstv. ríkisstj. mun flytja samfara ákvörðunum sínum um gengislækkun. Nú vil ég leyfa mér að beina þeirri spurningu til hæstv. viðskrh., hvort ríkisstj. hafi nú komizt að því, m.a. í framhaldi af aðvörunum okkar sjálfstæðismanna, þegar þessi lög voru samþ., að þetta væri dautt og ómerkt ákvæði strax frá í byrjun, eins og hefur mikið til sannazt nú upp á síðkastið, þegar fulltrúar svokallaðra launastétta og ríkisstj. hafa m.a. verið að níðast á leigubifreiðastjórum hér í borginni og notað til þess þetta ágæta ákvæði í þessum l., sem ég vitnaði til. Spurning mín til hæstv. ráðh. er: Í hvorum lögunum er um markleysu að ræða? Á þetta að standa lýðnum til eftirbreytni á komandi tímum, eða verður ákvæði efnahagslaganna tekið upp að nýju í einhverju formi?