19.12.1972
Neðri deild: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

15. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Sem sjútvn.- maður vil ég gjarnan gera nokkra grein fyrir afstöðu minni til þess máls, sem hér er til umr. Svo sem fram hefur komið, hefur sjútvn. orðið sammála um að mæla með samþykkt frv., sem hér liggur fyrir og er til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út í sambandi við tilkomu nýju reglugerðarinnar um stækkun fiskveiðilandhelginnar í 50 sjómílur. Einnig leggur n. til, að fallizt verði á till. fiskveiðilaganefndar, sem hefur orðið samkomulag um, að þær verði teknar inn í botnvörpulögin.

Brbl. voru gefin út til að kveða nánar á um viss ákvæði í gildandi lögum um botnvörpu- og flotvörpuveiðar í landhelginni, þ.e.a.s. að taka skýrt fram, að lagaákvæðin, sem giltu um 12 mílna fiskveiðilandhelgina næðu til hinnar nýju fiskveiðilögsögu. Um það atriði hygg ég, að ekki hafi verið nema allt gott að segja og því sjálfsagt að vera fylgjandi því, að frv. nái fram að ganga. Svipað er raunar að segja um till. fiskveiðilaganefndarinnar, svo langt sem þær ná. Það virðist eðlilegt svo sem lagt er til í þeim till., að ráðh. hafi heimild til, að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar, að veita leyfi til loðnuveiða í landhelgi með flotvörpu, en til þessa hafa þær eingöngu verið leyfðar í vísinda- og rannsóknaskyni, enda slíkar veiðar í öðrum tilgangi óheimilar lögum samkv. — Tilraunir á þessu sviði hafa bent til þess, að rétt sé að gera mönnum kleift að stunda slíkar veiðar að vissu marki. Því á þessi till. að mínum dómi fyllsta rétt á sér.

Í till. fiskveiðilaganefndarinnar er lagt til, að sjútvrn. skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að sporna gegn seiða- og smáfiskadrápi í þeim mæli, sem varhugavert og hættulegt getur talizt, að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar, og í því skyni er gert ráð fyrir, að rn. fái heimild til að loka afmörkuðum veiðisvæðum um lengri eða skemmri tíma fyrir öllum togveiðum, svo og öðrum veiðum, ef þurfa þykir. Eins og málum er nú háttað, virðist nauðsynlegt, að rn. hafi slíkt vald sem hér um ræðir, a.m.k. eins og sakir standa. Hið sama er að segja um þá till. fiskveiðilaganefndarinnar, að sjútvrn. geti auglýst ný friðunarsvæði, að sjútvrn. geti auglýst ný friðunarsvæði og breytingar á eldri friðunarsvæðum, enda hafi áður verið leitað álits Hafrannsóknastofnunarinnar um slíkar ákvarðanir. Þá er enn fremur lagt til, að sjútvrn. skuli beita sér fyrir auknu eftirliti með veiðum fiskiskipa innan fiskveiðilögsögunnar, þar sem megináherzla er lögð á að fylgjast með veiðarfæraútbúnaði skipanna, stærð þess fisks, sem veiddur er, og öðru því, sem við kemur vernd fiskistofna. Og svo er enn fremur lagt til, að rýmkað verði um togheimildir á ákveðnum svæðum úti fyrir Suðausturlandi.

Ég hef nú talið upp þær meginbreytingar, sem hæstv. ríkisstj. er reiðubúin til að leggja til, að gerðar verði að svo stöddu til þess að hafa stjórn á fiskveiðum og nýtingu fiskimiðanna innan 60 mílna fiskveiðilögsögunnar. Annað er það nú ekki, sem máli skiptir í þessum till. Ekki verður sagt, að hér sé um yfirgripsmiklar eða stefnumótandi till. að ræða í svo viðamiklu og mikilvægu máli sem mótun fiskveiðistefnunnar innan 50 sjómílna fiskveiðilögsögunnar hlýtur að vera. Það virðist síður en svo. Þarna er t.d. engu slegið föstu um, hvort eigi að auka almenna friðun innan 50 sjómílnanna. Þarna er ekkert um notkun þorsk-, ýsu- og ufsanótar, ekkert um endurskoðun reglna um dragnótaveiðar eða gildandi ákvæða um möskvastærð í vörpum ekkert um grundvallaratriði varðandi rækju-, humar-, skelfisk- og spærlingsveiðar, ekkert afgerandi um veiðihólfakerfið, svo að fátt eitt sé nefnt, sem taka þarf afstöðu til. Það ber vissulega að harma, hversu hörmulega hefur til tekist um þessi mál í höndum hæstv. ríkisstj., svo geysiþýðingarmikil sem þau eru.

Þegar sú ákvörðun var tekin á árinu 1971 að færa fiskveiðilögsöguna í 50 mílur 1. sept. 1972, var ljóst, að þá mundi skapast alveg ný viðhorf og tækifæri til nýtingar á helztu fiskimiðum okkar. Með tilkomu hinnar nýju fiskveiðilandhelgi mundu nytjafiskar okkar að verulegu leyti lenda undir okkar lögsögu, og þá gæfist Íslendingum tækifæri til að hafa stjórn á veiðunum. hað væri hægt að búa þannig um hnútana, að veiðarnar yrðu fremur stundaðar af forsjá en stjórnlausu kappi. Við þær breyttu aðstæður gætu Íslendingar stjórnað þróun fiskveiðanna, en yrðu ekki þolendur rányrkju, sem átt hefur sér stað á vissum sviðum fiskveiða hér við land, eins og kunnugt er. Þegar við fengjum yfirráð yfir fiskistofnunum, yrðum við að nýta þá skynsamlega og þannig, að til sem mestra hagsbóta yrði þjóðinni. Til þess að þessum markmiðum yrði náð, yrðu stjórnvöld að marka stefnu í þessum málum, — ákveðna og fastmótaða fiskiveiðastefnu, sem miðaði að því fyrst og fremst, að fiskistofnarnir innan 50 sjómílna fiskveiðilandhelginnar yrðu nýttir á sem hagkvæmastan hátt, án þess að viðkomu þeirra og viðgangi yrði stefnt í hættu. Svo hefur því miður enn ekki verið gert, illu heilli. Slík stefna átti að mínum dómi að liggja fyrir samtímis því, sem útfærslan í 50 sjómílurnar kom til framkvæmda. Þá voru hin réttu og eðlilegu tímamót til að hrinda í framkvæmd ráðstöfunum til skynsamlegrar og hagkvæmrar nýtingar á fiskistofnunum innan hinnar nýju landhelgi. Það hefði t.d. alveg vafalaust styrkt aðstöðu okkar í baráttunni við Breta og þjóðverja nú í sambandi við útfærslu landhelginnar, ef við hefðum getað sagt á opinberum vettvangi nákvæmlega, hvernig við ætluðum að standa að verndun og nýtingu fiskistofnanna innan 50 sjómílnanna, en ekki aðeins almennt talað, að við ætluðum að veiða með tilliti til reynslu og vísindalegrar staðreynda, eins og haldið hefur verið fram til þessa. En engin slík fastmótuð fiskveiðistefna, sem miðaðist við úffærslu landhelginnar 1. sept. 1972 og hægt var þá að hrinda í framkvæmd, var fyrir hendi, þótt núv. hæstv. ríkisstj. hafi þá haft marga mánuði til þess að láta vinna það verk, og enn hefur slík stefna ekki séð dagsins ljós nema að mjög óverulegu leyti í mynd þeirra till., sem fiskveiðilaganefndin hefur komið fram með og hér liggja fyrir til afgreiðslu.

Það er að sjálfsögðu rétt og skylt að geta þess, eins og raunar síðasti hv. ræðumaður gerði, að hæstv. ríkisstj. skipaði 5 manna n., fiskveiðilaganefndina, til að gera till. um nýjar reglur varðandi heimildir til botnvörpuveiða í fiskveiðilandhelginni. Var hún skipuð í okt. 1971. Í grg. þessarar n. segir, að það hafi orðið niðurstaðan af störfum hennar á s.l. hausti, haustið 1971, að rétt væri að framlengja í óbreyttu formi eldri togheimildir til ársloka 1972 og fresta þannig afgreiðslu málsins um skeið, eins og gert var í des. 1971. Það var svo ekki fyrr en í byrjun sept. 1972, að þess var formlega óskað, að n. héldi áfram störfum og lyki þeim fyrir tiltekinn dag, sem ekki tókst.

Annar aðili, sem hlýtur að hafa mikið að segja um mótun fiskveiðistefnunnar, Hafrannsóknastofnunin, hefur nýlega látið frá sér heyra í þessum málum og birt í fjölmiðlum till. um nýtingu íslenzkra fiskistofna, sem vakið hafa eftirtekt, m.a. fyrir það, að stjórn stofnunarinnar tilkynnti formanni Landssambands ísl. útvegsmanna, að hún hefði ekki fjallað um þessar till. og hún sé í mörgum veigamiklum atriðum ósammála þeim, enda sé, eins og segir í þessari tilkynningu eða bréfi, vikið frá þeim kröfum, sem gera verði til vísindalegs álits. Og í ræðu, sem formaður Landssambands ísl. útvegsmanna hélt á aðalfundi þess 28. nóv. s.l. og birt hefur verið í dagblaði, gagnrýnir hann eitt og annað, sem fram kemur í till. starfsmanna Hafrannsóknastofnunarinnar. Ég skal ekki lengja mál mitt með því að fara út í að ræða það, þótt ástæða væri kannske til. En af því, sem ég hef hér rakið, má mönnum ljóst vera, hvílíkt handahóf og losarabragur hefur verið á þessu máli. Þeir, sem að þessum málum eiga að vinna, virðast ekki hafa það samráð og samvinnu, sem nauðsynlegt er. Af þeim ástæðum m.a. dragast hlutirnir á langinn, þannig að skaði og tjón hlýzt af.

Það liggur í augum uppi, að undirbúningur að framkvæmd þessa geysimikilvæga máls, þ.e. mótun ákveðinnar fiskveiðistefnu, sem kveður skýrt og skorinort á um þær ráðstafanir, sem Íslendingar telja nauðsynlegt að gera, til þess að fiskistofnar innan 50 sjómílna landhelginnar verði nýttir á sem hagkvæmastan hátt, án þess að viðkomu þeirra og viðgangi sé stefnt í hættu, hefur ekki veríð með þeim hætti, sem átti að vera að mínum dómi, og er þar langur vegur frá. Hverjir hér eiga helztu sök á, skal ósagt látið, en ábyrgðina á þessu ber hæstv. ríkisstj. að sjálfsögðu. Það skal fúslega viðurkennt, að hér er um yfirgripsmikið og vandasamt verkefni að ræða. Fjölmörg atriði eru þess eðlis, að um þau eru skiptar skoðanir og álitamál, hvað sé skynsamlegt. En það breytir ekki þeirri staðreynd, að hæstv. ríkisstj. hafði nægan tíma til að láta undirbúa þetta mál sómasamlega, frá því að hún kom til valda og þar til útfærslan átti sér stað, eða um 14 mánuði. Á þeim tíma, sem liðinn er síðan, virðist sáralitið hafa þokazt í þá átt að ljúka undirbúningi að nauðsynlegum aðgerðum innan 50 sjómílna fiskveiðilögsögunnar, og mikið verk virðist enn óunnið, eftir því sem bezt verður séð, áður en hin fullmótaða fiskveiðistefna liggur fyrir.

Í grg. fiskveiðilaganefndarinnar segir, að það hafi torveldað störf n., að óvissa hafi ríkt og ríki um niðurstöður samningaviðræðna við Breta og V-Þjóðverja. Ég vil spyrja: Hefur n. fengið fyrirmæli frá hæstv. ríkisstj. um að fara sér hægt, vegna þess að þær niðurstöður liggja ekki endanlega fyrir? Ef íslenzkir sjómenn, útvegsmenn og raunar þjóðin öll á að bíða eftir því, þá kann að verða dráttur á, að n. ljúki störfum sínum eða skynsamleg nýting á fiskistofnunum innan 50 mílna fiskveiðilandhelginnar komist í framkvæmd, án þess að ég vilji á nokkurn hátt vera með neinar hrakspár í því efni A.m.k. virðist allt vera í hinni mestu óvissu um samninga í því máli, eins og sakir standa. Kannske það hafi verið ætlun hæstv. ríkisstj., þegar ákveðið var um útfærslu fiskveiðilandhelginnar í 50 mílur, að draga allt þetta mál á langinn, þar til útséð yrði um samninga við Breta og Þjóðverja. Ekki vil ég trúa því að óreyndu, því að hafi það verið fyrirætlun hæstv. ríkisstj., hefur íslenzk þjóð verið illa blekkt. Íslendingar vildu nefnilega mega trúa því, þegar útfærslan fór fram 1. sept. 1972, að gerðar yrðu tafarlausar ráðstafanir til að skipuleggja okkar eigin fiskveiðar innan fiskveiðilandhelginnar. Það er ekki nóg að skipa Bretum og Þjóðverjum út fyrir 50 mílurnar. Við verðum jafnframt að fyrirbyggja eigin rányrkju og segja henni stríð á hendur. Saga síldveiðanna við Ísland er okkur þar víti til varnaðar. Skammsýn rányrkjustefna á að víkja. í þess stað á að taka upp stefnu, sem hefur hagkvæmni og skynsemi að leiðarljósi í nýtingu fiskistofna okkar.

Þessi þáttur í baráttunni fyrir verndun fiskimiðanna og hagnýtingu þeirra hefur verið vanræktur af hæstv. ríkisstj. Hún hefur látið undir höfuð leggjast að fylgja þessu fram. Enn mun mánuðir líða þar til fullnaðartill. koma fram á Alþ. varðandi þetta mál. Það finnst mér óafsakanlegt. Það er ákaflega aðkallandi, að hæstv. ríkisstj. láti það ekki dragast lengur, að gengið verði röggsamlega til verks í þessu máli, þannig að till. liggi fyrir um heildarmótum stefnunnar. Og úr því sem komið er vil ég fyrir mitt leyti leggja megináherzlu á, að heildartill. komi fram frá hæstv. ríkisstj. hið allra fyrsta, svo að unnt verði að gera sér grein fyrir heildarmynd væntanlegrar fiskveiðistefnu hæstv. ríkisstj. Ég hef þess vegna tekið þann kostinn sem sjútvn.-maður að koma ekki fram með brtt. við botnvörpulögin, eins og sakir standa, þar sem ég er þeirrar skoðunar, að slíkt greiði ekki fyrir framgangi þess, að mótuð verði samræmd heildarstefna í þessum málum hið allra fyrsta. Það er ákaflega brýnt viðfangsefni, eins og ég hef reynt að sýna hér fram á.