19.12.1972
Neðri deild: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

15. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Hér liggur fyrir til umr. frv. til breyt. á l. nr. 62 1967, sem fjallar um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu. Með því að núgildandi lög gera aðeins ráð fyrir að gilda til komandi áramóta, er nauðsynlegt að afgreiða brbl. fyrir jól.

Eins og fram kemur af þskj. 184, hefur sjútvn. verið sammála um að flytja brtt. þær, sem fiskveiðilaganefnd var sammála um, að fluttar yrðu. Er ekki þar með sagt, að allur þingheimur sé sannfærður um, að annarra breytinga sé ekki þörf, þvert á móti. Hins vegar er fullljóst, að ef brtt. fara að berast frá einstökum þm., jafnvel um hluti, sem þeir telja fulla þörf á, að fram komi, þá muni þær brtt. skipta tugum og verða þess valdandi, að frv. fengi ekki svo skjóta afgreiðslu sem okkur er öllum vissulega sýnilegt, að það þurfi að fá. Ég geri ráð fyrir, að einstakir fulltrúar flokkanna, sem sæti áttu í fiskveiðilaganefnd, muni sjá ástæðu til þess að koma hér í stólinn og bera fram sínar aths. eða gera nánari grein fyrir störfum n. og viðhorfum sínum og jafnvel þeim skoðunum, sem þeir hafa orðið áheyrendur að á hinum ýmsu stöðum úti á landi, sem þeir hafa heimsótt í sambandi við sitt starf. Þess vegna tel ég ekki ástæðu til á þessu stigi málsins að fjölyrða mjög um frv. né heldur að fjalla að nokkru marki um þá gífurlegu möguleika, sem þetta málefni gefur okkur til tillöguflutnings um tilhögun veíða eða friðunaraðgerðir, sem núverandi ástand í fiskveiðimálum þjóðarinnar gefur okkur að sjálfsögðu mörg tilefni til. Í því sambandi mætti nefna fjölda atriða, og ég get varla látið hjá líða að nefna fyrst þær brtt., sem fiskveiðilaganefndin leggur einróma til, að samþykktar verði.

Í fyrsta lagi er áskilið, að leyfi þurfi fyrir loðnuveiðar með flotvörpu með nokkuð stífum fyrirvara. Og í öðru lagi mætti nefna, að mikil áherzla er lögð á að spyrna við fótum, ef um seiða- eða smáfiskadráp verði að ræða í varhugaverðum mæli. Svo mætti einnig nefna í þriðja lagi, að þá gæti rn. auglýst breyt. á friðunarsvæðum eða auglýst ný friðunarsvæði í samráði við Hafrannsóknastofnunina. Í fjórða lagi er ákveðið, að eftirlit skuli aukið með veiðum innan landhelginnar, með veiðarfærum, fisk stærðum og ýmsu þess háttar.

Það er ljóst, að miklu meira þarf að gera heldur en þetta, og til þess vinnst væntanlega tími fram á vorið, ef mjög vel er að unnið. Þó verð ég að lýsa því yfir, að mér finnst tíminn mjög naumt skammtaður í þessu efni. Fiskveiðilaganefnd minnir m.a. á eftirtalin atriði, sem skoða þurfi í sambandi við þær till. og hugmyndir, sem komu fram í sambandi við störf hennar, og vil leyfa mér að lesa nokkuð af þeim, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Á að gera allar veiðar íslenzkra fiskiskipa innan fiskveiðilögsögunnar háða leyfum eða hvaða veiðar eiga að falla undir slíkt leyfakerfi?

2. Hvaða reglur eiga að gilda um möskvastærð botnvörpu?

3. Eiga sömu reglur að gilda fyrir botnvörpu og flotvörpu?

4. Eiga sömu reglur að gilda fyrir dragnót og botnvörpu?

5. Hvaða togveiðiheimildir eiga íslenzk skip að hafa í fiskveiðilögsögunni á hinum ýmsu veiðisvæðum allt í kringum landið?

6. Á að miða þessar togveiðiheimildir við mismunandi stærðir eða gerðir skipa?

7. Á að leyfa loðnuveiðar í flotvörpu, og á þá að hinda slíkt leyfi einhverjum skilyrðum?

8. Á algerlega að banna bolfiskveiðar í hringnót eða veiðar með smáriðinni ufsanót?

9. Hver á möskvastærð þorskfiskneta að vera?

10. Hvaða reglur eiga að gilda um netaveiðar? Á að banna að skilja net eftir í sjó, meðan siglt er til hafna? — Þetta atriði gerði Hafrannsóknastofnunin till. um.

11. Þarf að auka eftirlit með ástandi fiskistofna annars vegar og landhelgisgæzlu hins vegar?

12. Hvaða reglur eiga að gilda um rækju-, skelfisk- og humarveiðar?

13. Á að friðlýsa sérstök hrygningar- og/eða uppeldissvæði? Hvaða svæði, á hvaða tímum, fyrir hvaða veiðarfærum? Er rétt og hægt að koma við aukinni skiptingu veiðisvæða með tilliti til veiðarfæra?“

Þetta er upptalning ýmissa meginatriða, sem fiskveiðilaganefndin setti fram, sem sérstaklega þyrfti að athuga. Þessi atriði gætu að sjálfsögðu verið miklu fleiri. En eins og sjá má af þessum atriðum, er fjölmargs að gæta, og samkv. því gætum við einstakir þm. flutt fjölmargar till. í sambandi við þetta mál. En eins og ég sagði í upphafi, þá var samþykkt í sjútvn. að geyma allt slíkt til væntanlegrar endurskoðunar, en taka aðeins tillit til till. fiskveiðilaganefndarinnar. Við vissum samt í sjútvn., að einn mundi skera sig út úr, og kemur það víst fáum á óvart, þegar í ljós kemur að það var hv. 3. þm. Sunnl., Guðlaugur Gíslason, sem nú kemur fram með till. sem einhver sérstakur friðunarsinni. Slíkt athæfi fer þessum hv. þm. ekki betur en annað og ég vildi segja sérstaklega illa. Hann var t.d. einn nm. í fiskveiðilaganefnd, sem vildi viðhalda fullum togveiðiheimildum upp í landsteina á allstórum svæðum. Ég sé, að hv. 10. þm. Reykv. hefur kvatt sér hljóðs. Það er þá eina vonin til þess, að það, sem á eftir fer, verði líka eitthvað pínulítið skemmtilegt.

Ég vona að lokum, að hv. þd. geti fallizt á það sjónarmið, að ef taka á brtt. til meðferðar nú, þ.e. aðrar en þær, sem samkomulag varð um í fiskveiðilaganefnd, þá gæti það orðið til þess, að frv. fái ekki afgreiðslu nú, sem er þó algerlega nauðsynlegt að verði, vegna þess að núv. lög falla úr gildi um áramótin.