19.12.1972
Neðri deild: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

15. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Mér þykir mjög miður, ef þeir eru margir hér meðal hv. alþm., sem hafa ekki gert sér betur grein fyrir því, sem hér hefur verið að gerast í þessum málum, heldur en síðasti hv. ræðumaður. Ég gat ekki betur heyrt en að næstum allt, sem hann sagði, væri byggt á algerum misskilningi.

Það hefur komið fram í þessum umr., að í októbermánuði 1971 hafi verið skipuð sérstök n. til þess að gera till. um reglur varðandi fiskveiðar í landhelgi, af því að þá stóð svo á, að lög um þau efni áttu að renna út um næstu áramót, eða í ársbyrjun 1972. Þær reglur, sem um fiskveiðarnar höfðu gilt, höfðu verið settar hér á Alþingi eftir æðimikið og vandasamt starf, af því að menn vissu, að það var hægara sagt en gert að setja flóknar reglur varðandi fiskveiðarnar í landhelgi, en það hafði tekizt að ná samkomulagi um reglurnar, en þó áttu þær að vera til stutts tíma, í rauninni reynslureglur. En þegar þær áttu að takast til endurskoðunar, urðu menn úr öllum flokkum sammála um, að það væri ekki tími til þess að ákveða nýjar reglur fyrir síðustu áramót, og var samþ. hér á Alþ. að fresta málinu, — fresta því ekki aðeins um nokkra mánuði, heldur fresta því út árið 1972. Það kom hér mjög greinilega fram á Alþingi, að menn völdu þennan tíma vegna þess, að menn voru einnig sammála um, að það væri óheppilegt að taka upp deilur manna á meðal innanlands samtímis því, að við ættum í deilum við útlendinga um útfærslu landhelginnar. Ég heyrði engan mann hér á Alþingi hreyfa því, að það væri rétt að láta þann tíma fara saman, þegar um útfærslu landhelginnar væri að ræða, — þ.e.a.s. 1. sept., sem ákveðinn hafði verið, og þegar það var vitað mál að við mundum standa í deilum við útlendinga um þá útfærslu, — og að setja jafnhliða reglur um það, hvernig við ætluðum að skipa veiðunum í okkar landhelgi. Allir voru hér sammála um, að það væri óheppilegt að láta þennan tíma fara saman. Hins vegar urðu menn sammála um að fresta því, að við settum okkar almennu reglur um nýtingu landhelginnar þar til nokkru síðar eða um áramótin 1972 og 1973. Um þetta var samkomulag. Þannig var gengið frá málinu. Það er því ekki neinn sérstakan að saka um það, að við skulum ekki hafa lagt hér fram tillögur samhliða útfærslu landhelginnar um það, hvernig við ætluðum að nýta fiskveiðilandhelgina.

En það hefur auðvitað komið í ljós nú eins og stundum áður, að það er hægara sagt en gert að ná sterku samkomulagi hér á Alþingi um fyrirkomulag fiskveiði okkar innan eigin landhelgi, og því hefur það farið þannig nú, að sú n., sem hefur haft með málið að gera og átti að reyna að vinna að samstöðu, hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri rétt að fresta málinu enn um skeið og vinna að sameiginlegum till. í málinu. Það er auðvitað enginn vandi að tala um, að það þurfi að liggja fyrir mótuð stefna, fastákveðin fiskveiðistefna okkar Íslendinga. Skyldi það vera eitthvað nýtt? Skyldi það ekki hafa gilt líka innan 12 mílna landhelginnar? Ætli sjútvrh. Alþfl. hefði þá ekki átt að koma með mótaða stefnu á þeim tíma í sambandi við okkar fiskveiði í landhelginni? (Gripið fram í.) Samþykktum við þá lög um fasta stefnu? Það var samþykkt hér með nákvæmlega sömu vinubrögðum, sem nú hafa verið viðhöfð, að upp úr algeru öngþveiti, sem þá var ríkjandi, þegar segja mátti, að enginn virti þær reglur, sem þá voru í gildi varðandi veiðar í landhelginni, þá varð það samkomulag fulltrúa úr öllum flokkum að koma hér á bráðabirgðaskipan í þeim málum aðeins varðandi þessar veiðar. Ætlar svo hv. þm. Benedikt Gröndal að tala um það, að þær reglur hafi mótað hér fasta stefnu í nýtingu fiskistofnanna í landhelginni? (Gripið fram í: Er það ekki framhald þeirra bráðabirgðaaðgerða, sem við erum núna að fást við?) Við erum að tala um að framlengja þetta tímabil, á meðan er verið að koma sér saman um nýjar fiskveiðireglur — um fastmótaða stefnu. Og það hefur verið valin sú leið í þessum efnum, sem menn höfðu orðið ásáttir um áður, að það væri langvænlegast, að menn úr öllum flokkum ynnu saman að athugun málsins og hefðu samráð við hina ýmsu aðila, sem hér eiga hlut að máli um allt land, og það hefur verið gert nú, og síðan verið farið fram á, að fulltrúar í fiskveiðilaganefnd hefðu jafnframt samband við þm. úr öllum kjördæmum landsins til þess að reyna að samræma skoðanir manna á þessu viðkvæma innanlandsmáli okkar. Ég sé því ekki annað en að það hafi verið haldið á þessu máli á þann hátt, sem okkur hefur reynzt bezt og á þann hátt, sem samkomulag hefur verið um hér á Alþingi. Ég hef ekki heyrt neinar raddir um annað, fyrr en að nú kemur hér einn hv. þm. og les hér reiðilestur út af því, að ríkisstj. skuli ekki hafa fastmótaða stefnu varðandi fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi. Hefur þessi hv. þm. þá ætlazt t.d. til þess, að ég sem sjútvrh. og síðan ríkisstj. öll, — að við legðum einhliða fram okkar till. varðandi þetta mál og hefðum þar ekki samráð við aðra flokka eða þá aðila í þjóðfélaginu, sem þetta mál varðar mest? Var það röng aðferð að taka upp samstarf við flokkana eins og gert hefur verið, og taka upp samstarf við menn í öllum landsfjórðungum um það, hvernig ætti að standa að því að setja þessar reglur? Ég er í rauninni alveg hissa á því, að svona misskilningur skuli geta komið hér fram, eins og að þessu máli hefur verið staðið.

Ég get sagt það, að ég hef orðið fyrir vonbrigðum með það, að sú n. skipuð fulltrúum allra flokka, sem hefur starfað að athugunum að þessu máli, skyldi ekki geta skilað fullnaðartillögum sínum fyrr. En ég skil það mætavel, af því að ég hef m.a. átt sæti í n., sem fjallaði um þessi mál áður, að það geti dregizt að ná fullri samstöðu á þeim grundvelli, sem einhverjar líkur eru til, að geti fengið undirtektir hér á Alþingi. Ég veit nefnilega mætavel, að sjónarmið manna um það, hvað skuli leyfa og hvað skuli banna, hvaða veiðarfæri megi nota og á hvaða tíma, hvar friðunarsvæðin skuli vera lengst lokuð og hvar skemmstan tíma lokuð, — sjónarmið manna í þessum efnum eru svo mismunandi, að sé ekki reynt að leggja sig fram um að ná samstöðu um málið, þá eru engar líkur til þess, að tillögur um það nái fram að ganga hér á Alþingi, — engar líkur til þess, því að þessi mismunandi sjónarmið skipta mönnum ekki eftir flokkum, þau eru mismunandi í hverjum flokki um sig.

Nei, það er enginn vafi á því, að það var rétt, sem hér var almenn skoðun á Alþingi og almenn skoðun í öllum samtökum útvegsmanna í landinu, sem um þessi mál fjölluðu, — það var rétt að hafa ekki sama tíma á í sambandi við útfærslu landhelginnar, sem hlaut að þýða átakatíma fyrir okkur gagnvart útlendingum, og þann tíma, sem hlaut að verða til þess að skipta okkur nokkuð í flokka, þegar við færum að gera upp þau ákvæði, hvernig við ætlum að skipa okkar eigin veiðum. En nú hefur svo til tekizt, að við höfum fært út landhelgina miðað við 1. sept., en komið er fram undir áramót, og það er sýnilegt, að sá tími, sem liðinn er hefur ekki nægt okkur til að koma saman þessum nýju reglum. Þá er það, sem fiskveiðilaganefndin, sem hefur starfað og þegar unnið mikið verk og hefur ætlað sér að leggja fram till. sínar á mjög víðtækum grundvelli, leggur til einróma, að málinu verði enn frestað í meginatriðum fram á vetur, en hins vegar verið samþykktar nú nokkrar almennar breyt., sem lítið koma inn á deilumálin, sem eru til staðar í þessu máli.

Það er ljóst á þeim till. sem hér liggja fyrir að fiskveiðilagan, gerir hér till. til breyt. frá gildandi reglum, að hún vill hafa það tvímælalaust, að það sé heimilt að veita leyfi til loðnuveiða með flotvörpu í landhelginni. Tel ég rétt og nauðsynlegt að fá þetta ákvæði alveg skýrt. Ég held, að um þetta þurfi ekki að verða neinar deilur.

Þá gerir n. ráð fyrir því að taka upp ákvæði um, að það sé hægt að grípa inn í á hraðvirkari hátt en verið hefur, þegar um er að ræða augljóslega óeðlilegt dráp á smáfiski eða seiðadráp, þá sé hægt að setja skyndireglur til að fyrirbyggja slíkt. En það hefur verið talið, að það skorti nokkuð á um heimildir til þess, að hægt væri að gripa inn í á þennan hátt. Um þetta ætti ekki heldur að vera neinn ágreiningur.

Þá leggur nefndin einnig til, því að menn hafa ekki verið fyllilega sammála um, hvort það væri í rauninni leyfilegt eða ekki leyfilegt, að það sé skýrt fram tekið, að sjútvrn. geti gefið út fyrirskipanir um ný friðunarsvæði umfram það, sem ákveðið er í lögum og reglum að öðru leyti. Það er enginn vafi á því, að þeir, sem unnu í n. um samkomulag í þessum málum, skildu almennt þær till., sem voru síðan samþykktar, á þá lund, að áfram hefði rn. heimildir til þess að lýsa yfir nýjum friðunarsvæðum þrátt fyrir ákvæði laganna í fullu samræmi við landgrunnslögin frá 1948.

Þá leggur fiskveiðilaganefndin til, að bætt verði ákvæði inn í lögin um það, að hert skuli allverulega á eftirliti með búnaði veiðarfæra og með veiðum skipa innan fiskveiðilandhelginnar. Ég tel, að þetta sé rétt breyting og góð og ætti ekki að þurfa að vera neinn ágreiningur um þetta atriði.

Að síðustu leggur svo n. til. að gildandi reglur um togveiðiheimildir í landhelgi verði framlengdar óbreyttar til 15. maí á næsta vori. Ég fyrir mitt leyti hefði óskað eftir því, að þessi framlenging næði til 1. júlí. Ástæðan er sú, að mér þykir ekki líklegt, að lög um þetta efni verði sett hér á Alþingi, fyrr en fer að líða fram á vor, í apríl eða maí. Mér þykir það ekki líklegt, af því að hér er um flókið og vandasamt mál að ræða. Það er varla líklegt, að fiskveiðilaganefnd verði búin að fullgera sínar till. og leggja þær fyrir Alþingi í frv.- formi, fyrr en í marzmánuði, og þá er ekki líklegt, að lög hafi verið sett um málið fyrr en seint í apríl. Og þá er í rauninni lágmarkstími, að þeir, sem eiga að fara eftir þessum lögum, hafi fengið tilkynningu um efni þeirra með um það bil tveggja mánaða fyrirvara eða svo. Það er varla boðlegt að setja lög t.d. í lok aprílmánaðar og segja, að þau skuli taka gildi eftir hálfan mánuð. Það gæti farið svo í vissum tilfellum, að menn væru úti á sjó allan þennan tíma, frá því að lögin hefðu verið sett og þar til ný ákvæði ættu að ganga í gildi, og mér þykir þetta of skammur tími. Ef svo færi, sem ég tel fremur ólíklegt, að Alþingi gæti verið búið að setja ný lög um þetta mál fyrr en ég ráðgerði, t.d. í marzmánuði einhvern tíma, þá er einfalt að taka fram í þeim lögum, að fyrri ákvæði skuli ganga úr gildi, og þau lög sem samþykkt yrðu, taka þá ekki gildi fyrr. En það þarf að tryggja, að hægt sé að tilkynna þeim, sem eftir eiga að fara, hin nýju ákvæði með sæmilegum fyrirvara. En ég skil ekki, að það þurfi að vera neinn ágreiningur um þetta atriði, hvort þessi lög, sem nú eru í gildi, verði framlengd áfram til 15. maí eða t.d. til 1. júlí. Ég teldi það síðara eðlilegra.

Ég verð að segja, að mér finnst sjálfsagt að samþykkja þær till. í þessu máli, sem er að finna í nál. á þskj. 184 og eru í rauninni frá fiskveiðilagan., en sjútvn. Nd. hefur tekið að sér að flytja. Ég tel óhjákvæmilegt, eins og nú standa sakir, að afgreiða þetta mál fyrir jól eða fyrir áramót, vegna þess að annars komumst við í bein vandræði um næstu áramót, ef ekki hafa verið sett ný ákvæði varðandi málið, eins og öllum hv. þm. er ljóst.

Ég sé, að tveir hv. þm. flytja hér brtt. á þskj. 185, þar sem þeir grípa á tveimur öðrum atriðum þessa máls. Þar gera þeir ráð fyrir því, að þau tvö friðunarsvæði, sem ákveðin voru í hinni nýju landhelgisreglugerð, — þ.e.a.s. friðunarsvæðið út af Þistilfirði, sem ákveðið var, að skyldi lokað algjörlega í apríl- og maímánuði fyrir togveiðum, — þeir gera hér till. um að breyta þessu ákvæði í landhelgisreglugerðinni, sem tilkynnt hefur verið öðrum þjóðum, breyta þessu ákvæði þannig, að þetta svæði skuli vera lokað allt árið 1973 og allt árið 1974. En hér er auðvitað um grundvallarbreytingu að ræða, sem hefur stórfelld áhrif á fiskveiðar þeirra aðila, sem stunda þær mikið á þessu svæði. Auk þess væri auðvitað harla einkennilegt að fara að gera breytingu á þessu núna, þegar er verið að gera aðeins minni háttar breytingar varðandi þessi mál. að fara þá að breyta þessu, sem hafði verið fullt samkomulag um á sínum tíma við rétta aðila, því að landhelgisreglugerðin nýja var sett, eins og lög mæla fyrir um, í fullu samráði við Hafrannsóknastofnunina og Fiskifélag Íslands, og leitað var eftir samráði við öll helztu samtök útvegsmanna. Þessi ákvæði voru öll ákveðin þannig og tilkynnt öðrum þjóðum, og það höfðu ekki komið fram neinar sérstakar óskir um breytingar í þessa átt. Ég tel því mjög óviðeigandi og óeðlilegt að fara að gera þessar breytingar nú, auk þess sem þær hafa augljóslega slík áhrif á þá, sem veiða á þessum svæðum, að þær raska þar aðstöðu manna stórkostlega, og það verður varla gert, nema þá í fullu samræmi við það, sem ákveðið er víða annars staðar í kringum landið um leið. (Gripið fram í.) Fyrir reykvíska sjómenn? Við vitum, að Faxaflói er lokaður samkv. ákvæðum í lögum. (Gripið fram í.) Ég gerði mér betri grein fyrir því en flestir aðrir, að það hefði talsvert mikið að segja, þegar það var ákveðið. Ég veit ekki, hvað hv. þm. gerði sjálfur í þeim efnum, en ég dró ekkert úr því, að þar var um breytingu að ræða, sem hafði allmikið að segja fyrir menn á þessu svæði.

Þá er í þessari till. einnig gert ráð fyrir því að breyta nokkuð friðunarsvæðinu, sem er að finna í okkar landhelgisreglugerð, 50 mílna reglugerðinni, þ.e.a.s. lokunarsvæðinu fyrir togveiðum á Selvogsbanka. Það má segja, að till. varðandi þetta sé minni háttar. Það er ákveðið, að það svæði skuli vera lokað fyrir togveiðum á tímabilinu frá 20. marz til 20. apríl, eða í einn mánuð á ári á aðalhrygningartímanum. En nú flytja þessir 2 hv. þm. till. um það, að lokunartími skuli byrja 10 dögum fyrr, eða 10. marz í staðinn fyrir 20. marz, og lokunartíminn skuli vera 10 dögum lengur, eða til loka apríl í staðinn fyrir 20. apríl. En þessi lokunartími, sem settur var í landhelgisreglugerðina á sínum tíma, var líka, eins og ég sagði áðan, settur í fullu samráði við og með samþ. Hafrannsóknastofnunarinnar, fiskifræðinga þar, og Fiskifélagsins, eins og ber að gera við setningu reglugerðar um þessi mál. Breytingar í þessum efnum, sem ég tel algjörlega þýðingarlausar í þessu tilfelli, eru líka mjög óeðlilegar varðandi þá samninga, sem við höfum þegar gert við útlendinga, eins og Belgíumenn, þar sem þetta kemur þvert á það, sem þar er gert. Ekki það, að við höfum ekki rétt til þess. Við getum breytt því. Þeir samningar voru ekki þannig, að þeir bönnuðu okkur það. En það er vægast sagt mjög óeðlilegt að ætla að fara að hlaupa hér til með bráðabirgðabreytingar varðandi þessi lög og gera þessar breytingar. Það er eins og var sagt fyrr í þessum umr. af formanni fiskveiðilagan., Gils Guðmundssyni, að það eru auðvitað fjöldamörg önnur atriði, sem menn hafa verið að ræða, varðandi fiskveiðiréttindi innan fiskveiðilandhelginnar, sem vissulega komi til greina að taka einnig upp í bráðabirgðaákvæði nú, eins og t.d. að banna algjörlega togveiðar innan við 3 mílna línu í kringum landið. En eins og reglurnar eru nú, er heimilt að veiða á nokkrum stöðum við landið alveg upp að landi. Það hefur verið fundið mjög að þessu, og við vitum, að það er mikil andstaða gegn þessum heimildum, og það kom fyllilega til greina núna að taka upp í þessi bráðabirgðaákvæði einnig breytingar á þessu. En niðurstaða manna varð sú, að vegna þess að hér þarf að fá framlengingu á gildandi lagaákvæðum fyrir áramót, ef ekki á illa að fara, og af því að þarf að leita eftir sem víðtækastri samstöðu um þær breytingar, sem gera á, þá hafa menn fallið frá því að gera tillögur um þetta.

Ég vildi því nú í framhaldi af þessu beina því mjög til þeirra hv. þm., sem standa að brtt. á þskj. 185, að þeir fallist á að draga þá tillögu til baka. Það er ljóst með flutningi þessarar till., hvaða skoðanir þeir hafa á þessu máli, og það er ekkert nema gott um hana að segja. En það er enginn vafi á því, að það er ekki eðlilegt í bráðabirgðaráðstöfun eins og þeirri, sem hér er um að ræða, að taka upp till. af þessu tagi.

Því fer ég eindregið fram á það við þá, að þeir dragi þessa till. sína til baka og síðan verði samstaða um að framlengja þessi fiskveiðisamþykktarlög.

Ég vil vitna til þess í þeim efnum, að það stóð sannarlega ekki á okkur stjórnarandstæðingum í tíð fyrrv. ríkisstj. að standa að samkomulagi varðandi þetta mál, og það var fyllilega vegna samstöðu okkar þá, að það fékkst þó sú skipan á þessi mál, sem við höfum búið við til þessa. Ef það hefði ekki verið, þá hefði allt verið í sömu flækjunni og áður var. Það veit ég, að hv. þm. veit mætavel, og það vitum við allir þm., að það er engin leið að forðast í rauninni „kaos“ í þessum málum, ef við reynum ekki að ná samkomulagi um meginatriðin. Þá fáum við aftur það ástand, sem hér var, áður en samkomulagið um þessi mál tókst á milli flokkanna, — þá fáum við það ástand aftur upp, að allir togveiðibátar, af hvaða stærðum sem er, veiða þar sem þeim sýnist, og þeir verða síðan kærðir hundruðum saman, eins og var, og enginn borgar neitt, og það er ekki til pláss að hýsa alla, sem að þeim brotum standa. Þetta var vitanlega algjört öngþveiti, en nýju reglurnar gerðu hér miklar breytingar á. Ég vil nú vænta þess þrátt fyrir þær athugasemdir, sem hér hafa komið fram, að samstaða náðist.

Ég tel, að hv. 5. landsk. þm., Stefán Gunnlaugsson, hafi að vísu verið hér þungorður um, að það hafi ekki verið unnið að þessu máli eins og hann hefði talið vera eðlilegt. En ég álít, að það sé að verulegu leyti byggt á misskilningi, vegna þess að það hefur verið unnið að málinu í fullu samræmi við það, sem hér hefur verið áður ákveðið á Alþingi, — alveg í fullu samræmi. Ég tók eftir því, að hann stendur að því að samþykkja þær brtt., sem hér er um að ræða, og framlengja lagaákvæðin, og ég er honum þakklátur fyrir það, því að það er auðvitað meginatriði málsins. En ég held, að það hafi verið unnið að þessum málum á eðlilegan hátt.

Ég skal svo ekki ræða frekar um þetta, en aðeins beina því til hv. alþm., að þeir taki fullt tillit til þess, að það er nauðsynlegt að fá afgreiðslu á þessu máli fyrir jól.