24.10.1972
Sameinað þing: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

261. mál, málefni geðsjúkra

Fyrirspyrjandi (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Á þskj. 32 hef ég leyft mér að flytja svo hljóðandi fsp. til hæstv. heilbrmrh.:

„Hvenær má vænta þess, að bætt verði úr brýnni þörf á auknu sjúkrahúsrými fyrir geðsjúka?“

Á undanförnum árum hefur farið vaxandi skilningur á eðli geðsjúkdóma. Mörgum hefur skilizt, að sú skoðun, sem áður fyrr var sorglega algeng, að geðsjúkdómar væru meira feimnismál eða jafnvel hneisa heldur en aðrir sjúkdómar, hefur aldrei átt sér nokkra stoð. Þessi skoðun hefur beint og óbeint valdið því, að oft hefur orðið erfiðara um framgang ýmissa mála, sem til heilla hafa horft fyrir geðsjúklinga en ef um hefði verið að ræða aðra sjúklinga. Þessi hópur manna á erfiðara um vik en aðrir að berjast sjálfur fyrir sínum hagsmunamálum.

Nú á seinni árum hefur það verið ríkjandi stefna og raunar mörkuð af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, að forðast beri að einangra geðsjúklinga frá öðru fólki. Æskilegast sé, að geðdeildir séu við almenn sjúkrahús. Um þetta eru menn sammála, að því er ég bezt veit, í öllum stjórnmálaflokkum og fjölmörgum almennum samtökum. Margar ályktanir hafa verið um þetta gerðar á síðari árum, bæði í þjóðmálasamtökum og öðrum samtökum. Nefna má t.d. samþykkt frá seinasta aðalfundi Bandalags kvenna í Reykjavík og grg. með þeirri samþykkt. Samþykkt þessi hljóðar svo í upphafi. Hún er nokkuð löng og þess vegna mun ég ekki nota þennan fsp.-tíma til að lesa hana alla, þótt hún varpi annars skýru ljósi á þann vanda, sem við er að etja:

„Aðalfundur Bandalags kvenna í Reykjavík lýsir ánægju sinni yfir því, að stækkun fæðingardeildar Landsspítalans er nú vel á veg komin og þakkar ötular framkvæmdir. Jafnframt vill bandalagið benda á næsta verkefni, sem ekki er síður knýjandi, en það er, að geðdeild verði komið á fót við Landsspítalann, en samkv. nútíma skilningi á geðheilbrigðismálum eru slíkar deildir sjálfsagðar við öll meiriháttar sjúkrahús. Aukin þjónusta við geðsjúka er eitt brýnasta heilbrigðismálið, sem bíður úrlausnar, enda er það veikasti hlekkurinn í þjónustu sjúkrahúsanna á Íslandi og mestur skortur á aðstöðu vegna ónógra fjárveitinga.“

Í grg. segir svo, að knýjandi nauðsyn sé að bæta úr sjúkrarúmaskorti fyrir geðsjúka, að auka fræðslu um eðli geðsjúkdóma og vandamál geðsjúkra, að vinna gegn því, að geðsjúklingar verði til frambúðar sérstaklega aðgreindir frá öðrum, og í fjórða lagi að leita eftir virkum félagslegum stuðningi almennings við að hjálpa fólki, sem hlotið hefur bata og starfsgetu eftir geðsjúkdóm, að axla að nýju byrðar þjóðfélagsins með virkri þátttöku í störfum þess. Þessari grg. með ályktuninni lýkur með þessum orðum: „Bandalag kvenna í Reykjavík telur, að því takmarki, sem í þessari till. felst, verði að ná sem allra fyrst, ef við eigum ekki áfram að teljast vanþróuð þjóð á þessu sviði.“ Ég geri ráð fyrir, að flestir og raunar allir hv. þm. geti tekið undir þessi orð. Stjórnmálasamtökin ályktuðu einnig um þessi mál, og mér er þar kunnugast um heilbrigðismálaályktun Landssambands sjálfstæðiskvenna og ályktun síðasta landsfundar Sjálfstfl. um nauðsyn þess, að næsta stórátak á sviði heilbrigðismála verði að vera á sviði geðheilbrigðismála. Að þessu stefndi fyrrv. ríkisstj. Í yfirliti um sjúkrahúsbyggingar ríkisins 1085–1966 sagði, að ákveðið væri að koma fyrir sérstakri byggingu fyrir geðsjúkradeild á Landsspítalalóðinni, sem þá var verið að skipuleggja. Í fréttatilkynningu um heilbrigðismál í desember 1969 sagði, að geðdeild við Landsspítalann væri fyrirhuguð næsta byggingaframkvæmd heilbrigðisstofnana á landsspítalalóð.

Í vinstristjórnarsáttmálanum, sem nú heyrist raunar ekki oft nefndur hér í sölum var ákvæði um, að ráðin skyldi bót á ófremdarástandi í málefnum geðsjúkra. Mér virðist því mega ætla, að menn séu enn sem fyrr sammála um nauðsyn og mikilvægi þessa máls, hvar í flokki sem þeir standa. En svo bregður við, að í stefnuræðu hæstv. forsrh. heyrðist ekki orð um þetta efni, og ef flett er upp í fjárlagafrv., sem liggur hér á borðum hv. þm., er ekki að finna neina fjárveitingu til þessara mála, sem nokkuð dregur. Þrátt fyrir ýmsar bráðabirgðaúrbætur á síðari árum, og þrátt fyrir geðdeild Borgarspítalans, sem vissulega bætti ú allra sárustu neyðinni, er ástandið enn þannig, að fjöldi sjúkrarýma fyrir geðsjúklinga þarf a.m.k. að tvöfaldast frá því sem nú er. Í riti um geðheilbrigðismál, sem félag læknanema gaf út í fyrra, er birt örlítil tafla um sjúkrarúmafjölda og minnstu sjúkrarómaþörf fyrir geðsjúklinga, og þar kemur þetta mjög skýrt í ljós.

Ræðutíma mínum er lokið, svo að ekki er unnt að lesa þessa töflu, en hún sannar þessi orð mín mjög greinilega. Fyrir fullorðna geðsjúklinga er þörfin svo brýn, a.m.k. 100% fjölgun þarf á sjúkrarúmum fyrir þá. Fyrir börn þarf u.þ.b. þreföldun frá því, sem nú er, og svo má áfram telja. Hv. þm. sjá, að skorturinn á þessu sviði er geigvænlegur.

Ég leyfi mér að vænta þess, að hæstv. heilbrmrh. gefi upplýsingar um það, hvernig ríkisstj. hugsar sér að bæta úr þessum brýna vanda.