19.12.1972
Efri deild: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

110. mál, Lífeyrissjóður barnakennara

Frsm. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um breyt. á Lífeyrissjóði barnakennara til samræmis við það, sem gert var á síðasta þingi, þegar breyting var gerð á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, og felst í því, að upphæð makalífeyris sé hundraðshluti af launum þeim, sem á hverjum tíma fylgja starfi því, er hinn látni gegndi. 12. gr. l. um lífeyrissjóðinn, sem á að breyta, var á þá leið, að upphæð makalífeyris ákvæðist þannig, að samanlagður makalífeyrir úr sjóðnum og maka- eða ellilífeyrir, sem makinn kann að eiga rétt á frá almannatryggingum, er hundraðshluti af launum þeim, er á hverjum tíma fylgja starfi því, er hinn látni gegndi síðast. Þessu er sem sagt lagt til að breyta á þann veg, sem greinir í þessu frv., að upphæð makalífeyris verði hundraðshluti af launum þeim, sem á hverjum tíma fylgja starfi því, er hinn látni gegndi síðast. Þar sem sérstök lög eru um Lífeyrissjóð barnakennara, fylgdu þau ekki með í breytingunni á síðasta þingi á lögum um opinbera starfsmenn, en þessi breyting er nákvæmlega sama eðlis.

Fjh.- og viðskn. Ed. leggur shlj. til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.